Skammviskubit og afnýlenduvæðing á jólum

Það er dásamlegt að vera kennari, en stundum sakna ég þess að vera prestur. Þannig háttar til dæmis fyrir jólin, þegar mín gömlu starfssystkin sitja kengbogin yfir tölvunni og skrifa jólaræður sínar. Ég er sjálf að undirbúa kennslu næsta árs um prédikunina, sem er ákaflega áhugavert verkefni. En svona rétt fyrir jólin stígur gamall spámannsandi upp í kennaranum. Mig langar líka að prédika og þess vegna geri ég það skriflega á heimasíðunni minni.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I. Skammviskubit

Blessuð jólin eru að koma og mig langar svo að finna jólaandann í myrkrinu. Grindvíkingar hafa verið flóttamenn í eigin landi síðan í byrjun nóvember og eldgosið um síðustu helgi eykur enn á fjárhagslegt og tilvistarlegt óöryggi. Hælisleitendum er neitað um alþjóðlega vernd. Hart er í heimi, kalt í Úkraínu og stuðningur að dofna við þau sem líða. Öfga- hægristefna er á uppleið í Evrópu og gyðingaandúð fer vaxandi um allan heim. Við erum minnt á loftslagsvandann reglulega, dýravelferð, fátæktina í heiminum og svo margt fleira sem miður fer. Það er dimmt á norðurhveli jarðar og margir fátækir hér á landi. Og frá því í október hefur geisað hryllilegt stríð í landinu helga, þar sem saklausir borgarar eru hraktir frá heimilum sínum, alþjóðalög eru brotin, sjúkrahús sprengd í loft upp og börnin deyja undir rústum húsanna.

Mér finnst eins og öllu sé snúið á hvolf og að allt sem ég geri sé vitlaust í ár. Ég skammast mín fyrir að eiga öruggt húsaskjól þegar samlandar mínir í Grindavík búa við óvissu og eru að borga af tvöföldu húsnæði. Ég braut gegn betri vitund og ákvað að hafa hamborgarhrygg um jólin eins og á jólum bernsku minnar, jafnvel þótt ég viti að svín búi flest við slæman aðbúnað. Mig langaði svo að hitta strákana mína að ég flaug til þeirra allra fyrir jólin til Norður-Noregs og Englands og eyddi fullt af peningum. Svo keyrði ég norður á Akureyri til eiginmannsins í flughálku og á nagladekkjum. Ég sé börn á Gaza í hverri fjárhússenu á jólakortunum sem ég skrifa. Ég er með samviskubit og skammviskubit, svínviskubit, flugskömm, nagladekkjaskömm, loftslagskvíða, neysluskömm og heimshryggð. Ég þrái frið, frá ólgu undirdjúpanna, frá misskiptingu auðs og réttinda, frá hávaða stríðsvélanna. Ég veit ekki alveg hvar jólafriðinn er að finna.

II. Texti: Jes. 9:1-6

Fyrri ritningarlestur helgrar jólanætur er þessi hér frá spádómsbók Jesaja:

Lexía: Jes 9.1-6
Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma.

Við fyrstu sýn virðist textinn svara öllum þeim spurningum sem ég hafði í upphafi um hvar friðinn sé að finna. Streymir ekki friðurinn til okkar frá hinum helgu síðum Biblíunnar? Þar hefur Jesaja spámaður í norðurhluta Júda á áttundu öld fyrir Krist hafist handa við að vekja athygli á ógnum sem steðja að Júdaríkinu. Hann hvetur hinn unga konung Ahaz til dáða og að fylkja sér undir merki Drottins YHWH. Í níunda kafla Jesaja eru skýin farin að hrannast yfir öryggi Júdaríkis og Jesaja flytur fólkinu sínu huggunarboðskap um höfðingja af ætt Davíðs, sem mun koma á langþráðu friðarríki. Hann sæmir hann fjórum dásamlegum titlum sem tengjast þeirri miklu ábyrgð sem höfðinginn á að standa undir. Hann er „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir og Friðarhöfðingi“.

Við horfum til textans yfir lönd, höf og brotnar vonir þar sem ríki gyðinga fornaldar Ísrael og Júda féllu. Hófst þá hin mikla herleiðing gyðinga til Assýríu, Babýlon og til endimarka jarðarinnar. Þegar kristnin skaut rótum fyrir tvö þúsund árum var ekki lengur horft til þessara margra alda gömlu átaka, heldur voru textarnir endurtúlkaðir. Friðarhöfðinginn, sem koma skyldi var þannig ekki lengur stjórnmálalegur leiðtogi sem stilla skyldi til friðar á stóli Davíðs, heldur Kristur og Messías. „Myrkrið“ sem að steðjar í „landi náttmyrkranna“ er ekki lengur assýrísk yfirráð, heldur túlkað að nýju fyrir hverja kynslóð og hvert samhengi. Fyrir okkur á norðurslóðum, föllleit eftir D-vítamínsskort, depurð, drunga og dimmviðri er myrkrið sem gengið er gjarnan túlkað sem skammdegið sjálft. „Og hátt á himni hækkar sól“ sem er Jesús Kristur.

Textinn er sá sami í mörg þúsund ár. Augun sem lesa hann eru ný og fersk og lesa frá sínum stað og stund. En textinn hefur líka tilhneigingu til að festast í tilteknum túlkunarskorðum sem við horfum ekki alltaf nógu gagnrýnið á. Það skiptir þess vegna máli hvernig við túlkum hlutverkin í textanum.

Hverjum er barnið fætt?

Hver fær að taka þátt í friðnum?

III. Afnýlenduvæðing

Þegar við horfum til boðskapar jólanna langar mig að horfa til tveggja guðfræðinga, sem geta hjálpað okkur að lesa textann frá nýju sjónarhorni. Báðir fást þeir við afnýlenduvæðingu, það er að beina sjónum að kúgun og ofbeldi lands og lýða sem oft liggur sem ósýnilegt samhengi texta. Afnýlenduvæðing, á ensku decolonisation snýst um að lesa milli línanna nýlendusamhengi, þar sem annar aðilinn hefur verið gerður ósýnilegur, hlægilegur og ómennskur og þar sem hefðbundin túlkun sveigir sjálfkrafa framhjá þessu falda samhengi.

Annar fræðimannanna er palestínski guðfræðingurinn Mitri Raheb sem skrifaði bókina Decolonising Palestine: The Land, the People, the Bible (2023).1 Í bókinni fjallar hann um það hversu auðveldlega mörgum tekst að raða Ísraelum nútímans inn í hlutverk Ísraelsmanna fortíðar í Biblíutúlkun sinni, rétt eins og sama fólkið hafi verið flæmt úr landi á áttundu öld fyrir Krist og tekið svo upp þráðinn aftur um miðja tuttugustu öld. Og á sama hátt er Palestínumönnum raðað inn í gömul hlutverk Kanverja og Filistea. Að sönnu hvílir erfðaefni þessara fornu þjóða í Ísraelum og Palestínumönnum nútímans, en arfur þjóðanna, tengsl þeirra við land og hefðir er miklu flóknari en svo einföld söguskoðun um hið fyrirheitna land.

Raheb hvetur okkur til að hugsa um öll þau heimsveldi sem hafa ráðið landinu helga, frá Assýríu, til Babýloníumanna, til Persíu, Alexanders mikla, Rómverja, Býsantíumanna, araba, krossfara, Ayyubida, Ottomana, breska heimsveldisins og loks Ísraelsríkis. Hann segir:

„Það er löngu kominn tími til að þróa guðfræði sem horfir á nýlenduvæðingu Palestínu sem hluta af evrópskri landnámsnýlendusögu. Guðfræðingar ættu að ókyrrast þegar fyrirheitna landið er nýlenduvætt, þegar árþjóðir eru rændar landi sínu og auðlindum og skildar eftir sem landlausir flóttamenn eða geymdar í flóttamannabúðum.“2

Í stað biblíutúlkunar sem raðar nýju fólki inn í gömul hlutverk hvetur Raheb til þess að við horfumst í augu við að samfélögin fyrir botni Miðjarðarhafs eru og hafa verið fjölmenningarsamfélög, með margar raddir, tungur, trúarbrögð og menningarstrauma.

Það er því hlutverk þeirra sem vilja lesa fagnaðarboðskapinn með nýjum augum um þessi jól að velta fyrir sér hvernig við lesum textann, hverjum við gleymum og hverjum við réttum hugmyndafræðileg tól til yfirráða yfir öðrum. Með Raheb getum við spurt, þegar við lesum texta helgrar jólahátíðar:

Hvaða „harkmiklu hermannastígvélum“ mótmælum við?

Úr hverjum er blóðið á skikkjunum?

Hverjir bera okið um þessi jól?

Hvaða stígvél fá óáreitt að þramma yfir lönd, inn í bakgarða og inn í hús saklaus fólks?

Af hverju gengur okkur svona hræðilega illa að brjóta bareflin?

Hvernig er hægt að stuðla að friðarríkinu?

Seinni guðfræðingurinn sem ég nefndi er kúbansk-ameríski guðfræðingurinn Miguel A. De La Torre, sem skrifaði greinina „A Colonized Christmas Story“ árið 2017.3 Í greininni segir De La Torre að sagan af fæðingu Jesú sé dæmi um „falska minningu“, sem miði að því marki að fela hversu róttækar, pólitískar afleiðingar megi draga af sögunni. Í staðinn leggur De La Torre til að fæðingarfrásögurnar af Jesú séu lesnar sem andnýlenduhyggjutextar og hefst síðan handa við að lesa þær með samhengi Mið-og Suður-Ameríkufólks í huga.

De La Torre dregur upp fimm atriði frá fæðingarfrásögunum sem hann hafa sérstaklega mikið gildi fyrir fólk frá hans heimshluta sem vill andæfa nýlenduyfirráðum.

Hið fyrsta er að fæðing Jesú af ungri, valdalausri stúlku frá ómerkilegum sveitabæ sé hnefi steyttur framan í feðraveldið. 4 Í öðru lagi hafi Jesús verið Mestizo, með óræðan uppruna, sem löngum hafi verið litið niður á og tengt við ljótleika og arfgengt, lélegt siðferði. Hinn óræði uppruni Jesú og spurningarnar um það hver sé faðir hans undirstrika þannig að dómi De La Torre að Jesús er einn af utangarðsfólkinu, ekki forréttindafólkinu.

Í þriðja lagi nefnir De La Torre Las Posadas siðinn í Mið-Ameríku. Las Posadas merkir bókstaflega „gististaðirnir“ og felst í því að níu daga fyrir jól gangi pílagrímar um með hinni heilögu fjölskyldu. Las Posadas gefi þannig tækifæri til að íhuga aðstæður þeirra sem er snúið frá í gistihúsunum, koma að luktum dyrum og eru hvergi boðnir velkomnir. Las Posadas er tækifæri til að æfa sig í því að vera veitulli og skapa samfélag þar sem allir geti fundið heimili við sitt hæfi.5

Fjórða og fimmta atriðið hjá De La Torre felst síðan í því að horfa á guðspjallið sem samstöðu Guðs með hinum fátæku og loks að horfa á Jesú sem þann sem flýr Heródes og fer yfir landamæri.6 Jesús sem er fátækur, Jesús sem er vegabréfslaus flóttamaður passar ekki inn í regluverk heimsveldisins.

Þegar við lesum texta Jesaja um barnið sem okkur er gefið, Guðhetjuna og Friðarhöfðingjann sem okkur er sendur á jólunum, þá er það hluti af að túlka textann að nýju með aðstoð afnýlenduvæðingar. Þessar lestraraðferðir af jaðrinum hjálpa okkur að hugsa til hans sem fátæks barns einstæðrar móður af óræðum uppruna, sem Mestizo.

IV. Frá textanum á léreftið og inn í hjartað

Í morgun rakst ég á nýja helgimynd eftir Kelly Latimer, en hún er listamaður sem hefur einbeitt sér að því að mála félagslegar aðstæður líðandi stundar með aðferðum og táknmáli helgimyndanna. Myndin hefur að sumu leyti á sér hefðbundið yfirbragð fjárhússenunnar. María og Jósef eru með barnið sitt inn í lokuðu rými, en „fjárhúsið“ er ekki fjárhús. Þau hafa grafist undir rústum húsa og yfir þeim gnæfa byggingar sem standa í ljósum logum og verða eldi að bráð. María heldur litla barninu næst sér og Jósef breiðir faðminn yfir þau bæði. Þau eru brún í framan, ekki fölleit eins og á flestum póstkortum og senan er Gaza nútímans. Bak við eina bygginguna má glitta í Betlehemsstjörnuna sem lýsir dauft í myrkrinu. „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.“

Eitthvað við þessa mynd hreyfði við mér í skammviskubitinu, bölmóðnum og vanmættinum í aðdraganda jóla, sem ég lýst í upphafi minnar ræðu. Vonarneistinn innra með mér snýst ekki um að ég horfi núna bara á stjörnuna og gleymi fólkinu undir rústunum. Ef við teljum okkur þurfa að velja á milli hinnar eilífu náðar og erfiðra aðstæðna staðar og stundar, þá eru jólin bara stund fyrir forréttindafólk.

Öllu heldur hefur textalesturinn hjálpað mér til að sjá hvort tveggja neyðina og vonina, án þess að líta undan, eða koðna niður í eigin vanmætti við að gera hlutina rétt (ég má samt alveg standa mig betur í því). Myndin orðar í myndum á einhvern hátt það sem ég er að hugsa, kvölina, varnarleysið, ofbeldið og vonina sem grimmd og tilgangsleysi getur ekki gleypt. Sem pílagrímar í Las Posadas tökum við þátt í því að skapa barninu rúm í mannheimum, barninu sem fer yfir landamæri heimsveldisins. Sem lesendur Biblíunnar sem ekki sættum okkur við framhliðar jólakortaútgáfunnar af Jesú, leitum við þess sem felst í textanum, gefst okkur kraftur og von til að eygja þessa stjörnu í sortanum miðjum.

Þá getum við sagt

„Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Gleðileg jól!

  1. Mitri Raheb, Decolonizing Palestine: The Land, the People, and the Bible, Maryknoll, Orbis Books, 2023. ↩︎
  2. Raheb, Decolonizing Palestine, 90. ↩︎
  3. Miguel De La Torre, „A Colonized Christmas Story“, Interpretation 71:4 (2017): 408-417. ↩︎
  4. De La Torre, „A Colonized Christmas Story,“ 409. ↩︎
  5. De La Torre, „A Colonized Christmas Story,“ 413. ↩︎
  6. De La Torre, „A Colonized Christmas Story,“ 416. ↩︎