(Þessi grein birtist líka í DV í gær 12. október 2011).
Frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur Ekki líta undan kom á sunnudaginn og kallar á tvenns konar uppgjör. Í bókinni sem og Kastljósviðtali á dögunum segir hún frá af háttvísi, skýrleika og án hefndar. Guðrún Ebba segir sögu sína í forvarnarskyni. Hún hefur leitað sér hjálpar hjá sálfræðingi, fjölskylduráðgjafa og Stígamótum og það liðsinni hefur staðið allar götur frá því að hún hóf að gera upp sín mál fyrir átta árum. Saga Guðrúnar Ebbu kallar á persónulegt uppgjör um hvort lesandinn treysti sögu hennar og þeim stuðningsaðilum sem standa við bakið á henni og síðan í framhaldinu hvernig lesandinn muni taka á öðrum frásögnum af ofbeldi gegn börnum sem koma upp í umhverfi sínu.
Í lokaorðum bók sinnar segir Guðrún Ebba að kirkjan þurfi að horfast í augu við afleiðingar þess að hafa kosið föður hennar til æðstu metorða. „Ósk mín er sú að upp úr þeirri vinnu rísi ný kirkja með ný viðhorf og vinnubrögð. Ekki líta undan.“ (Elín Hirst: Ekki líta undan: Saga Guðrúnar Ebbu dóttur Ólafs Skúlasonar biskups, 231). Seinna uppgjörið sem ég vísaði til við lestur bókarinnar er þannig uppgjör Þjóðkirkjunnar og presta sem stéttar til að endurheimta traust. Víða má sjá merki um andúð á kirkju og kirkjunnar mönnum á blogg- og samfélagssíðum þar sem jafnvel er haft á orði að prestar séu upp til hópa glæpamenn og barnaníðingar. Mikill meirihluti presta vinnur verk sín af umhyggju og fagmennsku fyrir þeim sem þeim er trúað fyrir, en vígðir þjónar kirkjunnar njóta ekki lengur þess óskoraða trausts sem þeir áður höfðu. Önnur trúfélög búa einnig við svipaðar aðstæður og óorð eins flyst yfir á annan. Engin stofnun getur lengur látið eins og kynferðisofbeldi geti ekki þrifist innan vébanda hennar eða að starfsmenn hennar séu sjálfkrafa yfir slíkt hafnir.
Kirkjuþing skipaði nefnd í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Kirkjuþings í júní s.l. Hefur Kirkjuþingsnefndin kallað ráðgjafa á sinn fund og staðið að sátt við konurnar sem kærðu biskup árið 1996. Eftir stendur hin stóra skuld Þjóðkirkjunnar við Guðrúnu Ebbu. Þjóðkirkjan tók að sönnu ekki þátt í ofbeldi föður gegn barni. Staða og ósnertanleiki þessa föður sem prests og kennara byggðist hins vegar á valdi hans sem kirkjuleiðtogi. Vald Ólafs undirstrikuðu og tvíefldu prestar Þjóðkirkjunnar og örfáir leikmenn með atkvæði sínu í biskupskjöri 1989. Blett þennan á dómgreind kirkjunnar manna hefði yfirstjórn kirkjunnar getað kannast við og bætt fyrir árið 2009 með því að leiðbeina Guðrúnu Ebbu og hlutast til um það að hún fengi úrlausn mála sinna. Þess í stað sat biskup Íslands á málinu, hvatti til þess að hún skrifaði bréf og stakk svo bréfinu ofan í skúffu. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar kirkjuþings bar biskup Íslands ábyrgð á slælegri stjórnsýslu í málefni Guðrúnar Ebbu. Hann hefur ekki beðist afsökunar og vörn hans felst í að „það voru mistök við skráningu“ (DV 15. júní 2011). Vegna óhönduglegra afskipta sinna af Ólafsmálum 1996 og ekki síður vegna mistaka í meðförum máls Guðrúnar Ebbu 2009 hefur Karl biskup orðið eins konar stofnanaleg táknmynd vangetunnar við að gera upp kynferðisafbrot í huga almennings. Endurheimt trausts er stærsta viðfangsefni Þjóðkirkjunnar á komandi árum. Það verður ekki gert með Karl í brúnni og því er það mikilvægt að tilkynnt verði eigi síðar en á Kirkjuþingi í nóvember að nýrrar forystu Þjóðkirkjunnar sé að vænta.
Hið jákvæða við slíka krísu er að kirkjur sem og allar aðrar stofnanir samfélagsins geta endurheimt traust fólks með öflugu eftirliti með þeim sem sinna sálgæslu- og æskulýðsstarfi. Á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku verða haldin málþing og námskeið um þetta málefni í Reykjavík, með heimsþekktum fyrirlesara Marie Fortune, en hún er sérfræðingur í kirkjulegu ofbeldi. Ætli Þjóðkirkjan ætli sér að endurheimta traust landsmanna eftir að sterkar vísbendingar hafa borist um að fyrrverandi leiðtogi hennar hafi verið barnaníðingur ætti sérhver kirkjuvörður, prestur, djákni, biskup, barnakórstjóri og æskulýðsfulltrúi á landinu að mæta á námskeiðið í boði sóknarnefnda og héraðssjóða. Það er ekki nóg að tala um að vera á móti kynferðisofbeldi, við verðum að þekkja birtingarmyndir þess og mýturnar sem leiða til þess að slík mál eru kæfð og bæld í fjölskyldum, stofnunum og samfélagi. Aðeins með öflugum forvörnum getur ósk Guðrúnar Ebbu um nýja kirkju með ný viðhorf og vinnubrögð orðið að veruleika. Kirkju sem ekki lítur undan.
Færðu inn athugasemd