Barna- og æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar

Mig langar til að tala um barna og æskulýðsstarfið sem mér er mjög annt um.

Síðustu tvo áratugi hefur barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar vaxið fiskur um hrygg. Söfnuðirnir hafa ráðið mikið af guðfræði- og uppeldismenntuðu starfsfólki og djáknar verið vígðir til æskulýðsstarfs. Eftir hrunið hefur hins vegar allt þetta starf dregist saman. Nú þegar fjárráð verða lítil og söfnuðir þurfa í vaxandi mæli að skipta því sem ekkert er, fara fjármunirnir að mestu í að borga af lánum og halda uppi lágmarks helgihaldi. Víða hafa launaðir starfsmenn í fastri vinnu vikið fyrir verktökum í takmarkaðan tíma. Og barnastarfi kirkjunnar hrakar eftir því sem minna er lagt í það og haldið utan um það.

Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar sendi biskupskandídötum kveðju sína í dag og þrjár spurningar með. Þær eru svona:

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?
2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðunandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?
3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Svar mitt við fyrstu spurningunni er það að biskup geti liðsinnt barna-og æskulýðsstarfinu á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi þarf hún/hann að beita sér fyrir því að sóknargjöldunum verði skilað. Þar þarf að myndast breiðfylking kirkjufólks sem að orðar vandann opinberlega og leggst á eitt við að rétta hlut safnaðanna. Það er frumforsenda þess að niðurskurðurinn í æskulýðsstarfinu verði leiðréttur.  Jafnframt vísa ég á grein mína „Búrlyklar biskupsins“ sem nálgast má hér.  Greinin fjallar um að við núverandi aðstæður sé óábyrgt að gefa kosningaloforð sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar, vegna þess annars vegar að við lifum á niðurskurðartímum og hins vegar vegna þess að allar líkur eru á því að fjárstjórnarvaldið sé að færast frá biskupnum og kirkjuráðinu yfir til kirkjuþingsins. Leiðréttingar nást aðeins fram ef okkur tekst að leiðrétta þá skerðingu á sóknargjöldum sem við höfum orðið fyrir. Og þá er það líklegt að fjárstjórnarvald hinna sameiginlegu sjóða verði á forræði kirkjuþingsins fremur en biskupsins og spurningin um það hvernig á að deila út fjármunum til barna og æskulýðsstarfs verður þeirra. En biskupinn á að hafa yfirsýnina og hún/hann á að tala máli barna og unglinga og benda á þá stefnumótun og fræðslustefnu sem þjóðkirkjan hefur sett sér. Orð biskups og áhrifavald getur haft mikil áhrif í að rétta hlut barna og ungmenna í þjóðkirkjunni.

Í öðru lagi getur biskupinn beitt sér fyrir lýðræðisumbótum sem miða að því að ungt fólk komist til áhrifa í kirkjunni, með því að tryggt sé í lögum að ákveðinn hluti þingsæta á kirkjuþingi sé eyrnamerktur kirkjuþingsmönnum yngri en 30 ára. Biskupinn getur talað fyrir því að laða ungt fólk til setu í sóknarnefndum. Um leið og aldurssamsetning þeirra sem ákveða hvernig fjármunum er varið á safnaðarvísu breytist, þá breytist gjarnan forgangsröðunin líka. Það er að segja ef eitthvað er í buddunni til að skipta niður.

Svar mitt við annarri spurningunni er þjóðkirkjan hefur sett sér stefnu um barna og æskulýðsstarf og henni á að sjálfsögðu að fylgja.Til þess eru stefnur að fara eftir þeim. Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004-2010 var m.a. birt framtíðarsýn þjóðkirkjunnar fyrir barna og æskulýðsstarf sitt. Þar segir:

Við viljum móta heildstæða fræðslustefnu og sinna fræðslustarfi sem leggur
áherslu á samfylgd frá vöggu til grafar.

  • Í öllum sóknum kirkjunnar sé boðið upp á barnastarf, unglingastarf og fullorðinsfræðslu.
  • Skilgreindar séu skyldur Þjóðkirkjunnar varðandi fræðslu um trú og  hefðir í ljósi þeirrar fræðslu sem veitt er í skólakerfinu.

Fræðslustefna þjóðkirkjunnar er byggð á stefnumótunarvinnunni og hana má nálgast hér: Þar segir að bjóða eigi upp á fræðslu í hverri sókn þjóðkirkjunnar frá vöggu til grafar. Áherslur stefnumótunarvinnunnar og fræðslustefnunnar eru bjartsýnar, glaðar og víðsýnar. En þær byggja á kirkjusýn sem enn er ekki til um þjónustu og fræðslu fyrir alla og raunhæfum markmiðum í þá átt. Við þurfum að gera slíka sýn að raunveruleika í strjálbýlinu jafnt sem þéttbýlinu. Og þessu á biskupinn að vinna að með hagsmuni allra í fyrirrúmi.

Svarið við þriðju spurningunni er að mér væri heiður þiggja boð um að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilsstöðum í októberlok.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: