Samviskufrelsi

Umræðan um hjúskap samkynhneigðra hefur skekið dönsku þjóðkirkjuna að undanförnu í kjölfar þess að nýtt frumvarp hefur verið lagt fram í þinginu um ein hjúskaparlög.  Samkvæmt fréttum politiken.dk er gert ráð fyrir að prestar geti neitað því að vígja samkynhneigð pör í hjónaband á grundvelli samviskufrelsis, sem er samsvarandi við núgildandi lög á Íslandi. Í greininni er því einnig haldið fram að þriðjungur danskra presta sé á móti því að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að mjög sé um það rætt innan dönsku þjóðkirkjunnar að þjóðkirkjan afsali sér valdi til að framkvæma hjónavígslur að lögum. Greinina í Politiken má lesa hér.

Tvennt þykir mér áhugavert við þessar fréttir frá Danmörku. Í fyrsta lagi virðist mikill munur vera á afstöðu til hjónabands samkynhneigðs fólks meðal íslenskra og danskra presta. Í öðru lagi tel ég að danska umræðan um framsal vígsluvaldsins sé eitthvað sem getur skotið upp kollinum á Íslandi aftur í umræðu um samviskufrelsi presta.

En á hverju byggi ég það að íslenskir prestar séu almennt meiri homma- og lesbíuvinir en hin dönsku starfssystkin þeirra?

5. júlí 2008 gerði dagblaðið 24 stundir könnun meðal presta þjóðkirkjunnar um afstöðu þeirra til blessunar staðfestrar samvistar og birti niðurstöður með nöfnum presta og dreifingu um landið. Greinina má lesa hér og hér. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum prestum þjóðkirkjunnar var tilbúinn að taka að sér vígslur, nokkur hópur vildi ekki gefa upp viðhorf sitt og níu prestar sögðust ekki taka að sér slíka vígslu, þar af sex sem eru enn í embætti.

Stór hópur íslenskra presta, djákna og guðfræðinga vann til mannréttindaverðlauna Samtakanna 78 árið 2010 fyrir að hafa lagt lóð á vogarskálarnar við umfjöllun og afgreiðslu einna hjúskaparlaga á Íslandi. Texta viðurkenningarinnar og nöfn þeirra sem hana fengu má lesa á þessari síðu hér. Á grundvelli þessara upplýsinga úr 24 stundum og lista þeirra sem fengu mannréttindaverðlaunin er hægt að draga ályktanir af viðhorfum velflestra íslenskra presta til hjúskapar samkynhneigðra.

Niðurstaða yfirgnæfandi meirihluta íslenskra þjóðkirkjupresta er sú að þeir gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband til jafns við gagnkynhneigð pör. Þess má líka geta að presturinn sem samdi nýtt kynhlutlaust hjónavígsluritúal handa þjóðkirkjunni í tilefni einna hjúskaparlaga 2010 er orðinn biskup í Skálholti og að báðir biskupskandídatarnir sem kosið er um til embættis biskups Íslands voru í hópi þeirra sem samtökin 78 verðlaunuðu 2010. En er það nóg að velflestir prestar taki að sér að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að hjónaband homma og lesbía njóti velvildar og skilnings hjá biskupum? Er samkynhneigðu fólki ekki enn mismunað í íslensku þjóðkirkjunni meðan prestar geta neitað að vígja það í hjónaband?

Séra Baldur Kristjánsson skrifaði stuttan pistil á heimasíðu sinni fyrir skömmu þar sem hann taldi að tími væri kominn til að valkvæða ákvæðið í hjúskaparlögunum frá 2010 væri numið úr gildi. Þar með yrði það ekki lengur á valdi einstakra presta að ákveða hvort þeir taki að sér hjónavígslu samkynhneigðra eða ekki, heldur sé það sameiginleg ákvörðun trúfélagsins þar sem þeir þjóna. Séra Baldur segir:

Kirkjan ætti auðvitað að taka af skarið sjálf  og sýna að hún giftir ekki samkynhneigt fólk með hangandi hendi, allir þjónar hennar geri það með sama geði og um gagnkynhneigt fólk væri að ræða eða leyni lund sinni ella.

Ég er sammála sr. Baldri í því að þjóðkirkjan á að fjalla um valkvæða ákvæðið í stað þess að bíða eftir því að einhver ákveði að taka af skarið á þingi. Guðfræðileg umræða tekur langan tíma og þjóðkirkjan getur ekki sinnt þessari umræðu á eigin forsendum nema að hún taki frumkvæði. Ég var hlynnt þessu ákvæði á sínum tíma og tel að það hafi átt sinn þátt í að hjálpa til við að koma lögunum á og skapa rými til aðlögunar. Svo er önnur spurning hvort valkvæða ákvæðið eigi að gilda um eilífð og aldur. Umræðan í Danmörku virðist komin miklu styttra áleiðis en á Íslandi, en kannski verður hún til að ýta við umræðu í íslensku þjóðkirkjunni í þessu máli.

Ef farið verður að hrófla við valkvæðisákvæðinu í lögunum, eru tvær leiðir færar. Sú fyrsta væri sú að allir vígðir þjónar þjóðkirkjunnar tækju að sér  hjónavígslu samkynhneigðra. Hin leiðin væri sú að íslenska þjóðkirkjan afsalaði sér vígsluvaldinu á sama hátt og danska kirkjan er að velta fyrir sér að gera.

Er hægt að fá alla presta til að taka að sér að vígja samkynhneigða í hjónaband?  Á að knýja þessa fáu sem eru á móti til að annast vígslurnar, eða „leyna lund sinni“? Hvað nákvæmlega leysist við það að kirkja afsali sér vígsluvaldi?  Breytir það ábyrgð kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum sóknarbörnum sínum?

Hvað felst í samviskufrelsi og á samviskufrelsi sér takmörk? Ég ætla að pæla í þessu áfram í öðrum pistli um samviskufrelsið á morgun m.a. út frá 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

(Innskot viku síðar:  Það tók mig reyndar viku að skrifa grein númer tvö. Hana er hægt að lesa með því að smella hér).

2 svör við “Samviskufrelsi”

  1. […] hugleikin og hef skrifað nokkrar greinar um málið. Tvær af þeim fjalla um samviskufrelsi (Samviskufrelsi og Samviskufrelsi og mannréttindaorðræða) og í þeirri síðustu sem er frá í vor fer ég […]

  2. […] sér vígslu samkynhneigðra. Greinin heitir “Um samviskufrelsi” og hana má nálgast hér. Í þessari grein langar mig til að skoða nánar samviskufrelsið og í kjölfar umræðunnar í […]

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: