Á sólbjörtum kosningadegi er ég eitthvað svo ánægð með lýðveldið Ísland. Ég er stolt af lýðveldinu Íslandi þar sem kjósendum gefst kostur á að kjósa sér forseta á fjögurra ára fresti.
Undanfarna daga hef ég verið alveg að drepast úr leiðindum yfir karpinu í forsetakosningunum, stuðningsyfirlýsingunum á Facebook, rifrildinu í kommentakerfi dagblaðanna. Stundum hef ég verið að láta mig dreyma um það hvað það væri gott að fá bara danska konungsveldið aftur. Margréti drottningu með sígaretturnar, alla huggulegu prinsana og prinsessurnar og verðina með loðhúfurnar og byssustingina. Ekkert vesen, engar kosningar, engar pælingar um eðli forsetaembættisins eða hvernig almennilegur forseti á að vera. Margrét Þórhildur þarf ekkert að vera drottningarleg. Hún er ríkisarfi og með þetta í blóðinu.
En í dag reis lýðveldissinninn stoltur úr rekkju aftur. Ef við byggjum við konungsveldi sætum við uppi með sömu fjölskylduna í hundruð ára hvort sem okkur líkaði hún eða ekki. Það er eitthvað verulega andlýðræðislegt við að fólk sé fætt til valda og metorða, ekki síst þegar þau völd eru greidd úr ríkiskassanum.
Ég held að þessar kosningar marki að tvennu leyti skil í lýðveldissögunni. Í fyrsta lagi tel ég það mikilvægt að í ár komu fram alvöru framboð á móti sitjandi forseta. Og í öðru lagi tel ég að framboðsreynslan sýni að við þurfum að koma okkur upp nýjum kúltúr varðandi forsetakosningar.
ÞAÐ HÆFIR AÐ BJÓÐA SIG FRAM
Í ár hefur í fyrsta sinn þótt við hæfi að bjóða sig fram á móti sitjandi forseta. Mikil breyting hefur orðið á viðhorfi Íslendinga gagnvart framboðum móti sitjandi forseta. Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram á móti Vigdísi árið 1988, Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon árið 2004. Þessi framboð voru lítils megnug, kosningaþátttaka dræm og sitjandi forseti hlaut yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Langflestir Íslendingar töldu að ekki væri við hæfi að hrófla við sitjandi forseta og þessir frumkvöðlar fengu litla þökk fyrir að gera íslensku þjóðinni ónæði og draga hana að óþörfu á kjörstað fyrir milljónir króna.
Nú hins vegar er hiti í kosningunni, og þau sem hafa boðið sig fram hafa haft mikil áhrif á umræðuna. Skoðanakannanir benda til þess að Ólafur hafi þetta með allnokkrum mun, en það er enn ekki víst. Og það verður ekki með 94,6% atkvæða eins og Vigdís fékk 1988. Það verður heldur ekki með 67% atkvæða eins og Ólafur Ragnar fékk 2004. Þetta er alvöru barátta, með umræðum í sjónvarpi og hvaðeina. Ég túlka þessa kosningabaráttu sem upptakt af virkara lýðræði. Það er farið að rugga meira valdastólunum en áður var. Fáir tala um að það hafi ekki verið við hæfi að bjóða sig fram á móti sitjandi forseta að þessu sinni.
Þetta er gott. Til hvers að hafa lýðveldi ef það hæfir ekki að kjósa forseta reglulega?
NÝR KÚLTÚR
Forsetakosningar eru langhlaup og þarfnast langs undirbúnings, jafnvel fjögurra ára. Við þurfum að efla þann anda að forsetakosningar séu sjálfsagðar og eðlilegar og að fólk megi takast á um þær. Kannski að efla með okkur þol fyrir umræðunni. (Kannski að pakka niður óljósum konungsveldisdraumum með engu veseni). Ég held líka að að sumir þeirra frambjóðenda sem hafa mælst með lítið fylgi í skoðanakönnunum séu að leggja mikilvæg lóð á vogarskálarnar sem forsetakosningar framtíðarinnar eiga að byggja á. Ég nefni sem dæmi kröfu Herdísar Þorgeirsdóttur um opið bókhald, sem Hannes og Andrea hafa tekið undir.
Eitt af því sem mér hefur þótt merkilegast við þessa kosningabaráttu er hversu ólíkar skoðanir fólk hefur á því hvað forseti eigi að gera. Sumir frambjóðendanna hafa haft hugmyndir um mjög sterkt forsetavald, sérstaklega Ólafur, Herdís og Andrea. Ég er mótfallin sterku forsetavaldi og tel mikilvægt að efla beint lýðræði, eins og má lesa í grein sem má lesa hér. Ari Trausti og Þóra lögðu hins vegar meira upp úr embættinu sem sameiningartákni og þjóðlegu menningar- og hvatningarafli, en sá málflutningur hefur ekki að öllu leyti náð eyrum þjóðarinnar. Það er eins við séum stödd í einhvers konar undarlegu tímarúmi, þar sem fólkið í landinu er að endurmeta gildi sín og afstöðu í mikilvægum málum. Hún getur ekki horfið aftur til tímans fyrir hrun og veit ekki almennilega hvert hún á að fara heldur. Og þetta rými er bæði áhugavert og óþolandi.
Stundum langar mig aftur til konungsveldis. Stundum velti ég því líka fyrir mér hvort við þurfum yfirhöfuð á þjóðhöfðingja að halda. Alda, félag um lýðræði og sjálfbærni ályktaði um forsetakosningarnar í byrjun júní og komst að þeirri niðurstöðu (sjá hér) að best væri að leggja embættið niður. Mér finnst það áhugaverður vinkill á umræðunni. Annað hvort finnum við þessu forsetaembætti merkingarbæran stað í stjórnkerfinu eða leggjum það niður.
En vegna þessara tveggja þátta, að nú hæfir að bjóða sig fram móti sitjandi forseta og að með slíkum framboðum hlýtur að koma krafa um nýjan kosningakúltúr, þá er ég mjög þakklát frambjóðendunum sex. Það er meira en að segja það að leggja líf og sál í kosningabaráttu. Og þau fimm sem ekki hljóta hnossið mega vera stolt að því að hafa átt þátt í að móta sögulegar kosningar landi og þjóð til heilla.
Lifi kosningarétturinn og svo sætum við niðurstöðu kjósenda hver sem hún verður.
Það eru nefnilega kosningar aftur eftir fjögur ár.
Færðu inn athugasemd