Jafnréttið í forsætisráðuneytinu

Áhugaverður dómur um jafnréttismál féll í síðustu viku, dómur sem valdið hefur miklum pólitískum titringi. Hann má lesa hér. Margir telja að umræður um dóminn endurspegli átök og núning milli ólíkra hreyfinga innan Samfylkingarinnar. Ýmsir telja málið þannig vaxið að forsætisráðherra muni þurfa að segja af sér vegna þess, ekki síst vegna þess að hún krafðist afsagnar ráðherra sem varð uppvís að jafnréttislagabroti árið 2004.

Ég hef meiri áhuga á jafnréttisdómnum sjálfum og því fordæmi sem hvert slíkt mál setur, heldur en að skipa mér í fylkingu með eða á móti forsætisráðherra. Og þess vegna vil ég rýna um stund í dómsorðin. Ég tel tvennt hafi gerst með þessum nýja dómi sem hafi áhrif á jafnréttismál framtíðarinnar.

Í fyrsta lagi hafa breytingar á jafnréttislögunum 2008 haft í för með sér aukið vægi kærunefndar jafnréttismála og þetta vægi er áréttað í dómnum. Í öðru lagi tel ég að í þessu jafnréttismáli hafi í fyrsta sinn verið viðurkenndur miski í jafnréttismáli, en hingað til hefur fjárhagslegur skaði eingöngu verið lagður til grundvallar bóta til þeirra sem verða fyrir jafnréttisbrotum. Hvort tveggja þessara atriða eru mikilvæg fyrir jafnréttismálin í landinu og því gleðst ég yfir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Hér kemur nánari útlistun á þessum tveimur atriðum:

BINDANDI KÆRUNEFNDARÚRSKURÐUR

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála var birtur í mars 2011 og hann má lesa hér. Þar segir í niðurstöðu:

  1. Forsætisráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því er sá sem embættið hlaut var skipaður en ekki kærandi. Þegar menntun kæranda, starfsreynsla og hæfni í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir er borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hlaut verður vart önnur ályktun dregin en að kærandi hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut.
  2. Fyrir liggur að allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins eru karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur.
  3. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið var fram hjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

Sumsé þá kemst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Anna Kristín hafi verið að minnsta kosti jafnhæf og sá sem starfið fékk. Þar með telur kærunefndin að jafnréttislögin verið brotin.

Fram til 2008 voru niðurstöður kærunefndar fyrst og fremst ráðgefandi. Nefndin hefur þannig breyst úr álitsgjafa í úrskurðarnefnd og má lesa marga af úrskurðum (áður álit) kærunefndar jafnréttismála hér. Í 5. grein jafnréttislaga segir:

Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Að kröfu málsaðila getur nefndin kveðið upp úrskurð um frestun réttaráhrifa úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar skal vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki borið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa eða mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.

Þar sem niðurstaða kærunefndar er bindandi skv. 5 gr. , hefði forsætisráðuneytið þurft að bregðast við úrskurðinum fyrir dómstólum ef það var ósammála niðurstöðunni. Greinilegt er á dómsorði Héraðsdóms að forsætisráðuneytið hefur ekki hirt um að reyna að hnekkja niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstólum innan tilskilins tíma og þar með fresta réttaráhrifunum. Ráðuneytið brást ekki við og hefur því samþykkt úrskurðinn með þögninni. Þess vegna kemst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu:  Forsætisráðuneytið braut jafnréttislög við ráðningu skrifstofustjóra.

Það sem er mikilvægt við þessa niðurstöðu er að nú er ekki lengur hægt að dusta niðurstöður kærunefndar jafnréttismála af sér eins og rykkorn af skyrtuermi. Stofnanirnar sem kærðar eru þurfa að taka til varna fyrir dómstólum ef þau fá á sig jafnréttisúrskurð í stað þess að einstaklingurinn þurfi aftur að sækja sinn rétt og byrja frá grunni fyrir dómstólunum. Jafnréttislögin byggja á stjórnsýslulögunum og sá lagabálkur á að standa vörð um rétt einstaklingsins frammi fyrir stóru skrifstofubákni með öllum sínum bjargráðum. Þeir hagsmunir borgaranna eru áréttaðir hér og ég tel það vera gleðilegt. Svo geta menn endalaust þrúkkað um það hvort niðurstaða kærunefndar hafi verið rétt. Það einfaldlega skiptir ekki máli fyrir niðurstöðu dómsins, því að forsætisráðuneytið hirti ekki um að leita réttar síns á réttum stað og réttum tíma. Og það sem kannski er einkennilegast af þessu öllu er að frumvarp um að úrskurðir kærunefndar skyldu vera bindandi var fyrst lagt fram á Alþingi á löggjafarþinginu 2003-4- af núverandi forsætisráðherra (sjá hér).

