Nú árið er liðið

Á síðasta degi ársins horfi ég yfir árið 2012.

Strax í upphafi árs dró til tíðinda í þjóðkirkjunni, því að kosning biskups Íslands og vígslubiskups á Hólum stóð fyrir dyrum. Ég ákvað að taka þátt í biskupskosningunni. Ég tók þátt vegna þess að ég hef gagnrýnt margt í þjóðkirkjunni og vil taka þátt í að breyta henni. Átta prestar gáfu kost á sér og það upphófst annasamur tími símtala, greinaskrifa og ferðalaga víðs vegar um land. Ég er sannfærð um að kosningarnar og umræðurnar sem þeim fylgdu hafi verið þjóðkirkjunni til góðs og slegið takt nýrra tíma. Mig langar líka til að þakka þeim fjölmörgu sem studdu mig með atkvæði sínu, vinnu og hvatningu.

Sjálfri fannst mér alveg frábært að fara í heimsóknir út um allt land og rifja upp gömul tengsl við landsbyggðina. Ég fór bæði á sunnanverða og norðanverða Vestfirðina, flæktist um Snæfellsnes með Kalla Matt, fór til Akureyrar og norður til Ólafsfjarðar og síðan um Austfirði og Skaftafellssýslur. Ég skrifaði ferðasögur um tvær af heimsókniunum sjá hér og hér. Þessi ferðalög eru eitt af því sem stendur upp úr við árið 2012 fyrir mig. Mér þótti svo vænt um gestrisni allra þeirra sem tóku á móti mér í vinnunni og heima, gáfu mér að borða, skutu yfir mig skjólshúsi og töluðu við mig um framtíð kirkjunnar. Það skipti einhvern veginn meira máli en það hvort þau enduðu á að kjósa mig eða ekki. Og kirkjan fékk tvo nýja biskupa, fyrstu konurnar á biskupsstóli.

Þetta hefur verið vinnusamt ár því að prestakallið er orðið stórt og blómlegt. Aldrei hafa messurnar verið fleiri og skírnir og fermingar í prestakallinu náðu líka sögulegu hámarki, meðan hjónavígslur og útfarir voru álíka margar og áður. Bókamarkaður kirkjunnar eignaðist sinn eigin stað og stendur nú að stórum hluta undir líknarstarfi kirkjunnar. Ég horfi til þess að efla hjálparstarf og líknarstarf enn meira á næsta ári.  Svo vona ég að ég standi mig í stykkinu áfram, í að vera fólkinu sem ég er sett til að þjóna einhver stoð og boða kærleiksboðskap Krists eftir því sem ég get og kann. Ég vona að það fari að koma annar prestur í Guðríðarkirkju svo að prestsstarfið éti ekki um of upp fræðimanninn, eiginkonuna, mömmuna og allt hitt sem ég er.

Ég gaf út eina ritrýnda fræðigrein á árinu í bók sem heitir Gendering Christian Ethics. Greinin mín fjallar um heimspekinginn Hönnuh Arendt, Ágústínus og hugmynd hennar um afgrunn frelsisins.  Bókin er til á Amazon, sjá hér. Ég endurskoðaði líka fyrsta kaflann af doktorsritgerðinni og er að vona að tími gefist til að fara í gegnum hina fjóra á nýju ári, svo ég geti sent þá til útgefandans eins og ég hafði lofað. Ég er einn af ritstjórum tímaritsins Journal of ESWTR og var að vinna að útgáfu og ritrýni á árinu. Og ég kenndi Trúarheimspeki á árinu við HÍ, með skemmtilegum nemendum og spennandi efni.

Og svo settist ég í ritstjórn www.knúz.is um mitt ár. Starfið með knúzinu hefur verið bæði annasamt og ótrúlega skemmtilegt með frábæru fólki.

Í gær sat öll fjölskyldan yfir pasta og sósu og strákarnir þrír léku á alls oddi, hlógu og fífluðust við matarborðið. Ég er svo þakklát fyrir allar þessar matarsamverur og fjölskylduna mína,  kallinn, strákana og tengdadótturina og allt það sem við höfum grínast og bullað á árinu. Bróðir minn gifti sig á árinu og tengdapabbi átti 85 ára afmæli, svo að við höfum líka átt góðar stundir með stórfjölskyldunum okkar. Lopi köttur hefur setið vaktina sem letidýr heimilisins. Gaukurinn Gídó dó síðsumars, fimmtán ára að aldri og var jarðaður með viðhöfn, en vinur hans Belli (sem upphaflega var keyptur sem Bella) er ern og syngur við raust í búri sínu.

Besti dagur ársins var um Verslunarmannahelgina þegar við Rögnvaldur fórum í Þakgil. Við sváfum í tjaldi í tvær nætur og gengum upp að Mýrdalsjökli. Ég rann á rassinum niður heila brekku. Og svo las ég Njálu inni á milli fjallanna og ímyndaði mér Flosa og menn hans á flakki um þessa slóð á leið til Njálsbrennu. Ég get ekki lýst því betur hvers vegna þessi dagur var svona stórkostlegur. En ég sæki þrótt og gleði í hann.

Og ég veit að árið 2013 verður frábært ár.  Gleðilegt ár kæru lesendur og takk fyrir liðna árið!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: