Jafnréttisstefna og 110-0

Félag prestvígðra kvenna bað um að biskupskandídatar svöruðu spurningum um jafnrétti. Mér er það bæði ljúft og skylt, því ég hef mikinn áhuga á að bæta jafnrétti innan kirkjunnar.

Núverandi jafnréttislög í landinu eru frá árinu 2008 og þau má finna hér. Nýmæli í þeim lögum voru hugmyndir um kynjasamþættingu,  „að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu“, svo vitnað sé í orðskýringar jafnréttislaganna. Núverandi jafnréttisstefna kirkjunnar byggist á þessum lögum og var samþykkt á kirkjuþingi 2009. Hana má finna hér. Jafnréttisstefnan geymir fjölþætt markmið, um að skapa forsendur til þess að karlar og konur njóti þess jafnréttis sem þeim á að vera tryggt með lögum, að festa kynjasamþættingu í sessi í kirkjustarfi og stjórnsýslu kirkjunnar, að gera jafnréttismál að viðfangsefni allra í kirkjunni, að bæta stöðu kvenna og karla í þeim stöðum þar sem hallar á annað kynið, að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í áhrifastöðum í kirkjunni og að síðustu að tryggja framkvæmd markmiðanna með framkvæmdaráætlun. Árið 2010 bættist síðan nýr liður við jafnréttisstefnuna, þar sem það verður liður í jafnréttisáætlun kirkjunnar að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni, sjá hér. Jafnréttisnefnd kirkjunnar á sér sérstakan vef og hann er að finna hér.

Samkvæmt framkvæmdaáætluninni á að endurskoða jafnréttisstefnuna 2013 og leggja fyrir kirkjuþing það haust. Safna á upplýsingum um stöðu kvenna sem birta á í ágúst 2012. Allar valnefndir eiga að vera skipaðar amk 40% konum og 40% körlum (þeirri endurskoðun átti að vera lokið haustið 2011).  Búið átti að vera að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan kirkjunnar í júní 2011 og stuðla að bættri samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs fyrir júníbyrjun 2012. Auk þess átti að gera sérstakan skurk varðandi málfar beggja kynja í hinni nýju sálmabókarútgáfu og handbók, jafna laun starfsfólks (skýrslur áttu að liggja fyrir á héraðsfundum og kirkjuþingi 2010, 2011 og 2012) og vinna að jafnréttisfræðslu fyrir árslok 2010.

Hér koma spurningar prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál.

1.   Munt þú beita þér fyrir því að markmið Jafnréttisstefnu kirkjunnar nái fram að ganga? Hver telur þú brýnustu forgangsverkefni stefnunnar?

Ég mun beita mér fyrir því að markmið jafnréttisstefnunnar nái fram að ganga og það er mér hjartans mál. Þegar stefnumál eru skoðuð er alltaf mikilvægt að ætla sér ekki að finna upp hjólið, heldur byggja á þeirri vinnu sem farin er í gang. Þegar lesið er yfir tímaáætlun stefnunnar virðist ljóst að hin metnaðarfulla framkvæmdaáætlun sé ekki að ná fram að ganga, amk ekki innan þeirra tímamarka sem sett voru í stefnunni. Ég fletti upp í málaskrá kirkjuþings og sé hvergi merki um að skýrslur um jöfn laun og kjör starfsfólks þjóðkirkjunnar hafi verið lögð fyrir kirkjuþing árin 2010 og 2011. (Ef einhver getur bent mér á þessar skýrslur væri það vel þegið). Ég fann fundargerð frá jafnréttisnefndinni frá desember s.l. , sjá hér, þar sem kemur fram að starf nefndarinnar hafi legið niðri í heilt ár vegna veikinda fyrrverandi formanns, nefndarmenn séu ekki vissir um það hver gegni starfi jafnréttisfulltrúa og að brýnt sé að setja téðum fulltrúa erindisbréf. Samkvæmt fundargerðinni telur nefndin brýnast að safna upplýsingum um laun starfsfólks kirkjunnar og taka saman tölulegar upplýsingar um kynjafhlutföll ofl. Nefndin hefur því sett sér markmið og áhersluatriði og er það vel.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt þykir mér brýnasta verkefnið að ráða jafnréttisfulltrúa til biskupsstofu sem geti framfylgt markmiðum jafnréttisstefnunnar. Verkefnin virðast svo viðamikil að nefnd sem hittist öðru hvoru geti varla innt þau af hendi nema að hafa starfsmann í föstu starfi með sér. Hygg ég að þar með skapist líka meiri festa kringum starf nefndarinnar og hún geti sett sér nýja framkvæmdaráætlun með uppfærðum dagsetningum. Og að sjálfsögðu á að setja jafnréttisfulltrúanum erindisbréf.

En…hvar á að finna peninga til að hrinda jafnréttisáætlun kirkjunnar í framkvæmd í niðurskurðinum miðjum?  Ég hef lagt til mikla endurskipulagningu á biskupsstofu í samræmi við tillögur ríkisendurskoðunar frá síðasta hausti. Ég tel þó að starfsmannamál séu svo brýn og knýjandi í kirkjunni að ekki sé hægt að bíða með að ráða starfsmannastjóra kirkjunnar. Ég legg því til að best sé að bíða með að ráða biskupsritara meðan þessar stjórnsýslubreytingar ganga yfir og ráða þess í stað starfsmannafulltrúa sem einnig gegnir starfi jafnréttisfulltrúa og hafi einhverja sérmenntun á því sviði. Þar með er hægt að hafa jafnréttisfulltrúa í amk 30% launuðu starfi án þess að bæta auknum útgjöldum á biskupsstofu.

2.   Finnst þér ástæða til að setja á stofn launaða stöðu jafnréttisfulltrúa kirkjunnar?

Já, sbr. ofanskráð.

3.    Nú situr engin vígð kona í Kirkjuráði annað kjörtímabilið í röð. Hver er þín afstaða til þess?

Óneitanlega er það einkennilegt að vígðir þjónar kirkjunnar skuli ekki leggja sig meira fram um að framfylgja jafnréttisstefnunni fyrir sitt leyti með því að kjósa konu í kirkjuráð. Alvarlegt má telja að af fimm kirkjuráðsmönnum og fimm til vara skuli aðeins vera ein kona aðalmaður. Hér er ekki unnið í samræmi við þá jafnréttisstefnu sem þingið samþykkti sjálft. (Þrír af fjórum varamönnum í kirkjuráði eru reyndar konur, en það er ekki nóg að vinna upp kynjahallann með því að raða konum á varamannabekk.) Bent hefur verið á að enginn gegni stöðu varamanns fyrir biskup Íslands. Hér koma hin bestu rök fyrir því að kona ætti að gegna embætti biskups Íslands, þá lagast strax kynjahallinn á kirkjuráði! Og svo kjósum við aðra konu til Hólastóls sem getur leyst biskup Íslands af :).

4.    Í nokkrum söfnuðum landsins, þar sem fleiri en einn prestur þjónar, eru eingöngu karlar í embætti prests. Hver er þín skoðun á því?

Ef fleiri en einn prestur af sama kyni þjónar við söfnuð og enginn af hinu kyninu, er kynjasamsetningin klárlega ekki í samræmi við hugmyndir jafnréttisstefnu og jafnréttislaga um kynjasamþættingu í stjórnsýslunni allri.  Þessu þarf að breyta.

Íslenska þjóðkirkjan á að fara að sinni eigin jafnréttisstefnu. Auglýsum stöður, bætum stjórnsýslu, förum að lögum og stefnum! Þetta er ekki mjög flókið.

Í gær 8. mars hélt ég ræðu á Ísafirði þar sem ég taldi öll þau sem vígð hafa verið biskupsvígslu til þjónustu á Íslandi frá 1056. 110 biskupar hafa verið vígðir til þjónustu á Íslandi á tæpum þúsund árum. 55 í Skálholti, 45 á Hólum og 10 sem biskup Íslands (3 biskupar voru fyrst vígðir biskupsvígslu sem vígslubiskupar áður en þeir urðu biskup Íslands og þurfti því ekki að vígja þá aftur). 110 biskupar- allt karlar. Er ekki kominn tími á að breyta og gera konu að biskup númer 111? Jafnrétti á að ganga gegnum öll lög kirkjunnar, líka þá efstu og táknrænar breytingar eru líklega þær erfiðustu í framkvæmd. Konur geta, mega og eiga að birta einingu kirkjunnar til jafns við karla. Og það er villandi að gera greinarmun á milli þess að kjósa annað hvort hæfasta einstaklinginn eða konu, sjá flotta grein séra Guðrúnar Karlsdóttur um þetta efni. Það getur nefnilega vel verið svo að hæfasti einstaklingurinn sé einmitt kona. Byrjum þar.

Hver verður staðan eftir þessar kosningar? 111-0…..eða 110-1?  Einhvers staðar verður kynjasamþættingin að byrja. Hví ekki að byrja á toppnum? Það er hún/hann sem er ábyrgur fyrir jafnréttisstefnunni. Stendur ekki í jafnréttisstefnunni að gera eigi jafnréttismál að viðfangsefni ALLRA?

P.S. Gleðilegan 8. mars öll!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: