Að breyta kirkjusögunni

Nú er í fyrsta sinn í sögunni raunhæfur möguleiki á því að kona verði biskup Íslands. Konan sú heitir Agnes M. Sigurðardóttir. Hún var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi og því sannkallaður brautryðjandi prestsvígðra kvenna. Emmið í nafninu hennar er nafn móður hennar Margrétar.

Agnes hefur langa og víðtæka reynslu sem prestur og prófastur. Hún hefur afburðaþekkingu á landsbyggðinni. Hún hefur aflað sér stjórnunarreynslu, staðið í erfiðum samskiptum og unnið að úrlausn erfiðra mála í starfi sínu sem prófastur sem myndi nýtast henni sérlega vel sem biskup Íslands.

Hún er einlæg trúkona og vakandi hirðir safnaðar síns.  Agnes Margrétar og Sigurðardóttir er góður þjónn Drottins og góð fyrirmynd trúaðra.

Hún hefur stundað framhaldsnám í guðfræði.

Hún skrifaði á sínum tíma undir stuðningsyfirlýsingu 90 presta, djákna og guðfræðinga þar sem þeir lýstu gleði sinni með ein hjúskaparlög í landinu og þannig sýnt það í verki að hún er hlynnt mannréttindum samkynhneigðra. Þessa yfirlýsingu má lesa hér.

Agnes er einlægur jafnréttissinni. Svör hennar við spurningum félags prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál í þjóðkirkjunni má lesa hér.  Hún er fylgjandi því að komið verði á starfi jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar. Hún vill berjast fyrir því að sjónarmiðum jafnréttisstefnunnar verði fylgt.

Innan kirkjunnar er starfandi Jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar sem framfylgja á markmiðum jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar, sem er þessi:

  1. Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.
  2. Að festa kynjasamþættingu í sessi á öllum sviðum kirkjulegs starfs og innan stjórnsýslu kirkjunnar.
  3. Að auðvelda leikum og lærðum að móta og skapa aðstæður sem gera jafnréttismál að viðfangsefni allra innan kirkjunnar.
  4. Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.
  5. Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  6. Að tryggja framkvæmd þessara markmiða með framkvæmdaráætlun.

Og nú spyr ég:  Í ljósi þess að 110 karlmenn hafa verið vígðir til biskups í íslensku þjóðkirkjunni og engin kona, hvernig hyggst jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar beita sér fyrir því í síðari umferð biskupskosninganna að markmið númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm nái fram að ganga?

Félag prestsvígðra kvenna var stofnað 30. júlí árið 2009.  Félagið á sér tvíþættan tilgang,

– Að efla samstarf og miðla reynslu meðal prestsvígðra kvenna.
– Að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í kirkjunni og samfélaginu.

Og nú spyr ég hvernig félagið hyggst beita sér í því að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í þjóðkirkjunni í þeim sögulegu kosningum sem við stöndum nú frammi fyrir?

Er það ekki með því að styðja við bakið á konunni sem á raunverulegan möguleika á að breyta stöðunni í 110-1?

Það verða alltaf þúsund ástæður til að kjósa ekki konu sem biskup. Þær eru of íhaldssamar, of róttækar, hárið á þeim er ekki í lagi, þær eru fráskildar eða eiga óheppilegan kall, þær sögðu eitthvað óheppilegt fyrir hundrað árum etc.

Og einn góðan veðurdag skiptir ekkert af þessu máli, heldur aðeins hvort við breytum kirkjusögunni eða ekki.

Áfram Agnes!

3 svör við “Að breyta kirkjusögunni”

  1. Í allri minni viðleitni við að vera sammála þér varðandi jafnréttisstefnur þá þykir mér alveg hreint hræðilegt að þú skulir í þessari grein hvorki rita Agnes Margrétardóttir Sigurðardóttir né Agnes M. Sigurðardóttir heldur aðeins Agnes Sigurðardóttir eftir innganginn.

    En þar eru samt persónulegar skoðanir mínar á því hvernig börn eru kennd að spila inn í.

    Annars segi ég bara – Áfram konur, áfram frú Biskup!!

    1. Góð athugasemd Ásta. Ég breyti þessu í einum grænum. Takk!

  2. Ég furða mig stundum á fólki, sem ræðir um það yfir kaffibolla eða á blogginu að það sé mikilvægt að konur fái framgang. Svo þegar kona á góðan séns á að vera biskup þá heykist viðkomandi á því að styðja hana. Hjá sumum er jafnréttið hentstefna; eitthvað sem það flaggar þegar það hentar því en annars ekki.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: