Draumurinn um miðaldakirkjuna

Nýlega var greint frá því í fréttum að kirkjuráð hefði ákveðið að ganga til samstarf um að miðaldakirkja verði endurreist í Skálholti og að vinna við deiliskipulag sé hafin. Fundargerð kirkjuráðs um miðaldakirkjuna má lesa hér.

Draumurinn um miðaldakirkju í Skálholti er mjög táknrænn fyrir stöðu kirkju á krossgötum. Hvað gera menn þegar kirkjan glímir við ímyndarvanda, pólitískt andstreymi, slaka stjórnsýslu, stirt stjórnkerfi og margháttaða óánægju? Hvað á að gera þegar kirkjan þarf á sama tíma að bregðast hratt við fjölhyggju hins vestræna heims í öllum sínum víddum trúarflóru og trúleysis?

Við slíkar aðstæður dreymir marga um miðaldakirkjuna, þar sem allir voru kristnir, þar sem agavald kirkjunnar var sterkt og alþjóðlegt, þar sem kirkjuhöfðingjarnir voru engu valdminni en hinir veraldlegu höfðingjar. Miðaldakirkjan er táknmynd gullaldar kirkjuvaldsins þegar staðamálin voru í höfn á Íslandi og kirkjan naut óvenjuhárra tíundargreiðslna. Miðaldakirkjan er veröld þar sem fólk bjó við þriggja hæða heimsmynd með guð almáttugan á efri hæðinni, jarðlífið á jarðhæðinni og ógnir glötunarinnar í kjallaranum. Miðaldakirkjan er heimur þar sem allir skilja og taka við táknmáli kirkjunnar og virða kennivald þjóna hennar.

Við þurfum hins vegar mjög á því að halda að byggja upp fjölhyggjulega nútímakirkju, þar sem virðing, umburðarlyndi, samtal, líknarstarf og mannréttindi eru í fyrirrúmi. Og við þurfum ekki deiliskipulag til þess.

Miðaldakirkjan er liðin undir lok. Sumum okkar finnst það allt í lagi.

2 svör við “Draumurinn um miðaldakirkjuna”

  1. […] Þannig sjái margir kirkjuna fyrst og fremst sem stað festu og óbreytanlega, en ekki lífsbreytandi veruleika, umhverfi sem kallar eftir þroska og vexti. Í þessu samhengi er áhugavert að lesa nýlegt blogg Sigríðar Guðmarsdóttur um miðaldadómkirkjuna. […]

  2. […] Þannig sjái margir kirkjuna fyrst og fremst sem stað festu og óbreytanlega, en ekki lífsbreytandi veruleika, umhverfi sem kallar eftir þroska og vexti. Í þessu samhengi er áhugavert að lesa nýlegt blogg Sigríðar Guðmarsdóttur um miðaldadómkirkjuna. […]

Færðu inn athugasemd