Austfirðingur verður til

Fyrir mörgum árum meðan ég var enn í guðfræðinámi sinnti ég prédikunarþjónustu sumarlangt á Austurlandi. Fyrsta verkefnið mitt var að prédika í sjómannadagsmessu á Djúpavogi og til stóð að fara með rútu frá Reyðarfirði. Ég missti af rútunni og stóð eins og illa gerður hlutur við þjóðveginn þar til mér hugkvæmdist að fara á puttanum. Ung kona með ungbarn í burðarrúmi tók mig upp í bílinn. Hún var á leiðinni á Breiðdalsvík og tók þennan vesaling að sunnan upp á arma sína, sýndi mér Skrúð og lýsti staðháttum og örnefnum svo unun var að heyra. Svo var haldið áfram til Stöðvarfjarðar þar sem foreldrar hennar bjuggu. Þar var mér boðið í mat og af því að Steinasafn Petru var í næsta húsi var ég leidd þar um stiga og ganga til að sjá safnið, þótt húsráðandi væri ekki heima. Þegar við komum á Breiðdalsvík var þessi góða stúlka búin að finna far fyrir mig á Djúpavogi með fótboltaliðinu sem hafði einmitt att kappi við liðið á Breiðdalsvík þennan sama dag. Fótboltastrákarnir voru glaðir og reifir því þeir höfðu unnið leikinn, og sungu og staupuðu sig alla leiðina heim. Og þannig komst ég til Djúpavogs þrátt fyrir að hafa misst af rútunni.

Þetta var ég að rifja upp þegar ég þræddi austurströnd Íslands fyrr í vikunni. Ár og dagar hafa liðið frá því að ég keyrði síðast sunnfirðina og nú skyldi haldið í kosningaferð til embættis biskups Íslands á sömu slóðir og ég ferðaðist um á puttanum fyrir aldarfjórðungi .  Ég ók í einum rykk á Reyðarfjörð þar sem Hólmgrímur héraðsprestur og Guðlaug bauð í kvöldmat sem ferðamaðurinn þáði fegins hendi.  Strákarnir Árni og Bragi voru hressir, sögðu frá ferðalögum sínum í Bretaveldi, spiluðu á hljóðfæri og gáfu frambjóðandanum góð ráð í kosningabaráttunni.

Mér tókst eftir nokkrar tilraunir að komast á rétta veginn og rata á æskuslóðir ömmu minnar. Rúna Vigdís amma mín var fædd og uppalin í Vindheimi í Norðfirði, sjá hér og ég á fjölda ættingja fyrir austan. Það var hált í Oddskarðinu og konan á heilsársdekkjunum skildi vel hvers vegna Norðfirðingar berjast fyrir nýjum jarðgöngum. En upp komst ég og niður hinum megin, þar sem séra Sigurður Rúnar og Ragnheiður Kristín kona hans tóku vel á móti mér. Og svo var haldið heim til Jóhönnu frænku minnar og Guðjóns sóknarnefndarformanns þar sem ég ætlaði að gista um nóttina. Westie- hundurinn Tobbi var hinn blíðasti og lá ofan á fótunum á mér meðan við ræddum saman.

Þetta fyrsta kvöld mitt á Austfjörðum fékk ég nokkra innsýn inn í hinar nýju aðstæður eftir álver. Ég fræddist um hinar miklu breytingar á samfélaginu eftir að álverið kom, hvernig prestsþjónustan nýtist og velferðarþjónustan á hinum stóra vinnustað.  Fyrir umhverfisverndarsinnann Sigríði var athyglisvert að heyra „hina hliðina“ á hinum stóru umhverfismálum sem þjóðin hefur glímt við vegna Kárahnjúka og Fjarðaáls, um uppbygginguna, atvinnutækifærin, samvinnuna og félagsauðinn sem ræktaður er. Ég skrifaði bak við eyrað að nú þyrfti ég að taka upp sjálfbærnibækurnar hans Rögnvalds mannsins míns. Hann hefur mikinn áhuga á sjálfbærni í rekstri fyrirtækja og iðnaðarvistfræði (industrial ecology) og bloggar stundum um það á heimasíðunni sinni (sjá hér). Ég heyrði um baráttuna fyrir jarðgöngum og  byggðamálin í Fjarðabyggð. Og svo var rætt um stöðu Þjóðkirkjunnar, stjórnsýsluna, húsafriðun, hinn erfiða fjárhag kirknanna vegna niðurskurðar á sóknargjöldum og ýmislegt fleira.

Árla morguns var stefnan tekin á Eskifjörð þar sem prófasturinn Davíð tók á móti mér og sýndi mér hið fagra guðshús þar sem altarið er staðsett í helgidóminum miðjum . Séra Davíð hafði tekið mig undir sinn verndarvæng þegar ég var á prédikunarstyrknum forðum og kennt mér margt það sem síðar átti eftir að nýtast mér í prestsskap. Það var líka hann sem forðum daga sagði mér frá „bláu bókinni“, skýrslu á áttunda áratugnum sem geymdi hugmyndir um víðtæk samstarfssvæði á héraðsvísu. Það var áhugavert að koma aftur og tala um bláu bókina. Ég er ekki frá því að margar hugmyndir hennar séu núna loksins að komast í framkvæmd og er það vel. Frá Davíð hélt ég í útgerðarfyrirtækið Eskju til Jens Garðars sóknarnefndarformanns. Við áttum hið besta spjall um álver og umhverfismál, sveitastjórnarmál, presta og pólitík, lýðræði og framtíð kirkjunnar. Ég er að fara að halda erindi um kirkju og stjórnmál í þarnæstu viku og hef fengið margt að moða úr í erindið í ferðinni.

Reyðfirðingar eiga glæsilegt kaffihús og þar hafði ég mælt mér mót við Jónu Kristínu sóknarprest á Fáskrúðsfirði. Það var notalegt að sötra súkkulaði með rjóma með minni gömlu skólasystur og enn á ný stækkaði myndin af því sem er um að vera á Austfjörðunum. Björn sóknarnefndarformaður á Reyðarfirði tók síðan á móti mér ásamt konu sinni Guðríði. Í stórum og litlum söfnuðum sameinast menn um sömu áhyggjuna, niðurskurðinn á sóknargjöldunum, sem hefur rýrnað um fjórðung eftir hrun og gerir það að verkum að erfitt er að halda við húsunum og halda uppi lágmarks starfi. Björn ræddi líka mikilvægi þess að alls staðar sé hugsað vel um sjálfboðaliða sóknarinnar og ekki síst kórfólksins sem myndar hryggjarstykkið í kirkjusöngnum.

Sól var komin hátt á loft, ellefu gráðu hiti og ég gladdist yfir fegurð Austfjarðanna.  Stefnt var i í suðurátt í gegnum nýju göngin. Það eru víst tvær eftirlitsmyndavélar í þeim og ég vandaði mig mikið við að kitla ekki bensínpinnann að ráði. Eiríkur frændi minn, sóknarnefndarformaður á Fáskrúðsfirði var ekki heima svo ég lét mér nægja að horfa yfir fjallasalinn í Fáskrúðsfirði án þess að hafa þar viðkomu.

Séra Gunnlaugur Stefánsson sýndi mér Stöðvarfjarðarkirkju. Þar sem ég hef nýlega tekið þátt í kirkjubyggingu sjálf og veit hvílíkt grettistak það er fannst mér sérlega gaman að skoða þessi nýju og fjölbreyttu guðshús Austfirðinga. Síðan dreif ég mig á heilsugæslustöðina á Stöðvarfirði, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Ingibjörg beið mín. Við höfðum samið um að ég mætti heimsækja hana í vinnuna, en það gæti alveg eins verið að hún hefði engan tíma til að hitta mig. Á heilsugæslustöðinni var líf og fjör. Ég kynnti mig og sagði til mín og fékk að heyra það í fyrsta sinn að ég væri Austfirðingur. Fyrir borgarbarn sem er ættað alls staðar að og hvergi var það mikið hrós að eignast nú nýjar rætur. Á heilsugæslustöðinni á Stöðvarfirði bar það við að Austfirðingur varð til.

Eftir fjörugar samræður um kirkjustarf og þjóðkirkju kvaddi ég Stöðvarfjörð og hélt í sparisjóðinn á Breiðdalsvík, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Svandís vinnur. Enn á ný fjölluðum við um erfiðar aðstæður safnaðanna og hversu þungt það er að láta enda ná saman í núverandi árferði.

Útsýnið úr Heydölum yfir Breiðdalinn og víðáttur úthafsins er ægifagurt. Það var gott að sitja og spjalla við kirkjuþingsmanninn Gunnlaug um allt það sem er kirkjunni þungt og hvar sóknarfærin liggja Áherslur geta verið ólíkar en öll höfum við sama markmið. Ég kvaddi séra Gunnlaug eftir skemmtilegt spjall og hélt inn í prestakall séra Sjafnar Djúpavogsklerks.

Fyrsta stopp í syðsta prestakalli Austurlandsprófastdæmis var á Berunesi hjá Ólafi sóknarnefndarformanni og Önnu. Þar eins og víðar var mér tekið með kostum og kynjum. Ólafur hefur setið á kirkjuþingi og fylgist grannt með málum þaðan og enn bættist í reynslusarpinn hjá frambjóðandanum. Frá Berunesi hélt ég áfram inn Berufjörðinn og þaðan til Öldu á Eyjólfsstöðum í Fossárdal.  Það var orðið dimmt, en það var hlýtt og notalegt hjá Öldu. Við drukkum te og spjölluðum um aðstæður í litlum sóknum.

Ég á allsérstæð tengsl við Djúpavog, því að við hjónin giftum okkur í gömlu kirkjunni þar í guðfræðinemaferðalag. Upphaflega hafði staðið til að fara út í Papey, en veðrið var svo vont að hjónavígslan fór fram á Djúpavogi. Nú er þar risin mikil og myndarleg kirkja sem séra Sjöfn og sóknarnefndarformaðurinn Ásdís sýndu mér af miklu stolti. Það var gaman að fara heim á prestsetrið með Sjöfn, því að þangað hef ég ekki komið síðan á brúðkaupsdaginn minn. Og ekki spillt góða kjötsúpan sem Sjöfn dró upp úr pottinum fyrir gleði minni.  Ég hafði ætlað að hitta Hlíf sóknarnefndarformann í Hofssókn í Álftafirði á Djúpavogi þar sem hún vinnur, en dagskráin riðlaðist öll til svo ég varð að sleppa síðustu heimsókninni.

Allan tímann meðan ég var á ferð um Austfirðina lónaði sagan af fyrstu ferðinni minni á Austfjörðum í hugskotinu. Ég hef ekki hugmynd um hver unga konan var sem vann á mér kærleiksverkið forðum. Hún gaf mér far mestalla leiðina, reddaði mér fari með fótboltaliðinu, gaf mér að borða og var hinn besti leiðsögumaður sumarið 1986. Mér fannst gestrisni hennar stórkostleg og finnst það enn. En ég upplifði anga þessarar sögu aftur í vikunni þegar ég heimsótti Austfirði og nýr Austfirðingur varð til.  Ég er að læra svo mikið á þessum ferðalögum og fólk er að gefa mér svo mikið af mat, tíma, áhuga á kirkjunni, holl ráð og nýja fleti sem allir nýtast.

Ég er svo þakklát fyrir þetta nýja nesti. Kæru Austfirðingar, takk fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: