Fyrri umferðin í biskupskosningunum er búin og ég sit og hugsa um framtíð kirkjunnar.
Um daginn rakst ég á viðtal við Irju Askola sem er biskup í Helsinki. Lútherska kirkjan í Finnlandi er íhaldssamasta kirkja á Norðurlöndum og sú síðasta þeirra til að heimila vígslu kvenpresta. Sænska kirkjan var fyrst til að veita konum prestsvígslu og hefur vígt konur til prestskapar síðan 1958 og það liðu þrjátíu ár þar til Finnarnir fylgdu í kjölfar hinna frjálslyndu nágranna sinna. Irja Askola var einmitt í hópi hinna fyrstu finnsku kvenna sem hlutu prestsvígslu árið 1988 og hafði beðið þrettán ár eftir því að fá vígsluna. Í ljósi þess að konur höfðu aðeins verið prestar í rúma tvo áratugi var það í raun stórmerkilegt að Irja Askola skyldi vera vígð biskupsvígslu í september 2010. Það er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að Irja Askola er mjög frjálslyndur guðfræðingur. Hún styður hjúskap samkynhneigðra. Hún talar óhindrað um jafnréttismál og mikilvægi kvennabaráttunnar. Hún leggur mikið upp úr samtali við samtímann. Hún orðar misrétti og berst gegn því.
Viðtalið sem ég nefndi er tekið stuttu eftir að Irja Askola hefur verið kjörin biskup. Viðtalið má sjá hér. Þar er hún spurð að því hvaða gildi það hefur að vígja konur sem biskupa. Irja segir tvennt sem mér finnst eiga erindi við þann tíma sem við lifum nú, tímann þar sem í fyrsta sinn er eygt raunverulegt tækifæri á að kona verði biskup Íslands. Hún segir að vígsla kvenbiskups hafi mikla þýðingu innan kirkjunnar og einnig utan hennar. Og svo segir hún að vígsla konu til biskups sé „viktigt symbol“ , mikilvægt tákn.
Ég les athugasemd Irju Askolu um að vígsla kvenbiskups hafi mikil áhrif innan kirkjunnar sem og utan á þann hátt að þar með sé sýnt með áþreifanlegum hætti að lútherska þjóðkirkjan í Finnlandi hafi raunverulegan áhuga á að rétta hlut kvenna í kirkjunni. Jafnrétti karla og kvenna er mikilvægur þáttur í mannréttindaumræðu nútímans og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld.
Jöfn réttindi kvenna og karla eru ríkur þáttur mannréttinda og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld, málefni sem fólk hefur sterkar skoðanir á og berst saman fyrir þvert á trúarviðhorf. Þess vegna er vígsla kvenna til biskups í finnsku þjóðkirkjunni ekki aðeins innanbúðarmál í stjórnkerfinu heldur tækifæri til að breyta kirkjusögunni og samfélagsmynstrinu í átt til nútíma. Hið sama hef ég upplifað í þessum sögulegu kosningum í íslensku þjóðkirkjunni. Þær hafa vakið mikla athygli þeirra sem unna mannréttindum og sú athygli er ekki endilega eingöngu bundin við þjóðkirkjufólk. Mannréttindi eru efni sem ólíkt fólk hefur sterkar skoðanir á og ekki síst ungt fólk. Og það er tilbúið til að berjast fyrir slíkum hugsjónum þvert á trúar, stéttar og kynjamörk.
Margir hafa áhuga á kosningum til biskups Íslands og ekki síst vegna jafnréttissjónarmiða. Þjóðkirkjan hefur sett sér glæsilega og metnaðarfulla jafnréttisstefnu og er það vel. Hana má nálgast hér. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þó að þjóðkirkjan samþykki hinar ítarlegustu jafnréttisáætlanir og haft uppi stór orð um jafnrétti og mannréttindi, þá talar það hærra ef yfirstjórn kirkjunnar er að mestu skipuð karlmönnum, f jafnréttisáætluninni er ekki fylgt og ef andlit kirkjunnar og sameiningartákn hennar er alltaf karlkyns. Orð eru raunar til alls fyrst, en orð eru ekki nóg. Ég hef þegar rætt um glerþakið í íslensku þjóðkirkjunni í þessari grein hér. Einnig var mikið skrifað fyrir biskupskosningarnar í Skálholti um mikilvægi þess að jafna hlut kynjanna í biskupskjöri. Grein Arnfríðar Guðmundsdóttur má lesa hér, grein Kristínar Þórunnar Tómasdóttur má lesa hér og grein Guðrúnar Karlsdóttur hér. Ég tek undir það sem allar þessar góðu konur hafa að segja um jafnréttismál og táknræn gildi þess að vígja konu biskupsvígslu.
Og þar með erum við komin að seinni athugasemd Irju Askolu við upphaf biskupsferilsins. Hún sagði að biskupsvígsla konu væri mikilvægt tákn. Kaþólska nunnan og femíníski guðfræðingurinn Elizabeth Johnson sagði eitt sinn: „The symbol functions“ og ég held að það sé alveg rétt. Trúarleg tákn eru sterk og þau hafa áhrif á undirmeðvitund okkar, gildi og samfélagsskoðanir á ýmsan hátt sem við erum ekki endilega meðvituð um. Þegar spurt er um til hvers biskupsembættið er þá svara margir því til að biskupinn sé sameiningartákn kirkjunnar. Þetta er ekki sérskoðun íslensku þjóðkirkjunnar, heldur sameiginleg niðurstaða samkirkjulegra samþykkta svo sem Porvoo samkomulagsins milli anglikönsku safnaðanna á Bretlandseyjum og hinna norrænu lúthersku kirkna, svo og Limaskýrslu Alkirkjuráðsins um skírn, máltíð og þjónustu.
Ef biskupsembættið er að stofni til táknrænt embætti um einingu, og ef táknin hafa áhrif , þá hefur karleinokun biskupsembættisins í þúsund ár áhrif á það hvernig við hugsum um kirkjuna sem stofnun og hreyfingu. Ákvarðanir okkar núna eru ekki síst mikilvægar fyrir það að vera táknrænar ákvarðanir, ákvarðanir sem geta sýnt raunverulegar breytingar á stöðu kvenna í íslensku þjóðkirkjuna.
Tákn eru „viktig“
Biskupstákn og þau skilaboð sem þau senda út í samfélagið og innan raða kirkjunnar manna eru mikilvæg.
Gleymum því ekki þegar við göngum til seinni umferðar.
Færðu inn athugasemd