Friðriki Schram svarað

Í Fréttablaðinu 20. september 2011 birtist stutt grein eftir Friðrik Schram prest íslensku Kristskirkjunnar undir yfirskriftinni „Hafður fyrir rangri sök“. Í greininni átelur Friðrik Fréttablaðið fyrir að hafa skrumskælt boðskap sinn varðandi samkynhneigð. Ennfremur gagnrýnir Friðrik mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar í grein sinni vegna nýafstaðinnar úthlutunar úr Kirkjubyggingarsjóði Reykjavíkurborgar, þar sem umsókn íslensku Kristskirkjunnar var hafnað á grundvelli afstöðu safnaðarins til samkynhneigðar, en þessa afstöðu má lesa út úr pistlum Friðriks sjálfs, til dæmis „Nú er ráð að gæta að sér“, „Sorgardagur hjá þjóð og kirkju“, og „Foreldrar, gætið barnanna ykkar fyrir Samtökunum 78“ sem finna má á heimasíðu Íslensku Kristskirkjunnar. Í þriðja lagi telur Friðrik að hann og söfnuður hans verði fyrir aðkasti fólks vegna afstöðu sinnar til samkynhneigðar. Friðrik álítur að ef samkynhneigt fólk hafi áður orðið fyrir mismunun vegna kynhneigðar sinnar hafi dæmið nú snúist við. Þannig sé gagnkynhneigðu fólki sem er í nöp við samlíf fólks af sama kyni nú mismunað og umburðarlyndi skorti fyrir skoðunum þeirra.

Í þessari grein hyggst ég hvorki svara fyrir ritstjórn Fréttablaðs eða mannréttindastjórann heldur beina sjónum mínum að þriðju umkvörtun greinarhöfundar, sumsé þeirri að hann og söfnuður hans verði fyrir fordómum, umburðarleysi og misrétti vegna afstöðu sinni til samkynhneigðar.

Friðrik Schram tekur það skýrt fram að hann beri engan kala til samkynhneigðs fólks og telji hneigð þess til sama kyns hvorki til syndar né glæps. Hann gerir þannig skýran greinarmun á hneigð og „framkvæmd“, svo vitnað sé í pistil hans „Nú er ráð að gæta að sér“. Í sama pistli biður Friðrik fólk um að lasta ekki þá „sem eru afbrigðilegir á einhvern hátt“. Vegna þessarar tvískiptingar skilur Friðrik ekkert í því að menn væni sig um fordóma gagnvart samkynhneigðu fólki, því að hann er ekki á móti samkynhneigðu fólki, aðeins kynlífi þess.

Tvískipting kynverundarinnar í kynlíf annars vegar og hneigð hins vegar hefur reyndar fyrir löngu gengið sér til húðar og er að engu leyti í samræmi við þær tegundir kristinnar siðfræði sem láta sig nútíma þekkingu á kynlífi, kynferði og kyngervi einhverju skipta. Siðfræðingurinn Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, sem er fróðust kristinna guðfræðinga um kynlífssiðfræði bendir á í bók sinni Ást, kynlíf og hjónaband (Salka, Reykjavík, 2008, bls. 79-86) á fimm viðhorfum til samkynhneigðar þar sem dregnar eru upp hliðstæður við „siðferðisskort“, „sjúkdóm“,“blindu“ „litblindu“ og „örvhendni“ eftir því hversu neikvætt viðhorfið er til samkynhneigðar. Þeir sem hafa hliðstætt viðhorf til samkynhneigðar og sjúkdóma telji að fólki sé vorkunn sem „þjáist“ af samkynhneigð, því þau geti ekki að raun sinni gert. Eina ráðið við þessum harmkvælum í greiningu Sólveigar Önnu sé þannig það sama og hjá alkóhólistum, þ.e. að halda sig frá skaðvaldinum, gerast óvirkir hommar og lesbíur.

Ég get ekki lesið út úr pistlum Friðriks neina tilraun til að útskýra samkynhneigð eða draga hliðstæður við aðstæður á borð við sjúkdóma eða áfengisböl. Ég tel hins vegar að hliðstæðan við sjúkdóminn og áfengisbölið hjá Sólveigu Önnu falli vel saman við málflutning Friðriks, þar sem samkynhneigt fólk er talið „afbrigðilegt á einhvern hátt“ og þennan afbrigðileika verður að umbera og koma á hann einhverjum böndum. Sólveig Anna segir frá því að þau sem hafa þetta viðhorf til samkynhneigðar telji sig ekki alls ekki hafa fordóma gagnvart hommum og lesbíum. Þetta einkenni „sjúkdómshópsins“ í greiningunni getur skýrt sárindi Friðriks yfir því hvernig honum finnst Fréttablaðið og í raun allur almenningur vera að fara með sig og söfnuð sinn sem þó vilji „hinum afbrigðilegu“ allt hið besta.

Niðurstaða Sólveigar Önnu er þessi:

Endurskoðuð kristin kynlífssiðfræði leggur áherslu á gæði hins líkamlega, sem er ekki andstæða hins andlega. Kynverund (e. sexuality) er eitthvað sem sérhver manneskja hefur hlotið að gjöf frá Guði og verður þar með að skilja sem eitthvað stórt og mikilvægt fyrir manneskjuna. Hugmyndin, sem oft hefur verið færð fram af guðfræðingum, að fólk megi vera kynverur en ekki lifa sem slíkar er guðfræðilega óásættanleg og órökrétt. (bls. 89).

Undir þau orð Sólveigar Önnu vil ég taka, því kynverund er ríkur og mikilvægur þáttur í því að vera manneskja. Þær manneskjur eru ekki allar eins og elska ekki allar á sama hátt. Gloppan í röksemdafærslu Friðriks felst í því að telja að hægt sé að greina með skörpum hætti á milli kynhneigðar og kynlífs, en hvort tveggja hneigðin og kynlífið eru ríkur þáttur kynverundar. Þessar niðurhólfanir kynverundarinnar bera með sér viðhorf um að kynlíf sé almennt varasamt og megi aðeins nálgast undir stífri og þóknanlegri stjórn. Slík viðhorf til kynlífs, kyns, kyngervis og kynhegðunar hafa að sönnu sett mark sitt á kristna hjónabandssiðfræði síðustu 2000 árin, eins og Friðrik bendir á, en það er villandi að setja fram kristna siðfræði sem einhvers konar óbreytilegan staðal óháðan stað og stund. Kristin siðfræði hefur á öllum öldum verið í samræðu við líðandi stund, til dæmis um stríð og frið, túlkanir á boðorðunum, samskipti kynja og viðhorf til barna. Það er kominn tími til að hið gamla vígi kynlífshræðslunnar og gagnkynhneigðarhrokans falli líka innan kristninnar.

Að lokum vil ég víkja að þeirri fullyrðingu Friðriks að gagnkynhneigt fólk sem hefur andúð á kynlífi samkynhneigðra búi nú við fordóma sem séu sambærilegir við fordóma þá sem samkynhneigðir verða fyrir. Þessi fullyrðing er að mínu viti gersamlega út í hött.

Það er raunar athyglisvert að Friðrik getur ekki einu sinni viðurkennt að samkynhneigt fólk verði fyrir fordómum, heldur segir hann í áðurnefndri Fréttablaðsgrein: „Samtök samkynhneigðra töldu fyrir nokkrum áratugum að þeir úr þeirra hópi sem vildu lifa eftir hneigð sinni væru beittir misrétti af gagnkynhneigðum.“ Ofbeldi á hommum og lesbíum og fordómar í þeirra garð sem viðgangast um víða veröld og einnig hér á litla og frjálslynda Íslandi virðast þannig í munni Friðriks vera eitthvað huglægt mat sem Samtökin 78 hafa tekið í sig og sem tíðkaðist fyrir langa löngu. Þessi fullyrðing er í ósamræmi við fyrri skrif hans eins og í „Nú er ráð að gæta að sér“ þar sem hann hefur pistil sinn á samúðarorðum til samkynhneigðs fólks vegna þeirrar fyrirlitningar og fjandskapar sem það hefur orðið fyrir.

Andúð í garð samkynhneigðra einstaklinga og andúð í garð þeirra sem hafa andúð á kynlífi fólks af sama kyni er eru ekki sambærilegir for-dómar. Í fyrra tilfellinu er um að ræða andúð á minnihlutahópi og kynlífi þess. Það eru fordómar, en ágætis skilgreiningu á fordómum má finna á vef Háskóla Íslands, http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2386. Í seinna tilfellinu er um að ræða andúð á fólki vegna andúðar þeirra á minnihlutahópi. Slík andúð verður til vegna gagnrýnnar skoðunar á hleypidómum annarra og sú gagnrýni er grundvölluð á þeirri mannréttindahugsjón sem vestræn nútímamenning byggir á.

Sá sem elskar innflytjandann en þiggur ekki verkin hans og vill halda honum fjarri sér er haldinn fordómum. Sá sem elskar konuna en hleður á hana staðalímyndum og ann henni ekki fullrar mennsku er haldinn fordómum. Sá sem elskar hommann en mótmælir því að homminn lifi í samræmi við kynverund sína er haldinn fordómum.

Andúð á fordómum er ekki fordómur.

Mig langar að lokum til að vitna í orð Friðriks Schram í pistlinum „Nú er ráð að gæta að sér“ og taka undir orð hans um kærleikann:

Kærleikur er ekki eingöngu sæt tilfinning í hjartanu. Kærleikur er miklu fremur það að gera rétt, mæta þörfum annarra og gera þeim gott. Tilfinningar koma og fara, en sá sem er knúinn af kærleika spyr ekki hvað honum sjálfum þykir best, heldur hvernig hann geti mætt þörfum þess sem hann er skuldbundinn, ber ábyrgð á og elskar.

Þetta eru orð að sönnu. Og það er vegna meðsystra okkar og bræðra sem við erum skuldbundin, berum ábyrgð á og elskum, sem okkur ber að hafa mannréttindi í heiðri.

4 svör við “Friðriki Schram svarað”

  1. Sæll Reynir,
    Ég er sammála þér um það að sem skilgreint er sem „viðurstyggð“ á hverri tíð er bundið siðferði sem mótast af menningu og þjóðfélagi.

    Þú segir að ég forðist að nefna gagnrýni á Biblíuna og kristindóminn eins og hann hefur lengst af verið túlkaður og stundaður. Svo ég endurtaki það sem ég sagði í greininni þá segir þar í næstu málsgrein eftir tilvitnuna í Sólveigu Önnu:

    „Slík viðhorf til kynlífs, kyns, kyngervis og kynhegðunar hafa að sönnu sett mark sitt á kristna hjónabandssiðfræði síðustu 2000 árin, eins og Friðrik bendir á, en það er villandi að setja fram kristna siðfræði sem einhvers konar óbreytilegan staðal óháðan stað og stund. Kristin siðfræði hefur á öllum öldum verið í samræðu við líðandi stund, til dæmis um stríð og frið, túlkanir á boðorðunum, samskipti kynja og viðhorf til barna. Það er kominn tími til að hið gamla vígi kynlífshræðslunnar og gagnkynhneigðarhrokans falli líka innan kristninnar.“

    Ég tel mig því ekki draga fjöður yfir í greininni að kynlífshræðsla og gagnkynhneigðarhroki setji djúpt mark á kristna kynlífssiðfræði. Það er hins vegar rétt hjá þér að þessi tiltekna grein gerir fordómum þriðju Mósebókar og hommafælni Páls postula ekki skil, enda gerði ég ekki tilraun til að útskýra hvers vegna Friðrik Schram trúir eins og hann trúir. Friðrik vísaði í grein sinni til kristinnar siðfræði í 2000 ár máli til stuðnings og því tók ég þann útgangspunkt.

    Rétt eins og „viðurstyggðin“ en menningartengd, þá er það líka bundið samfélagslegum viðhorfum hvernig haga eigi uppeldi og hvers konar ákvarðanir barn megi taka sjálft, aka bíl, sofa hjá og ganga til fermingar. Þú spyrð hvort það sé ekki tvískinnungur að fólk megi velja sér lífsafstöðu um 13 ára aldur en ekki rekkjunaut. Ég hygg að spurningin um barnaníð sé ekki sú sama og spurningin um það hvenær barn megi fara að stunda kynlíf. Yfirleitt er ekki amast við kynlífi unglinga, en málin breytast ef annar aðilinn er fullorðinn , hefur valdastöðu yfir barninu og kynlífslöngunin er bundin þeim yfirburðum.

    Ég set líka spurningamerki við hvort megininntak fermingarinnar á 21. öld sé „að velja sér lífsafstöðu“. Fólk hefur aðra lífsafstöðu þegar það er sex ára en fjórtán og síðan fimmtugt og hefur í flestum tilfellum (amk þar sem skoðanafrelsi, trúfrelsi og prentfrelsi ríkir) frjálsar hugmyndir um að breyta henni að vild. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín hefur skrifað doktorsritgerð um sögu fermingarinnar sem heitir „Ferming í fjórar aldir“, sem rekur breytingar á fermingunni eftir siðbót. En ég vil helst ekki lengja mál mitt á þessum vettvangi með því að fara út í langhunda um ferminguna, heldur fókusera á það sem pistill minn fjallaði um, sumsé meinta fordóma á Friðriki Schram vegna andúðar hans á kynlífi samkynhneigðra.

    Bestu kveðjur, Sigríður

  2. Takk fyrir svarið. Mér sýnist þú skilja mig ágætlega. Spurningin er bara hvort kynlíf samkynhneigðra (karla „auðvitað“) sé viðurstyggð eða ekki. Friðrik fer eftir Biblíunni í þessum málum en þú vilt greinilega ganga þvert gegn boðun hennar.

    Samlíf fullorðinna og barna og samlíf samkynhneigðra er ekki sami hluturinn – en ég held að viðurstyggðin sé af sama meiði sprottin – hún er háð rúmi og tíma í báðum tilfellum eins og dæmin sanna. Svo er skilgreiningaratriði hvað eru börn, hvað samlíf o.s.frv. Er það ekki tvískinnungur að telja barn geta valið sér lífsafstöðu 13 ára (með fermingu – jafnvel þótt lögin segi 14 – þótt menn teljist börn til 18 ára aldurs nú (var 16 fyrir stuttu)) en ekki rekkjunaut?

    Samlíf tveggja karla er kallað „viðurstyggð“ í G-testamentinu (3. Mós. 18:22) og því nýja er það sagt bæði „skömm“ og „villa“ (Bréf Páls til Rómverja 1:27). Undan þessu verður ekki vikist og gjarnan vildi ég sjá guðfræðinga fárast yfir fordómum Páls, Móse og Biblíunnar beint. Þeir eru reyndar svo ótalmargir t.d. gagnvart útlendingum, öðrum trúarbrögðum o.s.frv. Gagnrýni þín á Friðrik er að miklu leyti gagnrýni á Biblíuna og kristindóminn, eins og hann hefur lengst af verið túlkaður eða stundaður, en þú forðast því miður að nefna það.

    Mér finnst bara skautað allt of billega fram hjá því af hverju Friðrik hengir sig í þessa afstöðu sína – það er bókstafurinn sem þið lofið jafnan hástöfum en þegið um skuggahliðarnar. Þess vegna finnst mér gagnrýni á Friðrik úr þessum ranni hjáróma.

    Ef samlíf karla er viðurstyggð, skömm og villa, eins og Biblían boðar, er afstaða Friðriks skiljanleg og verjanleg, ekki satt? Mér hefur skilist að Móse sé einhver merkasti maðurinn í gyðingdómi, kristni og íslam og segja má að Páll eigi jafnvel meira í „kristindómnum“ en hinn meinti Kristur. En kannski hafa merkari og sannari spámenn nú komið fram á tru.is, sem þú bendir á, sem komnir eru til að afnema lögmálið og spámennina. Spámenn sem fella ekki bara smástafi og stafkróka úr lögmálinu heldur heilu setningarnar og kaflana. :o) Sannlega eru þeir þá meiri en Kristur, gæti Friðrik sagt.

  3. Sæll Reynir,
    Mér sýnist athugasemd þín felast í þremur atriðum:
    1. Þú bendir á að kynhegðun eigi sér skuggahliðar. Því er ég sammála. Í sama streng tekur reyndar Sólveig Anna Bóasdóttir í greininni sem ég vitnaði til og heldur áfram: „Jákvæður skilningur á kynverund og kynlífi felur þó ekki í sér það viðhorf að allt sem einstaklingarnir kjósi í kynlífsefnum sé siðferðilega gott og leyfilegt. Vissulega er mögulegt, eins og reynslan sýnir, að fólk noti kynlíf til að brjóta annað fólk niður, skaða og meiða.“ Grein mín fjallaði hins vegar ekki um skuggahliðar kynlífsins, svo sem barnaníð eða kynferðislegt ofbeldi og er þannig vissulega takmörkuð eins og sérhvert það efni sem tekið er fyrir í stuttri grein. Yfirlýst markmið greinarinnar var hins vegar var ekki að gefa yfirsýn yfir jákvæðar og svartar hliðar kynverundar, heldur hvort meta „þriðju umkvörtun greinarhöfundar, sumsé þeirri að hann og söfnuður hans verði fyrir fordómum, umburðarleysi og misrétti vegna afstöðu sinni til samkynhneigðar,“ svo ég vitni í eigin orð.

    2. Þú nefnir barnagirnd í þessu samhengi, en ég sé ekki að samanburður milli samlífs fullveðja fólks af sama kyni og misnotkun fullveðja einstaklings á barni séu sambærileg. Það er ekkert sem tengir kynlíf samkynhneigðs fólks frekar við barnaníð frekar en kynlíf gagnkynhneigðra. Hins vegar hefur þessi samanburður oft verið notaður til að kynda undir fordómum í garð samkynhneigðra, þegar pedófíliu og samkynhneigð hefur verið ruglað saman. Ég er ekki að halda því fram að þú blandir saman þessu tvennu, bendi bara á þessa algengu skörun í samtímanum. Mér finnst hins vegar athugasemd þín um barnagirndina fullrar athygli verð, vegna þess að líkast til notuð við velflest sem viljum lifa friðsömu lífi „sjúkdómsaðferðina“ til að umbera barnaníðinginn, en ætlumst til þess að hann sé óvirkur, vegna þess að girnd hans brýtur gegn mannréttindum annarra.

    3. Í þriðja lagi telur þú að „Hið heilaga orð sé tæpitungulaust í þessum málum“ og þannig geti ég ekki sem kristinn guðfræðingur mælt þeim mót. Nú veit ég að þú ert mjög meðmæltur réttindum samkynhneigðra og geri þess vegna ráð fyrir því að þú hafir meiri áhuga á að fá mig út í orðræðu um það hvort kristinn guðfræðingur geti verið ósammála ritningargreinum eða ekki, en að reyna að fá fram hjá mér fræðsluerindi um túlkun guðfræðinga á samkynhneigð. Fyrir þau sem hafa áhuga á efninu samkynhneigð og kirkja bendi ég á síðuna „Samkynhneigð og kirkja“http://kirkjan.is/samkynhneigdogkirkja/ sem hefur að geyma margar fróðlegar greinar um þetta efni. Einni má benda á grein Sólveigar Önnu í áðurnefndri bók „Samkynhneigð og kristin siðfræði“ sem fjallar um biblíutexta og samkynhneigð.

    Þú virðist telja að kristin guðfræði sé nauðbeygð til að taka undir með málflutningi Friðriks til að teljast kristin. Ég er því viðhorfi ósammála.

    Bestu kveðjur, Sigríður

  4. Mér sýnist þú alls ekki skilja Friðrik, Sigríður. Biblían segir honum að þegar karl leggist með karli sem kona væri sé það viðurstyggð. Þér finnst það ekki viðurstyggð og því fullyrðir þú að Friðrik sé haldinn fordómum. Hjalið um kynverund er jafnblint á viðurstyggðina. Kannski þú skiljir þetta þegar um barnagirnd er að ræða – sem ég vænti að þér finnist viðurstyggð. Lestu pistilinn aftur og miðaðu við að Friðrik sé að tala um kynferðislega misnotkun barna og „barnahneigð“ og þá sérðu hvað svör þín og vangaveltur ykkar eru takmarkaðar.

    „Barnahneigð er eitthvað sem nokkrar manneskjur hafa hlotið að gjöf frá Guði og verður þar með að skilja sem eitthvað stórt og mikilvægt fyrir manneskjuna. Hugmyndin, sem oft hefur verið færð fram af guðfræðingum, að fólk megi vera kynverur en ekki lifa sem slíkar er guðfræðilega óásættanleg og órökrétt.“

    Hið heilaga orð er tæpitungulaust í þessum málum og undarlegt af guðfræðingi að gagnrýna mann sem vill fara eftir því. Hins vegar er langt til seilst af Friðriki að telja það ofsóknir að fá ekki styrki úr opinberum sjóðum.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: