Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Og gleðileg jól öll sömul!
Um daginn var kona á leið frá Ráðhúsi Reykjavíkur yfir á Lækjargötu. Hún gekk hratt, því nóg var að gera og snaraðist fyrir hornið á milli Iðnó og safnaðarheimilis Dómkirkjunnar. Þar mætti konan grágæs, sem var á vappi í snjónum og virti fyrir sér umferðina. Andartak virtu gæsin og konan hvor aðra fyrir sér, svo leit gæsin undan því gæsum er ekki vel við að horfa djúpt í augun á mannfólkinu. Konan og gæsin tvístigu nokkra stund eins og tvær kurteisar konur í Kringlunni, önnur í svörtum skóm og kápu, hin í fiðurpels, með hvítt brjóst og í grábleikum stígvélum. Svo rak gæsin upp hvellt garg, konan vék til hliðar og horfði á gæsina taka flugið út á Tjörnina.
Það er hægt að horfa á gæsir á margan hátt.
Gæsir hafa lengi verið taldar á Íslandi
og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra.
Grágæsir eins og sú sem mætti konunni við Tjörnina
verpa og halda sig nálægt sjó.
Flestar fljúga til Bretlandseyja yfir veturinn
en allnokkur hópur heldur sig
í nánd við Reykjavíkurtjörn allt árið.
Við getum horft á gæs og velt fyrir okkur hvaðan hún kemur,
hvort hún sé merkt,
hvort hún sé stygg,
hvort hún sé góð í matinn og hvar hún verpi.
Við getum velt því fyrir okkur
hvort hún muni drita á höfuðið á okkur
eða bíta okkur í nefið með gogginum sínum.
Allt eru þetta skynsamlegar ályktanir
af því sem fyrir augu okkar ber þegar við mætum gæs.
En lífið er meira en talningar,
matur í maga og iðbrögð við hugsanlegri árás.
Lífið er líka ljóð,
og í kvöld þegar við kyrrum hugann
og látum hann berast að lítilli jötu í Betlehem,
er tími til að láta ímyndunaraflið fljúga litla stund.
Eins og gæs, sem flýgur framhjá konu
og tekur strikið út á Tjörnina.
II.
Í þessari jólaprédikun langar mig til að tala um
fljúgandi engla,
eins og við hæfi er á helgri jólanótt.
Mig langar líka til að tala um
fljúgandi gæsir.
Mig langar til að tala við ykkur um englana
sem eru út um allt,
Að allir skapaðir hlutir
geti orðið okkur að engli,
ef við höfum augu á höfðinu
Og erum á höttunum eftir táknum um návist Guðs.
Þess vegna langar mig til að lesa fyrir ykkur
ljóð skáldkonunnar Mary Oliver um Villigæsirnar
í þýðingu Gyrðis Elíassonar:
Þú þarft ekki að vera góður,
þú þarft ekki að skríða á hnjánum
hundrað mílur yfir eyðimörkina, iðrandi.
Þú þarft aðeins að leyfa blíðu dýrinu
í þér að elska það sem það elskar.
Segðu mér frá örvæntingu þinni
og ég skal segja þér frá minni.
Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.
Hver sem þú ert, sama hve einmana
þú kannt að vera, þá býður heimurinn
sig fram fyrir þig og hugarflug þitt,
kallar til þín eins og gæsirnar,
hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.
Það eru komin jól og jólin þau kalla okkur til sín með ýmsu móti. Sum okkar lesa jólin úr augum barnanna, aðrir heyra klukkurnar kalla og finna hjartað svella í brjósti sér. Sum tengja komu jólanna við gamalkunna lykt eða skraut eða hefð. Sum hafa aldrei fundið fyrir jólum, kenna einungis tóms og pirrings yfir öllu jólaveseninu. Svo eru þau til sem jólin koma að óvörum, eins og gæs sem maður mætir við Tjörnina á annasömum degi.
Gæs er frábrugðin manneskju.
Og það er einmitt annarleiki dýrsins
sem tengir það og manneskjuna saman
í öllu því fjölbreytta hugarflugi sem heimurinn gefur
og í frið og gleði yfir því einu að vera til
ef þér tekst
að leyfa blíðu dýrinu í þér
að elska það sem það elskar
ef þér tekst að vera óhrædd og óhræddur
hefja þig upp yfir litla heiminn þinn sem þrengir að þér
og taka þátt í hinum stóra heimi
í fjölskyldu alls
lífs.
II.
Jólin koma með sinni gamalkunnu frásögn af barninu í jötunni í Betlehem. Lúkasarguðspjall segir frá hirðum úti í haga sem gættu hjarðar sinnar og vissu ekki til þess að neitt markvert hefði gerst í nágrenninu. Öllum að óvörum birtist þeim engill sem sagði að þeir skyldu ekki vera hræddir lengur, því að að frelsarinn væri fæddur í borg Davíðs. Og loftin öll fylltust af englum sem sungu Guði dýrð og fluttu fagnaðarboðskapinn um frið á jörðu.
Englar eru á listaverkum málaðir
eins og menn með geislabaug
Og stundum eins og lítil, þybbin börn.
Ég hef aldrei séð svoleiðis engil,
en ég hef fundið fyrir þeim og
þeir hafa komið mér að óvörum.
Englar gera menn stundum hrædda
en koma þeirra er gjarnan gagngert
tengd því að segja fólki
að það þurfi ekki lengur að vera hrætt.
Ég hef túlkað andartök og atvik
sem heimsóknir engla
og fundið ummerki um þá
þegar ég hef þurft á þeim að halda
jafnvel án þess að vita af þörf minni.
Á þessari aðventu hef ég hitt allnokkra engla,
sem leitast við að hjálpa þeim sem minna mega sín
og bera gleði-, uppörvunar- og friðarorð
þangað sem þörf er á.
Og ég hef líka hitt engil í fuglslíki.
Angelos á grísku merkir sendiboði
Sá sem kemur með merkilegar og óvæntar fréttir
Fréttir sem bæði vekja hræðslu
af því að þær eru óvæntar
Og hjálpa til við að lægja hræðslu
yfir öllu því sem steðjar að í einu lífi.
Merkur guðfræðingur hefur talað um
að englar séu fyrst og fremst táknmyndir
um návist, frið og forsjón Guðs.
Engill Drottins er birtingarmynd Guðs
á hverju því formi sem manneskjurnar
geta skilið og tengst.
Þess vegna eiga englarnir sér ekki
ævisögur og tilvist eins og mennirnir,
þótt sumir eigi nafn.
Þeirra hlutverk er að miðla ljósi,
skilboðum um birtu og gleði inn í heim
sem of oft gleymir sínu eigin hugarflugi,
sinni eigin birtu,
gleymir því að leyfa blíðu dýrinu í sér
að elska það sem það elskar
og finnur engan til að deila einmanaleika sínum,
erfiðleikum og örvæntingu með.
Engillinn er er þannig eins og ljóskristall
sem safnar í sig ljósinu
Og sendir það frá sér aftur
í nýjum, sterkum og ótrúlega fjölbreyttum myndum,
Engill sýnir okkur margbreytileika ljóssins
lætur okkur taka eftir ljósinu.
Engillinn er það sem hjálpar okkur
til að endurskoða aðstæður okkar
út frá nýju sjónarhorni
greina möguleika í erfiðri stöðu
finna æðruleysi, kjark og vit
til að halda áfram inn í nýtt ár.
Englarnir eru alls staðar og hvergi
Þeir mæta okkur í óteljandi atvikum
og við tökum oft ekkert eftir þeim.
Hirðarnir í sögunni tóku eftir englinum.
Þeir upplifðu englasönginn,
trúðu því að Messías hefði loksins fæðst
að Guð hefði vitjað Ísraelsþjóðarinnar
með barninu sem spáð hafði verið fyrir um.
Og uppgötvun þeirra leiddi þá að hrörlega fjárhúsinu
með nýfæddum frelsaranum í jötunni.
Ég velti því fyrir mér
hvort englarnir hafi farið víðar um Betlehem
þessa nótt.
