Á morgun verður talið í biskupskosningu og tíminn er dálítið lengi að líða.
Þá er upplagt að horfa yfir þessa tvo mánuði síðan ég lýsti því yfir að ég gæfi kost á mér. Ég er svo glöð yfir því að hafa tekið þátt í þessari kosningabaráttu. Þetta hafa verið stórmerkilegir og viðburðaríkir mánuðir, þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast mörgu áhugaverðu fólki, upplifa gestrisni þess og hlusta á viðhorf og kirkjusögur frá ólíkum stöðum. Mér finnst að sjónarhornið hafi dýpkað með hverri heimsókninni og hverjum keyrðum kílómetra. Við fengum líka mikið af góðum spurningum á fundum og á netinu, sem gaman hefur verið að svara og það hefur verið gefandi að standa í svona sterkum tengslum við söfnuðina og fólkið í landinu. En jafnframt hefur það verið erfitt að ferðast svona mikið og reyna að láta prestakallið ekki láta mæta afgangi á meðan. Stundum hef ég verið yfir mig þreytt. Og gott fólk hefur stutt mig einmitt þegar ég þurfti þess mest með.
Kosningin nú er tímamótakosning og hún hefur hlotið allmikla athygli. Ég geri ráð fyrir því að það verði tvær umferðir í kosningunni. Það kæmi mér á óvart ef einhver einn fengi hreinan meirihluta þegar átta manns eru í kjöri. En allt skýrist þetta á morgun. Ég vona að kona komist í seinni umferðina, annað hvort ég sjálf eða sr. Agnes Sigurðardóttir, því það er kominn tími á að brjóta glerþakið og vígja konu biskup. Mér þykir kosningabaráttan hafa farið vel fram og ég þakka af hjarta þeim Agnesi, Gunnari, Kristjáni Val, Sigurði Árna, Þórhalli, Þóri Jökli og Erni fyrir ágætar samræður og samfylgd á kynningarfundunum.
En í kvöld langar mig til að þakka fleirum. Ég hef ástæðu til að vera glöð og þakklát hvernig svo sem kosningin fer og ég er æðrulaus gagnvart framhaldinu, þó að stundirnar séu lengi að líða. Ég þakka Rögnvaldi fyrir að hafa staðið við bakið á mér eins og hann gerir alltaf og keyrt mig um allar jarðir. Ég þakka strákunum mínum fyrir sprell og stuðning. Ég þakka mömmu og pabba sem hafa verið óþreytandi í að fylgjast með, koma á fundi og telja í stelpuna sína kjark og þor. Ég þakka þeim sem hafa staðið í kringum mig, ráðlagt og hvatt, Níelsi Árna, Kalla Matt, Svanhildi, Auði Ingu og Guðrúnu ásamt mörgum öðrum. Ég þakka Petrínu sem messaði tvisvar fyrir mig svo ég gæti betur einbeitt mér að kosningunni. Ég þakka Lovísu, sem hefur staðið vaktina, öllu starfsfólki og sjálfboðaliðum Guðríðarkirkju sem hafa möglunarlaust tekið því að presturinn væri oft fjarverandi og gjarnan í öðrum heimi og söfnuðinum öllum fyrir samstöðuna. Ég þakka stuðningsgrúppunni á facebook sem telur 469 manns, guðfræðinemunum sem kusu mig í könnun í guðfræði- og trúarbragðadeild, öllum þeim sem sendu mér kveðju og hringdu, skrifuðu fallegar greinar, skoruðu á mig í DV og mæltu með mér sem biskupi í Gallupkönnuninni. Ég er ákaflega snortin yfir því að svo mörg ykkar hafið treyst mér fyrir þessu erfiða og vandasama embætti.
Kosningin til embættis biskups Íslands hefur verið mér tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð íslensku þjóðkirkjunnar. Það er gleðiefni að fá að taka þátt í slíku verkefni. Ég er rík af þeim sem þykir vænt um mig og hafa sýnt mér umhyggju og hvatningu í þessari kosningu. Og þegar ég horfi til allra þeirra sem hafa sýnt kosningunni áhuga, þá finn ég hvað kirkjan er rík af þeim sem þykir vænt um hana. Takk öll fyrir allt!
Færðu inn athugasemd