Tilkomi þitt ríki

Um daginn var ég beðin um að útskýra Faðirvorið, sjá hér. Spurningin er góð, vegna þess að hún tengist ekki aðeins þekkingu eða hæfni til útskýringa. Faðirvorið er eins og góður íkon, maður horfir inn í dýpt og sú dýpt tekur á sig ýmsar myndir eftir því hver útskýrir og túlkar.

Faðirvorið er bænin sem Jesús kenndi lærisveinunum samkvæmt guðspjöllunum, þegar þeir báðu hann um að kenna sér að biðja. Það má skipta Faðirvorinu upp í sex bænir, auk ávarpsins í upphafi og lofgjörðarinnar í lokin.

  1. Helgist þitt nafn.
  2. Tilkomi þitt ríki.
  3. Verði þinn vilji svo á jörðu, sem á himni.
  4. Gef oss í dag vort daglegt brauð.
  5. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
  6. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Þegar ég horfi á þessar sex bænir þá finnst mér bænir númer eitt og tvö vera lyklarnir að öllum hinum.  Helgist þitt nafn. Tilkomi þitt ríki, segja þær og í Faðirvorinu birtist eins konar manifestó guðsríkisins. Jesús er óþreytandi í guðspjöllunum að draga upp frumlegar myndir af ríki Guðs. Himnaríki er perla, net, fjársjóður, sáðkorn, mustarðskorn segja guðspjöllin. Ríki Guðs er ekki aðeins heimkomustaður eftir dauðann eða staðurinn ofar festingunni samkvæmt fornri heimsmynd, heldur mitt á meðal okkar þótt við sjáum það ekki alltaf. Við sjáum það þar sem kærleikurinn ríkir og sá kærleikur er dýrmætari og fegurri en nokkuð annað. Og hann hefur burði til að vaxa.

Helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki. Hvernig sér maður ríki Guðs á meðal manna?  Hvar sér maður nafn Guðs helgast?  Í hinum bænunum fjórum sem á eftir koma erum við leidd inn í þennan veruleika guðsríkisins. Til þess sem eflir guðsríkið. Til þess sem ógnar guðsríkinu og varnar því þroska á meðal manna.

Guðsríkið fær að dafna þegar vilji Guðs ríkir.

Guðsríkið fær að dafna þegar allir fá brauð að borða.

Guðsríkið dafnar þegar við þiggjum fyrirgefningu Guðs og getum sjálf fyrirgefið öðrum.

Og Guðsríkið dafnar þegar við treystum Guði fyrir öllu okkar lífi.

Við endum bænina á lofgjörðinni sem kemur til okkar úr vídd vonarinnar. Þannig er hið kristna líf alltaf á mörkum tveggja vídda. Þess sem við lifum og víddar vonarinnar þegar Guðsríkið eitt ríkir, viljinn, brauðið, fyrirgefningin og frelsandi traustið. Stundum sjáum við bara í einni vídd. Stundum er mustarðskornið svo lítið, fjársjóðurinn týndur, perlan mött og netið slitið.

Þess vegna endum við á lofgjörð um ríkið, máttinn og dýrðina. Að eilífu.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: