Netsorg, knúz og liðleskjur

Ný vefsíða um jafnrétti hefur litið dagsins ljós. Síðan er opnuð 29. september á afmælisdegi Gunnars Hrafns Hrafnbjargarsonar sem lést af slysförum í Svíþjóð í ágústmánuði. Gunnar Hrafn var afkastamikill bloggari og Facebókarmaður og hélt lengi úti hinu snarpa bloggi „Sigurbjörn femínisti“ sem flest þau sem hafa áhuga á jafnréttisumræðu hafa lesið og deilt á netinu.

Ég hitti Gunnar Hrafn aldrei í eigin persónu, þótt ég hafi skrifast á við hann og mörg hliðarsjálf hans á Facebók og google plús og lesið hann dyggilega. Ég var lengi vel ekkert viss um að Gunnar Hrafn væri til, heldur aðeins gríma á einhverri enn annarri persónu. Það er óendanlega skrýtin þversögn fólgin í því að missa vin og samherja sem maður hefur þó aldrei hitt og er ekki einu sinni viss um að komi fram undir réttu nafni. Netsorg er nýtt fyrirbrigði í tilfinningarófi mínu og Gunnar Hrafn er fyrsti vinurinn sem ég þekki eingöngu í netheimum og syrgi þar. Ég dáðist að honum fyrir það hvað hann var snjall penni og gat sett það á blað margt það sem mig langaði til að segja um málefni líðandi stundar. Og ég syrgi hann, finnst skarð fyrir skildi í netheimum, finn til með fjölskyldu hans og vinum.

Vinir Gunnars Hrafns fengu þá góðu hugmynd að opna vef um jafnrétti og samfélag í minningu hans. Vefurinn heitir auðvitað www.knuz.is, vegna fleygrar athugasemdar Gunnars Hrafns á netinu skömmu fyrir andlát sitt:

Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.

Ég á mér þá von að knúzið verði vefur þar sem fólk úr ólíkum áttum skrifar um jafnrétti og tekst á um jafnrétti. Það er þannig ekki markmið að skrifa pistla sem allir eru sammála, heldur eru umræðurnar oft merkasti hluti þráðarins. Ég vona að margir lesi greinarnar og að um þær spretti umræða sem er hlý, sanngjörn en jafnframt gagnrýnin, knúz í stað vígvallar.

Ég á eina grein á knúzinu, „Liðleskja íhugar staðalímyndir“. Það er alveg nýtt fyrir mér að skrifa á vefmiðil eins og knúzið (yfirleitt þegar ég er að skrifa er ég að svara því sem einhver annar hefur skrifað og þá gjarnan í dagblöð) og ég veit ekki alveg hvort ég kem því til skila sem ég ætlaði mér. Það er þannig áhugavert fyrir mig að takast á við nýtt form og nýja tegund orðræðu. Umræður og komment eru því vel þegnar.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: