Sannleiksandi og sannleiksnefnd. Fréttablaðið 10. júní 2011

Hvítasunnan er hátíð heilags anda, sem er kærleiksönd, sannleiksandi, friðarband og einingarafl. Hildigerður frá Bingen (1098-1179) orðaði lofgjörð til heilags anda fagurlega í sálmi sínum: Ó Guð, kraftsins iða, sem streymir yfir allt/ þú tengir allar þjóðir./ Vindar hefja sig til flugs, steinarnir safna vætu/ og jörðin svellur af lifandi grænsemd. Hvítasunna er hátíð kirkjunnar og oft hefur það samfélag endurspeglað kraftsins iðu sem tengir það saman. Kirkja í sinni víðustu mynd er ekki stofnun og ekki hús, heldur hreyfiafl, knúið áfram af lifandi grænsemd. Stundum hafa menn gleymt að án sannleika verður enginn friður og að án kærleikans verður enginn eining.

Í dag kynnir rannsóknarnefnd um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot fyrrverandi biskups niðurstöðu sína. Tilfinning mín gagnvart því sem koma skal einkennist jafnt af stolti og skömm. Ég er stolt yfir því að sannleiksnefnd og sannleiksskýrsla hafi orðið að veruleika, að Kirkjuþing sem skipað er að meirihluta leikmönnum sem eru fulltrúar safnaðanna hafi tekið forystu í málinu og að þingið komi saman af þessu tilefni 14. júní. Ég er líka full af skömm yfir því að þörf hafi reynst á slíkri nefnd og skýrslu.  Ég hef þær væntingar til þingsins að þar tali leikir og lærðir saman í anda og sannleika og í lifandi kirkju. Kirkjuþing hefur ekki agavald innan hins þjóðkirkjulega ramma, en raddir þær sem koma frá söfnuðunum og hinnar vígðu þjónustu geta hljómað af festu og yfirvegun um þetta mál og þannig haft mikil áhrif. Atburðir og orð næstu viku fá úr því ráðið hvort verði ofaná, stolt yfir framförum eða skömm yfir mistökum.

Hvítasunnan er hátíð helgrar andar, hátíð sannleiksandans. Á Íslandi í ár verður hún líka helgi sannleiksnefndarinnar, þar sem reynt verður að gera erfiðri sögu skil og þar sem hin veiku og smáu hafa rödd og mál til jafns við hin valdamiklu og vel tengdu.  Öll eru þau kirkjan, og á þeim gæti öndin í sannleika byggt lifandi grænsemd.

Höfundur er sóknarprestur í Reykjavík og doktor í guðfræði.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s