Að heyra til úlfynjum: Morgunblaðið 13. september 2010

Nýlega birtist pistilinn „Úlfar í prestahjörð“ eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur hér í Morgunblaðinu. Úlfarnir sem Kolbrún vitnar til eru framgjarnir prestar, sem reyna að klekkja á biskupi vegna óánægju með stöðuveitingar og rækta hvorki sannleika, samheldni né samstöðu. Mér að vitandi hefur aðeins einn starfandi prestur lýst því yfir að biskup Íslands eigi að stíga til hliðar. Sami prestur höfðaði mál gegn Þjóðkirkjunni vegna stöðuveitingar fyrir sex árum. Ég er sá prestur og álykta því að úlfarnir ónafngreindu rúmist flestir í minni persónu. Ég tel að biskup Íslands eigi að víkja úr embætti vegna þess að hann hefur verið borinn þungum sökum um þöggun. Kirkjuþing mun innan tíðar skipa rannsóknarnefnd til að skoða viðbrögð kirkjunnar þegar Ólafur Skúlason var sakaður um kynferðisbrot. Nefndin þarf svigrúm til þessarar vandasömu rannsóknar og því óheppilegt ef einn af þeim sem sætir rannsókn gegnir valdamesta embætti kirkjunnar á meðan. Ég tel einnig að biskup eigi að víkja vegna óheppilegra ummæla hans í fjölmiðlum þegar ásakanir á hendur fyrrum biskupi komu fram á nýjan leik. Ég hef ekki kallað eftir afsögn biskups, heldur beðið um að hann víki úr embætti. Því veldur ekki persónuleg óvild, eða þörf fyrir að ýlfra í fjölmenni, heldur vilji til þess að rannsóknarnefnd Kirkjuþings geti starfað með trúverðugum hætti.

Dómsmálið vegna stöðuveitingar sendiráðsprests í Lundúnum virðist í pistlinum haft til marks um hefnigirni úlfsins. Mál mín unnust á báðum dómstigum og má lesa dómana á heimasíðum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar. Þjóðkirkjan var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög og gert að borga skaðabætur, en upphæð var ekki tilgreind í dómnum. Dómkvaddur matsmaður var því kallaður til og Biskupsstofa kallaði eftir yfirmati. Bótakrafa mín var byggð á matsgerðunum og vannst málið á varakröfunni. Hvorugur deiluaðila áfrýjaði seinni dómnum og voru mér greiddar skaðabætur í samræmi við hann. Dómurinn hefur þegar haft fordæmisgildi og áhrif á gang jafnréttismála innan kirkjunnar. Ég á ekki harma að hefna vegna stöðuveitingar í London, enda hefur tjón mitt verið viðurkennt af dómstólum og skaði minn greiddur.  Málareksturinn kostaði mig andvökunætur á sínum tíma, en hann gaf mér einnig sterkari rödd og mál til að berjast fyrir því sem ég tel í anda sannleikans.

Kolbrún telur að úlfarnir í prestahjörðinni elski ekki sannleikann og virði ekki samstöðu og samheldni. Ég hygg að samstaða stéttar minnar sé mikil, en hinum prestvígðu ber ekki aðeins skv.siðareglum að virða kollega sína, heldur ala önn fyrir þeim sem eru ung og órétti beitt. Til að mæta því skylduboði þarf stundum að taka sannleikshag alls úlfaflokksins fram yfir samheldni hinna ráðandi úlfa. Ég var ein ellefu presta sem rituðu Ólafi Skúlasyni bréf 1996 og báðu hann að fara í leyfi meðan mál hans yrði rannsakað og undirbjó með fleirum tillögu á Prestastefnu sama ár um að hann viki úr embætti. Ég vildi að ég hefði gert meira og sinnt konunum sem hann braut gegn. Ég hef síðustu fjórtán ár barist fyrir rétti samkynhneigðra til kirkjulegrar vígslu og tók þátt í baráttu 111 prests, djákna og guðfræðings fyrir einum hjúskaparlögum  í sumar. Ég hef talað fyrir umhverfisverndaráherslum og barist fyrir jafnrétti kvenna og karla á vettvangi kirkjunnar. Ég lýsti yfir stuðningi við biskup Íslands þegar hann vék Selfossklerki úr embætti síðastliðið haust vegna ósæmilegrar hegðunar þess síðarnefnda gagnvart ungum sóknarbörnum sínum. Ég vil að yfirstjórn kirkjunnar geri upp skuld sína við konurnar sem hún brást árið 1996.

Eitt megineinkenni úlfsins er tryggð og umhyggja fyrir öllum meðlimum flokksins, stórum jafnt sem smáum. Úlfur er tvíbent tákn í Biblíunni. Það vísar að sönnu til vargsins sem leggst á lambið (sem í líkingu Kolbrúnar virðist einkum vera biskup Karl). Úlfurinn er líka spámannlegt tákn fyrirmyndarríkisins og friðarins. Þegar úlfurinn liggur hjá lambinu kemur saman hin villta mergð og hin tamda hjörð í frelsi og friði. Í hinni messíönsku von er því ekki alvont að heyra til úlfynjum.

2 athugasemdir við “Að heyra til úlfynjum: Morgunblaðið 13. september 2010

  1. Heiðarleg umfjöllun sem kemur að kjarna málsins. Þú hefur allan minn stuðning.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s