Prófastar og prófastdæmi

Prófastar og prófastdæmi hafa verið til umræðu á einum kynningarfundi sem við biskupskandídatar höfum sótt. Rökin á bak við að stækka prófastdæmin voru, eins og menn væntanlega muna, að styrkja héruðin og búa til sterkari þjónustu- og samstarfssvæði, sem gætu tekið við frekari verkefnum. Einnig var til þess litið að hægt væri að spara í rekstri með því að fækka prófastdæmum, (sjá athugasemdir við tillöguna á kirkjuþinginu 2010 sem nálgast má hér.

Á ferðum mínum um landið hef ég orðið vör við megna óánægju fólks með hin breyttu prófastdæmi og einkum og sér í lagi eftir því sem lengra dregur frá miðpunktum prófastdæmisins. Það sem safnaðarfulltrúar, prestar, prófastar, héraðsnefndarfólk og sóknarnefndarfólk finna sérstaklega fyrir er hversu langt er að aka á héraðsfundi. Einkum er það tilfinnanlegt þegar bensínið er jafndýrt og nú er. Einnig kvarta margir yfir því að svæðin sem nú hafa verið spyrt saman eigi lítið sameiginlegt. Vestfjarðaprófastdæmi hefur þá sérstöðu meðal hinna prófastdæmana að á vetrum eru heiðarnar sem tengja saman byggðirnar á sunnan- og norðanverðum kjálkanum ekki mokaðar. Mestan hluta ársins er þannig ófært um prófastdæmið og hin þrjú svæði sem mynda það geta tæpast kallast ein heild nema á landakorti.

Ég tel að hugmyndirnar um sterkar einingar í héraði séu að mörgu leyti athygli verðar, en að jafnframt hafi þess ekki verið nægilega gætt að leita álits heimamanna áður en gömlu prófastdæmin voru lögð niður. Hinn hái bensínkostnaður sem velt hefur verið yfir á héraðsfundarfulltrúa sem flestir eru í sjálfboðaliðastarfi er einnig ótækur. Ég hygg að mikilvægt sé að taka mark á þessum óánægjuröddum.

Nokkrar leiðir eru færar. Í fyrsta lagi er hægt að hverfa aftur til hins fyrra horfs gömlu prófastdæmanna. Gallinn er sá að prófastdæmin á landsbyggðinni eru flest lítil, fátæk og vanmegnug ef þau vinna ekki saman. Í öðru lagi er hægt að hugsa til þess að halda áfram hinni nýju skipun, á þeirri forsendu að verja þjónustu heima í héraði og efla héraðsnefndirnar að valdi, verkefnum og starfsfólki. Ef það verður gert yrði að leita leiða til að sneiða vankantana sem komið hafa upp, t.d. með smærri samstarfssvæðum innan stóru eininganna og með því að gefa heimafólki færi á að ræða betur hvers konar héraðseiningu það vilji hafa.

Spurningarnar sem við þurfum að spyrja eru: Hvað þarf prófastdæmið mitt að vera stórt til þess að það geti tekið við auknum verkefnum um samstarf og samvinnu í héraði?  Hver eru verkefnin og fjármagnið sem ég vil að séu flutt frá miðstýrðu Reykjavíkurvaldi  yfir til héraðsins? Hversu lítið þarf prófastdæmið mitt að vera til þess að það geti verið mitt hérað?  Innan hvers konar skipuheildar kýs ég að vera?

Eins velti ég upp þeim möguleika hvort prófastsembættin mættu ekki vera hreyfanleg og skiptast milli presta á nokkurra ára fresti, t.d. milli samstarfssvæða.  Ég tel mikilvægt að halda í prófastsembættin og nota þau í auknum mæli til að efla afleysingaþjónustu, samstarfs og símenntun presta.

Mestu máli skiptir þó að taka þessar ákvarðanir í samráði við og með samþykki þeirra sem prófastdæmin byggja. Minna boðvald, meira samráð, meira vald í hérað.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: