Silfurhúðin

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Einu sinni var ákaflega ríkur og nískur maður sem ákvað að fara og heimsækja prestinn sinn út af einhverju vandamáli. Þegar presturinn hafði hlustað á hann rekja raunir sínar litla stund, stendur hann skyndilega upp og dregur níska manninn með sér út í glugga. “Hvað sérðu?” segir presturinn við níska manninn. “Ég sé fólkið úti á götu” segir sá síðarnefndi. Þvínæst dregur presturinn manninn með sér að spegli og spyr aftur:  “Hvað sérðu?”. “Ég sé sjálfan mig” sagði maðurinn alveg steinhissa. Hann hélt að presturinn væri orðinn brjálaður.

“Nú skal ég segja þér hvers vegna ég var að spyrja þig þessara spurninga,” sagði presturinn. Glugginn er búinn til úr gleri. Spegillinn er búinn til úr gleri. Eini munurinn á milli þessara tveggja glerja er að á speglinum er þunn silfurhúð. Þegar þú horfir í gegnum hreint gler sérðu fólkið í kringum þig. En þegar þú húðar glerið með silfri, þá hættir þú að sjá aðra og horfir bara á sjálfan þig.”

II.

Það er fyrsti sunnudagur eftir þrenningarhátíð og hverjum degi kirkjuársins hafa verið úthlutaðir tilteknir textar sem einkenna efni hans. Tímabilið frá páskum til hvítasunnu er oft nefnt gleðitímabilið og tengist upprisu og uppstigningu Jesú Krists sérstaklega. Sunnudagarnar eftir þrenningarhátíð eru hins vegar tengdir hinum trúarlega vexti og þroska. Þess vegna er grænn litur á altarinu. Hver sunnudagur eftir þrenningarhátíð tengist einu stefi sem getur hjálpað okkur að horfa inn á við og gerast betri manneskjur með hjálp Guðs. Og efni dagsins í dag er það sem guðspjallið sagði okkur frá, guðspjallið um ríka bóndann. Þetta guðspjall biður okkur að einbeita okkur ekki að því að eiga endalaust af peningum, heldur að vera rík í augum Guðs.

Svona hljóðar dæmisaga Jesú: Bóndi einn á gjöfult land. Landið gefur svo vel af sér að hann getur hvergi komið afurðunum fyrir. Meðan bóndinn veltir fyrir sér þessu lúxusvandamáli, kemst hann að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að rífa allar hlöðurnar sínar og byggja aðrar stærri og meiri. Inn í þessar stóru hlöður ætlar hann síðan að hrúga öllum sínum verðmætum. Þegar maðurinn er búin að ákveða þessar framkvæmdir verður honum mjög létt og hann segir við sjálfan sig:  “Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.” En þessa sömu nótt dó maðurinn og hafði því ekkert að gera við allt það sem hann hafði safnað af sér.

Helstu mistök mannsins  voru að hann gat ekki horft á neitt nema sjálfan sig og hvernig hann gæti passað upp á eigin auð. Hann hélt að sála sín yrði þá fyrst glöð, þegar búið væri að koma öllum peningunum inn í hlöðuna.

Í sögunni sem ég sagði ykkur í upphafi var eini munurinn á glerinu og speglinum silfurhúðin. Þessi húð gerði það að verkum að níski maðurinn í sögunni notaði ekki fé sitt vel. Hann sá bara sjálfan sig, aðrir voru honum huldir.

Eins er með ríka bóndann í sögu Jesú. Það fer engum sögum af því að hann hafi fundið leiðir til að nýta fé sitt. Hann notaði það ekki til að gleðja sig og aðra. Hann horfði ekki í kringum sig. Hann gladdi ekki ástvini sína. Hann leitaði ekki uppi þau sem þurftu á hjálp hans að halda. Hann varði öllum sínum tíma í að hugsa út snjallari fjárhagsáætlanir, stærri hús til að geyma auðinn. Hann sat boginn yfir bókunum og skipulagði nýjar leiðir til að geyma féð. Og þess vegna segir Jesús um manninn að hann hafi safnað sér fé, en hafi ekki verið ríkur í augum Guðs.

III.

Við komum saman á fermingardegi. Skírn, ferming, útskrift, hjónavígsla allt eru þetta merkisdagar á mannsævinni. Þeir gefa okkur til kynna að nýjum áfanga sé náð. Við getum glaðst fyrir því að ungmenni er að verða fullorðið. Við getum undrast yfir því hvað það er stutt síðan hún var lítið barn. Við getum velt því fyrir okkur hvað það er stutt síðan við vorum krakkar.Það er eitthvað við þessa merkisdaga sem hjálpar okkur að nema staðar í núinu og njóta andartaksins. Við höfum þetta litla andartak tækifæri til að hugsa um fortíðina og framtíðina og hvíla í því . Við getum hugsað um það hvað það er gott að vera til,  eiga líf og ástvini, eiga hugsun, tengsl, land, sól og vatn og allt annað sem okkur er gefið. Þegar við hvílum í núinu erum við þakklát. Himininn heldur utan um okkur.

Í sögunni af ríka bóndanum kemur aldrei slíkt andartak. Hann tók aldrei eftir himininum vegna þess að áhyggjurnar stjórnuðu lífi hans, Ríki bóndinn í sögunni er alltaf með hugann við framtíðina. Hann er alltaf að skipuleggja, hann er ávallt hræddur um peningana sína og þarf ævinlega að ala önn fyrir þeim. Þess vegna hvetur Jesús  þau sem á hann hlusta að varast ágirnd, varast nísku og öfundsýki og keppa að því að vera rík í augum Guðs.

Þessar hlöður sem við rembumst við að byggja
eru svo ólíkar.
Hjá sumum er það óánægjan yfir hvernig við lítum út.
Hjá öðrum er það óánægjan með það hvernig við búum og hvað við gerum,
samanburðurinn við það sem aðrir hafa og gera.
En þegar við byggjum upp óónægju og áhyggjur,
þá týnum við niður þakklætinu
og ánægjunni með það sem við höfum og erum.

IV.

Þessi auður sem Biblían talar um
er ekki í veskjunum okkar,
ekki í áætlununum okkar,
ekki í áhyggjum okkar fyrir næsta degi.

Við höfum eflaust öll einhverjar áhyggjur.
Mörg okkar hafa fyllstu ástæðu til að ala önn fyrir morgundeginum
og margar hverjar eru virkilega knýjandi og sárar.
Guðspjall dagsins gerir ekki lítið úr lífsbaráttunni.
Það hins vegar geldur vara við því að láta gerviáhyggjur fyrir gerviþörfum
stjórna lífi okkar.
Það mælir gegn ágirnd og græðgi.
Ríki bóndinn hefði alveg getað lifað góðu lífi með sínar gömlu hlöður.

Það er eitthvað við þessa knýjandi þörf fyrir að byggja sér framtíðarhlöður í huganum
sem að rænir okkur núinu,
Rænir okkur því að geta hlegið og glaðst yfir því sem andartakið gefur okkur.
Þakkað fyrir allt það sem Guð hefur látið okkur í té
Og vera næm fyrir tikkinu í tímanum.

Við eigum aðeins eitt líf
og samband okkar við þau sem við elskum
er brothætt og fallegt.
Það er auður að vita það og skynja auðlegð andartaksins.

V.

Á þessum fallega sumardegi, þegar sagan um ríka bóndann er okkur lesin, þá hljóma hin vísu lífsráð Biblíunnar sem tilheyra þessum messudegi,ráð um að einbeita sér að hinum sanna auði.

Húðum ekki glerin okkar með silfri,
horfum út um glerið á allt það sem Guð hefur skapað.
Gleymum aldrei að horfa í kringum okkur.
Njótum andartaksins.
Verum glöð yfir því sem þú við erum og eigum.
Fylgjum fordæmi Jesú Krists.

Það kemur tími fyrir hlöður, en það er líka tími til að njóta og vera í núinu.
Guð gefi okkur öllum hæfileika, æðruleysi, þroska og gleði til að vera rík í augum Guðs,
Rík að vináttu og tíma,
Rík að þolinmæði
Rík að þakklæti
Rík að trú, von og kærleika.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun, Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Myndin er eftir Rembrandt

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: