Lýðræði, ekkert kjaftæði

Gleðilegan kosningadag!

Mér hefur þótt erfitt að gera upp hug minn að þessu sinni. Ég hef haft kosningarétt í 36 ár og hef lengst af stutt flokka sem styðja kvenfrelsi og umhverfismál. Í efnahagsmálum hef ég hneigst til vinstri, ég er alþjóðasinni og eftir hrun hefur hin nýja stjórnarskrá og aðrar kerfisbreytingar verið mér hjartans mál. Í þessum kosningum eru það loftslags- og lýðræðismál sem mest brenna á mér, auk velferðarmála og málefna flóttamanna.

Ég hef tekið kosningaprófin margsinnis og hef nokkrum sinnum mætt með vegabréfið í Kringluna og Smáralind með strætó til að kjósa. utankjörstaðar, en alltaf snúið við. Mér gengur nefnilega erfiðlega að finna út hvað ég á að kjósa.

Þegar VG var stofnað í lok síðustu aldar kaus ég það framboð og hef gert það lengstum síðan, stundum Samfylkinguna líka. Ég varð fyrir þungu áfalli þegar VG studdi stóriðju á Bakka og kyngdi því með því að kjósa VG einu sinni enn í síðustu kosningum í þeirri von að Katrínu myndi auðnast að sameina vinstri öflin í ríkisstjórn. Samstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsókn var ekki beinlínis það sem ég ætlaði að ná fram með atkvæðinu mínu síðast. Það hefur því verið ljóst í mínum huga í fjögur ár að ég myndi kjósa eitthvað annað núna.

Vandamálið er ekki það að ég hafi ekkert að kjósa, því að framboðin í ár eru spennandi og fjölbreytt. Vandamálið er það að mig langar ekkert að senda VG skilaboð eða refsa því ágæta fólki sem þar er. Ég er ekki óánægjufylgi sem er að senda flokknum sínum skilaboð til þess að þau iðrist synda sinna og ég geti svo kosið þau næst. Ég er að leita að nýju hugmyndafræðilegu heimili fyrir atkvæðið mitt. VG hefur verið upptekið af pragmatisma undanfarin ár, að fá eins mikið út úr aðstæðum eins og þau telja mögulegt. Það er mér ekki nóg. Ég vil róttækar kerfisbreytingar og stjórn til vinstri.

Þegar ég tek kosningaprófin ná hugmyndir mínar ca 86% samsvörun við nokkra flokka. Þar raða sér á bekk Píratar, Samfylking, Sósíalistar og VIðreisn, svo einkennilegt sem það kann að virðast. Mér finnst margt mjög gott hjá Viðreisn, sem hefur á að skipa skarpri forystu og sýn, flottri velferðarpólitík og umhverfismál. Væri ég meir til hægri myndi ég kjósa Viðreisn. Mér finnst margt gott í stefnu Sósíalista, en treysti ekki forystusauðnum þar og finnst kosningabaráttan hafa verið neikvæð. Þegar ég les málefnaskrárnar sé ég mjög lítinn mun á Samfylkingunni og Pírötum og finnst raunar að þau ættu að geta sameinast í einum flokki. Ég er nálægt því að úllendúllendoffa milli góðra kosta.

Ég hef valið núna að kjósa Pírata núna. Það geri ég vegna þess að raunveruleg róttækni streymir svo oft frá þeim ungu og flest þau sem eru í framsveit Píratanna eru ungt, ljómandi fólk með frumlegar og spennandi hugmyndir um framtíð Íslands. (Mig langar líka að styðja Andrés mág minn til góðra verka og veit að hann hefur unnið ötullega að tillögum Pírata í loftslagsmálum).

Ég ætla að treysta kynslóð sona minna fyrir atkvæðinu mínu í ár og minni Pírata jafnframt á að Íslendingar samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að áfram ætti að vera ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá.

Lýðræði, ekkert kjaftæði.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: