Gillzenegger, Guðbergur og Gunnar á Hlíðarenda

Nauðgunarkærum á hendur Agli Einarssyni og unnustu hans hefur verið vísað frá. Sumir telja að Egill sé fórnarlamb pólitísks rétttrúnaðar, sem annars vegar einkennist af því að allir eigi að hafa sömu skoðanirnar og hins vegar af mikilli dómhörku götunnar.

Það sem gerir málið flóknara er að Egill Einarsson hefur komið sér upp umdeildri ímynd, Gillzenegger sem hefur verið markaðsvædd í stórum stíl sem fyrirmynd ungra manna í harðnaglafræðum. Egill Einarsson og ímynd hans eru tengdir órofa böndum í huga almennings og manninum og hliðarsjálfinu er einatt ruglað saman. DV birti til dæmis frétt á föstudaginn um að nauðgunarmál gegn Gillz hafi verið fellt niður. Þannig leggur DV sitt lóð á vogarskálarnar við að halda okkur á sviði mýtunnar, óranna um Gillzmanninn í stað þess að flytja fréttir af lögreglurannsókn af meintri nauðgun í raunheimi.

Á þjóðhátíðardaginn kvaddi Guðbergur Bergsson rithöfundur sér hljóðs og birtir mikla gagnrýni á dómstól götunnar. Guðbergur stekkur til varnar hinni uppdiktuðu persónu Gillzenegger, sem hefur að dómi Guðbergs orðið fyrir forlögum allra hetja og glæsimanna fyrri tíðar, öfund, aðkasti og hefnigirni. Guðbergur sparar ekki stóru orðin og orð eins og „pokaprestahræsni“, „nunnuvæðing“, „meyjarhaftavörn“, „galdrabrennur“ og „kaþólskur rannsóknarréttur“ fljúga hægri- vinstri.

Guðbergur virðist líta á málið gegn Agli Einarssyni sem eins konar táknsögu (allegóríu), um glæsimenni sem er komið á kné af lítilsigldum öfundarmönnum sínum. Sögupersónan Gillzenegger í meðförum Guðbergs Bergssonar er Bjössi á mjólkurbílnum. Hann er Mósart sem Salíeri hefur grafið undan. Hann er Fást. Hann er Óþelló sem Jagó bruggar banaráð. Hann er Kjartan Ólafsson, Grettir og Gunnar á Hlíðarenda. Hann er glæsimenni og alþýðumaður sem þjóðin hefur hafnað og krossfest af því að hún er lítilla sanda og sæva.

Íslendingar eru sögumenn og við erum fljót að túlka efnivið okkar eftir táknsögum sem móta líf okkar. Sumar þeirra eru dregnar úr goðafræðinni, aðrar frá Íslendingasögum, Biblíunni eða úr kennslubókum Jónasar frá Hriflu. Táknsögur eru mikilvægar, en þær eru líka varasamar. Táknsögur taka breytingum. Og það hollt að skoða þær táknsögur sem hafa áhrif á líf okkar, ráða gildismati okkar og fá blóð okkar til að ólga. Stundum er gott að afbyggja eigin táknsögur.

Gillz hefur ekki verið ákærður fyrir nauðgun. Gillz er ekki til, hann er ímynd, söluvara, samnefnari fyrir tiltekna tegund harðjaxlamenningar. Skapari hans Egill Einarsson var hins vegar kærður fyrir nauðgun og nú hafa kærurnar verið látnar niður falla.

Stefið sem Guðbergur slær er gamalkunnugt og margir geta eflaust speglað sig í því. Guðbergur hljómar reyndar furðu prestslegur í fordæmingu sinni á pokaprestshræsnislegri öfund. Öfundin var ein af hinum sjö kristnu dauðasyndum og Guðbergur lemur á hinum galdrabrennandi, femínísku nunnum og meyjarhaftsverjum í vel þekktum vandlætingarstíl.

2 athugasemdir við “Gillzenegger, Guðbergur og Gunnar á Hlíðarenda

  1. Það þarf reyndar að halda því til haga að Egill hefur sjálfur lagt töluverða vinnu í að rugla saman sjálfum sér og hliðarsjálfinu. Á heimasíðu Egils eru t.d. taldir upp styrktaraðilar hans – „snillingar sem sponsa Gillz“. Þar eru talin upp fyrirtæki sem styrkja „Gillz“ – ekki Egil Einarsson, einkaþjálfara og vaxtarræktarmann, heldur þennan „Gillz“.
    Þar sem Egill kom fram talaði hann svo iðulega um sjálfan sig sem „Gillz“ eða „Gillzenegger“.

    Línan á milli þessara tveggja fígúra er því engan vegin ljós. Egill hefur atvinnu af því að vera Gillzenegger. En hann notar þennan óþverrakarakter líka sem skjöld. Þegar hann var gagnrýndur fyrir viðbjóðsleg óþverraskrif fyrir nokkrum árum, þar sem hann „grínaðist“ með að láta nauðga nafngreindum konum sem refsingu fyrir að vera leiðinlegir femínistar var málsvörn hans og stuðningsmanna hans hins vegar sú að Egill Einarsson hefði ekkert skrifað, það hefði verið þessi „Gillz“ karakter – skáldsagnapersóna, ekki raunverulegur maður.

    Að öðru leyti er ég hjartanlega sammála þér. Sér í lagi þeim punkti að Guðbergur hljómi merkilega (og leiðinlega) prestslegur í vandlætingu sinni yfir vandlætingu samborgara sinna. Hann er þar, líkt og Egill Einarsson, kominn í undarlegan hring með sjálfan sig.

    1. Takk Magnús, þetta er hárrétt með Gillz og Egil. Það er þessi vandlætingartónn í texta Guðbergs sem er svo merkilegur og jafnframt gamalkunnugur.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s