Kannski voru fleiri þungbúnir einstaklingar
á kreiki í borg Davíðs
sem ekki tóku eftir englinum
lásu ekkert nýtt út úr skilaboðunum
voru hvorki hrædd
Né heyrðu að nú þyrftu þau aldrei að hræðast meir.
Kannski sáu þau aðeins gæsahóp
fljúga yfir hæðirnar í kringum Betlehem.
Kannski kom engillinn líka í heimsókn
til gistihúseigandans
og fjárbóndans
og konunnar sem bakaði brauðin
kannski voru það hirðarnir einir
sem voru nógu barnslegir í sér
til að sjá engil þar sem aðrir sáu ekki neitt
veittu enga athygli
og kærðu sig ekkert um.
Kannski fór fæðing frelsarans
gersamlega framhjá þeim.
Það voru hirðarnir sem uppskáru gleðina og friðinn
sem fylgir því að eiga Jesúbarn að annast um.
Það voru hirðarnir sem upplifðu helga nótt,
Sindrandi fegurð og dásamlegan englasöng,
Þar sem aðrir kunna að hafa séð
Einungis enn eina ískalda desembernótt í myrkrinu.
III.
Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.
Ég er á þeirri skoðun
að gæsin sem ég mætti við Tjörnina um daginn
hafi verið engill.
Ég veit ekki skilaboðin sem engillinn kom með
Kann engin skil á hvellu garginu sem lét mig hrökkva í kút.
Ég veit það eitt að eitthvað henti mig
við Tjörnina um daginn
og það sem gerðist var gott og öruggt
og hjálpaði mér að fela jólin Guði
hlæja að gæsinni í staðinn fyrir
að stressa mig yfir jólunum
eða erfiðleikum og önnum á nýju ári.
Ert þú að leita að hinu óvænta
í hinu gamalkunna í kvöld, kæri kirkjugestur?
Hefur þú húmor fyrir gæsum
Og finnst gott að horfa í augun á englum?
Ég er ekki að meina að gæsir
séu englar í dulargervi.
Ég er ekki að meina að allar gæsir
séu í rauninni englar.
Ekkert af þessu eitt og sér eru englar.
Allt, að þessu meðtöldu hefur möguleika
á að vera öðrum engill.
Tákn um návist Guðs
Og hugarflug heimsins sem gefur sig þér.
Stundum verða óvænt atvik svo dýrmæt og sterk
í einfaldleik sínum.
Eins og sú gjöf að horfa litla stund
í augu skepnu
Sem er allsendis ólík mér,
Sem aðeins gefst mér litla stund,
Áður en hún tekur flugið út á Tjörnina
og er mér tákn um heim
sem er stærri og meiri
en vangaveltur mínar um allt
sem ég þurfti að gera fyrir jólin.
Ég las í augum þessarar furðuveru í fiðurkápunni,
með brjóstið hvíta og í bleiku stígvélunum
eitthvað styrkjandi,
heilnæmt og gott um fjölskyldu alls lífs,
sem ég tilheyri
og sem þú tilheyrir
en hvorugt okkar stjórnar,
og um góða aflið
sem tengir saman þessa fjölskyldu.
Ég fann
hvernig jólin strukust við mig litla stund
Áður en þau flugu yfir Tjörnina.
Við eigum jól,
ekki af því að við séum svo góð og höfum afrekað svo mikið,
Heldur vegna þess að heimurinn og Guð gefa sig okkur
hugarflugi okkar
og hæfileikum til mennsku,
gefur okkur tækifæri til að hugsa málin upp á nýtt,
að ganga nýjan veg
upplifa og gefa nýja gæsku og ný tækifæri
sjá engla þar sem aðrir sjá bara skugga og svartnætti
eiga nýtt upphaf
og ný jól
taka á móti hinu óvænta
eiga frið
eiga barn
upplifa Guð í upphæðum og velþóknun yfir mönnunum
eins og forðum í bænum Betlehem.
„Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“
Og þessi boðskapur frá Betlehem
kallar til þín eins og gæsirnar,
hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Myndin er af grágæsum er tekin af Wikipedia og er eftir Michael Maggs, Wikimedia Commons
Færðu inn athugasemd