Mæðravernd og Meistari Eckhart

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Aðventan er runnin upp, þessi undursamlega og annasama tíð þegar við tökum á móti jólunum. Jólalögin taka öll völd í útvarpinu, hveitið og sykurinn hverfur af búðarhillunum og jólaljósin lifna hvert af öðru. Við erum ljósfíkin í svartasta skammdeginu og aðventan og jólin lýsa upp íslenskan vetur.

Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins,

segir í seinna ritningarlestri dagsins, og ljósastefið í upphafi aðventu er sannarlega engin tilviljun. Siðir og venjur breytast. Í bernsku minni var aðventan tími mikilla anna á heimili, baksturs og þrifa. Nú finnst mér meira lagt upp úr því að njóta aðventunnar sjálfrar, borða góðan mat, baka með börnum og taka þátt í uppákomum með þeim sem tengjast jólunum.

Hvað einkennir hinn trúarlega undirbúning aðventunnar? Hver eru hin kristnu hertygi ljóssins, hin kristnu jól? Fyrri ritningarlesturinn fjallar um undirbúning. Þar segir:

Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.

Þetta stef um hjálpræði Síonar er síðan endurtekið í guðspjalli dagins um konunginn Krist sem kemur til hennar. Síon er annað nafn á borginni Jerúsalem og í myndlíkingum biblíuskáldanna er Síon alltaf kona. Og enn hljómar stefið um borgarmúra Síonar í sálminum sem við sungum áðan, “Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt”.

Stef dagsins fjallar því um undirbúning í gleði og von,
að leggjast í vegagerð,
byggja nýjar brýr,
stækka dyrnar og hliðið
svo að frelsarinn komist inn til okkar á jólum.

Jólaundirbúningurinn, tónleikarnir og glaumurinn
lífga upp á svartasta myrkrið í desember.
En hertygi ljóssins, inntak aðventunnar bjóða og kalla fram meira en það.

II.

Um undirbúning og eftirvæntingu aðventunnar má ræða um með margvíslegu myndmáli. Sumt af því höfum við þegar séð í ritningarlestrum og sálmum, myndir af vegum, dyrum og hliðum, þar sem Síon tekur á móti hjálpræði sínu Jesú Kristi. Ein af líkingunum sem gefur mér mest á aðventunni er hugmyndin um að við hvert og eitt fæðum Krist á aðventu. Þessi hugmynd átti sérstaklega vinsældum að fagna á miðöldum.

Þannig talaði meistari Eckhart á þrettándu öld um að mikilvægasta hlutverk kristins fólks væri að bera Guð í heiminn. Eckhart kvengerði hina kristnu manneskju sem er þunguð af Kristi og sagði að hún væri

“frjáls og óháð, án nokkurs sem héldi henni niðri. Hún er jafnnærri Guði og sjálfri sér.”

En Eckhart gengur skrefinu lengra í kvengervingum sínum, því að sköpun og elska Guðs er líka dregin upp með fæðandi móðurlíkingum hjá honum. Eckhart segir:

“Öll gleði Guðs felst í því að fæða. Ekkert sem ég hef frá fæðingu notið verður frá mér tekið nema Guð taki það. Allt sem ég hins vegar nýt fyrir tilviljun og heppni get ég misst. Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.”

Þannig gerir Eckhart meyfæðinguna að sístæðum atburði,
djúpu táknmáli um eftirvæntinguna eftir Kristi.
Í stað þess að við veltum því fyrir okkur hvort
meyfæðingin standist eftir lögmálum náttúrufræðinnar
þá hristir Eckhart upp í okkur og segir:
“Þið berið þetta barn, það er ykkar að koma því í heiminn.”

Í líkingamáli Eckharts skiptir engu máli
hvort við erum karlar eða konur, börn eða fullorðin,
okkur er öllum treyst fyrir því að fæða Krist inn í þennan heim á jólum,
að búa til rúm fyrir Krist,
að næra Krist
og finna Kristi stað
í okkar annasömu, æstu og undursamlegu veröld.

Og ástæða þess að okkur er treyst fyrir þessu hlutverki
er elska Guðs til okkar.
Guð veit að veröld okkar er ekki fullkomin
og stundum er hún full af óöryggi og synd.

Guð gefur okkur Krist
til þess að við vitum að við séum alltaf í Guðs hendi
og að ekkert geti gert okkur viðskila við þann kærleika.
Þannig heyrir það sem kemur okkur sjálfum vel
og það sem kemur öðrum vel saman.
Guð gefur okkur Krist vegna þess að Guð elskar okkur
og við fæðum Krist öðrum til heilla,
vegna þess að við endurgjöldum þessa ást.

Þungi Krists gerir okkur að betri og heilli manneskjum
í hlýrri tengslum við annað fólk.
Ef það er eitthvað sem jólin og aðventan geta kennt okkur,
Þá eru þær kennslustundir í von.
Ef jólin er fæðingarhátíð, þá er aðventan mæðravernd trúarinnar.

III.

Ég tala um þunga
og oft verður slík gjöf um að elska Guð og náungann þung.
Hún verður þung þegar við hugsum um þau sem líður illa á aðventunni
vegna sorgar, fátæktar og þunglyndis.
Burðurinn verður þungur þegar við kvíðum komandi degi,
kvíðum því að eiga ekki nóga peninga fyrir jólagjöfum, jólafötum og jólamat
og höfum áhyggjur af fólkinu sem við elskum.
Þá verður eftirvænting og hringiða aðventunnar erfið og ergjandi
og okkur langar til að slökkva á jólalögunum
og henda mandarínunum.

Byrðin verður þung þegar ég hugsa um hungrið í heiminum.
Um allan heim er Kristur fæddur á þessari aðventu og oft inn í mikla neyð.
Þess vegna er ég svo þakklát fyrir verk fermingarbarnanna
þegar þau söfnuðu fyrir vatni nú í nóvember.
Sjö og hálf milljón safnaðist, þar af 200 þúsund í Grafarholtinu á einni kvöldstund. Takk kæru krakkar fyrir verkin ykkar!
Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta,
þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka,
gestur var ég og þér hýstuð mig,
nakinn og þér klædduð mig,
sjúkur og þér vitjuðuð mín,
í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Kristur vitjaði ykkar í nóvember og þið gáfuð Kristi hreint vatn að drekka.

IV.

Guð gefur okkur nefnilega ekki Krist fyrir hressa stemmningu á aðventunni.
Hress stemmning er fín og jólaljósin gleðja,
en kristin jól eru meira en það.

Kristin jól eru fæðing Krists í heim og hjarta,
að minnast þess sem Guð hefur gefið okkur,
að tengjast þeim sem í kringum okkur eru
og ganga í von mót því sem framundan er.
Sú von stendur þrátt fyrir þunga, annir, peningaleysi og ergelsi.
Sú von er fyrir hendi
vegna þess að Guð kom auga á okkur fyrst
og það auga er fullt af elsku.

Þess vegna getum við gefið okkur eftirvæntingunni á vald
Og tekið þátt í fæðingu Jesúbarnsins á helgum jólum.
Hún á erindi við okkur öll,
erindi sem tengir okkur saman sem manneskjur
og gefur okkur þrótt til að lifa í krafti, von og trú.
Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.

Og þannig gjörum við fæðandi dyrnar breiðar og hliðið hátt
inn í hjörtu okkar sjálfra og annarra.
Við leggjum veg og ryðjum grjótinu burt
svo að Kristur geti komið inn um borgarhliðin.
Við leggjum af skammdegið og tökum upp hertygi ljóssins.

Við gerumst “frjáls og óháð, án nokkurs sem heldur okkur niðri.
Við erum jafnnærri Guði og sjálfum okkur.”

Við erum Síon
og hjálpræði okkar kemur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: