Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna

Í skýrslu ríkisendurskoðunar frá síðasta hausti komu fram ábendingar til þjóðkirkjunnar í fimm liðum. Skýrslu ríkisendurskoðunar má í heild nálgast hér.Í þessum pistli hyggst ég bregðast við ábendingum ríkisendurskoðunar og tek fyrir fyrstu þrjár ábendingarnar fyrst.

1. BREYTA ÞARF SKIPAN KIRKJURÁÐS
Það er mat Ríkisendurskoðunar að breyta þurfi lögum á þann veg að dregið verði sem mest úr skyldum biskups til að sinna fjármálaumsýslu kirkjunnar. Endurskoða þarf ákvæði í 10. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 þess efnis að biskup sé forseti kirkjuráðs í þá veru að hann sitji í ráðinu með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

VINNA ÞARF AÐ HEILDARSTEFNUMÓTUN UM MÁLEFNI BISKUPSSTOFU
Þjóðkirkjan þarf að móta stefnu um þá starfsemi sem fram fer á Biskupsstofu, þar sem fram komi lykilmarkmið og árangursmælikvarðar. Þá þarf að forgangsraða og tímasetja aðgerðir til að framfylgja stefnunni. Liður í slíkri stefnumótun er að meta hvort kirkjan á að sinna öllum þeim verkefnum sem nú er sinnt á Biskupsstofu.

2. SKIPTA ÆTTI UPP NÚVERANDI VERKEFNUM BISKUPSSTOFU
Skipta ætti upp verkefnum sem nú eru unnin á Biskupsstofu í trúarleg verkefni og veraldleg verkefni. Verkefnin ættu að falla undir tvær stjórnunarlega aðskildar skipulagseiningar sem hvor hefði sinn yfirmann. Móta þyrfti skipurit og skriflegar starfsreglur fyrir báðar einingarnar.

3. AUKA ÞARF GAGNSÆI Í FJÁRMÁLUM ÞJÓÐKIRKJUNNAR
Fjármál þjóðkirkjunnar verða að vera gagnsærri en nú er. Þannig er t.d. æskilegt að helstu sjóðir kirkjunnar, þ.e. Kirkjumálasjóður, Kristnisjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Hinn almenni kirkjusjóður verði sameinaðir í einn Kirkjusjóð. Að auki þarf að vinna skýrar verklagsreglur um styrkveitingar á vegum kirkjunnar, þar sem m.a. komi fram með hvaða hætti umsóknir eru metnar og hvernig eftirfylgni með nýtingu fjárins sé háttað.

Fyrstu spurningunum þremur er auðvelt að svara og ég hef þegar gert það að hluta í pistlinum „Lýðræði og ný þjóðkirkjulög“ sem nálgast má hér.  Ég vil fá biskupinn úr rekstrarumsýslunni eins og kostur er og að stjórnsýsla biskupsstofu verði einfölduð. Styð ég því eindregið ályktanir ríkisendurskoðunar um þetta efni.

Víkur þá að fjórða atriðinu:

4. SAMEINA VERÐUR SÓKNIR
Sóknir á Íslandi eru margar og algengt að þær séu fámennar. Ríkisendurskoðun telur að stefna eigi að sameiningu fámennra og illa starfhæfra sókna í stað þess að leggja einungis áherslu á að efla samvinnu milli þeirra. Stofnunin telur því að nauðsynlegt sé að sett verði skilyrði um lágmarksfjölda sóknarbarna í hverri sókn. Færa ber frumkvæði að sameiningu sókna frá biskupafundi til kirkjuþings.

Ég hygg að hér skipti miklu máli hversu sjálfstæðar íslensku sóknirnar eru. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að sameina sóknir og margar smáar sóknir hafa einmitt tekið á það ráð, enda samstarf milli sóknanna oft mikið. En meginmálið er að slík sameining á ekki að verða til við valdboð að ofan eða að sunnan, heldur vegna gildra ástæðna um þjónustu heima fyrir. Ég myndi því fara mér hægt í þessu efni og aðstoða heimamenn frekar við að taka sínar ákvarðanir, heldur en að keyra í gegn sameiningar. Þjóðkirkjan hefur á að skipa öflugu sóknarfólki sem unnið hefur að vönduðu sameiningarferli og þessi þekking á eftir að nýtast öðrum.

Síðasta ábending ríkisendurskoðunar er svona:

5. UMSÝSLA OG EIGNARHALD PRESTSSETRA VERÐI HJÁ SÓKNUM
Ríkisendurskoðun telur að eignarhald og viðhald prestssetra eigi að vera hjá sóknum, að undanskildum prestssetursjörðum. Sóknirnar eru grunneiningar kirkjunnar og það er þeirra að ákvarða um heimilisfesti sóknarpresta í samráði við þá og hvernig að þeim skuli búið. Þessari breytingu þyrfti að fylgja fjármagn til sóknanna frá Kirkju-málasjóði. Húsaleigutekjur vegna prestssetranna myndu með sama hætti renna til þeirra. Þá þyrfti við úthlutun úr Jöfnunarsjóði sókna að horfa til þeirra viðhalds-verkefna sem munu hvíla á sóknunum.

Um síðasta atriðið um að umsýsla og eignarhald prestsetra verði hjá sóknum er ég ósammála niðurstöðu skýrslunnar, því að prestsetrin tengjast sóknarsjóðunum ekki með nokkru móti, heldur samkomulaginu um kirkjueignir. Hins vegar finnst mér vel koma til greina að starfsmaður sem starfar við prestsetrin sé staðsettur einhvers staðar úti á landi, enda um hreint landsbyggðarmál að ræða. Prófastar höfðu lengi umsjá með ósetnum prestsetrum og tóku út prestsetur. Vel færi á því að umsjá með prestsetrum færi að einhverju leyti aftur heim í hérað undir umsjá prófasta.

Skýrsla ríkisendurskoðunar er vönduð og kemur fram á mikilvægum tíma sem hvati að stjórnunarlegum breytingum. Þær eigum við að takast á hendur með djörfung og krafti.

Eitt svar við “Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna”

  1. […] Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjóðkirkjuna, Sigríður Guðmarsdóttir […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: