„Orðið, Öndin, Spekin, Tjaldið“ Prédikun á jóladag 2011 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,
fullur náðar og sannleika,og vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóða upphafsvers jólaguðspjalls Jóhannesar um Orðið sem varð hold.

Hvernig túlkar maður Orð sem varð hold með mynd?
Spurningin er undarleg,
því ef það er eitthvað sem okkur skortir ekki um jólin,
þá eru það jólamyndir,
myndir af fjárhúsi og jötu
og öllu því fólki sem heimsótti það samkvæmt guðspjöllunum,
myndir af bjöllum, jólatrjám, klukkum og kertum.
En Orð sem varð hold, hvaða myndir á það?
Ég sat lengi við undirbúning jóladagsmessunnar
og velti fyrir mér mynd til að setja á messuskrána.

Orðið varð hold.
Það er einhver dýpt yfir orðum Jóhannesar,
eitthvað sem dregur mann til sín í kyrrð sinni og kunnugleika.
Og samt er jólaguðspjall Jóhannesar svo ólíkt þeim textum öðrum
sem við lesum á jólum.
Jólaguðspjall Lúkasar af litla barninu í jötunni
er lesið um jólin til jafns við frásögu Jóhannesar
og jólaguðspjall Mattheusar um vitringana sem gáfu Jesúbarninu gjafir
setur mark sitt á sunnudag milli jóla og nýjárs og þrettándann.
En hjá Jóhannesi er ekki að sjá neitt barn eða móður þess,
engin jata, engar gjafir,
engir vitringar, ekkert fjárhús
og engir hirðar úti í haga,
ekkert af því sem setur mark sitt á helgileiki okkar og hefðbundin jólatákn.
Mér er til efs að nokkur hafi saumað út jóladúk með orðinu sem varð hold.
Þess í stað er okkur gefinn texti
sem stingur í stúf við einfaldleika og frásagnargleði Betlehemsagna af jólabarninu.
Í upphafi var orðið og orðið varð hold og orðið bjó með okkur.

Jólaguðspjallið sem okkur er fært í dag
opnar öðruvísi aðgang að jólunum,
guðspjall sem segir ekki sögu,
Guðspjall sem talar um orð
Og þetta orð er ekki hægt að tákna eða teikna á jólakort,
orð sem streitist á móti hefðbundnum hugmyndum okkar um það
hvernig jólaguðspjall er
orð sem myndar mótvægi við hefðbundin orð um jólabarnið Jesú
orð sem leitar samtals.

Þetta jólaguðspjall byrjar ekki í sögulegum tíma,
ekki við jötuna
ekki fyrir botni Miðjarðarhafs
í upphafi tímatals okkar.
Það fjallar engu síður um tilvist hins þríeina Guðs
en tilvist Jesú frá Nasaret.
Jólaguðspjall Jóhannesar
ásamt nokkrum öðrum mikilvægum ritningartextum
liggur til grundvallar játningu kristinna manna
um leyndardóm þrenningarinnar.
Þegar Jóhannesarguðspjall talar um að orðið hafi verið í upphafi
vísar það þannig ekki til sköpunarinnar eða fæðingu Jesú
heldur til guðdómsins.
Það undirstrikar
að hversu miklar og háleitar hugmyndir sem við gerum okkur
um líf og dauða Jesú
þá byrjar og endar hið heilaga ekki þar.

II.
Hvaðan kemur þessi undarlega hugmynd um Orðið sem var til frá upphafi,
orðið sem varð hold?
Ég sagði áðan að í jólaguðspjalli Jóhannesar
væri engin móðir og ekkert barn.
En guðspjallið er að mörgu leyti
eins og myndin sem varð fyrir valinu á messuskránni.

Fyrst sá ég ekki neitt út úr þessari mynd.
Svo fannst mér ég sjá blaðsíður í bók.
Næst fannst mér ég sjá sitjandi konu
og við hlið hennar álúta veru sem leggur hönd sína í kjöltu hennar.
Stundum finnst mér ég sjá leg út úr þessari mynd.
Stundum sé ég barn sem er líka ljós í fangi konunnar.
Myndin er djúp og undarleg eins og jólaguðspjallið sjálft
og hún heitir “Orðið varð hold”.

Og nú ætla ég að segja ykkur sögu af orðinu
sem er svo erfitt að tjá með myndum,
Orði þar sem bæði móðir og barn leynast undir yfirborði textans.
Gríska orðið logos þýðir orð á íslensku
og það er einmitt orðið sem notað er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
til að tákna frelsarann sem fæddist í heiminn.
Þetta er í eina skiptir í gjörvallri Biblíunni sem orðið er notað með þessum hætti.

Lógós er gamalt og virðulegt orð með langa sögu.
Þegar við notum orðið og hugsum um það,
er eins og við opnum hlemm á brunni
og horfum ofan í mikla og ævaforna dýpt.

Margir telja að þessi áhersla á orðið logos bendi til þess
að verið sé að vitna í gríska heimspeki í guðspjallinu.
Í hinni grísku stóuspeki var talað um lógósið
sem hið lífgefandi guðlega afl sem flæðir um alla veröldina.
Grísku heimspekingarnir höfðu að fornu
talað um logos sem gáfu og afl skynseminnar.
Þegar sagt er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
Í upphafi er orðið,
er orðið, lógósinn
þannig sískapandi sköpunarmáttur guðdómsins
sem hefur verið til frá upphafi.
Og þegar sagt er að orðið hafi orðið hold,
þá er verið að segja að þessi sköpunarmáttur
hafi orðið manneskja í Jesú Kristi.

Lógósarhugsunin bendir þannig til að Orðið sé miklu eldra en Jesúbarnið
Orðið hefur verið til frá upphafi,
En það fæddist sem barn og lifði þrjátíu ár í heiminum að kristnum skilningi,
Á tíma þar sem sköpunarmáttur Guðs náði sérstökum hæðum.
Inn í ljóð Jóhannesar um orðið er skeytt myndum af Jóhannesi skírara.
Þessi undarlegi sambræðingur hinnar heimspekilegu hugsunar
og vitnisburðar Jóhannesar
segir okkur að guðspjallamanninum var ekki nóg
að útskýra Orðið sem var í upphafi.
Hann vill segja okkur að sá sem Jóhannes skírari vitnaði um
varð hold af Orðinu frá upphafi.
Og þannig tengjast hin altæka saga heims og guðdóms
Við ákveðna sögu á ákveðnum stað
sögu Jesú sem við nefnum Krist og frelsara.

Ég sagði áðan frá hinum gríska lógósi,
en Orðið sem okkur er fært á jólum er ekki aðeins grískt orð og grísk hugsun.
Við eigum fleiri djúpar lindir í þessum fáu orðum jólaguðpjallsins,
sem við skulum taka hlemminn ofan af og horfa niður í.
Þau eru gefin okkur í dag sem jólagjafir.
Og ef við rýnum nógu vel má finna þar myndir móður og barns.

Þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs á öldunum fyrir fæðingu Jesú
mynduðu sameiginlegan hellenískan menningarheim
þar sem grísk, rómversk, egypsk, mesópótamísk og gyðingleg áhrif
runnu saman eða mynduðu merkingarbær tengsl.
Út þessum frjóa jarðvegi varð til hugmyndin um Orðið frá upphafi.

Hin hebreska hefð geymir boðskap sem tengist lógósinu,
hugmyndir um speki og anda, hochmah og ruach á hebresku.
Bæði voru þessi orð í kvenkyni,
Andi Guðs sem sveif yfir vötnunum í sköpunarsögu Biblíunnar
var á hebresku önd Guðs.
Hinar hebresku orðshugmyndir fjallaði um sköpunar- og viskumátt
sem hafði verið með Guði frá því að sköpunin varð til,
eins konar guðleg og kvenkyns fylgitungl Jahves.

Þegar hebreska Biblían var þýdd yfir á grísku
breyttist öndin í hvorugkynsanda, pneuma,
en spekin varð sophia og hélt áfram að vera kvenkyns.
Bæði viskan og öndin
nutu mikillar virðingar í gnostískum hreyfingum,
sem höfðu mikil áhrif á þróun kristindómsins á fyrstu öld.
Þannig urðu líkast til fyrstu þrenningarhugmyndir kristinna manna til,
hugmyndir um hina heilögu fjölskyldu þrenningarinnar,
Guð föður, hina kvenlegu Speki eða önd og svo soninn sem varð hold.

Seinna hvarf kvenkynið endanlega úr tilbeiðslu kristinna manna.
Okkar norræna hefð á fáar minningar um þær systur ruach og hocmah,
sem eru faldar undir Orðinu sem var í upphafi hjá Guði.
En þær eru þarna undir yfirborðinu
kvenmyndir hins hebreska guðdóms
sköpunarmáttur hinnar grísku heimspeki
tákn guðlegrar elsku og visku.

Þegar við horfum ofan í djúpa lind Jóhannesarguðspjalls
segir guðspjallið að Orðið hafi orðið hold
Og að hinn holdtekni hafi búið með okkur sem Jesús Kristur.
Það getur þýtt að Orðið sé sama sem Sonur
og sú skýring hefur orðið ofan á í kristinni hefð.
Það getur líka þýtt að hin guðlega Speki hafi fætt Son í heiminum
þegar hið eilífa nam staðar í tímanum.
Eða hvað túlkar betur það sem er eitt og þó tvö,
eitt sem er að verða tvö,
tvö sem var einu sinni eitt,
en einmitt kona og barn hennar fætt og ófætt?
Hvar verður hið mannlega hold til ef ekki einmitt þar?

III.
Og Orðið varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Ég hef gengið með ykkur að brunnum orðs, speki og andar í dag.
Að síðustu langar mig til að opna einn brunn fornaldar enn
fyrir okkur á helgum jólum.
Það er dýptin sem leynist undir sögninni að búa
í versinu um Orðið sem bjó með oss.

Sögnin skenoó á grísku
sem er þýdd með sögninni að búa á íslensku
á sér nefnilega engu minni sögu í hebreskunni en lógósið í grískunni.
Skenoó þýðir eiginlega að tjalda,
að gera sér bústað
og er komið af sömu rót og tjaldið
sem Ísraelsmenn báru með sér í eyðimörkinni
þar sem örkin var geymd
og sem reist var á hverjum stað
til vitnisburðar um návist Guðs.
Þessi návist shekinah, á hebresku er enn eitt fylgitunglið
í líki konu
sem við finnumst
þegar við íhugum jólaguðspjall Jóhannesar
hebreskar guðamyndir í kvenkyni
sem við rekumst á hér og þar við lestur Biblíunnar,
sem færa okkur heim öryggi, sköpun og lífgefandi anda
þegar við þurfum mest á þeim að halda.

Kæri kirkjugestur
Sem hefur lesið með mér óræðar myndir í dag,
gengið að hebreskum og grískum brunnum frumkristninnar
hugleitt hversu erfitt það er að ímynda sér orð sem varð hold
og uppgötvað kvenmyndirnar sem standa undir hugmyndinni um Orðið

Ég óska þér þess
Að tjaldbúð Guðs nemi staðar í garðinum þínum
Og shekinah fylli þig af návist þinni
Í hverjum þeim aðstæðum, erfiðleikum og gleði sem þú finnur þig í.

Ég óska þér þess
að önd Guðs blási yfir vötnum þínum
og ruach fylli þig móði og sköpun þegar þreytan og vonleysið nær á þér tökum.

Ég óska þér þess
Að speki Guðs fæði barn í huga þínum og hjarta
hocmah gefi þér visku og frið til að lifa lífi þínu í sátt við Guð og menn.

Ég óska þér þess að þú finnir að Guð býr með þér í Jesú Kristi
að lindir jólanna ljúkist upp fyrir þér
á þann hátt sem þú þarfnast mest
að Guð, orð, önd og speki tjaldi hjá þér allt næsta ár og öll þau ár sem þú lifir

og að þú fáir séð dýrð barnsins sem þér er fætt í dag
í dag og alla daga.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: