Siðfræði, kynverund, fjölskylda, jafnrétti

Um daginn var ég beðin um að svara nokkrum spurningum um kynverund og jafnréttindi. Spurningarnar voru settar fram af Guðmundi Pálssyni á Moggablogginu. Þær eru alls 33 (sjá hér) og ég hef verið að dunda mér við að svara þeim öðru hvoru. Margar eru þess eðlis að það það þarf að hugsa vel um þær. Þess vegna hef ég valið að svara þeim ekki lið fyrir lið, heldur að safna þeim saman í stæður sem mig langar til að verja tíma með. Spurningarnar um siðfræði, kynverund og jafnrétti eru svona:

  1. (5.) Á kirkjan að skipta sér af siðferði þjóðarinnar og þá hvernig?
  2. (22.) Margir segja að hjónabandið og fjölskyldan eigi í vök að verjast. Finnst þér koma til greina að styðja hjónabandið og fjölskylduna með einhverjum hætti, jafnvel vekja máls á því við stjórnvöld?
  3. (23.) Hver er afstaða þín til fóstureyðinga? Ber kirkjunni að taka þátt í umræðum um fóstureyðingamál og andæfa þeim eða ber henni að halda sig til hlés?
  4. (24. ) Hver er afstaða þín til jafnréttis kynjanna? Hver er skoðun þín á öðru jafnrétti?

Í spurningunum fjórum er annars vegar spurt um mínar persónulegu skoðanir á málefnum sem tengjast kynverund, jafnrétti og fjölskyldumálum og hins vegar hver stefna kirkjunnar eigi að vera. Mig langar til að byrja á þeirri síðarnefndu.

Lúthersk siðfræði er ekki ein og er ekki stýrt með boðum frá biskupum. Hefð er fyrir því á Íslandi að biskupinn gefi út hirðisbréf snemma á ferli sínum, sem birtir sýn hans og stefnu til kirkjunnar, en það hirðisbréf er ekki bindandi fyrir kirkjuna. Það er í anda Lúthers sem barðist gegn miðstýrðu biskupsvaldi og lagði traust sitt á söfnuðina og almennan prestdóm trúaðra. Í siðferðilegum álitamálum eru skoðanir oft skiptar, jafnvel innan sömu trúarhefðar. Sumir kristnir menn leggja meira upp úr boðorðasiðfræði eða hlýðni við einstakar ritningargreinar. Aðrir líta svo á að samviskan og hæfileikinn til að draga siðferðilegar ályktanir séu gjafir frá Guði og að slíkar gjafir þroskist best í lýðræðislegri umræðu. Af þessu öllu leiðir að það er ekkert auðvelt að tala um stefnu íslensku þjóðkirkjunnar í ýmsum siðferðilegum álitamálum sem varða kynverund og kynverundarréttindi.

Spurning Guðmundar um fóstureyðingar er einmitt skýrt dæmi um þetta. Þar er innt eftir því hvort „kirkjan“ eigi að halda sér til hlés í slíkum umræðum eða beita sér. Þá má spyrja á móti hver kirkjan sé í þessu sambandi. Er það biskupinn?  Er það prestastefna, sem ráðgjafarsamkoma biskupsins? Biskupafundur biskups Íslands og vígslubiskupanna tveggja?  Einhver nefnd á vegum þjóðkirkjunnar?  Hver getur talað fyrir hönd kirkjunnar í siðferðilegum efnum?

Biskupinn er einingartákn þjóðkirkjunnar og honum ber að veita leiðsögn í kenningarlegum efnum. Þar þarf þó jafnframt að vera rúm fyrir umræðu og fjölbreytileika. Annars er prestdómur trúaðra ekki virtur og hæfileiki kristinna manna til að draga sínar eigin ályktanir út frá trú sinni. Þjóðkirkjuleg áhrif á siðferði Íslendinga geta þannig ekki farið fram með tilskipunum ex cathedra eins og hjá páfanum, heldur með guðfræðilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið takast á. Með þessu er ég ekki að segja að fullkomin afstæðishyggja ríki lútherskri siðfræði. Hún byggir á vitnisburði biblíunnar og játninganna, en einnig í nútímanum á viðhorfum til mannréttinda, manngildis og jafnréttis.Þar geta stofnanir eins og þjóðmálanefnd kirkjunnar haft mikil áhrif á umræðuna. Það getur biskupinn líka gert og prestastefna. En enginn einn aðili getur skorið úr um það hvert siðferði þjóðarinnar eigi að vera, heldur koma margir þar að. Dæmi um ákvarðanir sem hafa verið teknar með breiðri samstöðu eru jafnréttisstefna kirkjunnar, sjá hér.

Kirkjan tekur því þátt í umræðu um stöðu hjónabands og fjölskyldu, fóstureyðingar og jafnrétti, en ekki á þann hátt að kirkjan sé bara biskupinn. Kirkjan tekur til máls um þessi atriði þegar þau eru spegluð í guðfræðilegum arfi. Það gera guðfræðingarnir í prédikun, greinum, fyrirlestrum og boðun, en einnig konan í bakaríinu og maðurinn á traktornum. Kirkjan talar hvar sem siðferðið sem við praktíserum og siðfræðin sem er rannsókn okkar á siðferðinu fer fram. Hvar sem fólk veltir fyrir sér siðferðilegum álitamálum í ljós kristinnar trúar er kirkjan að tala en enginn einn talar fyrir hennar hönd. Nýlega hefur farið fram nokkur umræða um staðgöngumæðrun í tengslum við nýja löggjöf sem er í undirbúningi. Alþingi kallaði eftir umsögn biskups um málið og þjóðmálanefnd hefur skrifað ítarlega álitsgerð sem nálgast má hér.

Svo vikið sé að mínum eigin skoðunum um kynverund, fjölskyldumál og jafnrétti þá hef ég lagt mig töluvert eftirannsóknum á sviðinu. Ég er doktor í guðfræði og hef sérhæft mig meðal annars í þverfaglegum áherslum svo sem kvenna og kynjafræði. Ég hef líka kennt siðfræði hjónabandsins og fjölskyldunnar við Háskóla Íslands sem stundakennari. Ég hef skrifað um siðfræðileg álitamál, einkum þó samkynhneigð og kirkju. Fletta má upp ritrýndum greinum og greinum almenns eðlis á flipunum efst hér á heimasíðunni. Ég tel því að ég geti lagt gott lóð á vogarskálarnar í slíkri umræðu.

Ég lít á fóstureyðingar sem neyðarúrræði. Jafnframt tel ég mikilvægt að styðja rétt kvenna yfir eigin líkama.

Ég er jafnréttissinni og femínisti. Það þýðir að ég lít svo á að jafnrétti sé ekki enn komið á og undirskipun kvenna byggist á kerfislægri villu í samfélagi okkar. Mér finnst einnig mikilvægt að huga að annarri tengund jafnréttis, svo sem milli fólks af ólíkum kynþáttum, kynhneigðum, efnahagsstöðu, stétt og uppruna.

Ég vil styðja við fjölskyldur í íslensku samfélagi og tel mikilvægt að ólíkar tegundir fjölskyldna séu metnar að verðleikum. Þar á meðal eru fjölskyldur einstæðra foreldra, stjúpfjölskyldur, fjölskyldur þar sem einstaklingar eru fatlaðir, fjölskyldur samkynhneigðra einstaklinga og fleiri. Í þjóðkirkjunni er of oft gengið út frá því að fjölskyldan sé ennþá pabbi, mamma, börn og bíll, en þannig er það ekki bara lengur, heldur viðgangast mörg sambúðarform sem umgjörð utan um fjölskyldur.

Hjónabandið er sambúðarform sem að ríkisvaldið styður sérstaklega við með ýmsum réttindum á sviði erfða og lífeyris og sem þjóðkirkjan blessar. Hjónavígsla er ekki sakramenti að lútherskum skilningi, heldur kirkjuleg blessun. Hér á landi hafa prestar og aðrir forstöðumenn trúfélaga vígsluvald vegna stofnanalegra tengsla við ríkisvaldið. Ég tel að það hafi verið mikið heillaspor að hjúskaparlög hafa nú verið gerð kynhlutlaus og að gagnkynhneigðir og samkynhneigðir hafi nú jafnan rétt til hjónabands. Sú umræða fjallaði einmitt um hjónaband og fjölskyldur og tók til flestra sviða kirkjunnar áður en ákvarðanir voru teknar á kirkjuþingi.

Ég tel að stærsta málefni fjölskyldunnar sem við stöndum frammi fyrir nú um stundir sé vegna fátæktar. Velferðarsamfélagið stendur höllum fæti nú um stundir og fjöldi þeirra sem hafa færst undir fátæktarmörk hefur aukist. Þessar breytingar má til dæmis sjá í stóraukinni umleitan eftir mataraðstoð og annari hjálp frá hjálparsamtökum. Umsóknum í líknarsjóði safnaðanna hefur líka fjölgað mikið.

„Gef oss í dag vort daglegt brauð “ segir faðir vorið. Og það er sóknin eftir brauðinu og dreifing brauðsins sem er stærsta siðferðilega málið sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir á Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: