Organistar og kirkjutónlist

Félag íslenskra organista hefur sent okkur biskupskandítötum spurningar um kirkjutónlist og menntun organista. Þær eru svona:

1. Hvaða gildi telur þú að Tónskóli Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð skólans?

2. Hvaða gildi telur þú að embætti Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð embættisins?

3.Finnst þér breytinga þörf á sviði kirkjutónlistarmála? Ef svo er þá hvaða breytingar?

4. Finnst þér að það þurfi að endurskoða kirkjutónlistarstefnuna?

Ég tel það vera bráðnauðsynlegt að kirkjan haldi úti starfsemi Tónskólans, því hann er eini tónlistarskólinn á landinu sem annast menntun organista. Þar sem menntunin miðast sérstaklega við starf í kirkju, eins og  orgelleik, litúrgiskan orgelleik, kórstjórn og raddþjálfun og kirkjusöngfræði væri torsótt að ég held að fá aðra tónlistarskóla til að taka yfir organistanámið.  Orgeltónlistin, kór- og safnaðarsöngur er mikilvægur þáttur í okkar kirkjumenningu og við eigum að standa vörð um það. Undir þetta sjónarmið tók kirkjuþingið 2011 sem ályktaði að ekki skyldi fella niður fjárframlag til „Tónskóla þjóðkirkjunnar og til embættis söngmálastjóra því mikilvægt er að hlúa að tónlistarstarfi kirkjunnar svo að halda þarf einnig úti starfi söngmálastjóra til að liðsinna organistum og kórum og sinna endurmenntun ásamt með Tónskólanum. “ Ég tek undir þetta sjónarmið með kirkjuþinginu.

Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið úti söngmálastjóraembætti í sjötíu og eitt ár.  Sögu embættisins má lesa hér. Á þeim tíma hefur grettistaki verið lyft í að virkja íslenska þjóð í kórastarf á vegum þjóðkirkjunnar. Kórastarfið er líklega öflugasta og fjölmennasta sjálfboðaliðastarf sem rekið er á vegum þjóðkirkjunnar og það skiptir miklu að því sé haldið áfram af myndarskap og framsýni. Í seinni tíð hefur einnig verið sterk áhersla á að efla hinn almenna safnaðarsöng og er það vel.

Tónlistarstefnan er frá 2004 og eins og aðrar stefnur þarf að endurskoða hana reglulega. Hana má finna hér. Starfshópur er að vinna tillögur um Tónskólann og söngmálastjórann og á að skila af sér bráðlega. Ég tel best að bíða eftir niðurstöðu starfshópsins og vinna endurskoðunina út frá henni.

Ég tel að það verði mikil lyftistöng fyrir safnaðarstarfið þegar nýja sálmabókin kemur út. Vonandi tekst að gefa hana út fljótlega. þar eru á ferðinni margir nýir sálmar og endurskoðun sálmaarfsins sem byggir á vinnu stórs ráðgjafahóps í kirkjunni. Grasrótin er góð og nýsköpunin líka.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: