Sérþjónustan

Íslenska þjóðkirkjan byggir sóknaskipulag sitt á fornum grunni sveitasamfélagsins. Þéttbýlismyndun í upphafi síðustu aldar leiddi til þess að þetta gamla skipulag riðlaðist að einhverju leyti og allnokkrir prestar voru fluttir til bæjanna úr sveitunum. Borgvæðing síðustu áratuga hefur einkennst af enn meiri fólksflutningum en áður og í stað flutninga í sjávarþorp og kaupstaði, flytja flestir á höfuðborgarsvæðið. Ég ræði töluvert um borgvæðingu í pistli mínum „Áskoranir og tækifæri kirkju og þjóðar í kreppu“ sem nálgast má hér.

Sístækkandi borgarsamfélagið leiðir til þess að leiðirnar sem höfuðborgarsöfnuðirnir hafa til að snerta við og tengjast safnaðarfólki sínu eru ekki eins skilvirkar og áður. Einu sinni starfaði ég í 300 manna söfnuði í Súgandafirði þar sem sem sóknarmörkin höfðu ekki breyst síðan á tólftu öld, en presturinn var hins vegar færður inn í þorpið á áttunda áratug síðustu aldar. Ég hafði góða yfirsýn yfir söfnuðinn minn á Suðureyri, allir unnu, lifðu og hrærðust í firðinum og af því að samgöngur voru svo slæmar var lítið leitað út fyrir fjörðinn. Ég hafði frumkvæði að heimsóknum til eldra fólks og þeirra sem ég vissi að áttu undir högg að sækja. Þegar sóknarbörnin fóru á sjúkrahúsið á Ísafirði heimsótti ég þau. Og auðvitað vissi ég flest það sem var um að vera í söfnuðinum. Nú er ég sóknarprestur í 5700 manna prestakalli og ég hef ekki yfirsýn yfir líf sóknarbarna minna á sama hátt og áður. Möguleikar mínir til að mæta þeim í erfiðleikum þeirra og gleði eru einfaldlega minni og yfirsýn mín takmarkaðri.

Ég er svo þakklát fyrir sérþjónustuna. Ég er svo þakklát fyrir að til skuli vera prestar og djáknar sem sinna sóknarbörnum mínum sem leggjast inn á sjúkrahús, sem sinna þeim sem eru fötluð, öldruð, heyrnarskert, í varðhaldi eða af erlendum uppruna. Ég er svo þakklát prestum og djáknum á sjúkrahúsi sem sinna mörgum næturútköllum, sem ég finn mig vanbúna til að sinna með erfiðu kalli. Ég er svo þakklát fyrir að geta vísað á presta erlendis sem taka við fólkinu mínu sem hrekst úr landi vegna efnahagsástandsins eða er á leiðinni í skóla. Ég átti því láni að fagna að vinna við hlið vímuvarnarprests þjóðkirkjunnar um tveggja ára skeið og kynntist þá starfi hans náið, en sérþjónusta hans var einmitt staðsett í Guðríðarkirkju. Það var mikill sjónarsviptir af henni og sárt að sjá á bak blómlegu starfi. Sérþjónustan er kannski skýrasta merki þess að við eigum þjóðkirkju, sem mætir þjóðinni allri, sumum í landfræðilegum sóknum, öðrum í söfnuðum, hjálparstarfi eða í starfi kirkjunnar erlendis.  Við erum eining í margbreytileika, bæði á sóknar- og sérþjónustuvísu.

Sérþjónustan er eitt af mikilvægustu svörunum okkar við áskorunum borgvæðingarinnar. Það væri ekki nóg að fjölga prestum í hinum staðbundnu söfnuðum í borginni. Borgarfólk lifir svo stórum hluta hvers dags utan heimilis og utan síns heimahverfis og félagsleg tengsl þeirra eru þvert á öll sóknarmörk. Þess vegna getur þjónustan og tengslamyndunin ekki einskorðast við hina landfræðilegu sókn eins og áður var. Það þarf að mæta fólki þar sem það er og það er það sem sérþjónustan leitast við að gera. Sérþjónustan sinnir líka fólki á landsvísu og þannig njóta dreifbýlissöfnuðirnir hennar líka. Ef til vill er mikilvægasta ástæða þess að standa vörð um sérþjónustuna að velflest þau sem hún þjónar standa ekki styrkum fótum í samfélaginu og geta ekki varið hana sjálf.

Sérþjónustan tekur breytingum eins og önnur þjónusta kirkjunnar. Þess vegna skiptir máli að erindisbréf og starfslýsingar séu skýrar og þarfirnar séu metnar reglulegar, t.d. með tilliti til tilsjónar. Ég hef ekki í huga að gefa nein fjárskuldbindandi kosningaloforð, vegna þess að ég vil berjast fyrir því að kirkjuþing ráði sem mestu um það hvernig sameiginlegum sjóðum kirkjunnar er varið.  Ég hef ritað grein um þetta efni sem heitir „Búrlyklar biskupsins“ og hana má finna hér.  En hugur minn til sérþjónustunnar er hlýr, ég átta mig á mikilvægi hennar og ég vil veg hennar sem mestan.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: