Ég var að lesa Dettifoss eftir Einar Benediktsson í kvöld. Ég held mikið upp á Einar og hef unað mér við Einræður Starkaðar síðan ég var unglingur. Einar Ben. talar svo fallega um alveldissálir og afgrunn og mér finnst ekkert íslenskt skáld hafa orðað þessar algleymishugsanir mystíkurinnar jafnvel. Abyssus á latínu var þýtt með Abgrund í miðaldaþýsku og Einar tekur upp hina þýsku mynd þegar hann talar um afgrunnið, sem heldur saman tortímingu og uppbyggingu í sköpun sinni. Hér kemur fjórða erindið í kvæðinu um Dettifoss þar sem skáldið talar til fossbúans og segir rödd hans koma úr „afgrunni iðurótsins“.
Heill vatnsins jötunn, frjáls með breiðan barm.
Þér bindur íssins hel ei fót né arm.
Þín rödd er sótt í afgrunn iðurótsins,
en uppheimsloginn brennur þér um hvarm.
Þú gætir unnið dauðans böli bót,
stráð blómaskrauti yfir rústir grjótsins,
steypt mynd þess aftur upp í lifsins mót
með afli því frá landsins hjartarót,
sem kviksett er í klettalegstað fljótsins.
Stórkostlegt.
Færðu inn athugasemd