Forsetakosningar á Íslandi árið 2012 eru markaðar atburðum haustsins 2008 og eftirmála þeirra.
Forsagan er þessi: Þingræðið varð fyrir gífurlegu áfalli í bankahruninu. Fólk missti trú á að stjórnmálamenn tækju upplýstar ákvarðanir til heilla fyrir þjóð og land. Það þurfti heila búsáhaldabyltingu og gífurlega borgaralega óhlýðni til að fella ríkisstjórnina og knýja fram kosningar á árinu 2009. Hin nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði síðan samkomulag við Hollendinga og Bretland um Icesave reikningana. Samkomulagið var staðfest í þinginu , en forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar í ársbyrjun 2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla var síðan haldin í byrjun mars 2010. Á tímanum fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni höfðu Íslendingum boðist betri samningskjör og því var niðurstaðan ljós fyrirfram. Samningur ríkisstjórnarinnar frá haustinu 2009 var orðinn úreltur og lýðum ljóst að ríkisstjórnin hafði samið af sér. Við tók annað samningsferli sem þótti ólíkt betra hinu fyrra. Forseti Íslands neitaði einnig að staðfesta þessi lög, þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í apríl 2011 og seinni samningurinn felldur með 60% atkvæða gegn 40%. Þótti þá fullreynt um sættir og Bretar og Hollendingar kærðu Íslendinga fyrir eftirlitsstofnun EFTA fyrir brot á EES samningnum.
Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar í október 2008 þegar efnahagskerfið hrundi. Búsáhaldabyltingin tók af henni ómakið og knúði hana til lausnar. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2010, þegar ljóst var að hún hafði samið af sér. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2011 þegar henni og mikilvægum ákvörðunum hennar hafði verið hafnað í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Þessi tregða síðustu ríkisstjórna til að sjá að umboð til þeirra frá þjóðinni var fallið hefur veikt þingræðið.
Það sem eftir stendur er reiði almennings og tortryggni út í Alþingi og Stjórnarráð Íslendinga. Þingræðið stendur völtum fótum, fyrst og fremst vegna þess að fólkið í landinu á erfitt með að treysta dómgreind og heilindum þingmanna. Við slíkar aðstæður, slíkt áfall, verður til kjörlendi fyrir skapandi og slyngan stjórnmálamann. Ólafur Ragnar Grímsson er slíkur stjórnmálamaður. Og í miðri óreiðunni í ársbyrjun 2010 breytti hann forsetaembættinu, undirstrikaði völd forseta og bjó til mótvægi við þingið. Fyrir vikið voru afdrifarík spor stigin til aukin forsetaræðis á Íslandi.
Íslenska þjóðin er reið og blórabögglana vantar hana ekki. Samfélagsheildir í uppnámi leita hins vegar ekki aðeins útrásar fyrir reiði sína, heldur líka einhvers afls sem þær geta treyst og litið upp til. Ólafi Ragnari Grímssyni hefur með undraverðum hætti tekist að snúa ímynd sinni frá því að vera klappstýra útrásarinnar með „Ain´t seen nothing yet“ myllustein um háls yfir í að verða mörgum Íslendingnum einkavinurinn sem hlustaði á þjóðina og stöðvaði Icesave. Ólafur Ragnar Grímsson er á góðri leið með að búa til sína eigin föðurlandserkitýpu. Erkitýpu sem er eina traust margra hverra sem steyta hnefann framan í hrunið og Icesave.
Og þess vegna held ég að flest verði þeim mótdrægt sem bjóða sig fram á móti sitjandi forseta í þessum kosningum. Öll andspyrna við hann er túlkuð á flokkspólitískan hátt og frambjóðendur til forseta eru útmálaðir sem handbendi stjórnmálaafla. Fólk vantreystir stjórnmálamönnunum og telur allt þeirra vafstur bera vott um spillingu eða dómgreindarleysi. Í staðinn velur það að hylla manninn eina, sem geti myndað mótvægi við valdið við Austurvöll. Og maðurinn eini biður um umboð fjögur ár í viðbót til á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Geirs H. Haarde varð að sitja áfram á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur varð nauðsynlega að sitja áfram eftir að þjóðin hafði hafnað henni í tveimur dramatískum þjóðaratkvæðagreiðslum.
Það sem íslensk þjóð þarf á óvissutímum er ekki öxl forsetans til að halla sér á. Hún þarf að efla þingræðið og aga sína þingmenn. Hún þarf líka að sjá styrkinn í sjálfri sér og gera breytingar á stjórnskipan lýðveldisins sem eflir hið beina lýðræði. Hún þarf að horfa óhrædd inn í óvissuna og krefjast þess að ráðamennirnir skili inn valdi sínu þegar þeir standa ekki undir væntingum. Hún á ekki að horfa til hins eina, heldur til fjöldans, því við erum mörg og við erum sterk þegar við hugsum saman.
Það er valið á milli forsetaræðis og þingræðis, sem ég set spurningamerki við. Hugmyndin um vald eins manns til að túlka hug þjóðar sinnar virðist vera vinsæl hugmynd um þessar mundir, einkum og sér í lagi vegna þess að það þurfti vald þessa eina manns til að stöðva Icesave samningana. Þriðji möguleikinn er sá að fólkið sjálft taki virkari þátt í stjórnun landsins. Ég er fylgjandi auknu beinu lýðræði borgaranna og þar með tel ég þjóðaratkvæðagreiðslur hið ágætasta mál. Ég vil hins vegar ekki eiga það undir dyntum og dómgreind forseta Íslands hvenær slíkar atkvæðagreiðslur eiga við. Ég er fylgjandi lýðræði en mótfallin ræði hins eina. Og þess vegna kýs ég ekki mann á forsetastól sem vill efla forsetaræðið. Allra síst þann sem vill sitja í 20 ár vegna óvissutíma.
Færðu inn athugasemd