Gegnum glerþakið

Á borðinu er lilja
í mjóum vasa, hugsaðu þér,
sprottin upp um miðjan vetur

og send með augum hans
niður í saltvatnið.
Liljan snýst

í þöglu djúpi sínu
í vasanum á leðurhlíf skrifborðsins.
Umsækjandinn gengur inn

á hörðu parketinu
á háu hælunum og umsóknin
berst eins og sjúkdómur

í hendur hans
hinum megin eikarborðsins: hann veit efni hennar
segir hann við sjálfan sig: eins og skyttufiskur

spýtir vatni upp í loftið
í lóni Queenslands
og skýtur niður drekaflugur.

(„Glerþakið“ eftir Robert Adamson (1943) úr ljóðabókinni Waving to Heart Crane (1994))

Gler hefur áhugaverða eiginleika, vel fægt er það ósýnilegt, en veitir engu að síður þeim sem reyna að fara í gegnum það fullkomið viðnám. Myndlíkingin um glerþakið er mikið notuð í jafnréttismálum til að fjalla um hindranir sem heft geta framgang kvenna og minnihlutahópa á vinnumarkaði, óháð frammistöðu þeirra og hæfni.

Ástralska ljóðskáldið Robert Adamson túlkar þetta glerþak með athyglisverðum myndum, kvenlegri lilju er haldið lifandi með saltvatni og hún hringsólar í eigin djúpi undir vökulu auga eiganda síns. Valdið er undirstrikað með skrifborðinu og hið kerfislæga viðhorf sem skipar konum lægra en körlum er málað með sterkum litum skyttufisksins. Ástralski skyttufiskurinn eða Archer fish er af Toxotidae ætt og veiðir sér til matar með því að spýta vatnsdropum á engisprettur, kóngulær og fiðrildi sem sitja á greinum ofan við vatnsborðið. Drekafluguna fögru sem flýgur um loftin og fellur í lónið má túlka sem tákn um vonir kvenna um að fá að njóta sín til fulls til jafns við karlmenn. Þessar vonir eru skotnar niður af skyttufisknum, sem undirskipar konum og gefur þeim ekki tækifæri til jafns við karla.

Heimspekingurinn Luce Irigaray ræddi eitt sinn um jafnrétti kvenna og karla á þennan hátt:

Einu sinni vorum við fiskar. Svo virðist að framtíð okkar liggi í því að verða fuglar.”
(Luce Irigaray, í greinasafninu Sexes and Genealogies (1993), 66).

Fiskarnir hringsóla í þöglu djúpi sínu undir glerþakinu. Fuglarnir fljúga gegnum það. Það geta drekaflugurnar líka, þegar skyttufiskurinn hefur verið fjarlægður.

Nú þegar mikilla breytinga er að vænta á næsta ári  velti ég fyrir mér framtíð Þjóðkirkjunnar sem mögulegum stað fyrir fugla og drekaflugur. Við upplifum breytingaskeið í samfélaginu. Eflaust er einsdæmi að kosið sé um biskupsstólana þrjá á einu og hálfu ári. Það hefur orðið hrun í samfélaginu og við höfum háð okkar eigin glímu í kirkjustofnuninni líka. Ef einhvern tímann var tækifæri til breytinga þá er það við slík skilyrði.
En hvers konar breytinga er þörf?  Hvers konar breytingar geta orðið í núverandi árferði?

Spurningin um breytingar fjallar um Þjóðkirkjuna í heild, stofnanir hennar og söfnuði en ekki aðeins biskupana þrjá. Engu að síður geta kosningar um æðstu embætti kirkjunnar markað ákveðin vatnaskil hvað varðar guðfræði kirkjunnar og áherslur í kirkjupólitík. Kallað er eftir breyttri ímynd og nýjum áherslum. Einnig er kallað eftir því að ákvarðanir í öllum lögum kirkjunnar séu teknar jafnt af konum og körlum og að öll þjónusta kirkjunnar endurspegli jafnræði og jafnrétti.

Að sönnu fara ekki umsóknir á milli í biskupskosningum „eins og sjúkdómur“, svo vitnað sé í ljóðið um glerþakið. Engu að síður hafa þau sem fengið hafa atkvæðisrétt fengið vald til að velja og þurfa að hafa það að leiðarljósi að kjósa í takt við það sem þau telja að komi íslensku Þjóðkirkjunni best. Þau sem kjósa í biskupskosningum geta farið með atkvæði sitt eins og samviska þeim og skoðanir þeirra bjóða þeim. Þau hafa vald til að kjósa liljur, drekaflugur eða eitthvað allt annað.

Þegar biskupar eru valdir horfir fólk til þeirra sem geta orðið andlegir leiðtogar kirkju og þjóðar. Biskupar þurfa að rækja tilsjónarhlutverk sitt af alúð og festu, sýna aga í eigin stjórnsýslu og hafa gott eftirlit með öðrum. En fjölmargt meira en þessi atriði geta haft áhrif á biskupskosningar. Þar getur ekki síst glerþaksins sem áður er nefnt, ósýnilegu hindrananna sem verða á vegi kvenna í nútíma samfélagi vegna hefbundinnar undirskipunar þeirra.

Sumir segja reyndar að glerþakið sé ekki til og það sé niðurlægjandi fyrir konur að kynferði eigi að hafa eitthvað með valið að gera. Umræðan um að kjósa konu er alltaf tvíbent. Enginn kýs frambjóðanda eingöngu vegna kynferðis hans eða hennar. Við eigum að styðja frambjóðendur á grundvelli þess sem við teljum þau hafa fram að færa. Það er grundvallarregla. Jafnframt verður líka að taka þá jafnréttiskröfu sem kemur utan úr samfélaginu og innan úr kirkjunni af fyllstu alvöru. Kallað eftir því að æðstu stöður í samfélaginu séu ekki aðeins skipaðar körlum, heldur konum líka og þeirri kröfu á kirkjan að svara ef hún ætlar að standa undir hugsjónum um manngildi og jafnræði. Það er önnur grundvallarregla. Með öðrum orðum, þá verðum við að finna góðar leiðir til að samþætta tvær grundvallarreglur, þá að velja hæfasta einstaklinginn og að sumir einstaklingar standi ekki höllum fæti við valið vegna kynferðis. Það er mikil þörf á drekaflugum og drekafluguvinum við núverandi aðstæður. Ekki skyttufiskum. Ekki liljum í vasa.

Það er ekki í anda jafnræðis kynjanna að kona hafi aldrei verið kosin biskupskosningu og að enginn biskupsstóll sé setinn konu. Því hlýtur spurningin um konu á biskupsstóli að verða knýjandi í næstu kosningum. Ísland sker sig úr hvað varðar kynjahlutföll biskupa í lúthersku kirkjunum á Norðurlöndum. Fyrsta konan á Norðurlöndum til að vígjast biskupskosningu var Rosemarie Köhn sem varð biskup í Hamarstifti árið 1993. Af ellefu biskupum í Noregi eru fjórir kvenkyns, og Helga Haugland Byfuglien er forsætisbiskup norsku þjóðkirkjunnar. Í Danmörku voru tvær konur vígðar biskupsvígslu árið 1995, Lise-Lotte Rebel í Helsingjaeyrisstifti og Sofie Petersen í Grænlandsstifti og nú þjóna þrjár konur sem biskupar í dönsku kirkjunni af tólf. Fyrsta konan í Svíþjóð til að vígjast biskupsvígslu, Christina Oderberg vígðist til Lundar 1997, en nú eru tveir af hinum þrettán biskupum í sænsku kirkjunni konur. Hinn róttæki guðfræðingur Irja Aksola varð biskup í Helsinki 2010 fyrst finnskra kvenna. Það má því spyrja, hvað er málið með íslenska glerþakið? Hvers vegna eru konur á Íslandi ekki biskupar?

Ekki er ólíklegt að sú umræða sem nú á sér stað um konur og biskupsdóm sé á svipuðum nótum og umræðan um konur sem presta var fyrir tuttugu til þrjátíu árum. Margir komu fram við fyrstu prestsvígðu konurnar eins og hálfgerðar furðuverur. Það var hneykslast á hárinu á þeim, útganginum, mjóróma röddunum. Sumir vildu ekki láta konu jarða sig. Aðrir hafa talið að konum væri helst treystandi fyrir sálgæslu og barnastarfi, en ekki skipulagi og stjórnun. Barátta kvenna fyrir embættum og faglegum vinnubrögðum á jafnræðisgrundvelli á Íslandi er vel þekkt. Sem betur fer er hin karllæga táknfræði sem tengd var prestsembættinu smám saman að hopa, en biskupsembættið er enn sem fyrr ónsnortið karlavígi. Glerþakið er fyrir hendi og ótal ósjálfráðar og kyngerfðar myndir til staðar um það hvernig biskupar eigi að vera, byggðar á því hvernig biskupar hafa verið síðustu tvö þúsund árin. Engin þeirra biskupsímynda sem undirmeðvitundin, minningin og hefðin leggur okkur til er kona. Því er það mikilvægt að hugsandi fólk sem ber jafnrétti og hag Þjóðkirkjunnar fyrir brjósti sé virkt í að styðja konur sem það treystir til að fara takast á hendur þetta mikla breytingaverk með hvatningarorðum , samtölum og atkvæði ef því er að skipta. Til þess þurfum við velflest að takast á við skyttufiskinn í sjálfum okkur og taka þátt í að gera vonir kvenna og karla um jafnrétti í öllum lögum Þjóðkirkjunnar að veruleika.

Kosningar síðasta sumars í Skálholti hafa fært fólki heim sanninn um að við erum komin nálægt því að kona geti orðið biskup. Í kosningum um Skálholtsstólinn munaði einungis hlutkesti því að þær tvær konur sem gáfu kost á sér yrðu hlutskarpastar í seinni umferðinni. Það er ekki lengur óljós draumur um fjarlæga framtíðarsýn að kona á Íslandi verði biskup, heldur geta næstu kosningar brotið blað í kirkjusögunni.

Það gerum við þegar atkvæðin okkar fljúga gegnum glerþakið.

5 svör við “Gegnum glerþakið”

  1. […] eru ekki nóg. Ég hef þegar rætt um glerþakið í íslensku þjóðkirkjunni í þessari grein hér. Einnig var mikið skrifað fyrir biskupskosningarnar í Skálholti um mikilvægi þess að jafna […]

  2. […] “Umdeildir leiðtogar” “Kirkjan öllum opin” “Lýðræði og ný þjóðkirkjulög” “Valddreifing og valdefling í kirkjukosningum”  “Lifur líkamans” “Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu” “Gegnum glerþakið” […]

  3. Takk fyrir þetta! Mér finnst þessi pæling um útlit og framkomu/rödd kvenpresta mjög áhugaverð, það snertir auðvitað ímyndir valds og staðalmyndir bæði kvenna og karla. Nú væri forvitnilegt að vita hvort vígðar konur séu enn að upplifa erfiðleika við að fá brauð – það er auðvitað ansi langt á milli embætta og eflaust margir um hituna í hvert sinn! Það er sláandi að þetta skuli hafa verið svona miklu þyngra í róðri á hinum Norðurlöndunum, amk Noregi og Finnlandi, en hér – og sé enn. Væri reyndar forvitin að fá að vita hvernig staða vígðra kvenna er í Færeyjum, þar sem menn hafa löngum iðkað fremur afturhaldssama kristni.

    Þannig að hugsanlega líta Hjalti og Sigrún svo á að átökin hafi verið væg hérlendis miðað við það sem menn upplifðu í löndunum nálægt okkur? Stofnanaleg andstaða og „undir yfirborðinu“-andstaða er auðvitað tvennt eðlisólíkt og raunar áhugavert að velta fyrir sér hvernig þetta tvennt hefur áhrif hvort á annað; þá kann líka að skipta máli hér að prestasamfélagið er að einhverju leyti fjölskyldusamfélag og tengslanet – kannski hafa vígðar konur notið þess hér að margar þeirra eru dætur, tengdadætur, systur, frænkur osfrv. áhrifamikilla presta? Ætla mér ekki á neinn hátt að gera lítið úr vægi þeirra vígðu kvenna, vonandi misskilst það ekki þannig! En það gæti hugsanlega hafa haft sitt að segja, eða hvað heldur þú?

  4. Takk fyrir áhugaverðan pistil um áhugavert efni.

    Nýlega rituðu Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir ágæta grein um biskupskosningar og jafnréttiskröfuna (Er eitthvað við biskupsembættið sem kallar fremur á karl en konu?, á http://www.tru.is),

    Þar hnaut ég um eftirfarandi málsgrein:

    „Er hugsanlega eitthvað við biskupsembættið sjálft sem veldur því að eðlilegt sé að velja fremur til þess karl en konu?

    Þeirri spurningu svaraði íslenska þjóðkirkjan fyrir sína parta fyrir hart nær fjórum áratugum er fyrsta konan var vígð til prests. Þá höfðu konur haft embættisgengi allt frá miðjum öðrum áratugi aldarinnar. Víða í nálægum kirkjum kostaði prestsvígsla kvenna þrálátar deilur og klofning hefur sem jafnvel enn ekki gróið að fullu. Við sluppum við slík átök.“

    Þessi lýsing Hjalta og Sigrúnar stangast bæði á við ýmislegt sem ég man eftir að hafa lesið um viðbrögð bæði innan Þjóðkirkjunnar og úti í samfélaginu við prestvígslu kvenna – sem fór alls ekki átakalaust fram, ef eitthvað er að marka gamlar fréttir – þar sem má lesa ummæli á borð við að prestvígsla kvenna jafngildi „andlegri kynvillu“ – og við þín orð hér að ofan:

    “ Það var hneykslast á hárinu á þeim, útganginum, mjóróma röddunum. Sumir vildu ekki láta konu jarða sig. Aðrir hafa talið að konum væri helst treystandi fyrir sálgæslu og barnastarfi, en ekki skipulagi og stjórnun. Barátta kvenna fyrir embættum og faglegum vinnubrögðum á jafnræðisgrundvelli á Íslandi er vel þekkt.“

    Hvers vegna heldurðu að upplifun þín annars vegar og þeirra Hjalta og Sigrúnar hins vegar – en öll teljist þið skv. mínum skilningi frekar „líberal“ prestar/guðfræðingar – sé svona ólík?

    (Það vekur auðvitað líka athygli að konur höfðu, eins og fram kemur í pistli Hjalta og Sigrúnar, embættisgengi frá miðjum 2. áratug síðustu aldar en samt vígist fyrsta konan ekki fyrr en 1974, um 60 árum síðar. )

    Með kveðju, Halla

    1. Sæl og blessuð Halla. Takk fyrir frábæra og opna spurningu sem gefur kost á að spinna þennan þráð áfram. Annars vegar ræðir þú um embættisgengi kvenna frá 1911 og hins vegar um aðdragandann að prestsvígslu kvenna 1974.

