Category: Æviágrip

Æviágrip Ólafs Óskars Angantýssonar (1953-2012)

Ólafur Óskar Angantýsson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 30. apríl 1953 og var því á sextugasta aldursári þegar hann lést. Foreldrar hans voru Angantýr Guðmundsson skipsstjóri og Arína Þórlaug Íbsensdóttir húsmóðir og ritari. Voru þau hjónin bæði borin og barnfædd í Súgandafirði. Angantýr og Arína Þórlaug eignuðust alls níu börn og létust þrjú í eða skömmu eftir fæðingu. Af þeim sex börnum sem upp komust er Ibsen elstur, þá Bára og Auður, Haukur var fjórði, Ólafur fimmti og Guðrún er yngst. Arína og Angantýr ólu einnig upp Soffíu Jónu Vatnsdal Jónsdóttur sem lést árið 1993. Haukur bróðir Ólafs lést í maímánuði síðastliðnum en hin systkinin fjögur lifa bróður sinn.

Fyrsta lífsárið sitt átti Ólafur í rauða Svíahúsinu á Flateyri, en fluttu til Keflavíkur þegar Ólafur var á öðru ári haustið 1954. Ólafur hóf skólanám í barnaskólanum í Keflavík en settist síðan á skólabekk í Vogaskóla þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið eftir. Ólafur hefur átt góða og trausta vini allt frá Vogaskólaárum og átti góða bernsku í faðmi fjölskyldu sinnar. Hann var óframfærinn sem barn og lét gjarnan hin systkinin hafa orð fyrir sér. Þannig bar hann út Vikuna sem strákur og fékk þá gjarnan Guðrúnu litlu systur til að koma með sér að rukka. Ólafur og Guðrún áttu fleiri skemmtilegar minningar saman frá dögum Kanasjónvarpsins, þegar þau lágu undir borðstofuborðinu og horfðu á The Untouchables í gegnum glerið á millihurðinni, löngu eftir að þau áttu að vera farin inn að sofa. Litla systir var ólöt að skoppa út í búð eftir prinspólói og lakkrísrörum fyrir stóra bróður. Ólafur fór til Súgandafjarðar á hverju sumri til hjónanna Gissurar og Indíönu, eða Jönu. Ólafur hafði verið látinn heita eftir syni þeirra og héldu þau mikið upp á hann. Angantýr faðir Ólafs lést úr hjartasjúkdómi innan við fimmtugt þegar Ólafur var ellefu ára og var hið sviplega andlát föðurins mikið áfall fyrir fjölskylduna alla. Það eru því þung spor að kveðja Ólaf á besta aldri nú 48 árum síðar við svipaðar aðstæður.

Ólafur spilaði á gítar sem unglingur og það var mikið sungið heima hjá honum. Móðuramma hans Lovísa var hjá þeim í tvö ár vegna heilsubrests þegar Ólafur var í kringum fermingu og þá voru spiluð og sungin ættjarðarlög ömmu til dægrastyttingar. Ólafur fékk í fermingargjöf að fara með Ibsen bróður sínum til Risör við Oslóarfjörð, þar sem verið var að lengja bát Ibsens. Var Noregsferðin honum mikil upplifun, enda ekki algengt að fermingardrengir væru á faraldsfæti út fyrir landssteina á sjöunda áratugnum. Þegar Ólafur stálpaðist vann hann á sumrin í frystihúsinu með Gissuri, en fór síðan á rækju með Ibsen bróður sínum á Ásgeiri og síðar síld með Hauki á Ísafold.  Sumartúrarnir á sjónum urðu margir og hjálpuðu til að fleyta Ólafi í gegnum skólanámið. Hann var sjóveikur og ákvað því snemma að leita sér að öðru ævistarfi en sjómennskunni.

Ólafur gekk í Menntaskólann við Tjörnina eftir landspróf og var í hópi fyrsta útskriftarárgangs þess skóla. Það var líf og fjör í menntaskóla um og uppúr 1970 og MT ingarnir þóttu róttækir. Fjölskyldan minnist þess þegar Ólafur fór með vinum sínum að sjá hina umdeildu mynd Green Berets. Myndin fjallaði um landgönguliða í Víetnam og dró upp mjög jákvæða mynd af hernaðarumsvifum Bandaríkjamanna þar í landi. Fjölmenntu menntskælingar til að sjá hana eitt miðvikudagskvöld í október 1970.  Til uppþota kom á bíóinu sem lýst er með miklum upphrópunum í Mánudagsblaðinu í sömu viku undir fyrirsögninni „Rennusteinslýður truflar kvikmyndasýningar.“

Kommúnistaskríll, rauðsokkusubbur og loðinbarðar gerðu uppsteit í Austurbæjarbíói í fyrrakvöld, miðvikudag, er hefja átti níusýningu á bandarísku myndinni The Green Berets. Ruddust þeir inn miðalaust og settust á svið bíósins í mótmælaskyni við myndina. Það er kominn tími til að lögreglan sýni þessum lubbum í tvo heimana.

Ólafur var einkar hárprúður í menntaskóla og raunar æ síðan. Hann sat hinn rólegasti á bíósýningunni með poppið sitt , en lögreglan hefur greinilega séð í honum „loðinbarða“ og þessi prúði piltur var settur í steininn alveg óvart með fjórum sárreiðum mótmælendum. Hinum saklausa fanga Ólafi líkaði vel við „rennusteinslýðinn“ og sagði oft frá því síðar að nóttin í fangaklefanum hefði breytt honum og gert úr honum friðarsinna og jafnaðarmann. Þessi upprennandi jafnaðarmaður átti bíl með mömmu sinni, grænan volvó, sem jafnan gekk undir nafninu „Græna Hættan“ í fjölskyldunni.

Ólafur kynntist konuefni sínu Álfheiði Kristveigu Lárusdóttur í menntaskólanum og þau fóru snemma að búa á Laugavegi 76. Hann fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands strax eftir stúdentspróf og var þar í námi í tvö ár, en söðlaði þá um og fékk vinnu hjá Sjónvarpinu í staðinn. Nokkuð var liðið frá því að Ólafur hafði horft á Kanasjónvarp gegnum gler undir borðstofuborði. Nú var hann orðinn fullorðinn maður og vann sem tæknimaður hjá Sjónvarpinu við myndblöndun og lýsingu í myndveri Sjónvarps um þriggja ára skeið. Þessi nýja reynsla við hið upprennandi ríkissjónvarp Íslendinga opnaði fyrir Ólafi nýjar dyr. Hann ákvað að leggja fyrir sig fjölmiðlafræði við Stokkhólmsháskóla og þau Álfheiður giftu sig sama ár og þau fluttu til Svíþjóðar.

Ólafur stundaði námið í fjölmiðlafræði af miklum áhuga, las jafnt kvikmyndafræði, félagsfræði og sálfræði til fil. Kand. prófs. Hann dýrgði tekjurnar með því að keyra strætó og vinna garðvinnu auk þess sem hann fór á sjó á sumrin. Árið 1981 eignuðust þau einkasoninn Styrmi Þór og átti Ólafur eftir að reynast honum einstaklega góður faðir. Ólafur og Álfheiður skildu tveimur árum eftir fæðingu sonarins og bjó Ólafur áfram í Svíþjóð um tveggja ára skeið þar til hann hafði lokið námi. Er Styrmir að mestu alinn upp í Svíþjóð, en kom alltaf heim til föður síns á sumrin og gjarnan á stórhátíðum líka. Eftir að heim var komið bjó Ólafur um tíma í Breiðholti með móður sinni og systkinunum Auði og Hauki, en keypti sér síðan íbúð á Bjargarstíg og síðar Þorfinnsgötu. Veturinn sem Styrmir Þór gekk til prestsins dvaldi hann hjá pabba sínum á Íslandi og áttu þessar samvistir eftir að vera þeim báðum dýrmætar. Þeir feðgar fóru í ferðalög á sumrin, stundum tveir og í önnur skipti með stórfjölskyldunni. Á síðari árum fór Ólafur að hafa áhuga á að veiða og renndi gjarnan fyrir bröndu þegar farið var vestur í Ármúla þar sem Guðrún systir hans á sumarbústað. Ólafur hafði mikinn áhuga á fótbolta og hélt með West Ham í ensku knattspyrnunni. Hann og Styrmir héldu líka báðir með sænska liðinu AEK og fóru saman á leik með félaginu nú í sumar. Kona Styrmis er Sandra Ingrid Penttinen og þau eiga tvær dætur, Miröndu Ingrid Arínu og Ölvu Björk auk þess sem þriðja barnabarnið er á leiðinni. Ólafur var góður afi og hélt uppi sambandi við sonardæturnar milli þess sem þau hittust með því að spjalla við þær á Skype.

Eftir að Ólafur flutti heim frá Stokkhólmi 1985 var hann í lausamennsku um hríð. Hann var dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu og vann að viðtalsþáttum og erindum um kvikmyndir og tónlist og hélt úti kvikmyndagagnrýni í Helgarpóstinum og fleiri blöðum og tímaritum.  Á sama tíma starfaði hann sem framhaldsskólakennari í Flensborg í Hafnarfirði og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Árið 1990 hóf hann störf hjá Iðntæknistofnun sem sameinaðist öðrum stofnunum undir nafninu Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir nokkrum árum. Þessi tuttugu og tvö ár sem Ólafur vann hjá Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöðinni voru honum mikill ánægjutími. Það má segja að Ólafur hafi lifað fyrir starfið sitt og hann átti þar bæði vini og starfsfélaga. Síðustu ár hefur hann unnið hjá sviði sem þjónustar öll hin sviðin og kynntist því flestum starfsmönnum á þessum stóra og kraftmikla vinnustað. Hann var fagmaður fram í fingurgóma, hafði næmt auga fyrir grafískri hönnun og var vandvirkur og smekkvís í öllum sínum störfum. Starf hans var fólgið í að hanna prentgripi, bæklinga og upplýsingar sem frá Nýsköpunarmiðstöð komu, en eftir því sem árin liðu jókst vægi stafræns efnis líka. Hann tók upp ráðstefnur og viðtöl og breytti oft litla skrifstofuhorninu sínu í stúdíó með grænu tjaldi. Ólafur vandaði sig ekki aðeins við vinnuna, heldur lét hann líka til sín taka í félagslífi starfsmannanna. Ég fór og heimsótti Nýsköpunarmiðstöðina í gær og fékk að sjá árshátíðarskemmtiefni starfsmannanna frá í fyrra. Þar fer Ólafur á kostum og er búinn að klippa saman hið dægilegasta myndband með starfmönnum í kúrekabúningum syngjandi og leikandi Roy Rogers sem er búið að blanda saman við gamlar kábojmyndir. Ólafur kemur hvergi fram í myndbandinu og samt er handbragðið hans yfir og allt um kring, í vandaðri vinnunni, húmornum og gleðinni.

Ólafur var alltaf mættur á réttum tíma og yfirleitt búinn að hella upp á könnuna þegar aðrir mættu í hús. Þess vegna brá starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands illilega í brún þriðjudaginn 6. nóvember þegar þau mættu í vinnu, með engu kaffi og engum Ólafi. Ólafur Óskar Angantýsson hafði látist á heimili sínu um nóttina og með fráfalli hans er höggvið stórt skarð, bæði í raðir fjölskyldu og starfsmanna.

Æviágrip Matthildar Þóreyjar Marteinsdóttur, Stellu (1930-2012)

Stella fæddist 13. apríl 1930 og var elst af börnum hjónanna Marteins Halldórssonar bifreiðastjóra og Katrínar Hólmfríðar Jónsdóttur húsfreyju. Var Marteinn fæddur á Melum á Kjalarnesi, en Katrín í Reykjavík. Yngri systkini Stellu eru Guðlaug, Halldór og Jónas og lifa þau öll systur sína. Stella var Vesturbæingur og þekkti þar hvern hól og hús. Hún var alin upp á Brekkustíg 4, en skammt undan bjuggu móðuramma og afi á Vesturgötunni. Stella gekk í Miðbæjarskólann og skaraði snemma fram í námi. Hún var vinsæl, kát og skemmtileg og hafði lag á að skapa gott andrúmsloft í kringum sig. Hún fermdist lýðveldisárið og þreytti sama vor inntökupróf í Menntaskólann í Reykjavík, en skólinn var þá sex bekkir. Hin fjórtán ára Reykjavíkurmær stóð sig með glans á prófinu og hún skilaði annari hæstu einkunn þeirra 117 nemenda sem prófið þreyttu, ágætiseinkunninni 9,29.

Menntaskólaárin voru ánægjulegur tími fyrir Stellu, hún las af kappi, réði sig sem kaupakonu í sveit að Möðrufelli í Eyjafirði eitt sumar , fór í ferðalag til að skoða Heklugosið mikla 1947 með öðrum menntaskólanemum og stofnaði saumaklúbb í fjórða bekk með sex öðrum kátum námsmeyjum. Saumaklúbburinn hefur starfað allar götur síðan og skarðið sem höggvið er með fráfalli Stellu er mikið. Stella flutti með foreldrum sínum úr Vesturbænum 1947 og í Stórholt. Hún varð ástfangin af pilti sem hét Árni Ólafsson og var einu ári á undan henni í skóla. Haustið 1949 settu hún og Árni upp hringana áður en hann fór til utan til að setjast á skólabekk í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Vorið eftir lauk Stella stúdentsprófi og kvaddi heimhagana strax um haustið. Hún og Árni giftu sig í Bandaríkjunum 30. september 1950 og settust að í Seattle. Þau hófu búskap í lítilli risíbúð sem þau leigðu af fólkinu á neðri hæðinni en áttu líka eftir að búa í húsbát í höfninni. Eldri sonur þeirra hjóna, Ólafur fæddist 1951, og sá yngri, Marteinn Gísli árið 1955. Stella vann á ljósmyndastofu um tíma en var heimavinnandi eftir að Marteinn fæddist.

Eiginmaður Stellu lauk námi 1955 og fékk vinnu hjá amerísku fyrirtæki með sjávarfang í Texas. Þau bjuggu nálægt landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og upplifðu fjölskrúðugt bæjarlíf. Þau fluttu vítt og breitt um Bandaríkin næstu ár allt eftir því hvert vinnan bar Árna, frá Texas til Saint Louis og New Orleans. Á sjötta áratugnum var alskilnaðarstefna hvítra og svartra í algleymingi í suðurhluta Bandaríkjanna og átti Stella oft eftir að lýsa upplifun sinni af þessu skelfilega óréttlæti. Hún átti það til að setjast aftast í vagninn en ekki á fremstu bekkina hjá hvíta fólkinu og lét eins og hún heyrði ekki þegar bílstjórinn skammaði hana fyrir að hafa stigið yfir hina ósýnilegu línu húðlitarins. Hún borgaði þeldökku heimilishjálpinni sinni líka mannsæmandi kaup, sem var ekki vel séð í vinkvennahópnum. Stella var alla tíð þrjósk og staðföst og gaf sig ekki undan hópþrýstingi þegar henni fannst réttlætinu hallað.

Stella og Árni fluttu til Maryland og loks í White Plains í norðurjaðri New York borgar þegar Árni fékk vinnu hjá sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það hefur eflaust verið mikið átak fyrir liðlega tvítuga stúlku ofan af Íslandi að kveðja allt sitt fólk og hefja nýtt líf í Ameríku, eignast börn og geta ekki fengið ráð og hvatningu nema gegnum bréfasamskipti. Allt gekk þetta þó vel hjá Stellu, hún var fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og hafði yndi af því að kynnast ólíkri menningu og að ala upp börnin sín. Hún var góð móðir og vildi sonum sínum allt hið besta. Katrín móðir Stellu heimsótti hana í White Plains og þá höfðu mæðgurnar hvorki heyrst né sést í sex ár. Urðu þar fagnaðarfundir.

Stella og Árni fluttu heim í árslok 1961 og bjuggu skamman tíma hjá foreldrum Stellu í Stórholtinu áður en þau fluttust í eigið húsnæði við Háaleitisbraut og síðan Hraunbraut í Kópavogi.  Þau hjónin ferðuðust mikið innanlands með strákana litla. Meðan þeir veiddu gekk Stella um og skoðaði blómin . Hún hafði mestan áhuga á blómum sem skutu rótum í auðninni, geldingahnappi og lambagrasi, harðgerðum jurtum sem héldu velli á gráum melnum. Og þannig komu fram sterkar andstæður í Stellu. Hún var glæsileg kona og veraldarvön, framandleg og með sinn sérstaka stíl, en líka náttúrubarn sem elti uppi lítil blóm og steina sem aðrir sáu ekki.

Eitt af því fyrsta sem aðstandendur Stellu sögðu mér var að hún hefði á efri árum haft mikið yndi af steinum. Hún safnaði steinum. Hún leitaði þá uppi, burðaðist með þá ofan af heiðum og neðan frá sjó. Hún fyllti garðinn sinn og híbýli af steinum og fegurð þeirra og litbrigði glöddu hana. Sófaborðið hennar á Hraunbraut og Bræðraborgarstíg var glerborð og hún raðaði steinunum undir glerið. Stella vissi allt um steina og steinafræði, hvað þeir hétu, hvaðan þeir komu og hvaða tilbrigði voru til af tiltekinni tegund og það var þessi samblanda af sögu og fegurð steinanna sem að heillaði hana svo mjög.

Þegar leið á sjöunda áratuginn ákvað Stella að fara að lesa ensku og bókasafnsfræði við Háskóla Íslands og lét sér hvergi bregða þótt flestir nemendurnir væri tæpum tuttugu árum yngri en hún sjálf. Hún lauk BA prófi árið 1972 með hárri einkunn og fjallaði lokaverkefni hennar skrá yfir greinar í Læknablaðinu  frá upphafi blaðsins 1946 til1970. Stella hóf störf hjá læknisfræðisafni Borgarspítalans og átti eftir að una sér vel á þrettándu hæð spítalans þar sem vel sá yfir Fossvoginn. Hún hélt áfram að bæta við skrána sem hún byrjaði á í lokaverkefninu. Hefur skráin orðið öðrum söfnum að miklu gagni og rann síðan inn í Ritaskrá lækna þegar hún varð til. Stella lagði þannig lóð á vogarskálar  til íslenskra heilbrigðisvísinda með vinnu sinni.  Hún tók við stjórn Bókasafns Borgarspítala árið 1973 og gegndi því til starfsloka árið 2000.

Stella og Árni höfðu skilið snemma á níunda áratugnum. Hún bjó um tíma áfram á Hraunbrautinni en fluttist síðan á sínar bernskuslóðir í Vesturbænum og byggði sitt bú á Bræðraborgarstíg.  Hún kynntist listmálaranum Veturliða  Gunnarssyni og þau áttu saman góð ár seinni hluta níunda áratugarins. Veturliði vakti með Stellu áhuga á myndlist og þau áttu steinasöfnunina sameiginlega, fóru saman í ferðalög út um mela og móa og báru heim ótal fagra steina. Þau söfnuðu líka plasti, dóti og rekaviðum úr fjörunni sem þau fylltu skottið á bílnum af og sem að Veturliði notaði til að búa til úr listaverk.

Stella var listfeng kona. Frá barnæsku hafði hún verið bókaormur hinn mesti. Ástin á bókunum átti eftir að fylgja henni allt hennar líf, og það er eflaust engin tilviljun að hún valdi sér ævistarf innan veggja bókasafns. Hún var fróðleiksfús og hætti aldrei að bæta í sarpinn, enda fannst barnabörnunum hennar að hún vissi allt. Eftir því sem henni óx þroski og vit, þá bættist við ást á fleiri listgreinum. Henni var ekki nóg að njóta, hún þurfti líka að vita allt í kring um verkin og var vel að sér í listasögu. Hún átti alltaf miða í leikhúsið og fylgdist vel með menningarlífinu. Hún dundaði sér við krossgátur og hafi gaman af að spila bridds.

Barnabörn Stellu þær Tinna og Stella Ólafsdætur fæddust 1976 og 1984 og átti Stella eftir að reynast þeim afbragðs amma sem þær eiga við góðar og hlýjar minningar. Hún kom fram við barnabörnin sín eins og þau væru fullorðin, fylgdist vel með vinum þeirra, og það var óhætt að treysta henni fyrir leyndarmáli. Seint á níunda áratugnum tók Ólafur sonur hennar saman við Þuríði Vigfúsdóttur sem lagði með sér þrjú börn í búið, þau Vigdísi Örnu, Guðna Elís og Dagnýju Rut. Tók Stella börnum Þuríðar einstaklega vel. Guðni Elís lést fyrir þremur árum og Vigdís Arna býr á Spáni, en hin barnabörnin eru hér og kveðja ömmu sína ásamt sonum Stellu tveimur og tengdadóttur. Vigdís Arna hafði samband við mig í gær og bað fyrir kveðju sína hingað frá sér og Áróru Elí. Hún minnist Stellu með hlýhug og virðingu fyrir húmor hennar og lífsgleði. Í bréfi sínu til mín segir Vigdís Arna:

“Stella hafði að leiðarljósi fallega lífsýn um að njóta lífsins gæða og taka fullan þátt fram á síðasta dag. Krankleika lét hún ekki  halda aftur af sér og neitaði að láta líkamlega andspyrnu fjötra sig og fanga. Væntumþykju hennar finnum við enn og munum ylja okkur við minningar um fallega konu sem kom inn í líf okkar þegar æskuvinirnir Þuríður og Óli ákváðu að binda saman sitt trúss. Hún fann sjálf upp á því að kalla sig Antique ömmu, til aðgreiningar frá öllum hinum ömmunum í lífi barna minna. En eins og önnur antique var Stella einstök og sem slík mun hún ætíð eiga stað í okkar hjörtum.”

Barnabarnabörnin eru 3 og með fósturbarnabörnunum eru þau orðin tíu.

Marteinn yngri sonur Stellu flutti heim til Íslands árið 2003 og eftir það bjó hann að mestu með móður sinni. Stella hafði yndi af ferðalögum og fór í ferðir með systur sinni, mági og skólasystur, m.a. til Króatíu og Kýpur sem Stella hafði mikla gleði af. Hún greindist með sykursýki fyrir fjörutíu árum og reyndust þessi veikindi henni oft erfið og orsökuðu minnisleysi síðustu misserin sem hún lifði. Stella fékk heilablóðfall í svefni 11. október og var flutt á spítala. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi, þar sem hún hafði unnið svo lengi þann 25. október s.l.

Æviágrip Skúla Þórs Jónssonar (1922-2012)

Skúli Þór var fæddur á aðfangadag 1922 og hefði því orðið níræður á næstu jólum. Hann var sonur hjónanna Jóns Sigtryggssonar lögfræðings og konu hans Guðrúnar Skúladóttur og fæddur á Grundarhól á Hólsfjöllum. Skúli var þriðja barn Jóns og Guðrúnar af fjórum. Svanhildur og Margrét voru eldri en Gógó yngst og lifði Skúli öll systkini sín. Skúli var alinn upp á Seyðisfirði. Jón faðir hans lést 1939 55 ára að aldri og Guðrún sex árum síðar, 51 árs að aldri.

Í lok fjórða áratugarins voru margir Norðmenn á Seyðisfirði og lærði Skúli af þeim norsku. Norðmennirnir töluðu um að enginn fjörður væri fegurri en Óslóarfjörður og hét Skúli því að sigla einhvern tímann inn þennan norska fjörð. Þetta gamla loforð gat hann loksins efnt árið 2005 þegar hann var á ferðalagi með dóttur sinni og var það honum mikið gleðiefni.

Skúli kom til Reykjavíkur þegar heimsstyrjöldin síðari við skollin á og ók strætó og síðar mjólkurbílnum í Hvalfirði. Hann vann fyrir herinn mestöll stríðsárin í Hvalfirði. Þar kynntist hann konuefni sínu Hólmfríði Guðmundsdóttur úr Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Þeim varð alls sex barna auðið, tvö létust nýfædd,  en eftirlifandi börn Skúla eru Guðrún Margrét, Þóra, Rósa og Marteinn. Þau Hólmfríður gerðust bændur um tíma á fæðingarstað Skúla á Grundarhól . Skúli átti síðan eftir að vinna fyrir herinn á Keflavíkurflugvelli en fjölskyldan bjó á Akranesi.  Síðar fluttu þau í Sandnámið á Kjalarnesi og Skúli varð verksstjóri hjá Steypustöðinni. Á sjöunda áratugnum fluttu þau síðan á Njálsgötuna í Reykjavík og síðar í Kópavog. Skúli vann fyrst sem kranamaður hjá Togaraafgreiðslunni og síðan lengi hjá Vita- og Hafnarmálastofnun þar sem hann ferðaðist um landið, skipti um ljósaperur í vitunum  og vann við að dýpka hafnirnar. Eftir að hann komst á eftirlaun og hætti fastri vinnu greip hann í að mála hús, því alltaf varð hann að hafa nóg fyrir stafni.

Skúli og Hólmfríður skildu á níunda áratugnum. Eftir það bjó hann lengst af hjá dóttur sinni, en einnig í efra Breiðholti. Árið 2003 fluttist hann síðan í nýbyggða blokk í nýbyggðu hverfi í Grafarholti, einn af fyrstu frumbyggjum þess hverfis. Skúli var lengst af mjög hraustur og varð sjaldan misdægurt. Hann naut aðhlynningar á Skjóli síðasta árið og fékk friðsælt andlát eftir langa og viðburðarríka ævi þann 30. ágúst s.l.

Ég minnist þess þegar ég flutti inn á litla bráðabirgðaskrifstofu í Þórðarsveignum, skáhallt á móti íbúðinni hans Skúla. Skúli var fyrst ekkert hrifinn þegar ég sagði honum að ég væri prestur. En fáir áttu eftir að reynast mér betur í þessu góða samfélagi en einmitt hann. Skúli kom hlaupandi langar leiðir til að hleypa mér og öðrum inn sem drápu á dyr í Þórðarsveignum. Hann bar inn fyrir mig kassa og hjálpaði mér á ýmsa lund. Hann heilsaði alltaf með virktum og kallaði mig stundum elskuna sína. Oft var hann með sólhatt á höfðinu eftir að fuglinn Bíbí kom til sögunnar. Hann var ýmist syngjandi kátur eða í vondu skapi en aldrei neitt þar á milli. Skúli Þór var aldrei hálfvolgur í áhuganum, heldur alltaf brennandi í andanum. Hann var hress í bragði, það var hreyfiafl í kringum hann og aldrei nein lognmolla. Með okkur skapaðist vinátta og þess vegna þykir mér vænt um að megi standa hér yfir moldum hans í dag og kveðja hann hinstu kveðju.

Erla Sigurdís Arnardóttir (1964-2012)

Erla Sigurdís Arnardóttir leit dagsins ljós með miklum látum á fæðingarheimili Reykjavíkur þann 27. janúar 1964, 18 marka stúlka með kolsvart hár. Hún var dóttir Höllu Geirlaugar Hjálmarsdóttur og Arnar Árnasonar og lést faðir hennar árið 2006 og fyrsta barn þeirra beggja. Erla eignaðist síðar átta hálfsystkin. Eru Helga Eygló og Jóna Hlín henni sammæðra og ólst hún upp með þeim, en Hanna, Ingvar, Reynir Strandberg, Selma Margrét og Linda Borg samfeðra. Ingvar lést árið 1987, en hin systkinin lifa Erlu.

Foreldrar Erlu slitu samvistum fyrir hennar barnsminni og átti hún fyrstu bernskuárin á Vitastíg hjá afa sínum og ömmu, þeim Jónínu Geirlaugu Jónsdóttur og Hjálmari Sveinbjörnssyni. Erla var snemma mikil afastelpa og sótti mikið í ömmu sína og afa. Hjálmar afi leyfði henni alltaf að vinna í Ólsen Ólsen og Erla fylgdi honum eftir hvert sem hann fór. Halla móður hennar flutti vestur um haf með stúlkuna þegar hún var rúmlega þriggja ára og þær bjuggu í Brunswick í Mainefylki næstu tvö árin. Erla upplifði ýmislegt skondið og skemmtilegt í Ameríkunni, þótt ung væri. Í næsta húsi bjuggu barnlaus hjón sem áttu simpansa sem þau klæddu upp í kjól og lék Erla jafnt við apann og krakka í kring. Hún lærði ensku og gekk í kindergarten eða forskóla þar ytra. Þær mæðgur fluttu aftur heim á Vitastíginn þegar Erla var fimm ára, og fyrst í stað vildi hún bara tala ensku. Hún fór í Austurbæjarskólann og lauk þar þriðja bekk.

Erla flutti með móður sinni og þáverandi eiginmanni hennar, Guðjóni Elí Skúlasyni á Unnarbraut á Seltjarnarnesi og settist á skólabekk í Mýrarhúsaskóla. Í Mýró voru tveir bekkir í árgangi og man ég vel eftir þessum harðsoðna  töffara í hinum bekknum sem mætti á staðinn í tíu ára bekk. Hún var með munninn fyrir neðan nefið og lét engan eiga neitt hjá sér. Ragnhildur Rúriksdóttir, Naddý, bekkjarsystir Erlu og æskuvinkona hringdi í mig frá Bandaríkjunum í gærkvöldi og sagði mér frá ýmsum bernskubrekum og skemmtunum þeirra skólasystranna, þar sem meðal annars voru teknir upp eldhressir skemmtiþættir á kassettur, sem enn eru til. Þar er til dæmis upptaka af Rauðhettu og úlfinum í útgáfu þeirra stallsystranna og gellur smitandi hláturinn í Erlu hæst á hljóðsnældunum. Biður Naddý fyrir kærar kveðjur hingað í dag og þakkar Erlu fyrir góðar og skemmtilegar minningar frá æskuárunum.

Eftir tólf ára bekkinn lá leiðin í Valhúsaskóla. Erla hafði alltaf gaman af að spila og þær voru ófáar frímínúturnar í Való sem við sátum flötum beinum á nælonteppinu í Való krakkarnir að spila Kana. En það var spilaður kani á fleiri stöðum, Kanaútvarpið var spilað í botni með Wolfman Jack og Casey Cayson í eyrunum, danssporin tekin úr Grease og Rocky Horrow Picture Show og skellt inn smáskvettu af Meatloaf inn á milli. Sjálf á ég skemmtilega minningu af Erlu frá árunum í Való þegar við stelpurnar í árganginum vorum látnar vera fjórum tímum lengur en strákarnir í skólanum eitt árið. Við þurftum nefnilega að læra matreiðslu en ekki þeir og ég lenti í hóp með Erlu. Við stelpurnar vorum ekki par hrifnar af þessu kynbundna óréttlæti og hefur það eflaust haft áhrif á það hversu illa við létum í matreiðslunni. Einu sinni var aspas kastað upp í loftið og hann hékk þar í nokkrar vikur án þess að húsmæðrakennarinn tæki eftir því. Í eitt skiptið áttum við að baka vöfflur, en hveiti, sykri og eggjum var svo naumt skammtað að ekki var nóg deig nema í þrjár til fjórar vöfflur. Þetta fannst Erlu alveg ómögulegt. Hún vatt sér inn í búrið og náði sér í nokkur egg og mjöl. Þegar tími var kominn til að setjast að borðum var einn hópurinn frekar seinn vegna þess að við vorum enn að baka fjórtándu vöffluna. Ég minnist með gleði þessarar stundar þar sem við sátum skríkjandi við borðið, húsmæðrakennarinn öskuillur og Erla með stríðnisglottið og hláturinn hinum megin við stóra vöffluhlaðann. Þegar ég hugsa til Erlu og vöffluhlaðans, þá finnst mér henni hafa tekist að gera mikið úr vöffludeiginu sínu í lífinu og bakstur vináttu og ástar sem hún lætur eftir sig að 48 árum loknum er stór og mikill.

Erla var snemma harðdugleg og vann með skólanum í sjoppu öll unglingsárin. Eftir að grunnskólaprófi lauk kynntist hún Jóni Halldóri Guðmundssyni sem var að nema hárskeraiðn og þau hófu búskap í risinu hjá ömmu og afa á Vitastígnum. Unga parið flutti með móður Erlu og ömmu í Fljótasel í Breiðholti haustið 1982 og um veturinn varð Erla ófrísk að þeirra fyrsta barni. Halla Karen fæddist á heitum og sólbjörtum degi vorið 1983 þegar Erla var 19 ára og um sama leyti keyptu þau sína fyrstu íbúð á Bjargarstígnum. Þau voru ungir foreldrar á níunda áratugnum á fullri ferð út í lífið, með barn, íbúð bíl og atvinnurekstur. En þau voru ekkert sérstaklega ráðsett heldur, höfðu gaman af að skemmta sér og hitta fólk. Jón og Erla giftu sig 1987 og opnuðu hárgreiðslustofu sama ár. Þau fluttu oft næstu árin, stöldruðu við á Ásvallagötu, Leifsgötu, Hvassaleiti, Gautlandi og Spóahólum, þar sem önnur dóttir, Elín Klara bættist við árið 1992. Úr Spóahólum lá síðan leiðin upp í Viðarás í Árbæ, þar sem sonurinn Hjálmar Gauti fæddist 1994. Erla og Jón skildu fyrir tíu árum og fluttist Erla þá hingað í Þorláksgeislann þar sem hún átti heima til dauðadags.

Þau Jón höfðu gaman af að ferðast, fóru tvær ferðir með vinum sínum og Höllu Karenu um Mið og Suður-Evrópu og í sólarfrí á Benidorm og til Krítar. Fjölskyldan ferðaðist líka mikið innanlands með vinum sínum , þau fóru í tjaldútilegur  keyptu sér jeppa og ferðumst um hálendið. Erla og Jón gengu bæði Fimmvörðuháls og Laugaveginn og Þórmörk og Landmannalaugar voru staðir sem Erlu voru hugstæðir og hjartfólgnir.

Erla vann í Vörumarkaðinum á Eiðistorgi eftir að hún lauk grunnskólaprófi. Síðar starfaði hún í Aðalbanka Búnaðarbankans við Austurstræti, VÍB og fleiri stöðum, en var heimavinnandi eftir að yngri börnin fæddust. Krakkarnir minnast þess með þakklæti og gleði að mamma var alltaf heima á daginn þegar þau komu heim úr skólanum. Hún var í kvöldskóla meðan börnin voru lítil og einnig hin seinni ár þar sem hún vann að því að að ljúka stúdentsprófi. Einnig fór hún í tölvuskóla og fékk fyrir örfáum árum lögverndun sem bókari frá Háskólanum í Reykjavík. Síðustu árin starfaði Erla sem skrifstofustjóri hjá Sigurplasti þar sem hún kunni einstaklega vel við sig. Erla varð amma fyrir átta árum þegar Embla Eir fæddist og síðan Hekla árið 2008.

Líf Erlu breyttist mikið eftir skilnaðinn. Sambandið við systurnar styrktist og gömlu vinkonurnar líka og hún eignaðist líka nýjar. Þessi stóri kvennahópur umlukti Erlu. Hún var þar hrókur alls fagnaðar eins og venjulega og alltaf til í að skemmta sér eins og forðum. Systur hennar og móðir bjuggu um tíma á Spáni og átti Erla þar góðar stundir ásamt börnunum. Hún var frá vinnu vegna brjóskloss um tveggja ára skeið og var þess vegna mikið heima.

Erla var félagslynd og rak hálfgert félagsheimili heima hjá sér þar sem komu saman vinir og kunningjar, en seinna meir einnig vinir og kunningjar barna hennar. Þegar unglingsstrákarnir fylltu herbergið hans Hjálmars fór Erla að kalla herbergið Hrútakofann. Hún var alltaf til í að spjalla við börn og unglinga, það var notaleg stemmning hjá henni, kveikt á kertum og tónlistin venjulega höfð í botni. Yfirleitt eru það foreldrarnir sem reyna að skrúfa niður í græjunum hjá börnunum, en heima hjá Erlu voru það krakkarnir sem skrúfuðu niður í látunum hjá Erlu. Hún fylgdist vel með tíðaranda og tónlist, m.a. þeirri sem sem krakkarnir hennar hlustuðu á og var lengi með 50 cent sem hringitón í símanum. Sá mikli mannfjöldi sem fylgir Erlu hér í dag af sýnir vel hversu vinföst Erla var og hversu auðvelt hún átti með að hafa samband við fólk af ólíkum kynslóðum.

Erla var frábær kokkur og höfðingi heim að sækja. Hún var veisluglöð og hafði gaman af því að bjóða heim gestum í mat. Eins og í Való forðum hafði hún gaman af að taka spil og vinahópur þeirra Jóns hittist næstum í hverri viku yfir kana, vist og appolólakkrís. Eftir að Erla skildi fór hún að hafa áhuga á Tarotspilum og sat einatt í sama horninu og rýndi í framtíðina með aðstoð spilanna sinna. Hún var dugleg að prjóna og prjónaði jafnt á börnin, sjálfa sig og vinkonurnar. Erla var skvísa, það var reisn yfir henni, hún vandaði klæðaburð sinn og fylgdist vel með tískunni.

Erla var metnaðarfull, bæði fyrir hönd sjálfra sín og barna sinna og óumræðilega stolt af þeim öllum þremur. Hún var dugleg og þrautseig og sagði alltaf hug sinn. Hún var baráttukona og barðist fyrir sínu með kjafti og klóm. Hún var ákveðin og gat verið tunguhvöss ef henni þótti við einhvern. Hún var skapkona og lét ekki nokkurn mann vaða yfir sig. En jafnframt var Erla hress og jákvæð, hún horfði ekki of mikið til baka, eða velti sér upp úr því sem erfitt var, heldur lifði í núinu. Erla hafði skemmtilega frásagnargáfu og mannlýsingar hennar og orðatiltæki voru með því skrautlegra sem gerist. Hún hafði megnustu andstyggð á sykuráti og kallaði sykraðar vörur „rotvarnarviðbjóð“. Óvönduðu fólk vandaði hún ekki kveðjurnar og kallaði „drullujurtir“, hún setti reglulega upp „krókódílabros“ og  taldi það ekki eftir sér að rífa reglulega „kjaft út á axlir“. Hún gat orðið örþreytt á „aulum með hor í eyra og kúk í bandi“ og svo lék hún þetta allt saman svo að viðmælendur hennar stóðu á öndinni af hlátri. Þá talaði Erla um að „hlæja eins og hross“ og það gerði hún líka reglulega.

Ein af vinkonum Erlu vakti athygli mína á myndinni sem Erla deildi á Facebók síðasta daginn sem hún lifði. Þetta er mynd af Landmannalaugum, þar sem koma fyrir fjölbreytileiki litanna í fjöllunum. Sandöldurnar ganga fram og í þeim má finna brúna, blágræna og rauða liti, en ofar vex dökkgrænn gróðurinn sem slær á fjólubláum bjarma. Erla hafði sótt heim Landmannalaugar oftar en einu sinni og þótti vænt um þann stað. Landslagið þar er hrjúft og skrautlegt og skapað af miklum andstæðum. Þar er stundum hrjóstrugt á að líta, þetta er ekki dúllulegt eða krúttlegt landslag á neinn hátt. Þar má lika finna hlýja, ylmjúka og gróðursæla reiti, dýjamosa og blómabreiður sem taka við af þurrum hrjóstrum. Ef manneskjur væru landslag gæti ég vel ímyndað mér Erlu eins og Landmannalaugar. Hún var skrautlegur karakter með fjölmörgum litbrigðum. Hún dáði sterka liti. Í henni fundust andstæður. Hún var stórlynd en einnig hlý. Hún var borgarbarn, en þótti einkar vænt um hrjóstruga náttúru Íslands. Mér er huggun í því að hugsa til þess að síðasta verk Erlu á Facebók hafi verið það að dást að náttúru Landmannalauga.

Andlát Erlu bar brátt og óvænt að. Hún hafði verið með flensu um mánaðarskeið sem henni gekk illa að losa sig við. Hún fór í saumaklúbb með vinkonum sínum eitt miðvikudagskvöld fyrir tæpum hálfum mánuði, var þungt fyrir brjóstinu og ákvað að fara upp á spítala til að láta mynda á sér lungun. Erla dó á bráðadeildinni þetta kvöld 10. október. Og flestum okkar finnst að lífið hafi orðið ögn fátækara fyrir vikið.

Image

Myndin er fengin af FB síðu Erlu Sigurdísar Arnardóttur.

Ásta Bjarnason (1927-2010)

Ketty Ásta Rasmussen Bjarnason fæddist í Marstal á dönsku eynni Ærö 1. febrúar 1927.

Foreldrar Ástu voru Pálína Guðrún Guðbjartsdóttir Rasmussen frá Furufirði á Ströndum og Karl Jóhann Rasmussen sem fæddur var í Marstal. Karl Jóhann var yfirkokkur á skipi, hann hafði kynnst Pálínu á Íslandssiglingum og flutti konuefnið með honum til hans heimabæjar í Danmörku. Pálínu Guðrúnu og Karli Jóhanni varð átta barna auðið og fimm komust á legg. Elstar voru Karla og Ellen, fæddar 1920 og 1923,  þá telpur tvær Ásta og Tove sem létust sem ungbörn, eitt barn óskírt síðan Ásta, sem reyndar var skírð Ketty Ásta. Lestina ráku bræðurnir tveir, Ove og Poul sem fæddust 1932 og 1945. Foreldrar Ástu létust á 8. Áratug síðustu aldar og þrjú af systkinunum eru látin, en Ellen og Poul lifa systur sína. Þau eru bæði búsett í Danmörku.

Ásta var strax mjög söngvin í æsku og kom víða fram m.a. í kirkjum á Ærö. Forðum tíð hafði mamma hennar fellt hugi til sjómanns og siglt með honum á vit nýs lífs í Danmörku. Ásta eignaðist líka ung sinn sjómann. Hann heitir Baldur Bjarnason frá Ögurnesi í Ísafjarðardjúpi.  19 ára fluttist Ásta með Baldri til Íslands og hugðist stunda þar söngnám. Það hafa eflaust verið mikil vonbrigði fyrir unga söngstjörnu frá Danmörku að koma til Reykjavíkur og minna fór fyrir söngnáminu en vonir stóðu til. Ásta talaði litla íslensku og átti því ekki auðvelt með íslensku dægurlögin, en söng þó lög eftir Tólfta September í Gúttó fyrst eftir komuna frá Danmörku. Síðan var hún komin með heimili og börn og aðrar annir tóku við, en hún unni alltaf söng og tónlist.

Ásta vann í fiski suður með sjó fyrst eftir að hún kom til Íslands en var mest heimavinnandi eftir að börnin fæddust.  Ásta og Baldur bjuggu fyrst á Njálsgötunni og eignuðust frumburðinn Bjarna Einar þar 1948. Snemma á sjötta áratugnum fluttu Ásta og Baldur  síðan upp í Blesugróf í gamlan sumarbústað, byggðu við hann og nefndu Laufás. Þar fæddust yngri börnin, Karl Jóhann fæddur 1954 og Ásta Brynja 1974. Í Blesugrófinni hafði verið komið upp ýmsum húsum sem þróast höfðu án sérstaks skipulags í húsnæðisskortinum upp úr heimstyrjöldinni síðari. Kallaðist hverfið um um tíma Breiðholtshverfi, enda tilheyrði þetta svæði áður jörðinni Breiðholti.  Í Blesugrófinni, bæði þeirri efri og neðri bjuggu barnmargar og efnalitlar fjölskyldur. Það hafði sína kosti líka að alast upp í borgarjaðrinum og krakkarnir í Blesugrófinni vörðu miklum tíma úti í náttúrunni. Ásta og Baldur höfðu mikið yndi af blómarækt og skógrækt og kostuðu kapps við að rækta sem mest upp af landinu í kringum Laufás. Ásta hélt alltaf góðu sambandi við fjölskylduna í Danmörku og heimsótti hana reglulega með fjölskyldunni. Hún var mikill barnavinur og dýravinur og mátti ekkert aumt sjá. Laufás var alltaf fullur af krökkum og einu sinni var þar haldið jólaball fyrir krakkana í hverfinu af því að stofan þeirra var svo stór. Ásta átti alltaf ketti og þau tóku að sér púðluhúnd sem átti að lóga og höfðu hjá sér í fimmtán ár í trássi við hundabannið í Reykjavík.

Ásta og Baldur bjuggu í Blesugrófinni vel á sjötta áratug og sáu útborgarhverfin í Árbæ og Breiðholti rísa allt í kringum sig. Síðust árin hafa þau haldið til á vistheimilinu Grund við Hringbraut og naut Ásta þar góðrar aðhlynningar.

Ásta var ljósberi og hún bar með rentu nafn ástar og kærleika. Börn Ástu minnast hennar sem góðrar móður með mikla réttlætiskennd og reisn, og sem alltaf var gott að leita til vegna úrræðasemi hennar og danska húmorsins. Það var alltaf bjart yfir henni þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í lífinu. Og hún átti til að bera hlýju, jákvæðni og ástúð sem fylgdi henni alla tíð og breytt gat depurð þeirra í gleði sem hana heimsóttu.

Ásta Bjarnason lést  28. nóvember s.l. á Grund. Hún hafði lengi verið heilsuveil, en andlát hennar bar snöggt að. Afkomendur hennar og Baldurs eru sjö, þrjú börn, tvö barnabörn og þrjú barnabarnabörn með einu fósturbarni.