Trúarlíf mitt og fyrirmyndir

Ég hef fengið spurningu um mitt persónulega trúar- og bænalíf, hverjar séu fyrirmyndir mínar og áhrifavaldar og hver séu uppáhaldsvers mín í Biblíunni. Spurningarnar í heild má sjá hér:

Ég hef verið kristin frá því að ég man eftir mér. Mamma hengdi biblíumyndir í gylltum römmum fyrir ofan rúmin hjá okkur börnunum og það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði augun á morgnana og það síðasta þegar ég lokaði þeim á kvöldin var myndin af Maríu með litla Jesúbarnið í fanginu. Ég hef alltaf verið trúuð en á ólíkan hátt eftir aldri og þroska. Ég hef glímt við efa trúarinnar en hef aldrei komist að niðurstöðu um það hvers vegna ég er kristin. Ég einfaldlega er það og von trúarinnar hefur brotist sterkust fram þegar fátt annað virkar í mínu lífi.

Ég held að uppáhalds fyrirmynd í trú sé Sigurþór móðurbróðir minn. Siggi frændi minn er einstaklega góður maður, blíður og hjartahlýr og trúin er eitthvað sem batt okkur snemma saman. Ég sé Jesú Krist í því hvernig hann umgengst menn og málleysingja.

Ég hef orðið fyrir áhrifum af ólíku fólki á ævinni. Foreldrar mínir eru mér endalaus uppspretta ástar og virðingar. Ég var 15 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum til að vinna lýðræðislegar forsetakosningar. Ég var og er óendanlega stolt af Vigdísi og hún hefur alltaf verið mér fyrirmynd eins og móðurleg fjallkona sem vakti yfir þjóð sinni af greind og hlýju. Ég hef orðið fyrir sterkum áhrifum af persónu og prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem setti svip sinn á jólakvöld bernsku minnar þegar hann hélt yfir okkur alvörugefnar jólaræður úr sjónvarpinu. Ég skrifaði doktorsritgerðina mína um guðfræði Paul Tillich og lá í verkum hans svo árum skipti.  Ég hef bæði glímt við texta Tillich og búið í þeim. Þeir hafa mótað guðfræði mína og trúarsýn. Og að síðustu vil ég nefna doktorsmóður mína Catherine Keller, sem er mér fyrirmynd í trú og guðfræðiiðkun þar sem trú og gagnrýnin skynsemi fallast í faðma.

Ég lifi reglulega bænalífi. Ég er þátttakandi í tveimur bænahópum. Annar stundar fyrirbænir en hinn íhugandi bæn. Þann síðarnefnda er ég nýbúin að uppgötva og báðir gera þeim mér og starfi mínu gott, þótt með ólíku móti sé. Í guðsþjónustu sunnudagsins rennur mitt persónulega bænalíf inn í bænir safnaðarins. Ég bið líka með fermingarbörnunum og á miðvikudögum syngjum við nóntíð í Guðríðarkirkju. Allt þetta hjálpar við að varða vikuna bænalífi og innri ró.

Ég á mér marga uppáhaldsritningartexta. Uppáhaldstextinn minn úr Davíðssálmum tengist doktorsverkefninu mínu um afgrunn guðdómsins (Abyss of God), vers úr 42. sálmi 8, abyssus abyssum invocat:

Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Líkingin um Guð sem djúp eða flóð snertir við mér á djúpstæðan hátt. Ég á mér líka annan uppáhaldstexta úr Jesaja 43:1-2 sem ég myndi vilja gera að einkunnarorðum mínum í embætti. Það er ekkert að óttast þegar Guð er með í för:

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s