„Þegar biskupslaust er“

Biskupinn er hinn æðsti andlegi embættismaður í landinu ; undir honum standa allir klerkar landsins, allar kirkjur þess og öll andleg málefni ; hann er þannig andlegur yfirvaldsmaður, en þó aptur látinn standa undir landshöfðingjanum.

Biskuparnir eru útnefndir af konungi, og eru síðan vígðir biskupsvígslu, nú af Sjálandsbiskupi, og hafi þeir ekki fyrr verið prestsvígðir, eru þeir áður vígðir prestsvígslu….

… Þegar biskupslaust er á landshöfðingi að setja einhvern prest á meðan, til að gegna biskupsstörfum ; hann nefnist stiptprófastur eða offisialis : störf hans eru hin sömu sem biskupanna.

Jón Pjetursson, Kristniréttur, önnur útgáfa, Reykjavík, Prentsmiðja Sigf. Eymundssonar, 1890, 165, 169.

Eitt hundrað og þrjátíu ár hafa liðið frá því að Jón Pétursson skráði Kirkjurétt sinn. Margt hefur breyst varðandi lagalegan ramma biskupsembættisins, hver skipi biskup, hver vígi biskup, og hvað eigi að gera þegar stóllinn er auður. Landshöfðingjaembættið var lagt niður árið 1904 þegar Ísland hlaut heimastjórn. Fimm árum síðar voru stofnsett vígslubiskupsembætti til þess að ávallt væri hægt að vígja biskup til starfa á Íslandi og til gegna embættinu þegar biskupslaust yrði í landinu sem offisialis. Hvorki þyrfti því að leita til Sjálandsbiskups um vígslu, né grípa til þess úrræðis að setja prest í biskupsembættið. Íslendingar kvöddu kónginn árið 1944 og stofnuðu lýðveldi og eftir það skipaði forseti Íslands biskupinn. Kirkjuþing þjóðkirkjunnar varð til 1958 og fagnaði því 65 ára afmæli 18. október s.l. Árið 1997 jókst sjálfstæði þjóðkirkjunnar í eigin málum. Fyrst í stað hélt kirkjumálaráðuneytið áfram að skipa sóknarpresta, en biskup tók að sér að skipa aðra presta. Eftir 2007 voru allir prestar skipaðir af biskupi Íslands.

Alþingi einfaldaði lagaumgjörð um þjóðkirkjuna árið 2021 og var kirkjuþingi að mestu treyst fyrir að stjórna kerfum kirkjunnar með starfsreglum innan lögmæltra marka. Við breytingarnar 2021 hættu prestar og biskupar að vera ríkisstarfsmenn og forseta Íslands var ekki lengur ætlað að skipa biskup. Kirkjuþing samþykkti starfsreglur fyrir presta sama ár, sem líktust því kerfi sem prestarnir höfðu búið við hjá ríkinu. Umboð þeirra til prestsþjónustu endurnýjast í flestum tilfellum sjálfkrafa ef ekki liggja fyrir áminningar og alvarleg embættisglöp. Þegar kom að biskupsembættinu samþykkti kirkjuþing hins vegar nýjar starfsreglur þar sem fram kom að kjósa þyrfti um embættið á sex ára fresti. Starfsreglurnar nr. 9/2021-2022 má lesa hér.

Hér hefur kirkjuþing gert umfangsmiklar kerfisbreytingar í þá átt að gera biskupsembættið að tímabundnu embætti, sem kjósa þarf um á nokkurra ára fresti, í stað þess að vera varanlegt embætti, eins og verið hefur. Sú sýn á biskupsembættið er ólík starfsháttum lútherskra kirkna annars staðar á Norðurlöndum, í Eystrasaltslöndum og hjá anglíkönskum kirkjum á Bretlandseyjum, sem þjóðkirkjan er í sérstöku samkomulagi við. Þetta samkomulag er kennt við borgina Porvoo í Finnlandi. Það var innsiglað árið 1992 og vegna þess taka biskupar frá lútherskum og anglíkönskum systurkirkjum samkomulagsins þátt í hverri biskupsvígslu kirknanna sem í hlut eiga. Í 48. grein Porvoo yfirlýsingarinnar segir um biskupsvígsluna:

Þannig þiggur biskup við vígslu sína tákn um guðlega velvild og varanlegt umboð til að leiða kirkju sína í sameiginlegri trú og postullegu lífi allra kirkna.

Lesa má yfirlýsinguna hér. Ekki hefur komið fram hvort kirkjuþing hefur hug á að draga íslensku þjóðkirkjuna út úr Porvoo samkomulaginu þar sem biskupsembættið er ekki lengur varanlegt, eða hvaða áhrif sú ákvörðun hefur á guðfræði biskupsembættisins að það eigi nú að vera til sex ára, en ekki starfsævina á enda.

Sú ákvörðun að breyta biskupsþjónustunni frá varanlegu umboði í tímabundið umboð sem kjósa þurfi um aftur og aftur er þegar farin að hafa miklar afleiðingar fyrir kirkjuna. Þann 16. október s.l. komst úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar að þeirri niðurstöðu að þar sem skipunartími biskups hafi runnið út um mitt ár 2022 og þar sem kosning hafi ekki farið fram áður en skipunartíminn rann út, hafi sú sem stöðunni gegndi verið umboðslaus til að gegna embættinu frá miðju síðasta ári. Lesa má úrskurðinn hér.

Málið snýst þannig um tilfærslu frá varanlegu til tímabundins kirkjulegs embættis og kosningu sem kirkjuþing lét ekki fara fram í tæka tíð. Úrskurðurinn (eða öllu heldur starfsreglurnar og skorturinn á að kirkjuþing hafi framfylgt eigin starfsreglum með kosningum) hefur stefnt öllum stjórnsýsluákvörðunum biskupsembættisins síðasta árs í uppnám.

Aðstæðurnar hljóta teljast einsdæmi í íslenskri kirkjusögu. Biskupsstólar verða venjulega lausir vegna þess að biskuparnir láta af embætti eða látast í embætti, ekki vegna formgalla, eða kosningar sem aldrei fór fram. Í þeim aðstæðum þar sem biskupslaust verður hafa reglur enda verið skýrar um það hvernig brugðist skuli við og af hverjum, eins og nefnt er hér í upphafi. Í 15. gr. laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem í gildi voru til ársins 2021 var sérstök grein um það hvað eigi að gera þegar stóllinn væri ekki setinn.

Nú fellur biskup Íslands frá eða lætur af embætti og skal þá sá vígslubiskup, sem eldri er að biskupsvígslu, gegna embætti hans þar til biskupskjör hefur farið fram og nýr biskup Íslands hefur fengið skipun í embætti sitt.

Brottfallin lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar má nálgast hér. Samsvarandi lagagrein er ekki að finna í núverandi lögum um þjóðkirkjuna. Kirkjuþing hefur ekki sett starfsreglur þar sem fram kemur hver eigi að bregðast við í þeim aðstæðum þar sem biskupslaust verður. Jafnvel þótt tveir vígslubiskupar séu til í landinu sem báðir voru vígðir með Porvoo biskupum og báðir með gilt umboð til biskupsþjónustu er núverandi regluverk kirkjuþings ekki nógu skýrt til þess að taka af vafa um hvernig eigi að skipta þeim inn á völlinn.

Í starfsreglum um vígslubiskupa nr. 33/2022/2023 kemur fram í 2. gr. að þeir „starfa í umboði biskups Íslands“ og „annast þau biskupsverk sem biskup felur þeim“. Í 7. gr. segir að sá biskup sem sé eldri að biskupsvígslu sé „staðgengill“ biskups Íslands í „forföllum og leyfum biskups“. Starfsreglurnar má lesa hér. Ekki kemur skýrt fram hvað eigi að gera þegar biskup Íslands er ekki aðeins forfallaður eða í leyfi, heldur sé embættið ósetið. Ekki er hægt að starfa í umboði biskups sem er ekki með umboð sjálf.

Hér er uppi gríðarlega alvarleg staða í íslensku þjóðkirkjunni, sem krefst skjótra og markvissra viðbragða.

Kirkjuþing kemur saman í lok næstu viku og þar skiptir öllu máli að þingmenn geti horft saman á þau mál sem bregðast þarf við svo að biskupsembættið verði starfshæft. Sum mál eru mikilvæg en ekki aðkallandi, önnur mikilvæg og aðkallandi. Nú er tími hins síðarnefnda og fyrsta mál á dagskrá er að skýra umboð vígslubiskupa til að taka við þegar biskupslaust verður í landinu. Þannig verður unnt að halda í horfinu fram að næstu biskupskosningum og taka þær stjórnsýsluákvarðanir sem taka þarf.