Author: Sigríður

Pastor, ecofeminist theologian with a poststructuralist flair.

Dagur kvenna í kirkjunni

Nú liggur fyrir niðurstaða í kosningum til biskups Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir fékk 131 atkvæði, Sigurður Árni Þórðarson 120 atkvæði, ég sjálf 76 atkvæði, Örn Bárður Jónsson 49 atkvæði, Kristján Valur Ingólfsson 37 atkvæði, Gunnar Sigurjónsson 33 atkvæði, Þórhallur Heimisson 27 atkvæði, Þórir Jökull Þorsteinsson 2 atkvæði og Arnfríður Guðmundsdóttir 1 atkvæði.

Það fyrsta sem að ég rek augun í er hversu hár og mikill hlutur kvenna er í þessari kosningu. Konurnar þrjár sem fá atkvæði fá samtals 208 atkvæði, en karlmennirnir sex skipta með sér 241 atkvæði. Kona trónir í efsta sætinu og kona er líka í þriðja sæti. Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir þau sem unna jafnrétti í kirkjunni og sýnir að það er kominn tími á að bæði kyn gegni biskupsþjónustu.

Þau tvö sem keppa um stólinn í seinni umferðinni eru góðar manneskjur, tryggar kirkju sinni og einlægar í trú sinni á Jesú Krist. Agnesi þekki ég vel sem prest, því að hún er sóknarprestur tengdaforeldra minna og ég hef af henni góða og hlýja reynslu. Sigurður Árni hefur verið samherji minn í mörgum erfiðum deilumálum í kirkjunni. Ég tel þau bæði til vina minna og treysti þeim báðum fyrir embættinu. Þau verða góðir fulltrúar kirkjunnar í þessum mikilvægu kosningum.

Ég er sjálf svo stolt yfir mínum 76 atkvæðum. 16 prósent fylgi í biskupskosningum fyrir yngsta og um margt róttækasta frambjóðandann er dýrmætt og sýnir að þjóðkirkjan er á leið til breytinga.  Ég þakka stuðningsmönnum mínum um land allt fyrir meðbyrinn og ekki síst þeim sem að ákváðu að krossa við nafnið mitt á þessum seðli og treysta mér fyrir þessu mikla og erfiða starfi. Ég er snortin yfir því.

Góður dagur fyrir konurnar í kirkjunni og fyrir framtíðina.

Kvöldið fyrir talningu

Á morgun verður talið í biskupskosningu og tíminn er dálítið lengi að líða.

Þá er upplagt að horfa yfir þessa tvo mánuði síðan ég lýsti því yfir að ég gæfi kost á mér. Ég er svo glöð yfir því að hafa tekið þátt í þessari kosningabaráttu. Þetta hafa verið stórmerkilegir og viðburðaríkir mánuðir, þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast mörgu áhugaverðu fólki, upplifa gestrisni þess og hlusta á viðhorf og kirkjusögur frá ólíkum stöðum. Mér finnst að sjónarhornið hafi dýpkað með hverri heimsókninni og hverjum keyrðum kílómetra. Við fengum líka mikið af góðum spurningum á fundum og á netinu, sem gaman hefur verið að svara og það hefur verið gefandi að standa í svona sterkum tengslum við söfnuðina og fólkið í landinu.  En jafnframt hefur það verið erfitt að ferðast svona mikið og reyna að láta prestakallið ekki láta mæta afgangi á meðan. Stundum hef ég verið yfir mig þreytt. Og gott fólk hefur stutt mig einmitt þegar ég þurfti þess mest með.

Kosningin nú er tímamótakosning og hún hefur hlotið allmikla athygli. Ég geri ráð fyrir því að það verði tvær umferðir í kosningunni. Það kæmi mér á óvart ef einhver einn fengi hreinan meirihluta þegar átta manns eru í kjöri. En allt skýrist þetta á morgun. Ég vona að kona komist í seinni umferðina, annað hvort ég sjálf eða sr. Agnes Sigurðardóttir, því það er kominn tími á að brjóta glerþakið og vígja konu biskup. Mér þykir kosningabaráttan hafa farið vel fram og ég þakka af hjarta þeim Agnesi, Gunnari, Kristjáni Val, Sigurði Árna, Þórhalli, Þóri Jökli og Erni fyrir ágætar samræður og samfylgd á kynningarfundunum.

En í kvöld langar mig til að þakka fleirum. Ég hef ástæðu til að vera glöð og þakklát hvernig svo sem kosningin fer og ég er æðrulaus gagnvart framhaldinu, þó að stundirnar séu lengi að líða. Ég þakka Rögnvaldi fyrir að hafa staðið við bakið á mér eins og hann gerir alltaf og keyrt mig um allar jarðir. Ég þakka strákunum mínum fyrir sprell og stuðning. Ég þakka mömmu og pabba sem hafa verið óþreytandi í að fylgjast með, koma á fundi og telja í stelpuna sína kjark og þor. Ég þakka þeim sem hafa staðið í kringum mig, ráðlagt og hvatt, Níelsi Árna, Kalla Matt, Svanhildi, Auði Ingu og Guðrúnu ásamt mörgum öðrum. Ég þakka Petrínu sem messaði tvisvar fyrir mig svo ég gæti betur einbeitt mér að kosningunni. Ég þakka Lovísu, sem hefur staðið vaktina, öllu starfsfólki og sjálfboðaliðum Guðríðarkirkju sem hafa möglunarlaust tekið því að presturinn væri oft fjarverandi og gjarnan í öðrum heimi og söfnuðinum öllum fyrir samstöðuna.  Ég þakka stuðningsgrúppunni á facebook sem telur 469 manns, guðfræðinemunum sem kusu mig í könnun í guðfræði- og trúarbragðadeild, öllum þeim sem sendu mér kveðju og hringdu, skrifuðu fallegar greinar, skoruðu á mig í DV og mæltu með mér sem biskupi í Gallupkönnuninni. Ég er ákaflega snortin yfir því að svo mörg ykkar hafið treyst mér fyrir þessu erfiða og vandasama embætti.

Kosningin til embættis biskups Íslands hefur verið mér tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð íslensku þjóðkirkjunnar. Það er gleðiefni að fá að taka þátt í slíku verkefni. Ég er rík af þeim sem þykir vænt um mig og hafa sýnt mér umhyggju og hvatningu í þessari kosningu. Og þegar ég horfi til allra þeirra sem hafa sýnt kosningunni áhuga, þá finn ég hvað kirkjan er rík af þeim sem þykir vænt um hana. Takk öll fyrir allt!

Gras og brauð

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Óskiljanlegt er grasið:
maður treður það undir fótum sér
en það reisir sig jafnharðan við aftur.
Óskiljanlegt er grasið:
skepnurnar bíta það og renna því niður
og skila aftur hinu ómeltanlega
– en viti menn
á því nærist svo nýtt gras.
Já óskiljanlegt er það
hið græna gras jarðarinnar:
auðmýktin og uppreisnin í senn.

Þannig yrkir Jóhannes úr Kötlum um grasið sem er þolgott og rís upp að nýju þegar það er bælt. Grasið er í senn sveigjanlegt og seigt. Það lætur ekki beygja sig til lengdar, á sér alltaf endurkomu og undankomuleiðir og í úrgangi þess verður til nýtt gras.

Grasið er tákn lífsins sem gefst ekki upp þrátt fyrir mikla erfiðleika. Og guðspjall dagins tekur í sama streng þolgæðis og vonar í aðstæðum sultar og þrenginga.

II.

Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?

Andrés postuli ávarpar Jesú þegar lærisveinarnir höfðu velt fyrir sér vandamálum fólksins um hríð. Fólkið hafði komið til að hitta Jesú í eyðimörkinni og hlusta á hann. Og fólkið var svangt, svo svangt að það var ekki hægt að senda það allslaust til baka.

Risastórt vandamál og lausnin sem er í sjónmáli virðist ekki beysin:  Einn strákur með smábrauð og tvo litla fiska. Hvað er það handa svo mörgum?

Hversu oft höfum við sem hér erum staðið frammi fyrir samsvarandi aðstæðum? Risastórt vandamál og lausnin annað hvort ekki í sjónmáli eða þá svo vesöl að við örvæntum og reynum ekki einu sinni. Og samt er sagan ekki aðeins saga af vandamáli, heldur lausn, lausn sem er Jesús Kristur.

Sagan af því þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns af fimm brauðum og tveimur fiskum er mörgum okkar hugstæð. Það góða við djúpa texta með mikilli túlkunarsögu er að við getum farið til þeirra aftur og aftur og alltaf rekist á nýjan flöt, eitthvað sem við höfðum ekki tekið eftir áður.  Textar eru þannig eins og málverk sem hanga á veggnum hjá okkur og við verðum vön og hættum að taka eftir. Einn góðan veðurdag göngum við að myndinni og tökum eftir einhverju sem aldrei hefur vakið athygli okkar áður, merkilegum blæbrigðum í málningunni, andliti sem fyrir ber eða manneskju sem er falin bak við trén.

Og það sem vekur sérstaka athygli mína við texta dagsins í dag er ungi pilturinn með brauðin og fiskana. Ég hef einhvern veginn aldrei almennilega velt honum fyrir mér fyrr. Hann er einhvern veginn alltaf þarna með nestisboxið sitt opið. Hvaðan skyldi hann hafa komið?  Hvað hét hann? Skyldi mamma hans hafi gefið honum þetta brauð?  Skyldi pabbi hans hafa veitt fiskana eða hann sjálfur? Hvers vegna átti hann mat en enginn annar í hópnum? Og hvers vegna valdi hann það að taka upp matinn sinn og gefa hann í þessum sársoltna hópi?

Þörfin var til staðar.
Þörfin var orðuð.
Einhver kom til hjálpar,
einhver sem við fyrstu sýn virtist hvortki stór né valdamikill
og bauð ekki upp á mikil bjargræði.
Aðeins fimm brauð og tvo fiska.
Hvað er það handa svo mörgum?
Þessi ungi maður er dálítið eins og grasið sem hann stóð í
Grasið sem Jóhannes úr Kötlum gerir að yrkisefni sínu,
Grasið sem er bæði auðmjúkt og í uppreisnarhug
Grasið sem bælist aðeins um stund áður en það réttir sig við aftur.

Kannski var nesti unga mannsins hvorki mikið né merkilegt.
En þetta brauð og þessir fiskar voru borin fram í trausti og trú
um að Guð myndi láta það nægja á erfiðum tíma
hversu hrikalega sem þetta allt leit út.

Við eigum ekki alltaf slíka trú þegar við stöndum frammi fyrir risastóru vandamáli.
Stundum virðast erfiðleikarnir algjörlega óyfirstíganlegir
Og ekkert sem við gerum og segjum virðist geta breytt því.
Svar Andrésar lærisveins ber vott um vonleysi.
Hvað er það handa svo mörgum?
Hér er komin lausn, en þessi lausn er ekki upp í nös á ketti virðist hann segja.
Ég veit ekki hvort er verra í slíkum aðstæðum,
að vænta of mikils eða vænta of lítils.
Sá eða sú sem væntir of mikils gerir sér óraunsæjar vonir, byggir upp hjá sér væntingar um að hlutirnir leysist einn, tveir og þrír, og þegar þeir gera það ekki er hætta á sveiflu í hina áttina, til hins algera vonleysis.
Sú eða sá sem væntir of lítils missir hæfileikann til að bjarga sér og nýta tækifærin sem bjóðast. Hún eða hann vill fá risalausn sem passar við risastóra vandamálið. Og risalausnin á helst að koma strax.

III.

Seinni ritningarlesturinn okkar fjallar um von þegar erfiðleikarnir virðast vera óyfirstíganlegir, þegar engin risalausn virðist í sjónmáli. Þar er fjallað um það að Guð elski okkur og hjálpi okkur á alla lund. Guð mun finna lausn á vanda okkar þegar við sjáum bara erfiðleika og þrengingar. En ritningarlesturinn segir okkur fleira því hann biður okkur um að gleðjast í erfiðleikum okkar miðjum, vegna þess að sá/sú sem aldrei hefur örvænt þekkir ekki vonina heldur tekur öllu sem sjálfsögðu.

Við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Við eins og fólkið í guðspjallinu þurfum brauð.
Fyrri ritningarlesturinn minnir okkur á það að við þurfum meira en brauð.
Við þurfum von og þolgæði og kærleika
OG brauð.
Við þurfum að opna hjörtu okkar og nestisbox
Til þess að hinum takmörkuðu auðlindir fjárins sé skipt milli hinna þurfandi.
Til þess að við getum miðlað trú, von og kærleik.

Og það er þetta þolgæði, vonin og kærleikurinn sem heilagur andi blæs okkur í brjóst sem að hjálpar okkur til að finna lausnir, finna bjargræði, finna hjálp þegar að erfiðleikarnir eru alveg að sliga okkur. Svo við getum rétt okkur við aftur hægt og sígandi, auðmjúklega en í stöðugri uppreisn gegn ofurefli vonleysisins. Eins og grasið.

IV.

Pilturinn í guðspjallinu var svo sannarlega engin risalausn.
Hann var bara drengur með brauð og fiska.
Hvað er það handa svo mörgum gæti verið svar okkar svo margra,
andvarp okkar þegar við sjáum ekki út úr því sem við erum að gera.
En dáð hans liggur ekki í því hversu margir fiskarnir voru eða brauðin.
Dáð hans liggur í því að hann treysti á Jesú Krist
Þótt hann hefði enga hugmynd um hvernig maturinn hans kæmi að notum.
Og það traust var nóg til að seðja marga.

Þetta hefur verið erfiður vetur fyrir marga og víða er erfitt að ná í brauðið nú um stundir. Bókamarkaður kirkjunnar hefur náð inn meira en 100 þúsund krónum og það hefur hjálpað til við að skapa smábjörg handa þeim sem hafa lítið á milli handanna núna. Baráttan um brauðið er raunveruleg barátta á Íslandi og ekki síst eftir hrun. Og við ættum að gera okkar besta til að hjálpa til á hvern þann hátt sem við getum. Baráttan um brauðið er nefnilega ekki aðeins baráttan um of lítil gæði, heldur miklu fremur baráttan fyrir því að gæðunum sé betur skipt. Og það er eitthvað sem við getum aðeins gert saman.

Eins og ungur piltur sem tók upp nestisboxið, þegar það skynsamlega í stöðunni hefði verið að bíða með að borða nestið þangað til að hann var kominn í skjól frá svöngu fólki.

Stundum bregst fólk við í von og kærleika frekar en örvæntingu. Er það ekki við slíkar aðstæður sem kraftaverkin gerast? Kraftaverkin þegar bjargráðin verða til og gæska mannanna kemur í ljós?

Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Jesús bað lærisveinana að láta fólkið setjast í grasið. Og þar fékk það að borða, þó að enginn skilji neitt í því hvernig brauðin og fiskarnir gátu nægt.

Þörfin var til staðar.
Þörfin var orðuð.
Einhver kom til hjálpar á sinn vanmegna hátt.
Og Jesús var þar,
Jesús sem breytir erfiðleikum, vonleysi og uppgjöf í þolgæði og von
Jesús sem gefur brauð og bjargræði
Jesús sem gefur von, réttlæti og kærleika
Jesús sem opnar hjörtu og nestisbox.

Og þegar við horfumst í augu við alla þá risastóru erfiðleika
Sem geta mætt okkur í lífinu
Þá skulum við setjast í grasið líka.
Því maðurinn lifir ekki á einu saman brauði
Heldur á þolgæði, von og kærleika líka
Því að við erum líkami, sál og andi og allir þrír þættirnir þurfa mettunar við.

Og það er í þessu grasi sem að gæðin verða til
Gæðin sem hjálpa okkur að kalla fram það besta í okkur sjálfum og náunganum
að skipta með okkur
að þora að leggja okkur fram
og rétta fram nestisboxið okkar litla
með öllum okkar hæfileikum, gjöfumog gáfum
til Jesú Krists sem gefur auðmýkt, uppreisn, þolgæði, von og kærleik
gras og brauð
þegar við mest þurfum þess með.

Já óskiljanlegt er það
hið græna gras jarðarinnar:
auðmýktin og uppreisnin í senn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Organistar og kirkjutónlist

Félag íslenskra organista hefur sent okkur biskupskandítötum spurningar um kirkjutónlist og menntun organista. Þær eru svona:

1. Hvaða gildi telur þú að Tónskóli Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð skólans?

2. Hvaða gildi telur þú að embætti Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð embættisins?

3.Finnst þér breytinga þörf á sviði kirkjutónlistarmála? Ef svo er þá hvaða breytingar?

4. Finnst þér að það þurfi að endurskoða kirkjutónlistarstefnuna?

Ég tel það vera bráðnauðsynlegt að kirkjan haldi úti starfsemi Tónskólans, því hann er eini tónlistarskólinn á landinu sem annast menntun organista. Þar sem menntunin miðast sérstaklega við starf í kirkju, eins og  orgelleik, litúrgiskan orgelleik, kórstjórn og raddþjálfun og kirkjusöngfræði væri torsótt að ég held að fá aðra tónlistarskóla til að taka yfir organistanámið.  Orgeltónlistin, kór- og safnaðarsöngur er mikilvægur þáttur í okkar kirkjumenningu og við eigum að standa vörð um það. Undir þetta sjónarmið tók kirkjuþingið 2011 sem ályktaði að ekki skyldi fella niður fjárframlag til „Tónskóla þjóðkirkjunnar og til embættis söngmálastjóra því mikilvægt er að hlúa að tónlistarstarfi kirkjunnar svo að halda þarf einnig úti starfi söngmálastjóra til að liðsinna organistum og kórum og sinna endurmenntun ásamt með Tónskólanum. “ Ég tek undir þetta sjónarmið með kirkjuþinginu.

Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið úti söngmálastjóraembætti í sjötíu og eitt ár.  Sögu embættisins má lesa hér. Á þeim tíma hefur grettistaki verið lyft í að virkja íslenska þjóð í kórastarf á vegum þjóðkirkjunnar. Kórastarfið er líklega öflugasta og fjölmennasta sjálfboðaliðastarf sem rekið er á vegum þjóðkirkjunnar og það skiptir miklu að því sé haldið áfram af myndarskap og framsýni. Í seinni tíð hefur einnig verið sterk áhersla á að efla hinn almenna safnaðarsöng og er það vel.

Tónlistarstefnan er frá 2004 og eins og aðrar stefnur þarf að endurskoða hana reglulega. Hana má finna hér. Starfshópur er að vinna tillögur um Tónskólann og söngmálastjórann og á að skila af sér bráðlega. Ég tel best að bíða eftir niðurstöðu starfshópsins og vinna endurskoðunina út frá henni.

Ég tel að það verði mikil lyftistöng fyrir safnaðarstarfið þegar nýja sálmabókin kemur út. Vonandi tekst að gefa hana út fljótlega. þar eru á ferðinni margir nýir sálmar og endurskoðun sálmaarfsins sem byggir á vinnu stórs ráðgjafahóps í kirkjunni. Grasrótin er góð og nýsköpunin líka.

Barna- og æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar

Mig langar til að tala um barna og æskulýðsstarfið sem mér er mjög annt um.

Síðustu tvo áratugi hefur barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar vaxið fiskur um hrygg. Söfnuðirnir hafa ráðið mikið af guðfræði- og uppeldismenntuðu starfsfólki og djáknar verið vígðir til æskulýðsstarfs. Eftir hrunið hefur hins vegar allt þetta starf dregist saman. Nú þegar fjárráð verða lítil og söfnuðir þurfa í vaxandi mæli að skipta því sem ekkert er, fara fjármunirnir að mestu í að borga af lánum og halda uppi lágmarks helgihaldi. Víða hafa launaðir starfsmenn í fastri vinnu vikið fyrir verktökum í takmarkaðan tíma. Og barnastarfi kirkjunnar hrakar eftir því sem minna er lagt í það og haldið utan um það.

Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar sendi biskupskandídötum kveðju sína í dag og þrjár spurningar með. Þær eru svona:

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?
2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðunandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?
3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Svar mitt við fyrstu spurningunni er það að biskup geti liðsinnt barna-og æskulýðsstarfinu á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi þarf hún/hann að beita sér fyrir því að sóknargjöldunum verði skilað. Þar þarf að myndast breiðfylking kirkjufólks sem að orðar vandann opinberlega og leggst á eitt við að rétta hlut safnaðanna. Það er frumforsenda þess að niðurskurðurinn í æskulýðsstarfinu verði leiðréttur.  Jafnframt vísa ég á grein mína „Búrlyklar biskupsins“ sem nálgast má hér.  Greinin fjallar um að við núverandi aðstæður sé óábyrgt að gefa kosningaloforð sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar, vegna þess annars vegar að við lifum á niðurskurðartímum og hins vegar vegna þess að allar líkur eru á því að fjárstjórnarvaldið sé að færast frá biskupnum og kirkjuráðinu yfir til kirkjuþingsins. Leiðréttingar nást aðeins fram ef okkur tekst að leiðrétta þá skerðingu á sóknargjöldum sem við höfum orðið fyrir. Og þá er það líklegt að fjárstjórnarvald hinna sameiginlegu sjóða verði á forræði kirkjuþingsins fremur en biskupsins og spurningin um það hvernig á að deila út fjármunum til barna og æskulýðsstarfs verður þeirra. En biskupinn á að hafa yfirsýnina og hún/hann á að tala máli barna og unglinga og benda á þá stefnumótun og fræðslustefnu sem þjóðkirkjan hefur sett sér. Orð biskups og áhrifavald getur haft mikil áhrif í að rétta hlut barna og ungmenna í þjóðkirkjunni.

Í öðru lagi getur biskupinn beitt sér fyrir lýðræðisumbótum sem miða að því að ungt fólk komist til áhrifa í kirkjunni, með því að tryggt sé í lögum að ákveðinn hluti þingsæta á kirkjuþingi sé eyrnamerktur kirkjuþingsmönnum yngri en 30 ára. Biskupinn getur talað fyrir því að laða ungt fólk til setu í sóknarnefndum. Um leið og aldurssamsetning þeirra sem ákveða hvernig fjármunum er varið á safnaðarvísu breytist, þá breytist gjarnan forgangsröðunin líka. Það er að segja ef eitthvað er í buddunni til að skipta niður.

Svar mitt við annarri spurningunni er þjóðkirkjan hefur sett sér stefnu um barna og æskulýðsstarf og henni á að sjálfsögðu að fylgja.Til þess eru stefnur að fara eftir þeim. Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004-2010 var m.a. birt framtíðarsýn þjóðkirkjunnar fyrir barna og æskulýðsstarf sitt. Þar segir:

Við viljum móta heildstæða fræðslustefnu og sinna fræðslustarfi sem leggur
áherslu á samfylgd frá vöggu til grafar.

  • Í öllum sóknum kirkjunnar sé boðið upp á barnastarf, unglingastarf og fullorðinsfræðslu.
  • Skilgreindar séu skyldur Þjóðkirkjunnar varðandi fræðslu um trú og  hefðir í ljósi þeirrar fræðslu sem veitt er í skólakerfinu.

Fræðslustefna þjóðkirkjunnar er byggð á stefnumótunarvinnunni og hana má nálgast hér: Þar segir að bjóða eigi upp á fræðslu í hverri sókn þjóðkirkjunnar frá vöggu til grafar. Áherslur stefnumótunarvinnunnar og fræðslustefnunnar eru bjartsýnar, glaðar og víðsýnar. En þær byggja á kirkjusýn sem enn er ekki til um þjónustu og fræðslu fyrir alla og raunhæfum markmiðum í þá átt. Við þurfum að gera slíka sýn að raunveruleika í strjálbýlinu jafnt sem þéttbýlinu. Og þessu á biskupinn að vinna að með hagsmuni allra í fyrirrúmi.

Svarið við þriðju spurningunni er að mér væri heiður þiggja boð um að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilsstöðum í októberlok.