Nú liggur fyrir niðurstaða í kosningum til biskups Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir fékk 131 atkvæði, Sigurður Árni Þórðarson 120 atkvæði, ég sjálf 76 atkvæði, Örn Bárður Jónsson 49 atkvæði, Kristján Valur Ingólfsson 37 atkvæði, Gunnar Sigurjónsson 33 atkvæði, Þórhallur Heimisson 27 atkvæði, Þórir Jökull Þorsteinsson 2 atkvæði og Arnfríður Guðmundsdóttir 1 atkvæði.
Það fyrsta sem að ég rek augun í er hversu hár og mikill hlutur kvenna er í þessari kosningu. Konurnar þrjár sem fá atkvæði fá samtals 208 atkvæði, en karlmennirnir sex skipta með sér 241 atkvæði. Kona trónir í efsta sætinu og kona er líka í þriðja sæti. Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir þau sem unna jafnrétti í kirkjunni og sýnir að það er kominn tími á að bæði kyn gegni biskupsþjónustu.
Þau tvö sem keppa um stólinn í seinni umferðinni eru góðar manneskjur, tryggar kirkju sinni og einlægar í trú sinni á Jesú Krist. Agnesi þekki ég vel sem prest, því að hún er sóknarprestur tengdaforeldra minna og ég hef af henni góða og hlýja reynslu. Sigurður Árni hefur verið samherji minn í mörgum erfiðum deilumálum í kirkjunni. Ég tel þau bæði til vina minna og treysti þeim báðum fyrir embættinu. Þau verða góðir fulltrúar kirkjunnar í þessum mikilvægu kosningum.
Ég er sjálf svo stolt yfir mínum 76 atkvæðum. 16 prósent fylgi í biskupskosningum fyrir yngsta og um margt róttækasta frambjóðandann er dýrmætt og sýnir að þjóðkirkjan er á leið til breytinga. Ég þakka stuðningsmönnum mínum um land allt fyrir meðbyrinn og ekki síst þeim sem að ákváðu að krossa við nafnið mitt á þessum seðli og treysta mér fyrir þessu mikla og erfiða starfi. Ég er snortin yfir því.
Góður dagur fyrir konurnar í kirkjunni og fyrir framtíðina.
Færðu inn athugasemd