Río+20

Río +20

Umhverfismál eru mál allra og tengjast ýmsum öðrum málaflokkum eins og efnahagsmálum, þróunarmálum og jafnréttismálum. Kirkjustarf tengist umhverfismálum í vaxandi mæli víða um lönd og sú þróun á eftir að halda áfram. Trúað fólk er í vaxandi mæli farið að tengja náungakærleik, heildræna hugsun og umhverfisvernd sem vettvang, þjónustu og samhengi trúarinnar á hið skapandi, frelsandi og helgandi afl sem við köllum Guð.

Ef kristnir menn taka trúarlærdómana um forsjón Guðs og ráðsmennskuhlutverk manneskjunnar alvarlega hlýtur það að vera trúarlegt viðfangsefni að fylgjast með skrefunum sem stigið er í átt til sjálfbærrar þróunar vegna vistkreppunnar í heiminum og tengsla þeirrar kreppu við fátækt og misrétti barna jarðar. Sem betur fer eru þau skref mörg og áhugaverð enda vandinn stór sem við er að etja. Sameinuðu þjóðirnar hafa um fjörutíu ára skeið tekið forystu í að því að kalla þjóðir heims til samræðu og skuldbindinga vegna vistkreppunnar í heiminum. Fyrsta ráðstefna SÞ var haldin í Stokkhólmi árið 1972 um „Umhverfi mannsins“ og er vel frá ráðstefnunni sagt í bók Hjörleifs Guttormssonar „Vistkreppa eða náttúruvernd“ frá árinu 1974, bls. 61-75. Hugmyndin um sjálfbæra þróun þar sem fléttaðir væru saman efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir ruddi sér til rúms með hinni svokölluðu Brundlandtskýrslu 1987. Tuttugu árum eftir Stokkhólmsráðstefnuna var ákveðið að halda aðra ráðstefnu þar sem áhersla yrði lögð á sjálfbæra þróun.

Það er hins vegar með heimsráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Río de Janeiro 1992 sem þessar hugmyndir verða að alþjóðlegum skuldbindingum þjóða á milli. Þessar alþjóðlegu skuldbindingar eru einatt kenndar við Río og liggja til grundvallar alþjóðlegu samstarfi á sviði sjálfbærrar þróunar. Vönduð skýrsla var unnin um þessa merku ráðstefnu á vegum sendinefndar Umhverfisráðuneytisins og má nálgast hana hér. Meðal þess sem ávannst á Ríoráðstefnunni voru tveir alþjóðlegir samningar á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála, framkvæmdaáætlunin Staðardagskrá 21 og hin svokallaða Ríoyfirlýsing í 27 liðum. Fundurinn var einnig nefndur Leiðtogafundur (Earth Summit) og áhersla lögð á að þar kæmu saman þjóðarleiðtogar til að ráðgast saman um framtíð jarðar, auk fulltrúa fyrirtækja og félagasamtaka.

Þegar tuttugu ár voru liðin frá Río og fjörutíu ár frá Stokkhólmsráðstefnunni kölluðu Sameinuðu þjóðirnar enn á ný til leiðtogafundar. Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um sameiginlega þróun var haldin í Río de Janeiró 20.-22. júní 2012 og er ráðstefnan í daglegu tali kölluð Río +20 til að undirstrika þessa merku sjálfbærniarfleifð. Í ljósi sögunnar, samninganna og hinna stóru verkefna sem við blasa voru miklar væntingar bundnar við Río+20.

Nú þegar ráðstefnunni er lokið eru ekki allir á eitt sáttir um það hvort afraksturinn af Ríoráðstefnunni hafi verið mikill eða lítill. „Framtíðin sem við viljum“ er 53 blaðsíðna skýrsla sem samþykkt var á ráðstefnunni. Hana má nálgast hér á ensku.  Í framtíðarskýrslunni er fjallað um grænt hagkerfi og sjálfbærnimarkmið sett sem eiga að koma í stað hinna svokölluðu þúsaldarmarkmiða frá og með árinu 2015 . Það er vissulega mikilvægt að þjóðir heimsins setji sér sameiginleg, mælanleg og tímasett markmið um fæðuöryggi, orkumál og aðgang að vatni. Sagt er frá ráðstefnunni á vef Umhverfisráðuneytisins (sjá hér) og því lýst að Ísland hafi sett á oddinn málefni hafsins, sjálfbær landnýtingu, endurnýjanlega orku og jafnréttismál. Ráðuneytið telur að mikilvægir áfangar hafi náðst við verndun hafsins en að hægt gangi að sannfæra þjóðir heims um mikilvægi þess að samþætta jafnréttismál og umhverfismál, t.d. með því að fjalla um tengslin á milli offjölgunar, fátæktar og valdaleysi kvenna yfir eigin líkömum og getnaðarvörnum.

Stjórnarfundur Lútherska heimssambandsins (LWF) haldinn í Bógota í Brasilíu í síðustu viku sendi frá sér harðorða yfirlýsingu vegna skýrslunnar „Framtíðin sem við viljum“ (sjá hér). LWF eru samtök 145 lútherskra kirkna í heiminum sem 70,5 milljónir manna tilheyra. LWF er mjög virkt á sviði ýmissar réttindamála, t.d. varðandi jafnrétti, umhverfi og fátækt í heiminum. Í yfirlýsingunni koma fram áhyggjur stjórnarmanna af því að skýrslan hafi ekki hagsmuni almennings í fyrirrúmi, heldur hagsmuni alþjóðlegra fyrirtækja og efnahagskerfa. Telur LWF að mikið vanti á að skýrslan sé nothæf til þess að draga hratt og örugglega úr fátækt og efla heilsu þeirra sem minnst eiga á jarðarkringlunni.

Ég vil hvetja þess að fólk á vettvangi kirkjunnar komi saman og kynni sér Framtíðarskýrsluna. Alþjóðlegar skýrslur eru sannkallað torf að lesa, en það hjálpar mikið að taka fyrir einstaka hluta og ræða þá. Þessar skýrslur hafa að gera með framtíð og hag milljóna manna og milljarða lífvera. Margir telja að stríð 21. aldarinnar eigi að mestu eftir að snúast um auðlindir eins og vatn, gas og olíu. Alþjóðlegir samningar um nýtingu hafs og lands, fátækt, landrof, auðlindir, loftslag og jafnrétti eru því ekki aðeins stafkrókar á blaði, heldur þættir í þeim siðferðilegu skorðum sem þjóðir heimsins setja sér á nýrri öld.

Meistarinn frá Nasaret hvatti menn forðum daga til að líta til lilja vallarins og fugla himinsins. Boðskapur hans er arfur hinnar spámannlegu hefðar sem áréttaði miskunnsemi og réttlæti, arfur Jobsbókar sem bað fólk að láta skepnur og dýr merkurinnar kenna sér og læra af fiskum hafsins.

Þess vegna ættu ályktanir Río plús og framgangur sjálfbærrar þróunar að vera kristnu fólki hjartans mál og bænarefni.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: