Takk, Tim Taylor!

Ég átti pennavin í þrjú ár sem unglingur. Hann hét Tim Taylor og átti heima í New Jersey í Bandaríkjunum. Við skrifuðumst á þegar ég var á þrettánda ári og hættum samskiptum í byrjun níunda áratugarins þegar ég var að verða sextán. Tim Taylor átti silfurhærða ömmu með stelsýki sem stal úr búðum (ég þurfti að fletta orðinu kleptomaniac upp í orðabók). Hann átti fjölbreytilegan vinahóp og spilaði hafnabolta. Ég lærði ensku af að skrifa Tim Taylor. Ég var vinafá sem unglingur og handskrifuðu bréfin með myndum af Tim með vinum og vandamönnum voru hápunktar mánaðarins. Ég treysti honum fyrir leyndarmálunum mínum og hann mér sínum.

Við Tim hættum að vera vinir af því að ég gat ekki hætt að vera rasisti.

Einu sinni sem oftar kom bréf inn um lúguna heima. Í bréfinu sagði Tim mér að í þau þrjú ár sem við hefðum skrifast á, tæki hann eftir umfjöllunarefni sem kæmi óþæglega oft upp. Hann sagði að ég minntist oft á húðlit og honum fyndist að ég talaði í niðrandi tón um vini sína sem ekki væru hvítir. Ég grét mikið yfir þessu bréfi og var bæði reið og niðurbrotin. Mér var alveg sama hvernig fólk var á litinn, hvernig gat hann sagt þetta?

Það liðu nokkrir dagar áður en ég skrifaði honum næst. Ég reyndi að nálgast málið á gamansömum nótum, baðst innilega afsökunar og sagði að skýringin væri eflaust að Ísland væri næstum eingöngu byggt hvítu fólki og ég hefði ekki haft tækifæri til að kynnast mörgum „svörtum eintökum“, eins og ég orðaði það. Tim svaraði aftur og sagði mér á sinn hæga og fallega hátt að honum þætti vænt um að mér þætti þetta leitt, en vildi benda mér á að það að tala um fólk sem „eintök“ væri hluti af vandamálinu. Við tók nýtt grátkast og mikill vanmáttur og reiði. Að lokum ákvað ég að hætta að skrifa honum, ekkert sem ég segði væri nógu gott fyrir hann og mér líkaði ekki við hann lengur.

Ég hætti að skrifa og Tim skrifaði mér aldrei aftur.

Mörgum áratugum síðar stóð ég á bryggju í Noregi og var að fara á fund úti í eyju. Ég var búin að ljúka doktorsprófi í millitíðinni og hafði tekið þátt í margvíslegum aktífisma fyrir mannréttindum og lýðræði. Ferjan bilaði og það þurfti að skammta hverjir fengju að fara með fyrstu ferð í hraðbátinn og hverjir þyrftu að fara með næstu ferð. Brún kona með arabíska slæðu fékk að fara í hraðbátinn og ég sat eftir á bryggjusporðinum. Eitt andartak gaus upp í mér reiðin. Þvínæst áttaði ég mig og velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum mér hafi fundist að ég ætti meiri rétt á þessu sæti heldur en brúna konan.

Ég horfði ekki á alla næpuhvítu Norðmennina sem fengu sæti í hraðbátnum. Ég hafði gert hana að eintaki- einu sinni, einu sinni enn.

Sumir segja að við séum öll rasistar. Ég er ekki sammála því. Kynþáttahyggja er flókið fyrirbæri og birtingarmyndir hennar eru ekki eins í stéttakerfi Indlands, Bandaríkjunum með arf sinn af þrælahaldi, nýlenduveldum Evrópu, frumbyggjafordómum, antísemitisma, orientalisma og islamofóbíu. Kynþáttahyggja birtist á ólíkan hátt í nýjum aðstæðum og það er stigsmunur á öráreitni, útlendingaandúð, ýgi, ofbeldi, hatursglæpum og þjóðarmorði.

Við getum ekki afsakað ofbeldið með því að segja að við séum öll rasistar. Um leið er hollt fyrir þau okkar sem erum föl yfirlitum að gangast við forréttindum okkar, kannast við þau flokkunarkerfi kúgunar sem samfélag okkar, menning, brandarar og uppeldi eru reist á, og skilja vanmátt okkar í að orða og breyta þessum veruleika misréttisins.

Í vikunni þegar fregnir bárust af ummælum ráðherra í ríkisstjórn Íslands varð mér hugsað til Tim Taylor. Ráðherrann talaði að sögn um „þá svörtu“. Hann gerði konu nafnlausa. Hann vék að húðlit hennar með niðrandi hætti. Hann gerði hana að eintaki.

Um tíma loguðu netheimar og það var fróðlegt að fylgjast með kommentakerfinu. Mörg voru reið yfir hegðun ráðherrans, önnur bentu á að hann hefði verið fullur, hefði verið að grínast, að konan væri í alvörunni svört og þyrfti að lifa með því. Einhver þekkti albínóa og alls staðar var fólk sem vildi skammast út í góða fólkið með sína dómhörku.

Nú virðist reiðin vera á undanhaldi, enda nóg af öðrum sköndulum að taka. Ég sakna þess að vita hvert planið er og hvað það er sem ráðherrann ætlar að læra af þessu. Og hvernig það geti nýst okkur hinum í okkar heimóttarskap og forréttindablindu. Yfirbótar er þörf ef Ísland á að vera lýðræðislegt land, þar sem fólk nýtur sannmælis óháð uppruna.

Á miðöldum fór fólk sem vildi vinna yfirbótarverk til Santíago de Compostela og Rómar. Í nútímanum fer fólk sem vill axla ábyrgð á vímuefnanotkun sinni í meðferð. Hvaða leiðir eru til handa fólki sem vill axla ábyrgð á öráreitni sinni, kynþáttafordómum og forréttindum?

Ég minnist vinar sem ég átti fyrir meira en þremur áratugum, vin serm átti líf og vini sem voru mér framandi. Ég velti því oft fyrir mér hvar hann er niðurkominn, hvort amma hans hafi einhvern tímann læknast af stelsýkinni og hvort hann hugsi til mín með hlýju.

Ég minnist þess hvernig ég missti vináttu hans fyrir heimóttarskap og heimsku. Ég skammaðist mín. Í stað þess að láta skömmina kenna mér eitthvað brá ég á afneitun, grín og meira klúður. Ég á ennþá bréfin hans. Og ég er þakklát vini mínum sem var, vegna þess að hann kenndi mér mikilvæga lexíu með réttsýni og nærfærni, sem ég er enn að reyna að skilja og meðtaka.

Sum okkar læra hægt, en læra þó.

Takk Tim Taylor.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s