Biskupar og vígslubiskupar

Nýlega hafa birst tvær greinar í Morgunblaðinu um vígslubiskupana. Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel birti grein 17. febrúar s.l. og talaði fyrir því að vígslubiskupsembættin yrðu lögð niður.Vilborg Auður segir:

Á öldinni sem leið vildu menn auka veg hinna fornu biskupsstóla og setja þar biskupa. Gallinn er hins vegar að við búum enn í grunninn við kirkjuskipan Kristjáns III. sem hefur guðfræði Lúthers að leiðarljósi. Ef menn taka kenninguna um hinn almenna prestdóm alvarlega, þá engin litúrgísk þörf á vígslubiskupum. T.d. gætu 12 prestar (postulleg tala) framkvæmt vígslu biskups. Séu störf vígslubiskupa hins vegar stjórnsýslulegs eðlis, er fráleitt að þeir sitji uppi í sveit.

Arnaldur Máni Finnsson skrifaði síðan grein í Morgunblaðið 27. febrúar s.l. og víkur að hlutverkum vígslubiskupa. Arnaldur Máni lýsir sig ósammála viðhorfum Vilborgar Auðar og telur skynsamlegra að veita vígslubiskupunum meiri hlutdeild í biskupsþjónustunni heldur en að leggja þá af.

Báðar þessar greinar eru vekjandi og umhugsunarverðar og ég þakka þær.  Þeirri spurningu hefur oft verið varpað fram, m.a. fyrir síðustu vígslubiskupskosningar hvort ekki sé rétt að leggja embættin í Skálholti og á Hólum niður og spara þannig frekar í yfirbyggingu kirkjunnar en í grunnlögum hennar, sóknum og sérþjónustu  sem nú á mjög undir högg að sækja. Þessi spurning á fyllilega rétt á sér.

Ég hef í pistlum undanfarnar vikur rökstutt það að biskup Íslands eigi að fara sem mest út úr rekstrarumsýslu kirkjunnar. Hlutverk biskupa er þríþætt, að vígja presta, kirkjur og biskupa (ordinatio), að vísitera presta og söfnuði (visitatio), og að hafa tilsjón með þeim (inspectio).  Ég tel að með því að taka biskupinn út úr stjórnuninni sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar geta svo vel létt af honum, skapist rými fyrir aukna tilsjón og vísitasíur á akrinum.

Ég hef heyrt í mörgu fólki um allt land í aðdraganda þessara biskupskosninga. Allir hafa tekið mér vel og allir eru glaðir yfir því að tala um kirkjuna sína. Sumir vilja tala um fjárhagsvandann, aðrir byggðamál, sameiningar sókna og prestakalla, eða það sem er efst á baugi á kirkjuþingi, stjórnsýslu kirkjunnar og ýmislegt fleira. Margir tala um það hvað vísitasíurnar eru góðar og hversu dýrmætt það er að fá biskupinn í heimsókn. Þetta samtal vil ég auka með öllum ráðum. Mér finnst að biskupsþjónustan eigi að einkennast af þjónandi forystu, að aðstæður séu þekktar á hverjum stað; fólk í yfirstjórninni og sjálfboðaliðarnir á akrinum þekkist með nafni og biskuparnir viti hvað krakkar prestsins heiti og jafnvel hundurinn hans.

Það er með þessari virku tilsjón sem að kirkjan verður til aftur og aftur. Af því að kirkjan er fólk. Hvert og eitt okkar er að vinna gott starf á sínum stað. Við loðum saman á líminu sem er Kristur, líka hefð og sögu, sem er undirstrikuð með stöðunum sem vígslubiskuparnir sitja á og vaka yfir. En við þurfum líka að loða saman á yfirsýn biskupanna sem koma í kaffi, skoða steypuskemmdir og kaleika, gleðjast yfir því sem gert er vel og ala önn fyrir þeim sem eru þreyttir og lúnir og leiðir á batteríinu sem þjóðkirkjan getur stundum orðið.

Þessi tilsjón er ekki eins manns verk. Hún er óendanlegt verkefni. Nýlega kallaði ég slíkt verk að vera lifur líkamans sem er Kristur (sjá hér). Og það er þess vegna sem ég tek undir með Arnaldi Mána og vil halda vígslubiskupunum áfram, hvorki sem sérstökum vígslutæknum (við getum pantað anglíkanskan og/eða lútherskan biskup með flugvél á morgun) eða sem stjórnunaraðila (þarf guðfræðing til að stjórna skrifstofu?), heldur sem ljósmæður og leiðtoga í trú og von á það að kirkjan heldur áfram að verða til með nýjum degi og nýrri gleði.

Eitt svar við “Biskupar og vígslubiskupar”

  1. […] Biskupar og vígslubiskupar, Sigríður Guðmarsdóttir […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: