Friðrika og farísearnir

Friðrika Benónýs skrifar bakþanka í morgun undir yfirskriftinni „Femínistar og farísear“ og vísar í orð Krists úr Matt. 23:13: „Vei yður fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Pistilinn má nálgast hér.

Friðrika hefur pistil sinn á að ræða um atburðina í Steubenville þar sem tveir unglingspiltar báru dauðadrukkna stúlku á milli partýja, nauðguðu henni ítrekað undir fagnaðarlátum veislugesta, tóku verknaðinn upp á myndband, settu á You tube og uppskáru mikla samúð á bæjar og landsvísu þegar stúlkan tók upp á að kæra þá fyrir dómstólum. Þessa hryggilegu atburði í Steubenville og reiðina yfir meðvirkni með ofbeldismönnum tengir Friðrika síðan við klámvæðinguna og fagnar nýframkomnu frumvarpi innanríkisráðherra.

Ég vil taka undir þessa meginpunkta greinar Friðriku. Það eru sterk tengsl á milli menningar sem lítur fram hjá og jafnvel fagnar nauðgunum og klámvæðingar, tengsl sem byggja á hlutgervingu kvenlíkamans og virðingarleysi fyrir öryggi og hamingju kvenna. Og líklega eru fáir hópar í veröldinni sem hafa barist jafn einarðlega fyrir því að benda á tengslin  milli nauðgunarmenningar og klámvæðingar og einmitt femínistar. Ég bendi t.d. á yfirlýsingu  nú í vikunni á femíníska vefmiðlinum knúz.is þar sem femínistar um heim allan og úr ýmsum áttum lýsa yfir stuðningi sínum við aðgerðir innanríkisráðherra.

Það vekur því undrun mína hvernig Friðrika snýr pistli sem að stofni til fjallar um nauðgunarmenningu og klámvæðingu yfir í gagnrýni á femínisma.  Friðrika vísar í að einhvað „fólk“ sem hún nafngreinir ekki sé á móti höftum á tjáningafrelsi. Síðan vitnar hún í orð Maríu Lilju Þrastardóttur í gær í Morgunblaðinu um að Íslendingar séu betur meðvitaðir um nauðgunarmenningu en áður var og sætti sig að stórum hluta ekki lengur við meðvirknina. Friðrika er að vitna í þennan bút úr Morgunblaðinu:

María Lilja Þrastardóttir, talskona Druslugöngunnar á Íslandi, sagði að sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga. „Við fundum það mjög sterkt með Druslugöngunni að hlutirnir hafa breyst. Íslendingar eru almennt mjög vel upplýstir þó svo að þessi viðhorf kunni að leynast einhversstaðar. Þú þarft ekki að leita lengra en á kommentakerfi vefmiðlanna til að sjá að það er enn fólk þeirra skoðunar að fórnarlömb nauðgana, langoftast konur, geti sjálfum sé um kennt,“ segir María Lilja.

Orð Maríu Lilju um að Íslendingar séu á leið til meiri upplýsingar skapa sumsé þáttaskil í grein Friðriku, þar sem hún hættir að tala um tengsl nauðgana og kláms og yfir í hvað femínistar séu miklir hræsnarar.

Steininn tók þó úr í umræðunni í gær þegar forsvarskona Druslugöngunnar fullyrti í samtali við mbl.is að það að taka afstöðu með gerendunum og kenna fórnarlambinu um væri ekki vandamál hérlendis og að „sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga“. Í hvaða heimi býr hún?

Ég get ekki séð að María Lilja hafi í orðum sínum gert lítið úr nauðgunarviðhorfum hér á landi. Hún nefnir einmitt kommentakerfin og að enn sé til fólk sem telur að fórnarlömb nauðgana geti kennt sjálfum sér um. Hún hins vegar leyfir sér að vera bjartsýn, að trúa því að umræða og barátta undanfarinna ára hafi breytt einhverju og muni halda áfram að breyta Íslandi og vonandi heiminum. Ef slík von og bjartsýni flokkast undir faríseisma, þá bið ég um meira af slíku.

Eftir að hafa rassskellt einn femínista fyrir að leyfa sér að benda á breytingar á þjóðarsálinni, og vitnað í óskilgreindan hóp af „sama fólki“ sem mótmælir Steubenville en er á móti frumvarpi innanríkisráðherra límir Friðrika síðan titil á greinina sína:  „Femínistar og farísear“ og endar greinina á að bæta þurfi kynlífsfræðslu en tjá sig minna „um eigið ágæti“.

Grein Friðriku byggist einhvern veginn svona upp.

1. Steubenville réttarhöldin opinbera nauðgunarmenningu

2. Nauðgunarmenning helst í hendur við klámvæðingu.

3. Innanríkisráðherra vill setja lög sem sporna gegn klámvæðingu.

4. Einhvað „fólk“ er ekki sammála þessu frumvarpi.

5. Einn femínisti segir að sem betur fer sé umræða um nauðganir að batna á Íslandi, en á því séu því miður stórar undantekningar þar sem brotaþolum er kennt um.

6. Niðurstaða:  Femínistar eiga að tala minna um eigin ágæti.  Bíddu, ha?

Getur einhver útskýrt fyrir mér þessa röksemdafærslu?

P.S. Glöggur lesandi bloggsins benti mér á að umræðan um takmörkunina á klámi er ekki orðið að frumvarpi ennþá og réttara væri að tala um hugmyndir innanríkisráðherra. Því er hérmeð komið á framfæri.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: