Ótti tröllanna

Prédikun í Seltjarnarneskirkju 5. febrúar 2023 á fyrsta sunnudag í níuviknaföstu (septuagesimae)

Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum. 5. Mósebók 8.7

Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. 1. Korintubréf 3:11

Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Mattheusarguðspjall 25: 29

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Í síðustu viku fór ég á áhugaverða málstofu hjá Guðfræðistofnun Háskóla Íslands. Málstofan fólst í því að höfundur heimildarmyndarinnar Tímar tröllanna, Ásdís Thoroddsen sýndi ýmis brot úr myndinni og fjallaði um hana. Síðan voru umræður á eftir. Myndin er frá árinu 2022 og verður sýnd í Ríkissjónvarpinu nú í haust. Ég hvet ykkur til að horfa á hana.

Myndin fjallar um hugmyndir Íslendinga um tröll, frá Eddukvæðum og goðsögum, til Íslendingasagna og þjóðsagna,  hvernig tröllatrúin blandast saman við kristinn sið í þjóðtrúnni, um grýlur, jólasveina og leppalúða og hvernig þessi íslenski hugarheimur tengist því hvernig við hugsum um nettröll nú á dögum. Í myndinni er talað bæði við fræðimenn og fróðleiksfólk um tröllin í bókmenntum, sögum og listum og líka tröllin í okkur sjálfum.

Í myndinni var rætt um það hvernig tröllin hafa löngum staðið fyrir frumafl mennskunnar, sköpunarkraft og kynhvötina og að íslenskar tröllahefðir séu ólíkar tröllasögum á öðrum Norðurlöndum vegna þess að hér á landi voru skessurnar í aðalhlutverki, ekki tröllkarlarnir. Svo var fjallað um krúttvæðingu tröllanna, að við stillum þeim upp sem einhverju sætu og skrýtnu sem hægt er að selja túristum, en bælum niður hið neikvæða og ógnhvekjandi sem fylgir gömlum sið.

Eitt af því sem ég lærði af Tímum tröllanna var að á hinum kristnu miðöldum var hugtakið tröll ekki aðeins notað um goðsagnakenndar verur í fjöllunum, heldur um utangarðsfólk, fólk sem hafði brotið strangar reglur kirkjunnar og fólk sem hafði einhverja hulda hæfileika. Þar kom líka fram sem við þekkjum öll sem þjóðsögum unna að það sem tröllin óttast allra mest sé kristinn siður. Því reyna þau sem eru ásótt af tröllum í þjóðsögunum gjarnan að hringja kirkjuklukkum eða fara inn í kirkju sér til bjargar. Ef klukkan hræðir tröllin frá, þá getur dagsljósið virkað sem varanleg lausn til að losna við tröllin, því að mörg tröll verða að steini þegar þau sjá sólina.

Í þessum sagnaarfi birtist hin tvíræða staða tröllanna. Þau merkja svo margt samtímis. Þau standa fyrir risavaxna hættu sem að lífinu steðjar, stundum fyrir illsku og fordæðuskap, en líka fyrir jaðarsetningu þeirra sem ekki passa inn í venjulegt samfélag. Tröllin standa því á einhvern furðulegan, þverstæðukenndan hátt bæði fyrir vald og valdleysi, fyrir illt, gott og hið frumlæga sem hvorki er gott eða vont. Og þau verða að steini þegar geislinn fellur á þau.

Inn í allar þessar tröllasögur í bráðum tólf hundruð ár er síðan blandað innskotum af reiðum karlmanni sem er að pikka boðskap sinn inn á tölvu. Hann sötrar kaffið með hæðnisglott á vörum meðan hann hamrar inn svívirðingar inn á netið, sem flestar snúast um að níða niður konur, brúnt fólk og fólk með innflytjendabakgrunn og gera úr þeim staðalímyndir. Hann kallar þetta fólk „það“, spyr hvort ekki eigi að fara með „það“ til dýralæknis og láta aflífa það, og margt fleira ljótt. Öll tilsvörin sem maðurinn skrifar inn eru raunveruleg svör sem íslensk nettröll hafa sett inn á spjallþræði á Facebook.

Vald þessa karlmanns til að meiða, særa, hræða og jafnvel æsa til ofbeldis gegn minnihlutahópum ætti að vera flestum ljóst. Og jafnframt stafar líka frá honum varnarleysið og vanmáttug reiðin. Hann er margræður eins og tröllin.

Hvers vegna er hann svona reiður? 

Og hvað ógnar honum svona mikið?

Önnur bíómynd um tröll sem ég hef nýlega séð er norska fjölskyldumyndin Troll, sem sýnd er á Netflix. Hún kom líka út í fyrra eins og Tímar tröllanna. Þessi taugatryllir segir frá jarðgangagerð undir Dofrafjöll í Noregi, þar sem ævafornt tröll vaknar til lífs og gerir fólki lífið leitt. Þegar líður á myndina kemur í ljós að tröllið er eins og risavaxin myndlíking fyrir náttúruna sem er í hættu vegna þess að fólkið metur peninga og græðgi meira en lífið sjálft.

En hvers vegna er ég að ræða við ykkur um tröllamyndir?  Hvað kemur þetta eiginlega prédikun við? Hvert er eiginlega þema þessarar ræðu?

Ótti

Varnarleysi

Græðgi

Hatur og mannfyrirlitning

Sköpunarmáttur náttúrunnar

Náttúra sem slær til baka

Krúttvæðing tröllanna

Ógnarvald

Hér birtast margar af megináskorunum okkar samtíma.

II.

Fyrir okkur sem kristnum sið unnum og látum okkur hann varða er mikilvægt að hugsa um hvernig siðferðileg álitamál samtímans kallast á við boðskap fagnaðarerindisins. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur, sagði síðari ritningarlesturinn. Sá grundvöllur veitir öryggi og stöðugleika, en hann er líka tengdur stund og stað, tíma og rúmi, aðstæðum okkar hvers og eins. Hann er þannig í senn sístæður og síbreytilegur, vegna þess að lífið stendur ekki kyrrt.

Guðspjall dagsins er dæmisaga Jesú úr Mattheusarguðspjalli um talenturnar. Talenta er gríðarhá fjárhæð og það hefur því ekki verið neinn smáræðis sjóður sem maðurinn í guðspjallssögunni fól þjónum sínum. Við vitum heldur ekki hvort þeir voru þjónar hans eða þrælar, því að gríska orðið doulos getur þýtt hvort tveggja. Þessi blæbrigðamunur skiptir máli hér, vegna þess hér getur það skipt sköpum hvort þjónarnir/þrælarnir geta gengið úr vistinni þegar þeim sýnist eða hvort þeir eru ánauðugir að skapa peninga fyrir húsbóndann.

Í sögunni ávaxta tveir fyrstu þjónarnir talentur sínar á glæsilegan hátt og gera húsbóndann ákaflega glaðan þegar hann kemur til baka. „Gott, þú góði og trúi þjónn, gakk inn í fögnuð herra þíns!“ segirhann við fyrstu tvo. Þriðji þjónninn hins vegar hafði grafið talentu sína í jörð af því að hann var svo hræddur um að tapa peningunum og því voru engir vextir af peningunum handa húsbóndanum þegar hann krafði þjóninn um rentuna. Húsbóndinn kallar hann „illan og latan þjón“, og skipar öðrum þjónum að reka „þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Mér hefur satt að segja alltaf þótt erfitt að prédika út frá þessu guðspjalli og fundist sagan óþægileg. Fyrir því liggja nokkrar ástæður:

Á Íslandi er vinnan gjarnan álitin með æðstu gildum. Við höfum flest tamið okkur strangt vinnusiðferði, því að Íslendingar eru sívinnandi og stæra sig af því að vinna helst nógu mikið. Auðvitað helst þessi vinnusemi í hendur við þarfir fólks, að koma yfir sig húsnæði og eiga fyrir salti í grautinn.

En vinnusemin getur líka snúist upp í vinnudýrkun, að fólki finnist það ekki mega gera neitt annað en að vera alltaf í vinnunni. Og þá er vinnan orðin eitthvað annað og meira en lífsbarátta, hún svelgir upp allt okkar líf og meinar okkur að eiga einkalíf og tómstundir. Það er líka erfitt fyrir þau okkar sem eru í atvinnuleit, vinna af ýmsum ástæðum úti, eru heima að sinna börnum, eða eru komin á eftirlaun að heyra sí og æ talað eins og enginn sé maður með mönnum nema hann sé í launavinnu og helst í þremur.

Eitt af því sem mér finnst óþægilegt við þessa sögu þegar hún er lesin í íslenskum aðstæðum er að hún virðist birta guðsmynd sem segir mér að vera alltaf í vinnunni, að ég sé ónýtur þjónn og eigi ekkert skilið nema grát og gnístran tanna.

Annað sem gerir það að verkum að ég hárreyti mig yfir þessari sögu eru allir peningarnir sem verið er að ávaxta. Mörg ykkar vitið eflaust að enska orðið talent, sem þýðir hæfileikar, er dregið af þessari sögu. Talenturnar okkar eru bókstaflega í sögunni metnar til fjár og ganga inn í kapítalískt hagkerfi, þar sem alltaf þarf að framleiða meira. Í þessu kerfi samtímans erum við aldrei nógu góð, við hömumst eins og hamstrar á hjóli og ávöxtum aldrei nógu mikið. Við erum of feit, erum ekki bestu útgáfurnar af sjálfum okkur og erum venjulega búin að brjóta flest nýjársheitin snemma í febrúar.

Unglingarnir okkar eru kvíðnari en áður, meðal annars vegna þess að samanburðurinn og krafan um frammistöðu er svo mikil. Það er auðvelt að túlka þessa sögu þannig að hún snúist um að allir þurfi að vera vellukkaðir til að vera gjaldgengir hjá Guði.

Og reyndar er þetta uppáhaldssaga þeirra sem aðhyllast svokallaða velgengnisguðfræði, sem gengur út á að það sjáist á velgengni okkar hversu mikla velþóknun Guð hafi á okkur. Er það okkar guðsmynd að við þurfum að vera besta útgáfan af sjálfum okkar til að eiga sæti í guðsríkinu? Þurfum við að sýna Guði fótósjoppaðar myndir af okkur sjálfum þar sem allt er í þykjustunni og öllum líður vel? 

Það er líka merkilegt að þjóninum sé refsað fyrir að hafa grafið talentuna sína í jörðu, því mikið af því sem besta sem þroskast á jörðinni margfaldast einmitt þar; Tré, blóm, grænmeti, jurtir og ávextir. En ekki peningar.

Svo er eitt enn sem mér finnst afar vont við þessa sögu. Það er hugmyndin um Guð sem fer langt í burtu og kemur svo reiður aftur. Og á meðan sit ég og bíð, er hrædd og finnst að ég sé í lífstíðarlöngu prófi sem ég eigi örugglega eftir að falla á. Er Guð virkilega svona fjarlægur? Er lífið próf og er ég að falla á því? Hvernig leið ykkur þegar þið hlustuðuð á guðspjallið um að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur

Fyllti lestur þessa guðspjalls ykkur friði og von eða óhug og tilfinningu fyrir guðlegu óréttlæti?

III.

Með þessum fyrirvörum við guðspjallssögu dagsins er ég ekki að gagnrýna dæmisögugerð Jesú Krists. Ég er að benda á að aðstæður fólks skipti máli og að saga sem er lesin í strangri vinnumenningu kalli fram aðrar myndir af guðdómnum en hjá þeim þjóðum sem leggj ameiri áherslu á frí og afslöppun. öllu heldur að benda á að þegar sögur eru sagðar aftur og aftur í tvö þúsund ár frá ýmsum sjónarhornum og í ýmsum aðstæðum, þá taki skilaboðin og guðsmyndin sem hún boðar breytingum. Til dæmis er ekki sama hvernig sagan er skilin, þegar hún er lesin inn í þjóðfélag strangs vinnusiðferðis og þess sem leggur meiri áherslu á frí og slökun. Og saga sem talaði sterkt inn í sjálfsþurftarsamfélag fortíðar getur haft haft verulega slæm áhrif inn í kapítalískt samfélag sem mælir allt í peningum.

Þess vegna langar mig á lokaspretti þessarar prédikunar að gera tilraun og bjóða tröllunum úr bíómyndunum sem ég ræddi í upphafi með mér inn í að túlka þessa guðspjallssögu. Ekki vegna þess að ég og tröllin séum með einu réttu útgáfunni af sögunni, heldur vegna þess að Guð hefur gefið okkur anda túlkunar og dæmisögur sem má skoða á ýmsan hátt eftir því sem andinn blæs okkur í brjóst. Guð verður ekki svo auðveldlega krúttvæddur.

Við köllum þess vegna til leiks tröllin úr Eddukvæðum sem geyma frumaflið

og tröll kirkjuréttarins á miðöldum sem voru jaðarsett og ofsótt fólk,sem einnig átti til fordæðuskap.

Við köllum til nátttröllin sem verða að steini þegar sólin skín á þau og skessurnar sem ærast af kirkjuklukkunum.

Við köllum á tröllið úr Dofrafjöllum og öll þau tröll sem standa fyrir náttúruna sem við erum að eyðileggja.

Við heimsækjum netttröllið einmanalega meðan hann djöflast í vanmætti sínum og reiði á fólki sem hann álítur ógn við sig.

Við dustum rykið af krútttröllunum úr plastinu sem búið er að selja túristunum og hjálpum þeim að finna eitthvað af fyrri frumkrafti.

Við sýnum þeim þessa sögu og spyrjum hverjar talenturnar séu sem þarf að ávaxta og hvert þjónshlutverkið okkar sé í Guðsríkinu.

Þetta er auðvitað vitavonlaus tilraun, vegna þess að tröllin svara okkur engu.

Tröllin er stórhættuleg.

Þau lesa ekki guðspjöll og er meinilla við kirkjuklukkur. Þau klóra sér bara í hausnum og rymja ógurlega.

Það sem hins vegar gerist þegar við sitjum í fjallahringnum miðjum og köllum fram eigið ímyndunarafl eða staðinn þar sem við segjum sögur, að þá fer eitthvað skapandi af stað í höfðinu á okkur.

Þá verður til möguleiki á að horfa á trú sína og líf frá öðru sjónarhorni.

Nærvera tröllanna og skapandi ókyrrðin kringum þau minnir mig á að ein talentan sem ég ávaxta er þessi jörð. Hana ber mér að elska og virða og annast um hana með allri þeirri ást sem mér er gefin.  Ég verð þakklát Guði sem leiðir mig „inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum,“ eins og fyrri ritningarlesturinn orðaði það. Og vilji minn vex til að veita kerfisbundnu ofbeldi á hendur náttúrunnar mótstöðu.

Nærvera tröllanna og skapandi ókyrrðin kringum þau minna mig á að ein talentan sem ég ávaxta er minn eigin líkami. Líkami minn er sköpun Guðs með aukakílóum, veikindum, sárum, örum, brotum og annmörkum. Við eigum hvert sinn líkama og hann á skilda hvíld, gleði og frið. Stundum þarf ég á því að halda að Guð minn minni mig á að ég þurfi líka að hvíla mig og að ég sé góður og trúr þjónn þegar ég geri það.

Þess vegna er guðfræði hvíldardagsins svo góð og mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu okkar. 

Nærvera tröllanna og skapandi ókyrrðin í kringum þau minna mig á að ein talentan sem ég ávaxta er að taka til í guðsmyndasafninu mínu og ögra þeim hugmyndum mínum að Guð vilji vinnuhörku, græðgi og samkeppni. Það erum ekki við sem eigum að slá í gegn, heldur séu allir okkar hæfileikar, gáfur, talenturnar okkar, frá Guði komin. Þegar við rýnum í ritningarlestrana sem við heyrðum lesna fyrir okkur áðan frá fimmtu Mósebók og fyrra Korintubréfi, þá sjáum við þetta sama stef koma upp um að talenturnar séu ekki okkar eign og að við eigum ekkert að vera að monta okkur af þeim eða telja þær okkur til tekna.

Nærvera tröllanna og skapandi ókyrrðin kringum þau minnir mig á að ein talentan sem ég ávaxta er að vera ekki hrædd við fólk sem lítur öðruvísi út en ég, eða ætla minnihlutahópum einhverja sérstaka neikvæða eiginleika.   Þá minnumst við þess að fólk á jaðrinum var einmitt gert að tröllum til að undirstrika umkomuleysi þeirra, öðrun og bjargráðaleysi. Um leið og ég hætti að horfa á annað fólk eins og einhvern formlausan massa og horfist í augu við þau sem manneskjur, með sögu, líf og eigin hefðir sem eru undursamlega ólíkar mínum, þá hverfur ótti minn og vilji minn vex til að draga úr hatri á hendur öðru fólki.

Nærvera tröllanna og skapandi ókyrrðin kringum þau minnir mig á að ein talentan sem ég ávaxta er að Guð hjálpi mér að sefa ótta minn. Óttinn við að vera magnlaus og varnarlaus, aldrei nógu góður, er erfiður að bera. Sum okkar lifa þegar við grát og gnístran tanna.

Hjá sumum leitar óttinn inn á við, í að brjóta okkur sjálf niður. Hjá öðrum leitar óttinn út í árásargirni og reiði. Við hömrum einhverja vitleysu inn á lyklaborðið, búum til staðalímyndir af fólki sem við þekkjum ekki neitt og skeytum skapi okkar á því.

Kannski er það sorglegasta við dæmisöguna okkar hvað þjónninn var lamandi hræddur við Guð og viss um að mistakast. Eigum við ekki bara að leyfa okkur að trúa því að Guð sé með okkur og ekki á móti ?

Og loks minnir nærvera tröllanna mig á það, þegar ég hef augu mín til fjallanna og bið um hjálp, að hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Guð er aldrei fjarri mér. Guð er ekki húsbóndi og ég er ekki þræll.Guð er alltaf hjá mér, í firð fjallanna, og í nánd míns eigin hjarta.

Í mínu dýpsta myrkti hringja helgar klukkur

geislinn skín á mig og vanmáttur minn

verður að steini.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Eitt svar við “Ótti tröllanna”

  1. Þessi er góð!

    Bestu þakkir,

    Örn B

    Sent from my iPad

    >

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: