Mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands, sem og fjölmörgum mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum sem Íslendingar eiga aðild að… Mannréttindastefnan er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.
Þannig er mannréttindum lýst í Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar frá 2006. Stefnuna má nálgast hér. Með því að setja sér mannréttindastefnu hefur borgin skuldbundið sig til að vinna að mannréttindum með skipulögðum hætti í borginni og það er einmitt verkefni Mannréttindaráðs að sjá til þess að stefnunni sé fylgt eftir.
Án tillits til kynhneigðar….
Án tillits til trúarbragða….
Án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar…
Nú hefur það gerst að maður sem er yfirlýstur andstæðingur réttinda samkynhneigðra, eindreginn mótmælandi moskubyggingar í Reykjavík og einn af þeim sem hefur hakað við síðu öfgasamtakanna Pegida á Íslandi á Facebook einn af meðlimum Pegida hreyfingarinnar á Íslandi sem vinnur gegn trúfrelsi múslima hefur verið kosinn varamaður í ráðinu.
Allir hafa tjáningarfrelsi innan marka laga. En þeir sem nota tjáningarfrelsi sitt til að agnúast út í og berjast gegn trúfrelsi og kynfrelsi annars fólks eru ekki tækir til að berjast fyrir mannréttindum. Þeir eiga ekkert erindi í mannréttindaráð.
Það er ekki hægt.
Það eru öfugmæli.
Það er til skammar.
Þess vegna mótmæli ég því að borgarfulltrúar Framsóknarmanna og flugvallarvina í Reykjavíkurborg hafi skipað Gústaf Níelsson sem varamann í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Ég tek ofan fyrir þeim Framsóknarmönnum sem hafa mótmælt þessari skipan hástöfum og hvet þá til að beita sér fyrir því að skipanin verði afturkölluð.
Og svo mælist ég til þess að borgarfulltrúar í láti af gömlum venjum um að sitja hjá þegar fulltrúar annarra flokka eru skipaðir í aðstæðum sem þessum. Þegar stungið er upp á Pegidameðlimi fulltrúa sem daðrar við Pegida sem fulltrúa í Mannréttindaráð situr maður ekki hjá eða greiðir atkvæði með.
Athugasemd 21.1 klukkan 16:12. Ég sé að ég hef fullyrt of mikið hér. Í bloggfærslu minni fra því fyrr í dag sagði ég Gústaf Níelsson vera meðlim í Pegida en um það get ég ekki sagt. Ég hefði átt að láta mér nægja að vitna í RÚV sem bendir á að hann hafi hakað við síðu Pegida á Íslandi a Facebook, sjá hér. Hann hefur hins vegar barist af hörku gegn því að byggð sé moska á Íslandi og hefur sagt Islam vera „andstyggileg haturstrúarbrögð á miðaldarstigi“ í útvarpsviðtali.
Færðu inn athugasemd