Gay Pride, Timur, typpi, gat. Þetta hljómar eins og þula. Eintreður typpi gat, tvítreður typpi gat.
Gay Pride hefur unnið sér sess sem kjötkveðjuhátíð Íslendinga. Þennan dag safnast fólk af ólíkum kynhneigðum saman í miðbæ Reykjavíkur, fagnar fjölbreytileikanum og líkamanum í ólíkum gervum og tjáningarformum. Verslanir og einstaklingar skreyta sig með regnbogafána og bærinn er í hátíðarskapi. Margir ráku upp stór augu að morgni laugardagsins 11. ágúst þegar þeir flettu helgarblaði Fréttablaðsins. Þar gaf á að líta biblíutilvitnun úr fyrra Korintubréfi 6:9-10 í íslenskri og enskri þýðingu:
Ef kristið fólk þegir þá talar Biblían: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“
When Christians are mute, then the Bible says: „Do not be deceived: Neither the sexually immoral nor idolaters nor adulterers nor male prostitutes nor homosexual offenders 10 nor thieves nor the greedy nor drunkards nor slanderers nor swindlers will inherit the kingdom of God.“
Sitt hvorum megin við þennan miður gleðilega boðskap mátti síðan finna blómaskreytingar í pastellitum með manni, konu og barni inni í miðju blómi. Enginn skrifar undir auglýsinguna en síðan hefur komið í ljós að hún er runnin undan rifjum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi og prests hennar Timur Zolotuskiy.
HVAR ER TYPPIÐ?
Allnokkur umræða hefur skapast um þessa auglýsingu. Það er tæpast tilviljun að rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi hafi kosið að velja einmitt þennan regnbogadag að senda íslenskri þjóð ritningarvers í pastellitum um kynvillinga og saurlífismenn sem ekki munu erfa Guðs ríki. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi hefur greinilega áhyggjur af „þögn“ þeirra 85% þjóðarinnar sem telja sig kristin um samkynhneigð. „Þögn“ sem birtist í velvild, stolti og gleði yfir fjölbreytileikanum.
Vestræn kynlífssiðfræði fyrri aldar hefur gjarnan verið mjög upptekin af typpum og þeim stöðum sem typpi rata á. Mikilvægt hefur þótt að troða þessum typpum í rétt og lögsskipuð göt og rétt og rangt kynlíf gjarnan verið flokkað eftir því hvernig fólki gengur að aðlaga sig þessum reglum. Kynlíf fólks byggði á mjög ólíkum valdtengslum, þar sem konur voru taldar óvirki og lægri aðilinn, en karlinn ráðandi. Gyðingkristin hefð tengdist andófi gegn frjósemistrúarbrögðum og samlíkingum um skurðgoðadýrkun og kynlíf fólks af sama kyni var einatt blandað saman. Á þeim menningarsvæðum vestrænum þar sem kynlíf tveggja karlmanna var yfirhöfuð liðið, eins og hjá Rómverjum og Grikkjum, þótti skipta máli hvor elskandanna væri ráðandi aðilinn og hvor tæki á sig hið viðtakandi, passíva hlutverk. Kynlífssiðfræðin, sem kveður á um hið góða, „eðlilega“ kynlíf var miðuð við þessa stjórnun typpanna, hvert væri hið ráðandi typpi, hvert það mætti fara og hvaða valdvensl sú ferð endurspeglaði. Um ástarsambönd tveggja jafnrétthárra einstaklinga var sjaldnast að ræða, hvort sem við ræðum um kynlíf á ritunartíma Biblíunnar, aþensk viðhorf, eða rómversk. Alls staðar höfðu menn áhyggjur af því að typpin rötuðu nú örugglega í rétt og valdlaus göt, eða jafnvel engin göt, ef meiri meinlætastefna var við völdin í það sinnið.
Á tuttugustu öld varð gríðarleg umbylting á viðhorfum til kynlífs. Hugmyndir sem lítillega var farið að bera á í lok nítjándu aldar um jafnrétti kynjanna urðu sterkari og eftir því sem leið á öldina er farið að umbylta ríkjandi hugmyndum um valdleysi og vald tiltekinna kynja. Samkynhneigð er nútímahugtak sem verður til eftir miðja síðustu öld og fyrri tíma viðhorf til kynlífs fólks af sama kyni verða tæpast yfirfærð yfir á hneigð tveggja jafnrétthárra einstaklinga nema með miklum túlkunarskurðaðgerðum á fornum textum. Í lok tuttugustu aldar hefst síðan umræðan um kynferði (sexuality) sem tengist kynlífi og kynfærum beint og síðan kyngervi (gender) sem fjallar um kynímyndir og menningarlega tjáningu þeirra. Niðurstaðan af öllum þessum kynferðislegu umhleypingum er að kynlíf fólks, ástir þess og hneigðir verða ekki lengur skilgreint út frá gömlum agatækjum um það hvort typpið sé á réttum stað eða ekki, eða hvort það sé yfirhöfuð typpi í kynlífsjöfnunni. Aðrir þættir, eins og jafnrétti, gagnkvæm virðing og góð samskipti eru þættirnir sem koma í stað gömlu typpasiðfræðinnar.
KRISTNI OG HÓMÓFÓBÍA
Ýmsir hafa bent á að það sem Timur og félagar séu að benda á sé ekkert annað en tilvitnun í helgirit kristinna manna. Í kaflanum „Frá degi til dags“ í Fréttablaðinu í dag mánudag er t.d. rætt um auglýsinguna og henni blandað saman við umræðu um samband ríkis og kirkju, vegna þess að Biblían sé „trúargrundvöllur íslensku ríkistrúarbragðanna sem njóta sérverndar í stjórnarskrá“ eins og það er orðað í pistlinum. Höfundur virðist þannig gera ráð fyrir því að Biblían og boðskapur hennar sé einn klettur þar sem öll vers eru jafn gild . Hann virðist einnig telja að öll þessi vers hafi jafnmikil áhrif fyrir öll þau sem kristni játa og að kristin trú og hómófóbía hljóti þannig að einhverju leyti að fara saman. Svo er ekki. Biblían er stór og mikil bók og ólíkir ritningarstaðir eru misjafnlega grundvallandi fyrir hin trúuðu. Þess vegna er oft svo mikill munur á hinum ýmsu hópum og hefðum kristins fólks, þótt þau búi að sama helgiriti.
Ég tók mig til og fletti upp biblíuútgáfum þeirra versa sem Timur og félagar vitna til í Fréttablaðinu. Það vakti strax athygli mína að þau hafa valið að vitna í íslensku Biblíuþýðinguna frá 1981 en ekki nýjustu útgáfu Biblíunnar. Sem er eflaust meðvituð ákvörðun, rétt eins og að enska New International Versionin frá 1984 er notuð, en hún er að stofni til byggð á sautjándu aldar þýðingunni sem kennd er við Jakob konung . Við nýjustu þýðingu Biblíunnar árið 2007 var nefnilega tekið mark á margháttuðum kynjarannsóknum undanfarinna áratuga um valdvensl og kynlífssiðfræði fyrri tíðar. Svona hljóðar versið í 2007 þýðingunni:
Villist ekki! Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar, 10enginn þjófur eða fégráðugur, vínsvallari, rógberi eða fjársvikari fær að erfa Guðs ríki.
Nú ætla ég ekkert að segja til um það hvort versið í 2007 útgáfunni gefi eitthvað betri upplýsingar um það hverjir og hverjir ekki fái að erfa Guðs ríki. Ég velti því til dæmis fyrir mér hvort sá sem „lætur nota sig“ geri það af fúsum og frjálsum vilja og hvað í því felist. Punkturinn sem ég er að koma með er hins vegar sá að Biblían er ekki eins stöðugur og einsleitur klettur og margir halda. Til eru margar Biblíuþýðingar sem leggja áherslu á ólíka hluti og handrit í rannsóknum sínum og við túlkum alltaf þegar við reynum að heimfæra fornan veruleika upp á okkar nútímaaðstæður.
Timur og rússneska rétttrúnaðarkirkjan virðast hafa miklar áhyggjur af typpunum og götunum á Gay Pride og senda okkur þess vegna pastellituð blóm með fjölskyldumyndum og úrelta kynlífssiðfræði fyrri aldar til að rétta kúrsinn . Flestir aðrir Íslendingar virðast hins vegar ekki hafa áhyggjur af því að typpin rati í rétt göt og einbeita sér frekar að því að gleðjast yfir jafnrétti og ást. Fjölmargt þessa fólks er kristið.
Ég samsinni þeim og bið frekar um regnboga en pastel. Mér er alveg sama hvar og hvort typpið er á Gay Pride, svo fremi sem að fólk finnur ást sinni farveg í gleði, friði, jafnrétti og virðingu hvort fyrir öðru.
Lifi Gay Pride!
Færðu inn athugasemd