      Ég tek undir með þér að það er áhugavert að það hafi tekið rúm 60 ár að virkja lagagreinarnar sem heimiluðu konum að verða prestar. Íslenskir alþingismenn voru um margt á undan sinni samtíð í upphafi aldarinnar og samþykktu ekki aðeins að opna konum aðgang að námi í hinum gömlu embættisgreinum, lögfræði, læknisfræði og guðfræði, heldur skyldu þær hafa fullt embættisgengi í þessum greinum. Frá þessari baráttu á þingi 1909-1911 er vel og skilmerkilega sagt í bók Valborgar Sigurðardóttur, „Íslenska menntakonan verður til“. Til samanburðar má geta þess að en ekki fyrr en 1938 í Noregi, Danmörku 1947 og 1986 í Finnlandi. Í ljósi þess hve konur fá seint embættisgengi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku miðað við Ísland er það í raun stórmerkilegt að fyrsti danski kvenpresturinn er vígður 1948, en ekki fyrr en 1958 í Svíþjóð og 1974 á Íslandi. Finnarnir rákur síðan lestina og vígðu fyrstu kvenprestana 1988, 94 talsins. Rétt er að taka það fram að aðeins ein kona hafði lokið guðfræðiprófi áður en Auður Eir gerði það árið 1962, svo þær biðu ekki beinlínis í röðum eftir vígslu. Og því má spyrja, hvers vegna ætli það hafi verið? Dæmið af embættisgenginu á Íslandi sýnir okkur að réttindi eru mikilvæg, en það þarf líka hugarfarsbreytingu.

      Ég vona að Hjalti og Sigrún blandi sér í þessa umræðu, því þau þekkja vel aðstæður prestsvígðra kvenna í nágrannalöndunum eftir að hafa starfað og búið þar, Sigrún í Noregi og Hjalti í Svíþjóð. Ég les orðin þeirra um ágreininginn sem við Íslendingar sluppum við á þann hátt að þau séu að fjalla um hina formlegu mótstöðu, guðfræðilega andstöðu við að konur verði prestar. Hún var að sönnu til á Íslandi á öndverðum áttunda áratugnum þegar sr. Auður Eir tók vígslu, en var allmáttlaus miðað við það sem gerðist á hinum Norðurlöndunum og sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi. Allnokkrir íslenskir prestar voru á móti vígslu kvenna, en svo virðist að þegar erfðavenjunni hafði á annað borð verið breytt hafi menn sætt sig við það. Ævisaga Auðar Eir, “Sólin kemur alltaf upp á ný” bls. 219-226 er mjög góð heimild um þennan aðdraganda. Andstaða karlkynspresta við vígslu kvenpresta hefur hins vegar verið viðvarandi vandamál í Svíþjóð og Finnlandi. Þegar ég var í námsleyfi í Uppsölum 1993 stóð yfir biskupafundur sænsku kirkjunnar, þar sem náðist niðurstaða um það að eftirleiðis yrðu prestar ekki vígðir í sænsku kirkjunni sem ekki viðurkenndu vígslu kvenpresta. Í Finnlandi er ennþá töluverð glíma í gangi við þá presta sem ekki vilja líta á kvenkyns kollega sína sem alvöru presta. Slíkt viðhorf hef ég aldrei fundið frá karlkyns kollegum mínum í íslenskri prestastétt.

      Ég held að afstaða mín og Hjalta og Sigrúnar sé þannig ekki önnur, heldur erum við að tala um ólíka þætti, annars vegnar stofnanalega andstöðu og hins vegar persónulega gagnrýni á konur sem er undir yfirborðinu, gagnrýni sem felst í skoðunum á hári, rödd, fötum og framkomu. Þessir duldu fordómar geta átt þátt í því að konum gangi erfiðlega að fá brauð og framgang til jafns við karlmenn. Þeir voru við lýði þegar ég varð prestur fyrir 21 ári og er enn að finna í samfélaginu, þótt konur séu smám saman að brjóta hana á bak aftur með hæfileikum sínum og atgervi. Svo er spurningin hvort slíkir fordómar muni hafa áhrif á komandi biskupskosningar. Að lokum minni ég á að Sigurbjörn Einarsson var með úfið hár og hafði sérkennilega raddbeitingu án þess að það háði honum sérstaklega á biskupsstóli. En hann var líka karlmaður.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: