Kirkjuþing unga fólksins kom saman á laugardaginn fyrir viku og ræddi meðal annars um samviskufrelsi presta undir liðnum 6. mál. Ályktun þeirra hljóðar svo:
Kirkjuþing unga fólksins leggur til að reglur þær sem nú eru í gildi um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar verði afnumdar, enda stríði þær gegn kenningu kirkjunnar um jafnrétti og gegn lögum landsins sem segja að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar, stéttar né kynhneigðar.
Ég er ánægð með að Kirkjuþing unga fólksins skuli láta réttindamál samkynhneigðs fólks í kirkjunni sig varða og berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og fleiri þátta sem tilgreindir eru í mannréttindasáttmálum. Það er eitthvað gott í gangi í samfélagi þar sem unga fólkið velgir þeim eldri undir uggum og hristir það af svefni. Þau hreyfðu við mér og fyrir það er ég þakklát.
Kirkjuþing unga fólksins bað um að reglur væru afnumndar „um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. En hverjar eru þessar reglur sem hér er um rætt? Hverju þarf að breyta? Þarf að breyta einhverju? Þessi bloggfærsla er yfirlitsgrein yfir lögin og aðdraganda lagasetningar um ein hjúskaparlög með sérstakri áherslu á umræður, umsagnir, ályktanir og athugasemdir um frelsi presta til að neita samkynhneigðu fólki um vígslu. Hún er skelfing löng, en þeim sem þreytast á lestrinum er bent á niðurstöðurnar í lokin.
Hjúskaparlögin sem nú eru í gildi eru nr 31/1993 (með breytingunum 2010, sem gjarnan eru kennd við ein hjúskaparlög) og leystu af lögin nr. 60/1972 um stofnun og slit hjúskapar, en þau lög byggðu á lögum nr. 39/1921 um sama efni. Í lögunum frá 1921 og 1972 var talað um heimildir til kirkjulegrar hjónavígslu og að ráðuneytið gæti sett reglur um það hvenær prestum væri skylt að framkvæma hjónavígslur. Ég veit ekki til þess að þessar reglur hafi nokkurn tímann verið settar, en þessar heimildarskilgreiningar úr gömlu lögunum 1921 og 1972 fóru áfram inn í lögin 1993. Í athugasemdum með frumvarpinu 1972 er fjallað um heimildir einstakra vígslumanna á þennan hátt:
Um 16. gr. Í þessari grein er lagt til, að kirkjumálaráðuneyti setji reglur um, hvaða prestar þjóðkirkjunnar hafi heimild til hjónavígslu og hvenær þeim sé skylt að framkvæma hjónavígslu. Að jafnaði hafa allir prestar þjóðkirkjunnar þessa heimild, en eftir því sem flokkum presta fjölgar er ekki sagt, að svo verði þessu farið um þá alla. Þykir rétt, að ráðuneytið skeri úr þessu, svo og setji reglur um skyldu presta til að framkvæma hjónavígslu, að sjálfsögðu að fenginni umsögn biskups og prestastefnu.
Það sem er sérstaklega áhugavert við þessa klausu er sá skilningur frumvarpsins að ekki sé endilega sjálfsagt að allir prestar hafi vígsluvald.
Heimildir trúfélaga til vígslu þýða að ríkisvaldið getur framselt heimildir til trúfélags um að annast lögformlega hjónavígslu, en trúfélagið þarf ekki að taka við heimildunum, eða ákveðið að skilgreina þrengra þau skilyrði sem trúfélagið setur fyrir trúarlegri athöfn en ríkisvaldið gerir. Í kaþólsku kirkjunni er til að mynda lögð áhersla á órjúfanleika hjónabandsins, sem að skilningi trúfélagsins er sakramenti og ævilangur sáttmáli. Fráskildu fólki sem óskar hjónabands er því þrengri stakkur skorinn hvað varðar athafnir í kaþólsku kirkjunni en þeim sem ganga ógiftir til hjónabands.
Sum trúfélög setja reglur um trúfélagsaðild og mörg þeirra vígja ekki samkynhneigt fólk í hjónaband. Það sem gerir stöðu íslensku þjóðkirkjunnar hins vegar sérstaka meðal trúfélaganna er að þar er valdið til að velja lagt á herðar hvers einstaks prests. Og við það færist fókusinn frá trúfrelsi trúfélaga yfir á sannfæringar- eða samviskufrelsi einstakra presta. Og þess vegna er það ekki trúfélagið sem situr uppi með mögulegan mismununarvanda og þar með mögulegt brot á stjórnarskrárbundnum réttindum fólks, heldur presturinn sjálfur.
En hvar koma þessar „reglur“ fyrir sem Kirkjuþing unga fólksins hvetur til að séu afnumndar, reglur sem „heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar“?
Árið 2007 sendi Kirkjuþing frá sér ályktun sem að mörgu leyti má telja mótsagnakennda. Tillagan ber þess merki að vera sett fram sem málamiðlun í miklu ölduróti þar sem glímt var um réttindi samkynhneigðs fólks. Hún hljóðar svo:
Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.
Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.
Ályktunin er þannig þríþætt. Hún fjallar a) um hjónavígsluskilning íslensku þjóðkirkjunnar, b) um heimildir til presta sem hafa annan hjónavígsluskilning til að staðfesta samvist og c) áréttar frelsi einstakra presta til að taka að sér eða neita að taka að sér vígslu. Árið 2008 samþykkti Alþingi síðan ný lög sem heimiluðu trúfélögum að annast staðfesta samvist. Í athugasemdunum með frumvarpinu með lögunum var vitnað í ályktunina frá Kirkjuþingi 2007, enda hafði Kirkjuráð sent þinginu ályktunina sem umsagnaraðili um lögin. Prestafélag Íslands sendi einnig inn umsögn og lýsti sig samþykka málamiðluninni.
Frumvarpið sjálft nefnir aldrei val einstakra vígslumanna til að annast vígslu, en í athugasemdunum er valkvæði þátturinn orðaður svona:
Gert er ráð fyrir í b-lið 1. gr. frumvarpsins að vígslumönnum sem hafa á grundvelli 17. gr. hjúskaparlaga heimild til hjónavígslu verði einnig veitt heimild til að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni. Þarna er einkum um að ræða presta þjóðkirkjunnar og presta og forstöðumenn skráðra trúfélaga. Ekki verði á hinn bóginn um skyldu að ræða þegar þessir vígslumenn eiga í hlut. Virða beri frelsi presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga til að ákveða hvort þeir staðfesti samvist þegar lagaskilyrði eru fyrir hendi en vissulega er á því byggt að þeir muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Ef ástæða þykir til má ætla að þjóðkirkjan og skráð trúfélög muni gefa út leiðbeiningar til vígslumanna sinna um framkvæmd þessarar heimildar.
Samtök Foreldra og aðstandenda samkynhneigðra sendu þinginu einnig umsögn og gagnrýndu þá hugmynd að lögin yrðu valkvæð fyrir presta:
Hér er sem sé gert ráð fyrir að þeir prestar þjóðkirkjunnar sem ekki vilja veita samkynhneigðum þessa þjónustu geti neitað því. Slík neitun hlýtur að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjómarskrárinnar.
Í sama streng tók Félagsráðgjafafélag Íslands sem einnig sendi inn umsögn:
Að mati Félagsráðgjafafélags íslands skýtur það skökku við að prestum þjóðkirkjunnar sé heimilað að neita að þjónusta tiltekinn samfélagshóp. Það er spuming hvort slíkt samræmist jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar.
Samtökin ´78 tjáðu sig einnig um sömu ákvæði:
Frumvarpið gerir beinlínis ráð fyrir því að prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga geti neitað samkynhneigðum pörum sem til þeirra leita um þjónustu. Vegna sérstakrar stöðu Þjóðkirkjunnar og presta hennar sem opinberra starfsmanna þá er slík heimild – til þess beinlínis að synja tilteknum samfélagshópi um þjónustu – bæði alvarleg og hugsanlega einnig brot á jafnræðisreglu stjómarskrárinnar. Samtökin ’78 leggja því til þá breytingu á frumvarpinu að tekinn verði af allur vafi um rétt samkynhneigðra til þess að njóta þjónustu presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga til jafns við gagnkynhneigða.
Lögin nr. 55/2008 um staðfesta samvist (heimild presta til að staðfesta staðfesta samvist) voru síðan samþykkt mótatkvæðalaust.
Tveimur árum síðar var þingið orðið reiðubúið að stíga skrefið til fulls, taka út lagabálkinn um staðfesta samvist og samþykkja ein hjúskaparlög án tillits til kynhneigðar hjónaefna. Við frumvarpið bárust 34 athugasemdir frá einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og trúfélögum. . Í umsögnunum frá trúfélögunum kemur fram ólíkur skilningur þeirra á hjónabandinu. Í umsögnum frá biskupi Íslands og tillögu 90 presta og guðfræðinga sem lögð var fyrir Prestastefnu það ár og vísað til biskups Íslands og síðan send Allsherjarnefnd til umsagnar má lesa út mjög ólíkan skilning á hjónabandinu. Prestafélagið sendi líka inn umsögn og vék sérstaklega að valfrelsi presta við kirkjulegar athafnir:
Því teljum við mikilvægt að í lagatextanum sjálfum en ekki í athugasemdum sé kveðið á um valkvæði kirkjulegra vígslumanna á grundvelli trúarsannfæringar.
Fríkirkjan í Reykjavík hvatti eindregið til þessara lagasetningar í umsögn sinni, baháar sögðust ekki skipta sér af því sem borgaraleg yfirvöld ákveddu eða önnur trúfélög, en báðu ríkisvaldið um að virða frelsi trúfélagsins til að vígja ekki samkynhneigt fólk í hjónaband og Hvítasunnukirkjan, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Kirkja sjöunda dags aðventista, safnaðarhirðar hvítasunnukirkjunnar og Íslenska Kristskirkjan lögðust gegn lagasetningunni. Það var því ljóst strax af umsagnarferlinu að ekki myndu öll trúfélög nýta sér þær heimildir til hjónavígslu sem ríkisvaldið bauð fram í frumvarpi að einum hjúskaparlögum.
Í athugasemdum með frumvarpinu var sérstaklega talað um valfrelsi presta til að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband í lið 6.1:
Við túlkun ákvæðisins um vígsluheimild eða vígsluskyldu hefur m.a. verið nefnt að setja megi það skilyrði að annað hjónaefna eða bæði tilheyri því trúfélagi sem á í hlut. Þá hefur einnig verið nefnt að til álita komi að prestur megi neita að vígja hjónaefni ef hann telur slíkt andstætt samvisku sinni og sannfæringu. Ákvæði af því tagi eru í dönskum rétti, sbr. reglur um vígslu innan og utan þjóðkirkjunnar frá 1974. Í 13. gr. norsku hjúskaparlaganna er ákvæði um að kirkjulegur vígslumaður megi neita að vígja hjónaefni ef annað tilheyri ekki viðkomandi trúfélagi eða sé fráskilið og fyrrverandi maki sé enn á lífi. Við þá breytingu sem tók gildi 1. janúar 2009 var bætt við ákvæði 13. gr. að kirkjulegur vígslumaður mætti neita ef hjónaefni væru af sama kyni. Samkvæmt sænsku hjúskaparlögunum er kirkjulegum vígslumönnum almennt ekki skylt að framkvæma hjónavígslu en ekki er til tekið hvaða ástæður geti réttlætt neitun þeirra.
Eins og áður sagði þá byggist heimild kirkjulegra vígslumanna til að staðfesta samvist, samkvæmt breytingalögum nr. 55/2008, á því að prestar muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Telja verður að þessi túlkun fari saman við túlkun á 16. og 17., sbr. 22. gr., hjúskaparlaga og heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap verði því með sama sniði og heimild þeirra til að staðfesta samvist. Ekki þykir ástæða til að leggja til lagabreytingar um þessi atriði en hvetja má til þess að ráðuneytið skoði að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri hvort ástæða sé til að setja nánari reglur á grundvelli 22. gr. hjúskaparlaga.
Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.
Athyglisvert er að lögin eða athugasemdirnar fjalla ekki um önnur trúfélög en íslensku Þjóðkirkjuna og þeirra rétt til að þiggja eða hafna vígsluvaldi. Í athugasemdunum með frumvarpinu 2010 kemur þannig fram að tilteknir prestar muni geta synjað hjónavígslu samkynhneigðs fólks á grundvelli trúarsannfæringar í samræmi við fyrri lög frá 2008 og sérstaklega litið til „stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi“ sem skuli tryggja það að „allir geti notið vígslu“, þótt „hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns“.
Lögin nr. 65/2010 voru síðan samþykkt á Alþingi mótatkvæðalaust, en þau eru eiginlega lagabreyting við hjúskaparlögin frá 1993 og fleiri lög.
Eftir að hafa farið yfir „reglurnar“ langar mig að draga þetta langa mál saman í nokkur kjarnaatriði:
- Í lagatextunum um hjúskap 1972 og 1993 er talað um vígsluheimildir til trúfélaga en ekki vígsluskyldu.
- Hvergi í lagatextunum er talað um einstaka presta, en í athugasemdum um frumvarpið frá 2008 sem heimilaði prestum að annast staðfesta samvist og frumvarpið frá 2010 um ein hjúskaparlög er vísað ályktun kirkjuþings um að prestar geti neitað „vegna trúarsannfæringar“.
- Orðið „samviskufrelsi“ kemur hvergi fyrir í textunum.
- Engin ályktun um stöðu samkynhneigðs fólks hefur komið frá Kirkjuþingi síðan 2007 þegar þingið áréttaði hefðbundinn hjónabandsskilning en sagði að ef ríkisvaldið leyfði, þá mætti prestum sem hefðu annan skilning annast staðfesta samvist, svo fremi sem frelsi annarra til að gera það ekki væri tryggt.
- Strax í umsögnum með frumvarpinu 2008 er því haldið fram að það að lögin séu túlkuð á þann hátt að prestar geti vikist undan hjónavígslum samkynhneigðs fólks geti leitt til stjórnarskrárbrota vegna mismununar.
- Vísað er til fordæma í hjúskaparlögum í Danmörku og Noregi frá áttunda áratugnum þar sem vígslumaður getur vikist undan því að vígja fráskilið fólk í hjónaband. Engin lagahefð er hins vegar fyrir því að vígslumaður megi neita fráskildu fólki um hjónaband í íslenskum lögum frá sama tíma.
- Athugasemdirnar gera ráð fyrir því að vegna stöðu íslensku þjóðkirkjunnar verði unnt að tryggja öllum þeim hjónavígslu sem eftir leita.
- Hvor tveggja lögin frá 2008 og 2010 opna fyrir möguleikann á að ráðuneytið setji nánari reglur um val presta til vígslu „að höfðu samráði við biskup“ og í athugasemdunum með frumvarpinu frá 1972 er lagt til að ráðuneytið setji nánari reglur um það hvaða prestar eigi að hafa vígsluheimildir að lögum.
- Ljóst er af umsögnunum frá trúfélögunum um ein hjúskaparlög að mörg þeirra myndu ekki nýta sér heimildir um að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband.
- Í athugasemdunum með lögin 2010 er að finna umfjöllun um vígslumenn þjóðkirkjunnar en ekki vikið að öðrum trúfélögum.
Einhvern tímann á næstunni þegar ég er búin að hugsa aðeins meira ætla ég að skrifa grein um það sem mér finnst að þjóðkirkjan eigi að gera í stöðunni. En nú höfum við að minnsta kosti yfirlit yfir regluverk, lög og lögskýringargögn um val presta til að vígja.
Myndin er tekin af síðunni Ein hjúskaparlög þar sem ýmsir prestar þjóðkirkjunnar birtu stuttar greinar, vídeó og blogg einum hjúskaparlögum til stuðnings vorið 2010.
Færðu inn athugasemd