Fermingartollar og fleiri tollar

Ég hef verið beðin um að segja mína skoðun á fermingartollum. Það fyrirkomulag að greiða prestum sérstaklega fyrir unnin prestverk varð til með lögum árið 1907, sem enn eru í gildi og nálgast má hér. Þar segir í þriðju grein:

3. gr. Auk launa þeirra, sem ákveðin eru í undanförnum greinum, ber hverjum presti borgun fyrir aukaverk eftir gildandi lögum,  þó svo, að borgun fyrir aukaverk í þarfir þurfamanna greiðist úr sveitarsjóði. Presturinn innheimtir sjálfur borgun fyrir aukaverk.

1931 voru síðan sett lög um ákveðna gjaldskrá, sjá hér,  sem ákvörðuð skyldu á 10 ára fresti fyrir alla presta. Síðasta gjaldskrá var sett fyrir níu árum og hana má finna hér. Skírn kostar 3500 krónur, hjónavígsla 6500, fermingargjaldið er 9300 krónur, og útför kostar 13,900 en síðasttalda gjaldið greiðist úr kirkjugarðasjóði. Auk þess geta prestar farið fram á bensínkostnað ef þeir þurfa að keyra langar leiðir til að vinna prestverk. Reglurnar um það má finna hér.

Þessi lög eru enn í gildi og því innheimta prestar greiðslur fyrir unnin prestsverk.

Árið 2004 sendi foreldri fermingarbarns inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna fermingargjaldsins. Niðurstöðu umboðsmanns frá 2005 má finna hér. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að prestum sé heimilt að innheimta tollinn, en telur þó að dóms- og kirkjumálaráðuneytið ætti að taka til endurskoðunar gjaldskrárákvæðin frá 1931 vegna þess að ríkið er skuldbundið samkvæmt kirkjueignasamkomulaginu að standa undir launum presta. Auk þess telur umboðsmaður að skilgreina þurfi nánar í lögum hvað eigi að teljast aukaverk presta þjóðkirkjunnar. Þessari endurskoðun sem umboðsmaður fór fram á er ekki lokið.  Tillaga var samþykkt á kirkjuþingi 2007 um að lagt verði til við dóms og kirkjumálaráðherra að gjaldtaka fyrir skírn og fermingarfræðslu verði felld niður, sjá hér, en niðurstaða í málið hefur ekki verið fengin ennþá.

Þess má geta að ákveðið var fyrir nokkrum árum að prestar tækju ekki gjald vegna skírnar í messu. Litið er svo á að verið sé að borga sérstaklega fyrir útkallið, en ekki skírnina sjálfa. Foreldrum skírnarbarna gefst því kostur á að þurfa ekki að greiða fyrir skírnina, ef hún fer fram í messu. Ef þau kjósa að kalla prestinn sérstaklega út, þá borga þau honum líka sérstaklega fyrir.

Fermingargjaldið sker sig nokkuð úr öðrum tollum sem innheimtir eru vegna prestverka. Fermingargjaldið er vegna fermingarfræðslu sem sett er með skipulögðum hætti yfir allan veturinn. Þar er ekki um útkall að ræða heldur verk sem er unnið jafnt og þétt yfir veturinn.

Fjórar leiðir eru færar við tilhögun vegna fermingarfræðslunnar.

Sú fyrsta er að halda áfram á þeirri leið sem við erum á, að foreldrar greiði fermingartollinn. Kosturinn við það að fermingarfræðslan greiðist af foreldrum er sá að presturinn getur fengið aðra fræðara með sér og deilt út fermingartollinum. Fleira velmenntað fólk kemur að fræðslunni, með því áhugaverða hreyfiafli sem fylgir því þegar margir góðir leggja saman í púkk. Hver greiðir skatt af sínum hluta. Og prestur með gríðarmörg fermingarbörn getur létt af sér álagi með þessu móti. Gallinn er hins vegar augljós, því að margt fólk munar mjög um þessar upphæðir og telur það óréttlátt að þurfa að greiða sérstaklega fyrir fermingarfræðslu í söfnuðinum sínum, ekki síst vegna þess að hér er ekki um útkall að ræða.

Önnur leiðin er sú sem lagt var til með samþykktinni á Kirkjuþingi 2007. Þar var mælst til þess að gjald vegna fermingar og skírnar verði afnumið, en þess gætt að kjör presta rýrni ekki. Ef laun presta yrðu hækkuð í samræmi við þá kjaraskerðingu sem þeir verða fyrir væri tilmælum umboðsmanns til dóms og kirkjumálaráðuneytis mætt. Á móti kæmi að ríkið þyrfti að greiða meira til presta en áður og í núverandi árferði er ekki mikill áhugi á því. Annar galli sem kemur fram á þessu viðhorfi er sá að ekki er lengur hægt að deila út tollinum með jafnauðveldum hætti og áður.

Þriðja leiðin er sú að gjaldskráin verði aflögð og prestar taki á sig kjaraskerðinguna. Slíkar aðgerðir eru vitaskuld lítt vinsælar af prestum. Í þeim tilfellum þar sem prestar hafa deilt tollinum með öðrum og fengið þannig fleiri með sér í starfið er ekki fyrst og fremst um kjaraskerðingu að ræða, heldur missi af samstarfsmönnunum. Í mínu prestakalli erum við fjögur í fermingarfræðslunni. Þetta fyrirkomulag hefur létt af mér miklu álagi sem eina prestinum í tæplega 6000 manna sókn og veitt mér gleði af því að vinna með öðrum. Fræðslan hefur orðið betri vegna þess að ég er ekki ein með 71 barn. Þau verða um 100 á næsta ári. Fyrir mig er kjaraskerðingin ekki aðalmálið, heldur missir frábærra samstarfsmanna og að gæði kennslunnar fari niður.

Fjórða leiðin og sú byltingarkenndasta er sú að breytt verði því fyrirkomulagi að fermingarfræðslan sé eingöngu á ábyrgð prestanna. Kirkjustarfið er rekið mestmegnis fyrir tilstilli tveggja tekjustofna.  Ríkið stendur skil á launum til presta og ýmiss konar stjórnsýslu kirkjunnar. Í öðru lagi innheimtir ríkið trúfélagsgjöld fyrir öll trúfélög á landinu, líka trúfélagsgjöldin til þjóðkirkjunnar sem kölluð eru sóknargjöld. Þau eru nú um 700 krónur á mánuði fyrir hvern trúfélagsmeðlim 16 ára og eldri, eða sem nemur um 7400 krónum á ári. Þessir fjármunir eru notaðir til að standa straum af kirkju og safnaðarheimili, þar sem því er að skipta, hita og rafmagni, kertum og blómum og öllu starfinu í kirkjunni, helgihaldinu, barnastarfinu, æskulýðsstarfinu, starfi með eldri borgurum, foreldramorgnum, sorgarhópum og svo framvegis.

Einhver hefði haldið að fermingarfræðslan ætti heima sem þáttur í kostnaðarliður í safnaðarstarfinu en svo er ekki vegna þessara samninga um aukaverkin sem áður er getið. Sóknin hefur að vísu greitt hluta af fermingarferðalagi fermingarbarna með foreldrum og stöndugar sóknir hafa margar hverjar getað borgað allt fermingarferðalagið. Best af öllu væri að mínu viti ef fermingarfræðslan væri kostnaðarlegur hluti safnaðarstarfsins og að í fjölmennum söfnuðum væri til þess ráðið vel menntað fólk  til að búa til skemmtileg fræðsluteymi ásamt presti eða prestunum utan um fermingarfræðsluna. Það er til fjöldinn allur af góðu fólki með sérmenntun í guðfræði og kennslufræði sem tæki nýjum atvinnutækifærum fagnandi. Það væri líka í takt við það sem hefur verið að gerast á hinum Norðurlöndunum. En í augnablikinu virðist lítið svigrúm fyrir slíkar breytingar. Sóknirnar eru velflestar mjög illa staddar fjárhagslega vegna þeirrar ákvörðunar ríkisvaldsins að skerða sóknargjöldin um fjórðung eftir hrun.

Og á meðan stöndum við frammi fyrir leiðunum fjórum:  Hver á að borga, fjölskyldurnar, ríkið, prestarnir eða sóknin?  Þar liggur efinn. Og ef ríkið greiddi sóknunum þá peninga sem þeim ber samkvæmt lögum, væri ég ekki í vafa hvert svarið ætti að vera.

2 svör við “Fermingartollar og fleiri tollar”

  1. Takk fyrir þetta. Ég vek athygli á fimmtu leiðinni: „Greiðslum foreldra ætti að verja til þess að greiða fagfólki. Prestarnir taka vissulega þátt í fræðslunni en umsýsla hennar og skipulag er á hendi leiðtoga sem hafa fengið sérstaka menntun á þessu sviði.“ sjá: http://tru.is/pistlar/2012/04/aeskulydsmalin-og-framtidin/

    1. Sæll Skúli og takk fyrir þetta og athyglisverða grein. Að einhverju leyti er þetta formið sem við höfum á fermingarfræðslunni í Grafarholtinu. Umsýslan og skipulagið er reyndar hjá mér, en fræðarar eru fleiri og fá hlutdeild í tollinum. Helst af öllu vildi ég losna við þessar greiðslur foreldra. Þau sem eru í söfnuðinum ættu að hafa þegar greitt fyrir fræðslu á vegum safnaðarins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: