Múrskarðsfyllir-Farbrautabætir

Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir. (Jes. 58:12)

Prédikun í Guðríðarkirkju 30. ágúst 2015

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ungur guðfræðinemi stendur við kapelludyr á norskri bálstofu. Það er hásumar 2015 og þessi unga kona er að ljúka starfsnámi sínu og er að undirbúa sig fyrir jarðarför sem hún á að annast. Hún ætlar að gifta sig seinna í mánuðinum annarri ungri konu. Það hefur staðið styrr um hana í blöðunum vegna þess að hún lifir í kynlífssambandi með annarri konu. Allt stefnir í það að hún verði vígð til prests innan tíðar. Allt í einu stendur reið kona fyrir framan hana í kirkjudyrunum. Hún segir henni að hún sé skömm fyrir kirkjuna og svo slær hún hana í andlitið. Guðfræðinemanum bregður við þetta og hún kærir líkamsárásina sem hún varð fyrir á bálstofunni til lögreglunnar. Og skyndilega rís upp prestur sem segir að guðfræðineminn hafi ekki brugðist rétt við. Hún hefði átt að muna orð Jesú Krists um að bjóða hina kinnina, reyna að kynnast konunni og sýna henni kærleika. Og allt í einu er guðfræðineminn kominn í tvöfaldan sektarhring, þar sem áherslan er ekki lengur á höggið sem hún fékk í andlitið, ljótu orðin sem dundu á henni, ofbeldið og höfnunina sem hún varð fyrir,og sem er birtingarmynd hinnar kerfislægu höfnunar sem hún hefur mátt þola. Höggið er farið og sektin er komin yfir á guðfræðinemann vegna þess að hún hefði átt að elska meira og bjóða hina kinnina, allt í nafni Jesú Krists og orða hans í Biblíunni.

Spurningin sem Björgvinjarpresturinn varpaði fram um merkingu þess að bjóða hina kinnina, er nærtæk nú þegar guðspjall dagsins hefur verið lesið fyrir okkur. Fáum textum er erfiðara að framfylgja en einmitt þessum. Okkur er sagt að það sé ekki nóg að vera góð við þau sem eru viðhlæjendur okkar og vinir. Við eigum líka að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. «Verið fullkomin, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn,» segir guðspjallið. Og við situm og nögum neglurnar vegna þess að ég veit og þið vitið að við getum aldrei uppfyllt þetta boð. Við erum ekki fullkomin og verðum það ekki, þótt við getum haldið áfram að reyna.

Samt er okkur sagt að elska, jafnvel þótt við getum það ekki alltaf . Elskan sem við eigum að sýna er ekki sjálfvirk. Það er ekki svo að í hvert skipti sem einhver ræðst að okkur eigum við að bjóða hina kinnina. Ef slík hegðun verður sjálfvirk, styrkir hún ofbeldi í sessi, því sá sem beitir ofbeldinu veit að hann getur alltaf krafist undirgefni og fyrirgefningar. En elskan er ekki sjálfvirk, hún á ekkert skylt við undirgefni og þýlyndi. Hún er frjáls. Og þegar annar ritningarlesturinn okkar í dag, sem er hinn undurfagri «Óðurinn til kærleikans» segir að kærleikurinn «breiði yfir allt, trúi öllu, voni allt og umberi allt», þá er þar vísað til þess hvað kærleikurinn er lífsseigur. Kærleikur sem breiðir sig yfir allt er þolinn og styðjandi. Kærleikur sem trúir öllu er ekki auðtrúa, heldur trúfastur, missir ekki trúna á hið góða. Kærleikur sem vonar allt, hefur ekki misst vonina. Og sú ást fellur ekki úr gildi, ekki vegna þess að ást okkar sé alltaf sterk og stór, heldur vegna þess að við eigum hlut í kærleik Guðs.

Guð er fullkominn. Þess vegna þurfum við ekki að vera það. Við erum í náð Guðs. Við lifum í kærleika Krists. Og þess vegna fellur ástin aldrei úr gildi af því að hún er stærri en okkar eigin, litla takmarkaða ást.

II.
Önnur ný mynd frá liðnum dögum af álitamálum kærleika og kærleiksleysis eru hinar átakanlegu myndir fréttanna af flóttamannastraumnum frá Sýrlandi og öðrum Miðausturlöndum yfir Miðjarðarhaf og um landamæri Makedóníu. Við sjáum myndir af grátandi foreldrum með skelfingu lostin börn í átökum við hersveitir gráar fyrir járnum með táragas að vopni. Við sjáum flóttafólk sem drukknar í Miðjarðarhafinu, þessu sama hafi sem við höfum flest einhvern tímann baðað okkur í, farið á báta og notið sólar við. Og svo lokum við augunum og höldum áfram að skoða einhverjar aðrar fréttir í ófullkomnun okkar.
Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar og það fer vel á því að textar kirkjuársins sem fylgja þessum degi fjalla allir um að elska. Kærleiksþjónusta eða díakónía hefur notið vaxandi athygli innan lútherskra kirkna á undanförnum árum. Það er eins og fólk hafi smám saman verið að horfast meira í augu við að neyð náungans er svo stór og margbrotin að möguleikar okkar innan venjulegrar hefðbundinnar safnaðarþjónustu og einstaklingsbreytni nægir ekki til að takast á við hana. Þessi áhersla á kærleiksþjónustuna hefur leitt til þess að sérþjónustu innan kirkjunnar, djáknaþjónustu og sjálfboðaliðastarfi hefur vaxið fiskur um hrygg og að kristniboð og hjálparstarf er í vaxandi mæli hugsað sem hluti af heilrænni díakóníu.

Samhengi kærleiksþjónustunnar eru aðstæður nútímans, aðstæður hinna þurfandi í nútímanum, vegna mansals, nauðugra fólksflutninga, mengunar og ógnana við viðkvæm vistkerfi. Samhengi kærleiksþjónustunnar er borgvæðing, þar sem margir eru einmana og slitnir úr tengslum við nærumhverfi sitt og stórfjölskyldu. Samhengi kærleiksþjónustunnar er þannig það sem á ensku er kallað «glókal», það er bæði «glóbal» og «lókal», staðbundið í hnattrænu sinni. Texti dagsins fjallar um vini okkar og óvini, en það er líka margt fólk þar í milli, sem er hvorki vinir né óvinir en þarf hjálpar okkar, ástar, aðgerða og athygli með. Það er verkefni kærleiksþjónustunnar.

Og þá er spurningin, hvernig er best að styðja slíkt hnattsstaðbundið starf? Hvernig getum við hafið upp augu okkar og horfst í augu við hælisleitendur, flóttafólk á Sýrlandi, vatnslaust fólk, aldraða Íslendinga, öryrkja og hin einmana og vondaufu, hvernig getum við lagt okkur eftir þörfum umhverfisins á góðan og sjálfbæran hátt? Hvernig getum við komið kærleiksboðskap Krists á skila á nýrri öld? Allar þessar spurningar eru risavaxnar. Þær eru rammpólitískar, en ekki endilega á flokkspólitískan eða landspólitískan hátt, heldur hnattpólitískan. Þær fjalla um það að elska, og gefast ekki upp á að elska, þrátt fyrir að vandamálin séu risavaxin og við séum ófullkomnar manneskjur. Í ritinu «Þjónusta í síbreytilegu samhengi» sem Lútherska heimssambandið gaf út fyrir sex árum segir:

Á tímum sem þessum verður að fordæma þau syndsamlegu öfl sem viðhalda örbirgð. Slík öfl halda áfram skefjalausri rányrkju á landi okkar og ræna milljónir manna réttinum á daglegu brauði og mannsæmandi lífi, sem þeir hafa af sjálfum Guði þegið. Þessi öfl birtast í óréttlátu efnahagskerfi, vaxandi átökum og ofbeldi og því að fólk neyðist til að flýja átthaga sína.

„Við verðum að fordæma þau syndsamlegu öfl sem viðhalda örbirgð.“ Gerum við það? Í leit að svarinu við spurningunni um möguleika kærleiksþjónustunnar leita ég aftur til fyrsta ritningarlestursins, lestursins þar sem spámaðurinn Jesaja, (eða öllu heldur sá lærisveinn hans sem stundum er kallaður TrítóJesaja, eða Þriðji Jesaja) fjallar um breytni einstaklingsins. Þeir sem TrítóJesaja talar við eru uppteknir af því hvernig þeir geti tilbeðið Guð á sómasamlegan hátt og hvers konar fasta og afneitun sé helst Guði þóknanleg. Og Jesaja blæs á tilraunir þeirra til fullkomnanir. Í staðinn bendir hann á það að «fastan» sem Guði sé þóknanleg sé elskan til náungans, hugrekkið til að koma náunganum til hjálpar. Að gefa af brauðinu sínu, að seðja þann sem á bágt, að hýsa hælisleitendur (já, það stendur í textanum), að berjast gegn undirokun, hæðni og rógi, «að leysa fjötra rangsleitninnar».

Svo segir TrítóJesaja þessi gullvægu orð:

Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir. (Jes. 58:12)

Múrskarðafyllir. Farbrautabætir.

Múrskarðafyllirinn, er sú sem byggir up veggina aftur, sem hafa hrunið í ofbeldi, óáran og vanrækslu. Múrskarðafyllirinn veitir vörn og skjól. Farbrautabætirinn er sá sem rogast með steinana úr götunni, ryður brautina, þannig að hægt sé að ferðast um hana, opnar leiðir til kærleikans, þar sem vonleysið, reiðin og örbirgðin ríkti áður. Það er vart hægt að hugsa sér kristna sjálfsmynd, kristna kærleiksþjónustu með fegurri myndum en einmitt þeim að vera múrskarðafyllir og farbrautabætir.
Og markmiðið er ekki að útbúa fullkomna farbraut, eða fullkominn vegg. Markmiðið, hið spámannlega markmið sem er arfur okkar frá spámönnum Gamla testamentisins er að veita elsku sem er frjáls og að reisa brotnar manneskjur til frelsis aftur, með fræðslu, pólitískum ákvörðunum, þrýstingi, fjárframlögum til stofnana, breytni og forgangsröðun.

Það er eitthvað sem gerist þegar söfnuðir og einstaklingar skilgreina sína kristnu trú í tengslum við kærleiksþjónustu. Loftið hækkar, veggirnir víkka, og trúin umbreytist frá því að vera prívatsamtal við Guð yfir í að varða allt líf sem Guð elskar.
Við þurfum að losa okkur við ranghugmyndina um það að elskan til Guðs sé á einhvern hátt ótengd elskunni til náungans. Við þurfum að losa okkur við þá ranghugmynd að það að elska náungann sé að gera alltaf það sem náunganum þóknast. Og við þurfum sem kirkja að hugsa kærleika okkar, ekki aðeins í þröngum mannlegum samskiptum okkar næsta fólks, heldur glókalt, í því sem er staðbundið jafnt sem hnattrænt, Að biðja fyrir óvinum okkar sem ofsækja okkur, en líka þeim sem við þekkjum ekki neitt. Að elska þau sem ganga yfir til Makedóníu núna með táragasið í augunum og börnin á herðunum. Að koma þeim í hendur réttvísinnar sem berja aðra með höndum og ljótum orðum. Að halda að elskan felist í því að fara eftir Biblíunni eins og handbók með því að hengja sig sjálfvirkt í tiltekin ritningarvers um föstu eða að bjóða hina kinnina. Guð skapaði okkur frjáls og með heila og hjarta til að nota þetta frelsi í ást og kærleika.

Ég ætla ekki að segja ykkur hvernig sú forgangsröðun kærleiksþjónustunnar á að vera eða hvernig á að fara að þessu. Sú þjónusta hefur verið unnin á öllum öldum og er oftast hljóð. Hún er mikilvæg. Elskan er frjáls og eiginlega eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að endurspegla elsku Guðs í heiminum. En það fyrsta sem við verðum að breyta, er sú barnalega afstaða til kærleikans sem ég sagði ykkur frá hér í upphafi. Kristið fólk gerir stundum kröfu til sjálfs síns og hvers annars um kærleika, sem oft líkis meira masókískri undirgefni, en elsku í frelsi. Og það er skref númer eitt að viðurkenna að kærleikur og ofbeldi heyrir ekki saman, að elskan er ekki sjálfvirk og það að bjóða hina kinnina þegar maður er sleginn, á aðeins við þegar gjörðin er óvænt, afvopnandi og gefin í frelsi. Frjáls elska er ekki undirgefin. Hún horfist í augu við ofbeldi. Hún greinir og orðar ofbeldi og yfirgang, rís gegn því sem kúgar og særir og tekur sér stöðum með þeim sem smáður er. Hún fyllir upp í skarðan múrinn. Hún bætir farbrautina. breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt, vegna þess að Guð sem er elskan uppteiknuð gæðir hana þoli og seiglu.

Kæri söfnuður, það er mér mikils virði að fá að tala við ykkur um kærleiksþjónustu og sjálfsmynd okkar sem elskandi manneskjur í þessari síðustu prédikun minni hér sem sóknarprestur í Grafarholti. Ég bið ykkur Guðs blessunar og óska ykkur þess að vera áfram múrskarðafyllar og farbrautabætar um alla framtíð. Guð blessi kirkju Íslands, söfnuð Drottins í Grafarholti, starfsfólk og sjálfboðaliða í Grafarholti, og valið á hinum nýja presti sem framundan er næstu daga.
Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: