Á fimmtudagsmorguninn lögðum við séra Karl Valgarður Matthíasson land undir fót og fórum á Snæfellsnesið, en áður hafði ég farið í ferð um norðanverða Vestfirðina með Rögnvaldi mínum í janúar og síðan ein á sunnanverða Vestfirðina í byrjun febrúar. Báðar þessar ferðir voru mjög vel heppnaðar og ég hlakkaði mikið til ferðarinnar á Snæfellsnes. Ég var búin að hringja í alla presta og velflesta sóknarnefndarformenn á Nesinu og bjóða sjálfri mér í kaffi. Kalli kom með sem ekill og leiðsögumaður af því að hann þekkir svo vel til undir Jökli. Við fórum Heydal og vorum komin á Skógarströnd fyrir klukkan níu. Flughált var í Hvalfirðinum og við rétt mjökuðumst áfram, en ástandið lagaðist þegar við komum á malarveginn. Kalli keyrði og ég var stillt og prúð og dottaði í bílnum.
Við heimsóttum Jóel sóknarnefndarformann á Bíldshóli og heyrðum af frábæra aðventukvöldinu á Breiðabólsstað sem dregur að fjölda fólks á hverri aðventu. Við sáum bleika sólarupprásina yfir fjöllin, Kalli tók mynd og mér finnst hún vera eins og táknmynd fyrir bjarta framtíð. Við sóttum heim Hreiðar og Kristínu á Narfeyri og heyrðum þyt Íslands og kirkjusögunnar í frásögn Hreiðars. Við fórum í Stykkishólm, fengum höfðinglegar móttökur hjá sóknarprestinum Gunnari Eiríki og rifjuðum upp skemmtilegar minningar frá þeim tíma þegar við vorum öll prestar á Vestfjörðum. Svo lenti ég í skemmtilegum umræðum um kirkju og skóla og framtíð kirkjunnar á kennarastofunni í Stykkishólmi, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Unnur vinnur og skoðaði nýja orgelið í Stykkishólmi. Við tókum hús á bóndanum á Hraunhálsi. Hann var sá eini sem ég hafði ekki náð í í síma og við bönkuðum upp á upp á von og óvon, en húsráðendur Jóhannes Eyberg og Guðlaug létu sér hvergi bregða og buðu til stofu. Frá Hraunhálsi var haldið til Hildibrands í Bjarnarhöfn þar sem við skoðuðum safnið og ræddum eilífðarmálin meðan fallegi íslenski hundurinn og kettirnir tveir hringuðu sig á gólfinu. Kalli var duglegri að borða hákarlinn en ég, en Hildibrandur leysti mig út með tvær dollur af hákarli, svo ég get æft mig.
Svo lá leiðin áfram í Grundarfjörð þar sem við spjölluðum við séra Aðalstein og sóknarnefndarformanninn Guðrúnu Margréti á prestsetrinu. Þegar við vorum á leiðinni í Ólafsvík var farið að snjóa allverulega og við heimsóttum bæði Baldvin Leif formann og Ragnheiði Karítas sóknarprest. Ragnheiður ætlar að flytja til Noregs og búið er að auglýsa prestakallið. Það er hugur í Ólsurum og Söndurum nú þegar prestsval stendur fyrir dyrum og að mörgu að hyggja sem gaman var að kynnast. Síðasta stopp á norðanverðu nesinu var hjá Sigrúnu sóknarnefndarformanni á Hellisandi sem gaf sér tíma í spjall um framtíð kirkjunnar meðan hrogn og lifur suðu á eldavélinni og sinna þurfti börnum og búi. Þegar við kvöddum Sigrúnu var ofankoman orðin mikil og ég var að velta því fyrir mér hvort við ættum kannski að drífa okkur í bæinn og aflýsa hinum heimsóknunum. Karl Valgarður er hins vegar þrjóskari en ég og vildi halda áfram undir fyrir Jökul. Við settumst upp í bílinn og ókum áfram þótt við sæjum varla út úr augunum.
Það var óttalegt gjörningaveður undir jöklinum og ég varð fegin að komast í hús hjá Hafdísi Höllu á Arnarstapa. Þar biðu okkar gómsætar steiktar fiskibollur og öll sóknarnefndin, sem hafði fengið veður af heimsókninni. Við héldum síðan áfram til Sigrúnar á Kálfárvöllum sem líka hafði boðið heim sóknarnefndinni og spjölluðum um sóknarnefndarmál og borðuðum rjómapönnukökur. Veðrið hafði versnað mikið meðan við ókum frá Arnarstapa á Kálfárvelli en þegar við komum út aftur var komið logn og heiðskírt veður. Það var einstaklega fallegt að aka Ölduhrygg, stjörnurnar voru svo bjartar og tunglsljósið gult og alls staðar blasti víðáttan við. Séra Guðjón og frú Klara tóku á móti okkur þótt klukkan væri orðin meira en tíu og við spjölluðum um málefni kirkjunnar góða stund. Svo var rennt í bæinn þangað sem við komum klukkan hálftvö um nóttina. Voanandi næ ég að heimsækja þær sóknir sem ég varð að skilja eftir af því að klukkan var orðin svo margt.
Ég var lengi að sofna þegar ég kom heim þótt dagurinn væri langur. Höfuð mitt var fullt af fólki, fólki sem hafði sýnt mér gestrisni og gefið mér tíma sinn í ólíkum heimsóknum yfir daginn. Ég hugsaði um sögu, guðfræði, erfiðleika, kirkjupólitík og starfsmannamál, svo að hausinn í mér brakaði. Mér finnst það það besta við þessar biskupskosningar að þær gefa tækifæri til nýs samtals og samskipta. Samskipti eru ekki áætlun á blaði eða excelskjal. Samskipti er það þegar fólk drekkur saman kaffi og te og ræðir um það sem gengur vel og það sem gengur illa, hver við erum og hvert við stefnum og hvað við erum sammála og ósammála um. Samskipti er að eiga allt í einu erindi á bæi og kynnast nýju, yndislegu fólki. Samskipti um kirkju er að komast að því hversu margt fólk er að gefa vinnu sína og ástúð til kirkjunnar sinnar. Í samtalinu kynnist maður nýjum hlutum og rifjar upp aðra sem eru gamlir. Og í bakgrunni tónar sagan sem er tengd kristninni á djúpan hátt og landið sem við eigum og á okkur.
Takk Kalli fyrir að koma með mér í ferðalag. Takk Snæfellingar, þið eruð frábært fólk.
Færðu inn athugasemd