FYRSTI MISKINN Í JAFNRÉTTISMÁLI?

Nú ætla ég að fullyrða dálítið sem ég held að sé rétt. Viti einhver betur þigg ég fúslega leiðréttingar. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem miski er greiddur í jafnréttismáli. Munurinn á skaðabótum og miskabótum er sá að skaðinn fjallar um beint fjárhagstjón sem af brotinu hlýst, en miskinn um annað tjón en hins fjárhagslega, t.d. vegna álitshnekkis. Skaðabætur eru skattskyldar en miskabætur ekki. Mér vitanlega hafa aldrei verið greiddar miskabætur í jafnréttismáli og tel ég að það geti stafað af því að enn telji fólk það ekki vera neitt sérstaklega alvarlegt að brjóta jafnréttislögin. Ég tel það því vera merkilegt mjög að Önnu Kristínu skuli hafa verið dæmdar miskabætur vegna framkomu ráðuneytisins við hana eftir að úrskurður kærunefndarinnar lá fyrir.

AÐ FÁ EÐA FÁ EKKI SKAÐABÆTUR

Dómurinn sýknaði forsætisráðuneytið af skaðabótakröfu Önnu Kristínar. Ég hef heyrt ýmsa túlka dóminn á þann hátt að ráðuneytið hafi ekki brotið jafnréttislögin og því hafi hún ekki átt rétt á skaðabótum. Það er hins vegar ekki rétt. Eins og áður sagði áréttar dómurinn 5. grein jafnréttislaga þar sem segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttislaga skuli vera bindandi, nema að hinn kærði reyni að hnekkja úrskurðinum fyrir dómstólum. Það var ekki gert og þar með teljast jafnréttislögin brotin. Þá átti dómurinn hins vegar eftir að svara spurningunni um hvort beri að greiða þeim sem varð fyrir jafnréttislagabrotinu skaðabætur, sumsé hvort sannað sé að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða af því að jafnréttislögin voru brotin á henni.

Ef umsækjendur um stöðuna hefðu aðeins verið tveir hefði þótt fullsannað að forsætisráðuneytið ætti að greiða Önnu Kristínu skaðabætur í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að hún væri að minnsta kosti jafnhæf og sá karlmaður sem um stöðuna sótti. En nú voru þau sem komust í úrslit fimm talsins og hinir þrír umsækjendurnir allar konur. Upplýsingar um hæfi þessara þriggja umsækjenda lágu ekki fyrir, þær kærðu ekki og töldust þar með ekki aðilar málsins.

Dómurinn hafnar skaðabótakröfunni. Ekki vegna þess að brot hafi ekki átt sér stað eða að ósannað sé að Anna Kristín hafi verið jafnhæf Arnari.  Skaðabótakröfunni er hafnað  vegna hinna umsækjendanna, sem allar hefðu getað verið jafnhæfar Arnari líka og hugsanlega hæfari Önnu Kristínu.

Anna Kristín Ólafsdóttir segir í viðtali eftir að dómur féll að þessi niðurstaða sé „sigur fyrir konur“. Ég hygg að það sé hárrétt hjá henni. Það er sigur fyrir konur, jafnt sem karla þegar jafnrétti er viðurkennt og virt, þegar reglur sem settar eru um stjórnhætti í landinu ná fram að ganga. Þau lög sem sett hafa verið eiga að gilda alls staðar í þjóðfélaginu og helst og fremst hjá því ráðuneyti sem hefur með jafnréttismál að gera.

3 svör við “Jafnréttið í forsætisráðuneytinu”

  1. Sæll og blessaður Guðni Rúnar og takk fyrir að benda sérstaklega á að það er eftirmáli kærunnar frekar en jafnréttisbrotið sjálft sem leiðir til miskabótanna. Miskabæturnar fást vegna framkomu ráðuneytisins í garð Önnu Kristínar eftir að niðurstaða kærunefndar lá fyrir. Mér þykir það vera mikilvægt atriði, því að konur sem kæra vinnustað sinn fyrir brot á jafnréttislögum verða einatt fyrir einelti vegna þess að þær hafa barist fyrir rétti sínum. Þess vegna tilgreini ég það sérstaklega, því ég tel að það auki vægi jafnréttislaga. Varðandi seinna atriðið sem þú nefnir þá hefði forsætisráðuneytinu verið í lófa lagið að fara með málið fyrir dómstóla og fá úr því skorið hvort úrskurður kærunefndarinnar var á rökum reistur eða ekki. Það var ekki gert og forsætisráðuneytið hlýtur að velta því alvarlega fyrir sér hvort það fái almennilega lögfræðilega ráðgjöf eða ekki. Það er neyðarlegt fyrir ráðuneyti jafnréttismála að klúðra málinu á þennan hátt.

  2. Í öllu sem ég fæ skilið úr þessum dómi þá fékk hún miskabætur vegna upplýsinga sem voru birtar á vef ráðuneytisins en ekki vegna brots á jafnréttislögum.

    Krafa stefnanda um miskabætur byggist á því að henni hafi af hálfu forsætisráðherra verið sýnd lítilsvirðing, hún hafi verið niðurlægð á opinberum vettvangi og vegið hafi verið að starfsheiðri hennar, reynslu og hæfni, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu, sbr. 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sú staðreynd að stefnandi hafi ekki fengið embætti skrifstofustjóra þykir ein og sér ekki valda því að hún eigi rétt til miskabóta. Hins vegar þykir yfirlýsing sú sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda, þar sem því er meðal annars hafnað að hún hafi verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut og sérstaklega bent á að stefnandi hafi verið fimmti umsækjandi í hæfnismati, ásamt skipun rýnihóps til þess að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í kjölfar úrskurðarins, þess eðlis að bitnað gæti á orðspori stefnanda. Í ljósi þessa verður talið að uppfyllt séu skilyrði 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 til þess að dæma stefnanda miskabætur. Stefnandi hefur krafist 500.000 króna í miskabætur. Þykir sú krafa hæfileg og verður á hana fallist. Bera bæturnar dráttarvexti frá 26. júní 2011, en þá var liðinn mánuður frá bréfi lögmanns stefnanda til stefnda með boði um að ljúka málinu með greiðslu stefnda á fébótum og miskabótum.

    Það er víst ekki hægt að bolda hér þannig að ég mun taka út veigamestu setninguna;

    „Sú staðreynd að stefnandi hafi ekki fengið embætti skrifstofustjóra þykir ein og sér ekki valda því að hún eigi rétt til miskabóta. Hins vegar þykir yfirlýsing sú sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda“

    Mér finnst vert að koma ákveðnu til skila á þessum punkti ég er fylgjandi störfum kærunefndar jafnréttismála. En mér finnst málshöfðunin sjálf vera meira en lítið sérstök, í ljósi þess að málshöðandi fékk allar upplýsingar í hendurnar um hvernig valinu var háttað. Grundvöllurinn fyrir kærunni er sú að hana beri að teljast hæfasta á grundvelli þess að leitað var til umsaganar aðila hennar og að hún hafið verið borin sérstaklega saman við þann sem síðar fékk starfið er veikt. Afhverju er það veikt jú vegna þessa að sá sem síðar hlaut starfið var ekki aðeins borin saman við hana heldur einnig þá sem var í öðru sæti í mati ráðenda og það að hafa samband við umsagnaraðila really? Er það virkilega make or brake? Það hefur oft verið haft samband við umsagnaraðila mína og ég hef í sumum þeirra tilvika ekki verið nálagt því að vera valinn, svo ég viðurkenni það alveg fúslega.

    Þetta eru auðvitað allt mjög hæfir einstaklingar, enda þrjú niðurskurðarþrep sem notuð voru til að finna hæfasta einstaklinginn. Ég vil aftur árétta að ég er mjög ánægður með tilvist kærunefndarinnar þó svo að ég sé ekki sammála niðurstöðum hennar.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: