Enginn þaggar þjóðkirkjuna

Miklar umræður sköpuðust milli hátíðanna um snjómokstur, kúltúrbörn og pizzukassa ásamt heitum deilum um jólaræðu biskups.

Upphaf þeirrar umræðu voru orð biskups Íslands í jóladaginn um “að þöggun sé í gangi varðandi Guð kristinna manna“. Hún vitnaði í spurningu ónefndra aðila um það hvort tengja mætti vanlíðan ungs fólks við það að „ekki mætti lengur fræða um kristna trú í skólum landsins.“ (mínúta 33:01-20) Hið stafræna umræðutorg tók snarlega við sér.

Messan og ræðan

Ég horfði með mikilli gleði á þessa jóladagsmessu á öldum ljósvakans. Hún geislaði af mörgu sem er svo gott og fallegt við helgihaldið; skilaboðunum um að greiða götu þjóðarinnar hjá Jesaja, textabrotinu hjá Títusi um að í voninni séum við „erfingjar eilífs lífs“ og loks jólaguðspjalli Jóhannesar með ljós sitt, orð og myrkur, allt í bland við jólasálma, bænir, blessun og hátíðarsvör Bjarna Þorsteinssonar.

Ég sá mannauð kirkjunnar í sjálfboðinni og launaðri þjónustu, fólk sem lagði sig fram við kirkjusöng fyrir kirkjuna sína og önnur sem stýrðu helgihaldi og kirkjutónlist af miklum sóma. Ég horfði á kirkjuna fögru, jólatréð og gluggann dásamlega í Grafarvogi.

Í messunni mátti líka heyra biskup Íslands nota myndlíkingarnar um ljósið og myrkrið á spennandi, óvæntan og femínískan hátt. Hún talaði nefnilega ekki niður myrkrið, heldur ræddi um „hið mjúka, kvenlega myrkur móðurlífsins“ og „hið kalda ljós heimsins“ (mínúta 31:13-15) . Hún talaði um „þjáningu fæðingarinnar“ af þekkingu þeirrar sem hefur fætt af sér barn.

Vestræn hefð, allt frá frumspeki Aristótelesar er uppfull af tvístæðum sem skipa hinu karllæga á bekk með hinu harða, bjarta, röklega og andlega, á meðan hið mjúka, myrka, kaótíska og líkamlega er sett skörinni neðar með hinu kvenlæga. Þegar hið kristna Orð sem lógós er sett inn í þessa grísku frumspekiblöndu tvístæðunnar er hætta á að fólk fari sjálfkrafa að líta á hið karllæga sem lógos heimsins. Of oft hefur það gerst. Og þá verður hið ljósa gjarnan gott og guðdómlegt og hið dökka alltaf ljótt.

Að sjá biskup Íslands snúa þessum ljóstáknum á hvolf með dásamlegum dökkum, kvenlægum líkamsmyndum gladdi guðfræðinginn út frá sjónarmiðum femínískrar, svartrar og vistfræðilegrar guðfræði sem metur myndlíkingar um hið nærandi myrkur.

Mig langar því að hvetja þau sem unna fagurri tónlist og boðskap kristinnar trúar að hlusta á þessa messu.

Þöggun og þjóðkirkja

Og svo var það þetta með þöggunina, kristindómsfræðsluna og skólana. Er þöggun í gangi um Guð? Og þá aðeins um Guð kristinna manna? Má ekki lengur fræða börn um kristna trú í skólum landsins? Og eru tengsl á milli vanlíðunar ungs fólks og meintrar vankunnáttu í kristnum fræðum í skólakerfinu? Hér er um margar ólíkar spurningar að ræða.

Óumdeilt er að íslenska þjóðkirkjan hafi siglt krappan sjó á undanförnum árum. Traust til hennar hefur minnkað samkvæmt mælingum og meðlimum fækkað. Allt þetta er í takt við það sem hefur verið að gerast í meirihlutakirkjum í Norður-Evrópu, hvort sem er í anglíkönsku kirkjunni eða hinni lúthersku, en íslenska þróunin fór óvenju seint af stað og þróunin hér á landi hefur verið hraðari. Auk þess gekk þjóðkirkjunni illa að leiða ýmis mannréttindamál til lykta á góðan hátt á síðasta áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar.

Á sama tíma hefur stafræna byltingin orðið þess valdandi að hver sem er getur tekið upp sinn þokulúður á netinu og sett þar fram skoðanir sem áður voru mæltar fram við vegginn.

Íslenska þjóðkirkjan hefur sérstaka stöðu í íslensku þjóðlífi í krafti sögulega tengsla við þjóðina, ríkistengsla og vegna stærðar sinnar. Hún fær á sig margar leiðinda slummur, sem ekki eru allar maklegar. Hún verður jafnframt að þola að hún fær ekkert í forgjöf eins og áður. Og að viðhorf til trúfélagsins sé ekki endilega það sama og til trúarþelsins eða trúarbragðanna.

Kristindómsfræðsla og fræðsla um önnur trúarbrögð og lífsskoðanir

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er ekki aðeins heimilt að fræða börn um kristna trú og önnur trúarbrögð í skólum landsins, heldur er sérstaklega getið um að það beri að gera. Í Aðalnámskrá heyrir kristindómsfræðsla og fræðsla um önnur trúarbrögð undir samfélagsgreinar og hæfniviðmiðunum þar skipt í reynsluheim, hugarheim og félagsheim.

Sem dæmi um hæfniviðmið um trúarbragðafræðslu sem tengjast reynsluheimi er gert ráð fyrir að hver nemandi eigi eftir tíunda bekk að geta: „hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra, útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum.“

Sem dæmi um hæfniviðmið um trúarbragðafræðslu sem tengist félagsheimi má nefna að gert er ráð fyrir að hver nemandi eigi eftir sjöunda bekk að geta: „borið kennsl á ólíkan bakgrunn fólks og virt frelsi þess til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta.“ Eftir fjórða bekk eiga nemendur að geta „áttað sig á að trúar- og lífsviðhorf fólks birtast í mismunandi viðhorfum, siðum og venjum“; „velt fyrir sér nærtækum spurningum sem tengjast trú, lífsviðhorfi og breytni“; „sagt deili á nokkrum frásögnum, helstu hátíðum og siðum kristni og annarra trúarbragða, einkum í nærsamfélaginu“; „áttað sig á muninum á völdum þáttum trúar- og lífsviðhorfa“; „komið auga á dæmi um áhrif Biblíunnar á samfélagið“ og „nefnt dæmi um trúarlegar vísanir í listum og bókmenntum“.

Sem dæmi um hæfniviðmið um trúarbragðafræðslu sem tengist hugarheimi má nefna að hver nemandi í sjöunda bekk á að geta: „sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum.“ Að loknum tíunda bekk eiga nemendur að geta “hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra, útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum,” og “rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats, sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund.”

Hæfniviðmiðin eru viðamikil og bera þess merki að þekking, leikni og hæfni í trúarbragðafræðum skólans snýst ekki um hversu mikið af sögum börn geta lært fyrir próf, heldur hvernig arfurinn er skoðaður í ljósi áskorana samtímans og í samhengi við eigin sjálfsmynd og umhverfi.

Ég hef ekki forsendur til að meta hvernig skólakerfinu gengur að koma til móts við viðmið námskrárinnar. En umræða um stöðu kristindóms- og trúarbragðafræðslu hlýtur að byrja þar.

Hæfnin sem mæld er í trúarbragðafræði líkt og öðrum samfélagsfræðum snýst um að rækta víðsýni, að styðja nemendur í að mynda sér eigin lífsskoðanir og gildi og setja sig í spor annarra. Kristin trú og önnur trúarbrögð sem tjá helgi manneskjunnar og alls lífs eru þannig ekki í andstöðu við fræðslu skólakerfisins, heldur í liði með þeim.

Hið kalda ljós og hið myrka móðurlíf

Er lítið rými til að tala um Guð? Kannski er það ekki bara Guð kristinna manna sem á ekki upp á pallborðið í opinberri umræðu. Hið myrka móðurlíf kristninnar, sjálfur gyðingdómurinn, á sér fáa talsmenn í samfélaginu. Ég er ekki viss um að hin abrahamísku systkini hinna kristnu, múslimar, finnist sitt opinbera rými til að tala um Íslam neitt sérstaklega stórt eða alltaf vinsamlegt. Öll mættum við taka okkur tak til að læra betur að lifa í fjölmenningunni innan um fólk með ólíkar trúar- og lífsskoðanir.

Eftir erfitt stríðsár sem hefur gert frið heimsins valtari og fyllt lönd af flóttamönnum er vonin heit um frið á nýju ári. Þegar jöklarnir okkar bráðna ættu hagsmunir okkar að verða að einum.

Þess vona ég á nýju ári að hæfniviðmiðin úr grunnskólanum verði viðmiðin okkar allra. Þá gengur okkur líka betur að mæta geðvernd ungs fólks sem þarf að mæta loftslagsbreytingum, stríðum og flóttamannastraumi saman sem myndugir einstaklingar á nýrri öld, starfa í von og kærleika og greiða götu fyrir þjóðina í framtíðinni.

Þöggun krefst valdsmunar. Enginn þaggar þjóðkirkjuna, vegna þess að hún sjálf er enn í yfirburðastöðu gagnvart öðrum trúar- og lífsskoðunarfélögum með sínum fornu helgistöðum, kirkjulistinni og boðskapnum sínum um frelsi, frið og kærleika. Hún á sjálf sína lúðra og trompeta sem hún beitir til að bera út boðskapinn um Jesú Krist.

Þjóðkirkjan hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár í átt til díakoníu og málsvarnarhlutverks í opinberu rými. Hún er ennþá kúltísk kirkja, í krafti sögustaða sinna, listar, kirkjuathafna og fornra helgisiða, en áherslan á manngildið er orðin skarpari en áður. Díakonía kirkjunnar, þjónusta við náunga í neyð, fólk á götunni og fólk á flótta, helst í hendur við áskoranir íslensks samtíma þar sem bilið eykst milli ríkra og fátækra og verndarnet ættar- og velferðarsamfélags er að gisna. Það verkefni er risavaxið og þar þarf fólk að standa saman þvert á trúar- og lífsskoðanir en um sameiginleg gildi.

Enginn þaggar þjóðkirkjuna meðan hún einbeitir sér að því að greiða götu þjóðarinnar, efla fólki von sem erfingjum eilífs lífs, leitar samstarfs og metur hið myrka jafnt hinu ljósa á hörundi okkar.

Gleðilegt ár 2023!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: