Í gær urðu gleðileg tíðindi í norsku kirkjunni þar sem ég þjóna nú um stundir. Ein hjúskaparlög hafa verið í gildi í þeirri kirkju síðan 2009 en kirkjunni gengið illa að leysa glímuna um samkynja hjónabönd í eigin ranni. Þannig hafa norsk pör af sama kyni mátt gifta sig í ráðhúsinu í sex ár en ekki í kirkjunni. Í gær gerðust hins vegar þau tíðindi að í kirkjuþingskosningum samsvara sveitarstjórnarkosningum tókst að ná fram yfirgnæfandi meirihluta þingmanna sem eru hlynntir samkynja hjónaböndum. Þar með verður það samþykkt á kirkjuþinginu í vor að heimila vígslu. Jafnvel í íhaldssömustu biskupsdæmum Noregs fékk listinn Åpen folkekirke sem styður samkynja hjónabönd glæsilega kosningu. Það er engu líkara en að grasrótin hafi risið upp í Norsku Þjóðkirkjunni og sagt íhaldsömum prestum, biskupum, sóknarnefndum og starfsmönnum að nú væri mál að linni.
Í dag birti innanríkisráðherra á Íslandi svör við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar varaþingsmanns í þinginu um Þjóðkirkjuna og hjónabönd fólks af sama kyni (sjá hér). Þessari fyrirspurn var fylgt eftir af Steinunni Þóru Árnadóttur. Andrés Ingi spurði ráðherra hvort einhverjar reglur giltu um samviskufrelsi presta og hvar þær væri þá að finna. Hann spurði hvort ráðherra væri kunnugt um atvik þar sem fólki hafi verið neitað um þjónustu kirkjunnar á grundvelli kynhneigðar. Hann vildi vita hvort ráðherra teldi að það samræmdist skyldum presta sem opinberra starfsmanna að neita þjónustu á grundvelli samviskufrelsis. Þá spurði Andrés Ingi hvort hafi komið til álita að færa hjónavígsluheimild alfarið til borgaralegra vígslumanna og loks hvort rætt hafi verið hvort bæjar- og sveitarstjórar ættu að geta annast hjónavígslur.
Ráðherra óskaði eftir upplýsingum af Biskupsstofu þar sem kom fram að engar reglur væru í gildi um samviskufrelsi presta sem sem heimili þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. Svörin frá biskupsstofu komu fram í greinargerð sem fylgdi svari ráðherra. Ráðherra fjallar um stöðu presta sem opinberra starfsmanna sem ekki megi mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar og vísað til 22. grein hjúskaparlaga nr. 31/1993 um að ráðherra geti að fengnum tillögum biskups sett reglur um það hvenær presti er skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær ekki. Síðan segir ráðherra:
Hins vegar telur ráðuneytið að tilefni sé að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt.
Mér hafa ein hjúskaparlög lengi verið hugleikin og hef skrifað nokkrar greinar um málið. Tvær af þeim fjalla um samviskufrelsi (Samviskufrelsi og Samviskufrelsi og mannréttindaorðræða) og í þeirri síðustu sem er frá í vor fer ég yfir hjúskaparlög síðustu áratuga (Kirkjuþing unga fólksins) og hvernig þau hafa breyst. Vísa ég í þá síðastnefndu ef fólk vill fá ítarlegra yfirlit yfir lagagrundvöllinn en fram kemur í svari ráðherrans og hinar tvær um umræðu um samviskufrelsi.
Ég var glöð í gær yfir því að réttindamál samkynhneigðra skuli hafa þokast áfram í Noregi og að ég geti bráðum lýst því yfir í norskri kirkju að tvær konur eða tveir karlar séu „rétt hjón fyrir Guði og mönnum“. Það er dásamlegt að fá að upplifa birtuna brjótast gegnum skýin, ekki einu sinni, heldur tvisvar, á Íslandi 2010 og í Noregi 2015-2016. En ég er líka hugsi í dag þegar ég les svör ráðherra, ekki vegna þess að nokkur hlutur komi þar á óvart, heldur vegna þess að svörin sýna að enn er nokkur róður eftir hvað varðar að tryggja samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki fulla viðurkenningu í Íslensku Þjóðkirkjunni. Ég þakka Andrési Inga mági mínum fyrir að hafa spurt þessara spurninga í þinginu og þar með lyft lokinu af óunnum verkum í kirkjunni frá mismunun og til virðingar.
Ég ætla hér að setja fram glímuna um samviskufrelsið og samkynja hjónaböndin annars vegar sem núning vegna tengsla ríkis og kirkju og hins vegar sem sjálfsskilningsglímu Þjóðkirkjunnar.
Í sinni víðustu mynd varðar spurningin um samkynja hjónaband allar kirkjudeildir, fríkirkjur, trúfélög og lífsskoðunarfélög sem standa í formlegu sambandi við ríkisvaldið. Á grundvelli þessa formlega sambands innheimtir ríkið trúfélagsskatt og forstöðumenn trúfélaganna hafa vígsluvald að lögum. Þessar kirkjur, trúfélög og lífsskoðunarfélög hafa sumar hverjar valið að taka að sér vígslur fyrir fólk af sama kyni (t.d. Fríkirkjan í Reykjavík, Hafnarfirði, Óháði söfnuðurinn, Siðmennt og Ásatrúarfélagið) og aðrar gera það ekki (t.d. Kaþólska kirkjan, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan og Hvítasunnukirkjan á Íslandi). Öll þau trúfélög sem taka að sér að vígja karl og konu í hjónaband, en ekki konu og konu eða karl og karl mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Staða Þjóðkirkjunnar er hins vegar sérstök í hópi þessara trúfélaga fyrir tveggja hluta sakir. Ljóst er að ekki allir prestar Þjóðkirkjunnar vígja pör af sama kyni í hjónaband, en Þjóðkirkjan hefur útbúið opinbert vígsluritúal og leyfir öllum þeim prestum sem það kjósa að annast slíkar hjónavígslur.
Einnig er það sérstakt fyrir stöðu Þjóðkirkjunnar að flestir prestar hennar eru opinberir starfsmenn. Og opinberir starfsmenn mega ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Það kemur fram í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og undirstrikað í siðareglum starfsmanna ríkisins, þar sem allir starfsmenn ríkisins eiga samkvæmt þriðju grein að „efla vitund um jafnrétti og önnur mannréttindi.“ Bannið við mismunun er írekað í svari ráðherrans um skyldur opinberra starfsmanna. Það má lesa úr bréfi ráðherrans að ríkisvaldið vill ekki blanda sér um of inn í innri málefni kirkjunnar, hafa skoðun á guðfræði og helgisiðum. Ríkisvaldið vill ekki þurfa að segja Þjóðkirkjunni hverja hún á að vígja og hverja ekki.
Þetta er önnur glíman. Hin er innri glíma Þjóðkirkjunnar um samkynhneigð og viðurkenningu á henni. Sú glíma er að mestu unnin, en þó ekki alveg. Það er nefnilega ekki nóg að Þjóðkirkjan íhugi hvað henni sé heimilt og skylt að gera að lögum og hvað opinberir starfsmenn komast upp með. Það er guðfræðilegt mál, málefni sem varðar mannskilning kristinnar kirkju, sem prédikar kærleik og jafnrétti í Kristi Jesú, viðurkenningu mennskunnar og baráttu gegn óréttlæti hvort við mismunum fólki eftir kynhneigð eða ekki.
Prestar mega ekki mismuna fólki. Opinberir starfsmenn mega það ekki. Og kirkja sem játar trú á Guð sem fer ekki í manngreinarálit má það ekki. Þeirri glímu getur Þjóðkirkjan ekki vikið sér undan á siðferðilegum forsendum.
Og þá er spurningin, hvað á að gera til að draga úr þessum núningi og draga úr hættunni á mismunun?
Fyrsta leiðin er sú sem Andrés Ingi spyr um í einni af spurningum sínum til ráðherra, að færa vígsluvald alfarið til borgaralegra yfirvalda. Mismunun væri ennþá fyrir hendi, en hún varðaði ekki formlegt vígsluvald.
Önnur leiðin væri sú að sjá í gegnum fingur sér við önnur trú- og lífsskoðunarfélög og einbeita sér að þeim þætti sem snýr að opinberum embættismönnum Þjóðkirkjunnar. Einhverja hreyfingu í þessa átt má túlka úr svari ráðherra sem ég vitnaði hér í að ofan um að tilefni sé til að semja reglur um það hvenær presti sé heimilt og skylt að gifta. Það væri að mínum dómi gott að fá slíkar reglur og leiðirnar eru margar til lausnar.
Í því vinnuumhverfi sem ég vinn í hér í Norður-Noregi, þá vinna prestar saman innan prófastdæmis. Þeim er heimilt að sinna kirkjulegum athöfnum í prófastdæminu, en ef þeir koma úr öðrum héruðum þurfa þeir leyfi prófastsins eða sóknarprestsins til að annast athafnir. Þar með er alveg skýrt hvenær maður hefur heimild til vígslu og hvenær manni er skylt að vígja. Hér hringir enginn í prestinn til að spyrja hvort hann vilji gifta sig, heldur er vígslupappírum komið til prófastsins sem síðan raðar niður hjónavígslunum á prestana eftir því hvernig stendur á sumarfríum. Í þessu kerfi er auðvelt að sjá til þess að engum sé mismunað. Fólki er mætt af vinsemd og virðingu á prófastsskrifstofunni og svo skaffar prófasturinn prest til vígslunnar, organista og kirkjuþjón. Um leið breytist spurningin um það hvort einhver einstakur prestur mismuni yfir í það hvort kirkjan sjái manni fyrir þjónustu.
Þetta er ein leið til þess að sjá til þess að engum sé mismunað. Önnur leið væri sú að prestar sem ekki treysta sér til að gefa sóknarbörn sín af sama kyni í hjónaband taki heldur ekki að sér vígslur fyrir gagnkynhneigð pör. Þriðja leiðin væri sú að skikka alla presta til þjónustunnar. Leiðirnar eru margar og misgóðar. Það sem mestu máli skiptir er að Þjóðkirkjan taki alvarlega það verkefni að sjá til þess að engum sé mismunað. Það er ekki ásættanlegt að eftir fimm ára þjónustu við að vígja fólk af sama kyni í hjónaband hafi kirkjan ekki uppi neina tilburði í þá átt að tryggja að fólki sé ekki mismunað í Þjóðkirkjunni á grundvelli kynhneigðar.
Og þess vegna er ég ánægð með þessar spurningar í þinginu. Íslensk þjóð og þing þarf að svara því hvort þau geti sætt sig við mismunun trúfélaga við hjónavígslu, ef slík mismunun fjallar ekki um skyldur opinberra starfsmanna. Ef svo er ekki, verður vígsluvaldið afnumið til allra trúfélaga hvort sem þau taka að sér samkynja hjónabönd eða ekki. Ef þjóð og þing geta séð í gegnum fingur sér en vilja skerpa á skyldum og réttindum presta sem opinberra starfsmanna til hjónavígslu, þá er næsta skref að ráðherra setji reglur að fenginni tillögu biskups um það hvenær presti er heimilt að vígja og hvenær skylt. Og þá er eftir sjálfsskilningsverkefni Þjóðkirkjunnar sem m.a. kemur til kasta Kirkjuþings. Þessi vinna á að mínu viti að fjalla um það hvernig hægt sé að tryggja það að mannréttindum fari ekki aftur í Íslensku Þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan getur til dæmis sett starfsreglur um það að djáknar, prestar og biskupar verði ekki vígðir nema þeir geti annast embættisverk sín án tillits til kynhneigðar og að prófastar starfi ekki á vegum hennar án þess að þeir geti þjónað öllum sóknarbörnum í prófastdæminu.
Það er spennandi að fylgjast með mannréttindabaráttunni hér í Noregi þótt ég merki það af orðræðunni að enn er langt í land. Þónokkuð er líka eftir á Íslandinu góða og að því þarf að vinna.
Vegna þess að Guð fer ekki í manngreinarálit.
Myndin er fengin frá norska blaðinu Vårt Land í grein frá í gær (sjá hér) sem lýsir því að nú sé hjónaband fólks af sama kyni í höfn.
Færðu inn athugasemd